Yerkes-stjörnustöðin

  • Yerkes, linsusjónauki
    Linsusjónaukinn í Yerkes-stjörnustöðinni

Yfirlit

Saga

Stjörnustöðin í Yerkes á George Ellery Hale tilvist sína að þakka. Hale hafði ungur að árum heillast af stjörnufræði og var sérstaklega áhugasamur um rannsóknir á sólinni og þróaði nýja tækni til að ljósmynda hana. Eftir útskrift frá Tæknistofnunni í Massachusetts (MIT) bauðst honum rannsóknarstaða hjá Chicagoháskóla.

Árið 1890 komst Hale að því að Háskólinn í Suður Kaliforníu hafði hætt við að smíða stærsta stjörnusjónauka heims vegna skorts á fjármagni. Linsurnar höfðu þegar verið smíðaðar og sannfærði Hale Chicagoháskóla um að taka við verkefninu.

Síðla árs 1892 sannfærði Hale iðnjöfurinn Charles Yerkes um að fjármagna smíði sjónaukans og stjörnustöðvarinnar. Yerkes var frá Chicago og hafði efnast á fjármögnun og smíði sporvagna í borginni. Hann hafði mjög slæmt orð á sér fyrir að vera óheiðarlegur og miskunarlaus í viðskiptum, en heillaðist af þeirri hugmynd Hales að festa nafn sitt við frægasta stjörnusjónauka heims. Yerkes vonaðist til þess að endurheimta orðstír sinn með því að leggja fé í verkefnið og sagðist mundu hvergi til spara, en krafðist þess jafnframt að sjónaukinn yrði sá stærsti í heiminum.

Yerkes vildi að sjónaukinn yrði reistur í miðri Chicago borg svo allir fengju að sjá þetta stærsta vísindatæki heims sem bar nafn hans. Hale var ekki á þeim buxunum og renndi hýru auga til lítillar hæðar nærri Genfarvatni í Williams Bay í Wisconsin. Þessi staður er í meira en 100 km fjarlægð frá Chicago og ekki í nema 334 metra hæð yfir sjávarmáli, en þar gat kuldinn orðið mikill og himinninn nkkuð góður til rannsókna í stjarnvísindum. Staðurinn varð fyrir valinu og bygging stjörnustöðvarinnar hófst árið 1895.

Hale réð sjónaukasmiðinn heimskunna Alvan Clark til að pússa linsusjónaukann. Safnlinsan er rúmlega 1 metri í þvermál (40 tommur) en sjónpípan heilir 18 metrar. Hann vegur 6 tonn en stæðið sem hann hvílir á er heil 50 tonn. Þrátt fyrir það er hann svo nákvæmlega jafnvægisstilltur að hægt er að hreyfa hann úr stað með því að ýta laust á hann með höndunum.

Gólfið í stjörnustöðinni var hannað þannig að það færðist upp og niður samfara staðsetningu sjónaukans sjálfs, svo athugandinn gæti horft í gegnum augnglerið á honum, burt séð frá þeirri stöðu sem sjónaukinn var í. Rétt eftir að sjónaukinn var vígður hrundi 20 tonna gólfið fyrirvaralaust. Sem betur fer var enginn inni í hvelfingunni þegar það gerðist. Gólfið var endurgert og styrkt og vegur nú 37,5 tonn.

Þegar smíði 1 metra Yerkessjónaukans lauk höfðu hönnuðir linsusjónauka komist á endastöð. Linsurnar höfðu náð sínum stærðarmörkum. Stærri og þykkari linsa myndi bæði síga undan eigin þunga og draga í sig of miklum hluta þess ljóss sem hún safnaði. Tæknin leyfði einfaldlega ekki stærri linsusjónauka. Þess í stað sneru sjónaukahönnuðir sér að speglum.

Stjörnustöðin var vígð árið 1897. William Rainey Harper, rektor Chicagoháskóla, leit fyrstur í gegnum risasjónaukann á Júpíter með 400 stækkun. Af einhverjum ástæðum var Charles Yerkes ekki viðstaddur vígsluna. Hvað um það, sjónaukinn þótti sérstaklega vel heppnaður.

Tilkoma sjónaukans stuðlaði að miklum framförum í rannsóknum í stjarnvísindum. Gerðar voru ljós-, fjarlægða- og litrófsmælingar á stjörnum Vetrarbrautarinnar. Í sólkerfinu okkar uppgötvaði Gerard Kuiper að Títan, tungl Satúrnusar, hafði lofthjúp.

Við stjörnustöðina störfuðu margir af þekktustu stjarnvísindamönnum heims, t.d. Edwin Hubble sem vann að rannsóknum fyrir doktorsverkefni sitt þar. Í Yerkes stjörnustöðinni stofnuðu Hale og stjörnufræðingurinn James Keeler tímaritið Astrophysical Journal árið 1895. Tímaritið var og er enn eitt hið mikilvægasta sem gefið er út um stjarneðlisfræði.

Þrátt fyrir allt var Hale ekki fullkomlega sáttur við sjónaukann og hafði augun á enn stærri rannsóknarstöð. Hann ferðaðist til Pasadena í Kaliforníu með það í huga að setja upp stjörnustöð á Wilsonfjalli. Þar reisti Hale tveggja og hálfs metra Hooker sjónaukann sem gjörbylti heimsmynd okkar.

Tenglar

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Yerkes-stjörnustöðin. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/yerkes-stjornustodin (sótt: DAGSETNING).