Hvernig eru Úranus og Neptúnus raunverulega á litinn?

Sævar Helgi Bragason 06. jan. 2024 Fréttir

Nýjar niðurstöður sýna að Úranus og Neptúnus eru báðir grænbláir. Þá tókst að útskýra hvers vegna Úranus er grænni við sólstöður en á jafndægrum

  • Litaleiðréttar myndir af Úranus og Neptúnusi

Nýjar rannsóknir vísindamanna við Oxford-háskóla í Bretlandi leiða í ljós að ísrisarnir Úranus og Neptúnus eru keimlíkari að lit en áður hefur verið talið. Báðir hnettir eru álíka grænbláir en Neptúnus ögn bláleitari. Þá tókst líka að útskýra hvers vegna Úranus er grænni við sólstöður en á jafndægrum.

Hamfarir - Vísindalæsi

Við höfum lengi vitað að flestar þær ljósmyndir sem teknar hafa verið af Úranusi og Neptúnusi sýna þá ekki í sínum eðlilegu eða náttúrulegu litum, eins og mannsaugað greindi þá.

Þennan misskilning má rekja til myndanna sem Voyager 2 tók af ísrisunum þegar geimfarið flaug framhjá þeim árin 1986 og 1989. 

Myndir Voyager 2 voru ekki litaleiðréttar þannig að þær sýndu ísrisana í sínu náttúrulega ljósi. Á það sér í lagi við um myndirnar af Neptúnusi sem gerðar voru of bláar. til að draga betur fram ský, skýjabelti og vinda í andrúmsloftinu. Myndirnar af Úranusi voru nær raunveruleikanum.

Stjörnufræðingar við Oxford-háskóla, undir forystu Patrick Irwin, unnu nýverið að því að finna út náttúrulegan lit reikistjarna og sjá blæbrigðamuninn. 

Til þess voru notuð litrófsgögn frá Hubble geimsjónaukanum og Very Large Telescope ESO í Chile. Litrófsgögnin gefa upplýsingar um raunverulega liti Úranusar og Neptúnusar.

Stjörnufræðingarnir notuðu síðan þessi gögn til að endurvinna litmyndir frá Voyager 2 og myndir frá Hubble geimsjónaukanum.

Úrvinnslan leiddi í ljós að báðir hnettir eru álika grænbláir.

Neptúnus hefur lengst af verið sýndur himinblár en Úranus fölblágrænn. Neptúnus er örlítið blárri vegna þunns misturslags í andrúmsloftinu, sem Úranus hefur ekki, og dreifir bláa litnum í sólarljósinu.

Litaleiðréttar myndir af Úranus og Neptúnusi

Mynd: Patrick Irwin, University of Oxford

Rannsóknin varpar líka ljósi á þá ráðgátu hvers vegna litur Úranusar breytist á 84 ára löngu ferðalagi hans um sólina.

Gögn sýna að Úranus er grænni við sólstöður á sumrin og veturna (þegar pólarnir snúa að sólinni) en á jafndægrum. Þegar sólin er yfir miðbaug á jafndægrum er Úranus bláleitari. 

Ástæðan virðist sú að við sólstöður er helmingi minna af metani við pólana en miðbaug. Metan er gróðurhúsalofttegund sem gleypir rautt ljós en dreifir grænu og rauðu.

Auk þess verður til ísmistur úr metani sem smám saman þykknar þegar líður að sólstöðum. Ísagnirnar auka endurvarp á grænu og rauðu ljósi við pólana. 

Blanda þessara tveggja áhrifa skýra líklega hvers vegna Úranus er grænni við sólstöður.

Frétt frá Royal Astronomical Society