CHEOPS finnur björtustu fjarreikistjörnuna til þessa

Sævar Helgi Bragason 10. júl. 2023 Fréttir

Silikat-títanský í ofurheitum „Neptúnusi“ spegla um 80% sólarljóssins

  • Teikning af fjarreikistjörnunni LTT9779 b

Mælingar CHEOPS-gervitungls ESA sýna að ofurheit fjarreikistjarna, sem gengur um móðurstjörnuna sína innan við einum degi, er umvafin málmskýjum með hátt endurvarp sem gerir hana að björtustu fjarreikistjörnu sem fundist hefur.

Reikistjarnan kallast LTT9779 b og sýna mælingar CHEOPS gervitungls ESA að hún endurvarpar um 80% af sólarljósinu sem fellur á hana. Til samanburðar endurvarpar Jörðin um 30% sólarljóssins út í geiminn en brennisteinsskýjahula Venusar um 75% sólarljóssins.

LTT9779 b fannst í mælingum TESS gervitungls NASA árið 2020. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að um hún hringsólar um móðurstjörnuna sína á 19 klukkustundum. Hún er á stærð við Neptúnus eða tæplega fimm sinnum stærri en Jörðin.

Á daghlið reikistjörnunnar er um 2000°C hiti. Skýin eru að mestu leyti úr silikötum, sama steinefni og sandur og gler eru úr, í bland við málma eins og títan sem skýrir hátt endurvarp. Títanið fellur sennilega eins og úrkoma úr þungum skýjunum.

Mælingar CHEOPS voru gerðar þegar reikistjarnan gekk á bak við móðurstjörnuna sína. Þegar reikistjarnan var við hlið stjörnunnar jókst birtan frá tvíeykinu sem gaf upplýsingar um hversu miklu ljósi sú fyrrnefnda endurvarpaði.

Í náinni framtíð er líklegt að Hubble og Webb geimsjónaukarnir beini sjónum sínum að þessari furðulegu fjarreikistjörnu til að rannsaka andrúmsloftið betur.

CHEOPS er fyrsti sjónaukinn í þríeyki sjónauka ESA sem eru helgaðir rannsóknum á fjarreikistjörnum. Árið 2026 hyggst ESA senda á loft Plató sem á að rannasaka fjarreikistjörnur á stærð við Jörðina sem gætu auk þess verið lífvænlegar. Árið 2029 bætist svo Ariel í flotann og mun sérhæfa sig í að rannsaka andrúmsloft fjarreikistjarna.