Gígur á Merkúríusi nefndur eftir Nínu Tryggvadóttur

Þrír gígar á Merkúríusi nefndir eftir Íslendingum

Sævar Helgi Bragason 09. ágú. 2012 Fréttir

Stjörnufræðingar við MESSENGER leiðangur NASA hafa nefnt gíg á Merkúríusi eftir íslensku myndlistarkonunni Nínu Tryggvadóttur

  • Merkúríus, Nína Tryggvadóttir,

Örnefnanefnd Alþjóðasamband stjarnvísindamanna (e. International Astronomical Union (IAU)) hefur samþykkt tillögur vísindahóps MESSENGER geimfars NASA, um nafngiftir á níu gígum við norðurpól Merkúríusar, innstu reikistjörnu sólkerfisins. Einn þessara gíga var nefndur eftir íslensku myndlistarkonunni Nínu Tryggvadóttur.

Stórir gígar á Merkúríusi eru nefndir eftir heimsþekktum látnum listamönnum, tónlistarmönnum og rithöfundum, eða öðrum sem lagt hafa sitt af mörkum til að göfga mannsandann. Á Merkúríusi eru þannig gígarnir Beethoven, Mozart, Dickens, Hemingway, Goya og Picasso svo dæmi séu nefnd.

Gígarnir sem nú voru gefin nöfn eru allir við norðurpól Merkúríusar. Í þeim öllum hafa fundist merki um að vatnsís gæti verið á svæðum í þeim, þar sem sólarljóss nýtur aldrei. Vísindamennirnir sem vinna að rannsóknum á þessu svæði lögðu til að gígarnir yrðu nefndir eftir listamönnunum níu sem eru: Uzo Egonu málara frá Nígeríu, Antoni Gaudí arkitekt frá Spáni, Wassily Kandinsky listmálara frá Spáni, Títus Petroníus rithöfundur frá Róm, Sergei Prokofiev tónskáldi frá Rússlandi, J.R.R. Tolkien rithöfundir frá Englandi, Shifu Qiu Ying málara frá Kína, Eiji Yoshikawa rithöfundi frá Japan og íslenska listmálaranum Nínu Tryggvadóttur. Gígarnir bera eftirnöfn listafólksins.

Þessi níu nýnefndu gígar bætast í hóp 77 annarra gíga sem hefur verið gefið nafn frá því að geimfarið flaug fyrst framhjá Merkúríusi í janúar árið 2008.

„Tvær ástæður liggja að baki þessum nýjustu nafngiftum á stórum gígum á Merkúríusi“ segir Sean Solomon hjá Columbia háskóla í Bandaríkjunum og yfirmaður MESSENGER verkefnisins. „Í fyrsta lagi er auðveldara að miðla vísindalegum niðurstöðum um tiltekin svæði og kennileiti sem bera formleg nöfn. Hin ástæðan, sem er jafn mikilvæg, er sú að með þessum nafngiftum er mögulegt að minna á framlag þessa skapandi fólks til listarinnar. Nöfn þeirra eru nú eilíflega tengd við innstu reikistjörnu sólkerfisins.“

Gígurinn Tryggvadóttir er nánast alveg á norðurpól Merkúríusar, við hlið gígsins Tolkien (breidd 89,2 N, lengd 166,5 V). Hann er 31 km í þvermál.

Nína Tryggvadóttir er ekki eini Íslendingurinn sem minnst er á Merkúríusi. Gígarnir Sveinsdóttir og Snorri eru nefndir eftir listakonunni Júlíönu Sveinsdóttur og sagnaritaranum Snorra Sturlusyni. Fleiri staðir í sólkerfinu bera íslensk nöfn.

MESSENGER geimfarið hefur verið að störfum á braut um Merkúríus frá því í mars árið 2011. Farið er á sporöskjulaga pólbraut og kemst næst reikistjörnunni í 200 km hæð.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands og Stjörnufræðivefnum
Sími: 896-1984
E-mail: [email protected]

Tengdar myndir

  • Merkúríus, Nína TryggvadóttirKort af norðurpólsvæði Merkúrísar þar sem gígur hefur verið nefndur Tryggvadóttir, eftir íslensku myndlistarkonunni Nínu Tryggvadóttur. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Carnegie Institution of Washington/USGS