VISTA (sjónauki)

Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy

  • VISTA, Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy, kortlagningarsjónauki
    VISTA er 4,1 metra kortlagningarsjónauki ESO fyrir innrautt ljós. Mynd: Steven Beard/UKATC/ESO
Helstu upplýsingar
Samtök: European Southern Observatory, VISTA samtökin
Staðsetning:
Cerro Paranal í Chile
Hæð:
2.518 m.y.s.
Tegund:
Spegilsjónauki
Bylgjulengd:
0,85-2,3 μm (innrautt)
Þvermál safnspegils:
4,1 metrar

VISTA (Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy) er 4,1 metra breiður innrauður kortlagningarsjónauki í Paranal stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í norður Chile. Sjónaukinn er á næsta fjallstindi við Very Large Telescope (VLT) ESO og býr þess vegna við sömu framúrskarandi aðstæður til stjörnuathugana. VISTA er stærsti innrauði kortlagningarsjónauki heims. Enginn spegill í sama stærðarflokki og spegill VISTA er jafn mikið sveigður — frávik hans frá fullkomni yfirborði er innan við nokkrir þúsundustu hlutar af þykkt mannshárs — og er smíði hans því mikið afrek. Á honum er aðeins ein 67 megapixla myndavél.[1][2]

VISTA var þróaður og smíðaður af samtökum átján háskóla í Bretlandi undir forystu Queen Mary, University of London og er hluti af framlagi Breta við inngönguna í ESO en Breska vísinda- og tækniráðið (Science and Technology Council's UK Astronomy Technology Center; STFC, UK ATC) greiðir fyrir þátttöku þeirra. ESO veitti sjónaukanum formlega viðtöku við athöfn í höfuðstöðvum sínum í Garching í Þýskalandi sem fulltrúar Queen Mary, University of London og STFC sóttu þann 10. desember 2009. Sjónaukinn verður nú starfræktur af ESO.[1][2]

VIRCAM

Á VISTA er þriggja tonna 67 megapixla myndavél með 16 innrauðum ljósnemum. Þessi myndavél spannar stærsta bylgjulengdarsvið allra nær-innrauðra myndavéla hingað til. VISTA rannsakar alheiminn í lengri bylgjulengdum en mannsaugað greinir. Það gerir sjónaukanum kleift að skyggnast inn í köld rykský sem hleypa sýnilegu ljósi ekki í gegn og sjá ljós sem útþensla alheimsins hefur teygt yfir á lengri bylgjulengdir. Til að koma í veg fyrir að myndavélin drukkni í þeirri daufu innrauðu geislun sem berst utan úr geimnum er hún kæld niður í -200 gráður á Celsíus og lokuð á bak við stærsta gler sem er gegnsætt í innrauðu ljósi sem smíðað hefur verið. Hönnun og smíði myndavélarinnar var í höndum samtaka sem í eru meðal annars Rutherford Appelton Laboratory, UK ATC og University of Durham í Bretlandi.[2]

Kortlagning himins

VISTA er stór sjónauki með vítt sjónsvið og getur þess vegna greint daufar ljóstýrur á stóru svæði á himninum hratt. Hver ljósmynd VISTA er tíu sinnum breiðari en sem nemur fullu tungli á himninum en sjónaukinn getur fundið og kortlagt fyrirbæri á öllum suðurhimninum með 40 sinnum meiri nákvæmni en áður hefur verið gert, eins og t.d. Two Micron All-Sky Survey. Þetta mikla stökk í getu er sambærilegt við stökkið frá mannsauganu upp í fyrsta sjónauka Galíleós og mun því leiða í ljós fjölmörg ný fyrirbæri og ítarlegt safn sjaldgæfra og forvitnilegra fyrirbæra á suðurhimninum.[1][2]

Tími VISTA fer að mestu í kerfisbundna kortlagningu á suðurhimninum. Sjónaukinn er að hefja sex stórar kortlagningar sem allar hafa ólík markmið og verður fyrstu fimm starfsárum sjónaukans varið í þær. Ein þeirra þekur allan suðurhimininn en aðrar verða helgaðar smærri svæðum sem könnuð verða í meiri smáatriðum. Kortlagningar VISTA munu efla skilning okkar á eðli, dreifingu og uppruna stjarna og vetrarbrauta, kortleggja uppbyggingu Vetrarbrautarinnar og Magellanskýjanna, nágranna okkar, í þrívídd og hjálpa til við að skilja tengslin milli uppbyggingar alheims, hulduefnis og hulduorku.[1][2]

Við kortlagningarnar verða til gríðarlega mikil gögn — venjulega 300 gígabær á hverri nóttu eða yfir 100 terabæt á ári — sem verða flutt í gagnaveitu ESO en breytt í myndir og skrár í gagnasöfnum Cambridgeháskóla og Edinborgarháskóla í Bretlandi. Öll gögn verða gerð opinber og aðgengileg stjörnufræðingum um allan heim.[1][2]

Fréttir af VISTA

Myndasafn

Mynd VISTA af Sverðþokunni í Óríon

Mynd VISTA af Sverðþokunni í Óríon

Víðmynd VISTA af Sverðþokunni í Óríon í heild sinni. Innrauð myndavél VISTA gerir okkur kleift að skyggnast djúpt inn í ryksvæði þokunnar sem venjulega eru hulin þar sem nýjar stjörnur eru að myndast. 

Sjá nánar eso1006

Mynd: ESO/J. Emerson/VISTA. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit

Innrauð mynd VISTA af Kattarloppunni (NGC 6334)

Innrauð mynd VISTA af Kattarloppunni (NGC 6334)

Kattarloppuþokan (NGC 6334) er í um 5.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum, skammt frá hjarta Vetrarbrautarinnar. Þokan nær yfir 50 ljósára breitt svæði og í sýnilegu ljósi sést hvernig heitar, ungar stjörnur lýsa upp gas og ryk svo sérkennileg rauðleit ský myndast sem minna um margt á loppu kattar.

Sjá nánar eso1017

Mynd: ESO/J. Emerson/VISTA. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit

 Mynd VISTA af Tarantúluþokunni  

Mynd VISTA af Tarantúluþokunni

Mynd VISTA sem sýnir 30 Doradus stjörnumyndunarsvæðið eða Tarantúluþokuna í Stóra Magellanskýinu. Í hjarta þokunnar er stjörnuþyrpingin R 136 þar sem massamestu stjörnur sem vitað er um leynast.

Sjá nánar eso1033

Mynd: ESO/M.-R. Cioni/VISTA Magellanic Cloud survey. Acknowledgment: Cambridge Astronomical Survey Unit

Tilvísanir

  1. Kortlagningarsjónaukar ESO
  2. VISTA: Nýr kortlagningarsjónauki tekinn í notkun

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). VISTA (sjónauki). Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/vista sótt (DAGSETNING)