Messier 62

Kúluþyrping í Naðurvalda

  • Messier 62, kúluþyrping
    Kúluþyrpingin Messier 62 í Naðurvalda. Mynd: NASA/ESA
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
17klst 01mín  12.60s
Stjörnubreidd:
-30° 06′ 44,5"
Fjarlægð:
22.500 ljósár
Sýndarbirtustig:
+7,39
Stjörnumerki: Naðurvaldi
Önnur skráarnöfn:
NGC 6266

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna 7. júní árið 1771. Hann skrásetti hana ekki fyrr en 4. júní 1779 og er hún þess vegna númer 62 en ekki 49 eða 50 eins og hún hefði annars orðið. Líkt og oft áður greindi enski stjörnufræðingurinn William Herschel fyrstur manna stjörnur í þyrpingunni og hafði á orði að hún væri lítil útgáfa af Messier 3, kúluþyrpingunni fögru í Veiðihundunum.

Messier 62 er um 100 ljósár í þvermál. Í þyrpingunni er vitað um 89 breytistjörnur, margar RR hörpustjörnur.

Messier 62 sést því miður ekki frá Íslandi sökum þess hve sunnarlega hún er á himinhvelfingunni. Sú staðreynd ætti þó ekki að aftra víðförulu íslensku stjörnuáhugafólki að skyggnast eftir henni á ferðalögum sínum um suðrænar slóðir. Til að finna þyrpinguna er best að styðjast við gott stjörnukort (sjá stjörnukort af Naðurvalda) og horfa 5 gráður norðaustur af Epsilon Scorpii sem er appelsínugulleit stjarna af 2. birtustigi í hala Sporðdrekans.

Með stjörnusjónauka við meðalstækkun sést að lögun Messier 62 er fremur óregluleg og minnist Herschel á það. Á ljósmyndum og í gegnum góðan stjörnusjónauka sést að vesturhelmingurinn er mun bjartari en austurhelmingurinn. Afmyndunina má rekja til nálægðarinnar við miðju Vetrarbrautarinnar en fjarlægðin hennar frá miðjunni er aðeins 6.100 ljósár. Þyngdartog Vetrarbrautarinnar hefur með öðrum orðum aflagað þyrpinguna.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 62, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_62

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 62. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-62 (sótt: DAGSETNING).