NASA velur nýjan Marsleiðangur

InSight verður fyrsti jarðeðlisfræðikanninn á Mars

Sævar Helgi Bragason 20. ágú. 2012 Fréttir

NASA hefur valið nýjan leiðangur til Mars árið 2016. Leiðangurinn nefnist InSight og er markmið hans að rannsaka innviði rauðu reikistjörnunnar

  • InSight, lendingarfar, Mars

NASA hefur valið nýjan leiðangur til Mars árið 2016. Leiðangurinn nefnist InSight og er markmið hans að rannsaka innviði rauðu reikistjörnunnar.

InSight (Interior Exploration using Seismic Investigations, Geodesy and Heat Transport) verður kyrrstætt geimfar sem lendir á Mars árið 2016, gerir jarðeðlisfræðilegar mælingar á reikistjörnunni og veitir okkur innsýn í þróun bergreikistjarna sólkerfisins.

InSight verður skotið á loft í mars árið 2016 og lendir á reikistjörnunni í september sama ár. Farið mun verja rúmu Marsári (720 dögum) í að rannska innviði reikistjörnunnar.

InSight var valið umfram tvo aðra leiðangra sem komu til greina, annars vegar Titan Mare Explorer (TiME), sem lenda átti í einu af metanstöðuvötnum Satúrnusartunglsins Títans og hins vegar Comet Hopper sem lenda átti á halastjörnunni Wirtanen og fylgjast með breytingum á henni.

Farið byggir að miklu leyti á Phoenix geimfarinu sem lenti á norðurheimskautssvæði Mars árið 2008. Rannsóknirnar eru þó gerólíkar enda á InSight að fylgjast náið með skjálftavirkni á Mars, mæla varmaflutning úr innviðunum, rannsaka skorpuhreyfingar og loftsteinaárekstra.

InSight mun lenda á flötu svæði við miðbaug Mars. Á farinu verða tvær myndavélar.

InSight er þó ekki næst í röð Marsgeimfara. Í lok næsta árs verður MAVEN skotið á loft en það fer á braut um Mars árið 2014. Meginmarkmið þess er að rannsaka lofthjúp Mars.

InSight er tólfti leiðangurinn í Discovery áætlun NASA. Þessi sama áætlun hefur meðal annars getið af sér Keplerssjónaukann, Dawn og Deep Impact. Næst verður óskað eftir tillögum um nýjan Discovery leiðangur árið 2015.

Hægt er að lesa meira um leiðangurinn hér.

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands og Stjörnufræðivefnum
Sími: 896-1984
E-mail: [email protected]

Tengdar myndir

  • InSight, Mars, lendingarfarTeikning af InSight sem mun lenda á Mars árið 2016. Mynd: NASA/JPL