Fjölskyldumynd vetrarbrauta

Sævar Helgi Bragason 06. sep. 2012 Fréttir

Glæsileg ný ljósmynd frá Hubblessjónaukanum sýnir vetrarbrautatvíeykið Arp 116 í Meyjarþyrpingunni

  • Messier 60, NGC 4647, Arp 116, Meyjarþyrpingin, vetrarbrautir

Á þessari mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sjást tvær gerólíkar vetrarbrautir. Saman mynda þær vetrarbrautatvíeykið Arp 116. Myndin sýnir mikinn mun á stærð, gerð og lit þyril- og sporvöluvetrarbrauta.

Arp 116 samanstendur af gríðarstórri sporvöluvetrarbraut, Messier 60 og annarri talsvert minni þyrilvetrarbraut, NGC 4647.

Messier 60 er dæmigerð sporvöluvetrarbraut og því kannski ekki ýkja spennandi áhorfs. Nálægur félagi hennar bætir útsýnið til muna svo Arp 116 er mjög athyglivert fyrirbæri á næturhimninum.

Messier 60 er afar björt — sú þriðja bjartasta í Meyjarþyrpingunni sem telur um 1.300 vetararbrautir. Hún er áberandi stærri en nágranninn og telur mun fleiri stjörnur. Rétt eins og aðrar vetrarbrautir er M60 gullin að lit því hún geymir margar gamlar kaldar og rauðar stjörnur. NGC 4647 hýsir á hinn bóginn fjölda margar ungar og heitar stjörnur sem geisla bláu ljósi, sem veitir vetrarbrautinni annarskonar blæ.

Stjörnufræðingar hafa löngum reynt að ákvarða hvort þessar tvær vetrarbrautir víxlverki í reynd. Þrátt fyrir að þær virðist skarast, frá jörðu séð, eru engin merki um aukna nýmyndun stjarna. Þegar tvær vetrarbrautir ganga nægilega nálægt hvor annarri, setja þyngdaráhrif þeirra iðulega gasský úr lagi með svipuðum hætti og sjávarföllin á jörðu má rekja til þyngdaráhrifa tunglsins. Truflun af þessu tagi veldur þyngdarhruni gasskýja sem hleypir af stað hrinu stjörnumyndunar.

Þótt slíkt virðist ekki hafa hent í Arp 116, benda rannsóknir á nákvæmum myndum Hubblessjónaukans til dálítillar þyngdarbjögunar milli vetrarbrautanna.

Burtséð frá því hvort þær séu í raun nógu nálægt hvor annarri til að hafa þessi áhrif eru þær áreiðanlega nágrannar. Þetta þýðir að að við sjáum vetrarbrautirnar í raun á sama kvarða. Fjölskyldumynd Hubbles er því skólabókardæmi um það hve frábrugðnar risa sporvöluvetrarbrautir eru í tilliti stærðar, gerðar og litarafts, frá minni þyrilbræðrum.

Messier 60 uppgötvuðu þrír stjörnufræðingar árið 1779, hver í sínu lagi. Johann Gottfried Koehler í Dresden fann hana fyrstur 11. apríl það ár er hann eltist við halastjörnu. Ítalinn Barnabus Oriani veitti henni athygli degi síðar og Frakkinn Charles Messier sá hana 15. apríl. Messier bætti henni þá í hina miklu skrá sína.

Bandaríski stjörnufræðingurinn Halton Arp hafði vetrarbrautartvíeykið með í skrá sinni yfir afbrigðilegar vetrarbrautir, sem hann birti árið 1966. Þá hafði hann myndað vetrarbrautirnar með hinum 5 metra Hale sjónaukanum. Skráin geymir 338 myndir af skringilegum vetrarbrautum, sem renna saman, skarast og víxlverka.

Myndin er samsett úr myndum teknum í sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys, Wide Field og Planetary Camera 2 myndavélum Hubblessjónaukans.

Tenglar

Tengiliður

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands
Sími: 663-6867
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1213

Tengdar myndir

  • Messier 60, NGC 4647Tvær gjörólíkar vetrarbrautir eru efni þessarar myndar Hubblessjónauka NASA/ESA. Saman mynda þær vetrarbrautatvíeykið Arp 116 sem samanstendur af gríðarstórri sporvöluvetrarbraut, Messier 60 og annarri talsvert minni þyrilvetrarbraut, NGC 4647. Mynd: NASA/ESA
  • Messier 60, NGC 4647Myndin, sem tekin er með jarðbundnum sjónauka sýnir vetrarbrautatvíeykið Arp 116 (sem samanstendur af sporvöluþokunni M 60 og þyrilþokunni NGC 4647) og umhverfi hennar. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey 2 (Þakkir: David De Martin)