Evrópa tekur byltingarkennt veðurtungl í notkun

Sævar Helgi Bragason 10. maí 2023 Fréttir

Fyrsta myndin birt frá Meteosat-12 sístöðutunglinu

  • Meteosat-12-jordin

Hér á Stjörnufræðivefnum er ekki nógu oft fjallað um okkar eigin reikistjörnu. Bætum hér úr, því fyrstu myndirnar frá nýju, byltingarkenndu evrópsku veðurtungli, MTG-I1 eða Meteosat-12, hafa verið birtar.

Meteosat-12 veðurtungli ESA og EUMETSAT var skotið á loft 13. desember á síðasta ári. Gervitunglið er sístöðutungl sem þýðir að það snýst jafnhratt um Jörðina og Jörðin um sjálfa sig eða einu sinni um plánetuna okkar á sólarhring. Fyrir vikið situr tunglið stöðugt yfir sama punkti í 36.000 km hæð yfir miðbaug Jarðar.

Ups_FB_cover

Frá þeim sjónarhóli starir Meteosat-12 á Evrópu, Miðausturlönd og Afríku og sendir mynd af þessum hluta Jarðar á tíu mínútna fresti. Er það tvöfalt örar en áður. Auk þess fylgist tunglið með fleiri bylgjulengdum ljóss en eldri kynslóðir eða 16 í stað 12. Myndirnar eru því mjög nærri því sem mannsaugað mundi greina.

Á fyrstu myndinni, sem tekin var með Flexible Combined Imager myndavél gervitunglsins, sést veðrið 18. mars 2023. Efst glittir í Ísland sem þá var að hluta til heiðskírt sunnanlands. Öllu skýjaðara er í Skandinavíu og vestur-Evrópu en bjart á Ítalíu og Balkansskaga. Hægt er að þysja inn á myndina hér.

Meteosat-jordin-zoom

Meteosat-12 er stórt framfaraskref í veðurathugunum og boðar raunar byltingu. „Þriðja kynslóð sístöðutungla EUMETSAT/ESA er á marga vegu byltingarkennd fyrir veðurfræði og veðurspár,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, deildarstjóri veðurspár og náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands.

Veðurtungl eru gríðarlega mikilvæg enda hjálpa nákvæmari veðurspár okkur að koma í veg fyrir bæði manntjón og fjárhagslegt tjón af völdum veðuratburða. Greiningar hafa sýnt að bættar veðurspár geta sparað samfélaginu tugi milljarða evra á ári.

„MTG-I1 er fyrsta sístöðu tunglið með tæki sem taka lóðrétt snið í gegnum andrúmsloftið, en slík gögn bæta veðurspár bæði til skamms og langs tíma mjög mikið og hafa hingað til að mestu leyti fengist úr veðurbelgjum sem sleppt er frá jörðu,“ segir Elín.

Á næsta ári verður öðru veðurtungli skotið á loft, MTG-S. Í því eru innrauðir háloftamælar (infrared sounder) og litrófsriti fyrir útfjólublátt, sýnilegt og nær-innrautt ljós. Þetta veðurtungl á að gera hitastigs- og rakamælingar þvert í gegnum andrúmsloftið.

Tunglið markar þáttaskil því einnig fást einstakar upplýsingar um styrk ósons í andrúmsloftinu, magn kolmónoxíðs og dreifingu gosösku. Árið 2026 verður svo enn öðru veðurtungli skotið á loft sem tekur myndir á tveggja og hálfs mínútna fresti.

„Myndirnar sem tunglin taka eru nákvæmari en áður hefur þekkst, og slíkt veitir veðurfræðingum betri upplýsingar til að fylgjast með myndun og þróun veðra sem valdið geta miklu tjóni, s.s. þrumuveðrum sem valdið geta bæði eldingastormum og skyndiflóðum, rakamettun andrúmslofts þar sem hætta er á myndun fellibylja og einnig upplýsingar um rakamettun jarðvegs sem getur aukið upplýsingar um líkur á gróðureldum og skógareldum. Þá eru allar upplýsingar sem tunglin safna nýttar í almennar veðurspár, en gæði þeirra aukast í takt við gæði upplýsinganna sem þeim eru gefin sem upphafsástand lofthjúpsins,“ bætir Elín við.

Það eru því óneitanlega spennandi tímar framundan í veðurfræði og veitir ekki af nýjum og betri mælitkjum á tímum loftslagsbreytinga af mannavöldum og auknum veðuröfgum sem þeim fylgja. Við sem horfum til himins og skoðum veðursprár daglega fögnum að sjálfsögðu enn betri upplýsingum.