Hubble lítur inn í stjörnuský

16. apríl 2012

  • NGC 2040, LH 88, Stjörnuþyrping, gasþoka, sverðfiskurinn, stóra magellanskýið
    NGC 2040 (eða LH 88) er gisin stjörnuþyrping í Stóra Magellanskýinu sem liggur í um 150.000 ljósára fjarlægð.

Þessar björtu stjörnur sem skína í gegnum það sem virðist vera þoka í himingeimnum tilheyra ungum hópi stjarna í einu stærsta stjörnumyndunarsvæði Stóra Magellanskýsins sem er dvergvetrarbraut á sporbraut um vetrarbrautina okkar. Myndina tók Hubblessjónauki NASA og ESA með Wide Field Planetary Camera 2.

Stjörnuhópurinn er þekktur sem NGC 2040 eða LH 88. Hann er í raun gisin stjörnuþyrping sem inniheldur stjörnur af sama uppruna sem reika saman um geiminn. Til eru þrjár gerðir stjörnuhópa á borð við þennan sem skilgreindir eru eftir eiginleikum stjarnanna. NGC 2040 er OB hópur, þ.e. hópur sem inniheldur 10-100 stjörnur af gerð O og B, sem eru massamiklar stjörnur sem lifa stuttu en ævintýralegu lífi. Talið er að flestar stjörnur vetrarbrautarinnar hafi fæðst í OB stjörnuhópum.

Nokkrir samskonar hópar eru í Stóra Magellanskýinu, þar á meðal einn sem hefur áður prýtt mynd vikunnar. Líkt og hinir samanstendur NGC 2040 af nokkrum massamiklum stjörnum í stórri þoku úr jónuðu vetnisgasi og liggur í risagasskel sem nefnist LMC 4 — fæðingarsvæði margra stjarna í Stóra Magellanskýinu.

Yfir nokkurra milljóna ára tímabil geta þúsundir stjarna myndast í slíkri gasskel en þær eru stærstu stjörnuhóparnir innan vetrarbrauta. Skeljarnar sjálfar eru taldar myndast vegna sterkra stjörnuvinda og fyrir tilverknað sprengistjarna sem senda frá sér gas og ryk í gríðarstórri sprengingu sem, í raun, er kveikjan að frekari stjörnumyndun.

Stóra Magellanskýið er þriðja nálægasta vetrarbrautin við okkar eigin. Það er í um 160.000 ljósára fjarlægð og er um 100 sinnum smærri en vetrarbrautin okkar.

Þessi mynd spannar um 1,8 bogamínútu af himninum og sýnir útfjólublátt, sýnilegt og innrautt ljós. Eedresha Sturdivant, þátttakandi í Hubble's Hidden Treasures myndasamkeppninni, sendi hana inn í keppnina. Í Hidden Treasures samkeppninni býðst áhugafólki að leita að fallegum myndum í myndasafni Hubbles sem enginn hefur séð áður.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 2040
  • Tegund: Stjörnuþyrping
  • Stjörnumerki: Sverðfiskurinn
  • Fjarlægð: 150.000 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli