Mynd af Kjalarþokunni í tilefni af vígslu VLT Survey Telescope

Sævar Helgi Bragason 06. des. 2012 Fréttir

Í dag var birt ný og glæsileg mynd frá VLT Survey Telescope af stjörnumyndunarsvæðinu Kjalarþokunni

  • Kjalarþokan, Carina nebula, NGC 3372, Eta Carinae

VLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO hefur tekið glæsilega nýja ljósmynd af stjörnumyndunarsvæðinu Kjalarþokunni en hún er nú birt í tilefni af vígslu sjónaukans sem fram fór í Napólí í dag. Myndin var tekin með hjálp Sebastián Piñera, forseti Chile, á meðan heimsókn hans í stjörnustöðina stóð yfir þann 5. júní 2012.

VLT Survey Telescope (VST) er nýjasti sjónaukinn í Paranal stjörnustöð ESO í Chile en vígsla hans fór fram í dag í Italian National Institute for Astrophysics (INAF) Observatory of Capodimonte í Napólí á Ítalíu. Borgarstjóri Napólí, Luigi De Magistris, forseti INAF, Giovanni Bignami, fulltrúar ESO, Bruno Leibundgut og Roberto Tamai og helsti forsprakki sjónaukans, Massimo Capaccioli frá Napólíháskóla, voru viðstaddir athöfnina.

VST er fyrsta flokks 2,6 metra breiður sjónauki útbúinn risavaxinni 268 megapixla myndavél, OmegaCAM. Sjónaukinn er hannaður til að kortleggja himininn bæði hratt og í framúrskarandi myndgæðum. Þessi nýi sjónauki er sá stærsti í heiminum sem helgaður er kortlagningu himins í sýnilegu ljósi (eso1119) [1]. Í tilefni vígslunnar var einnig birt glæsileg mynd af Kjalarþokunni sem tekin var með nýja sjónaukanum.

Þetta stjörnumyndunarsvæði er eitt mest áberandi og mest ljósmyndaða fyrirbærið á suðurhveli himins. Margir sjónaukar ESO hafa þess vegna ljósmyndað svæðið (eso1208, eso1145, eso1031, eso0905). Gasskýið glóandi er hins vegar svo stórt að flestir stórir sjónaukar eiga í stökustu vandræðum með að sjá meira en örlítinn hluta þess í einu. Þess vegna er það kjörið viðfangsefni fyrir VLT Survey Telescope og myndavél hans OmegaCAM. VST nær hnífskörpum myndum vegna gæða sjóntækjanna en líka framúrskarandi staðsetningar. Og þar sem hann var hannaður fyrir kortlagningu himins, hefur hann einnig mjög vítt sjónsvið og nær næstum allri Kjalarþokunni á eina mynd.

Fyrirbærið var því eðlilegt viðfangsefni þegar Sebastián Piñera, forseti Chile, og kona hans Cecilia Morel, heimsóttu Paranal stjörnustöðina þann 5. júní 2012 (eso1223) og tóku þátt í mælingum með VST. Myndin sem forsetinn hjálpaði til við að taka af þessu tilefni, hefur nú verið skeytt saman við aðrar nýlegar ljósmyndir VST af Kjalarþokunni í eina nákvæmustu og litríkustu mynd sem tekin hefur verið af þessu fyrirbæri hingað til.

Kjalarþokan er risavaxið stjörnuhreiður í um 7.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Kilinum [2]. Þetta glóandi gas- og rykský er eitt nálægasta stjörnumyndunarsvæðið við jörðina og geymir nokkrar af björtustu og massamestu stjörnum sem vitað er um. Kjalarþokan er kjörin tilraunastöð fyrir stjörnufræðinga sem rannsaka ofsafengna myndun og æsku stjarna.

Rauða litinn, sem er hvað mest áberandi á myndinni, stafar af vetnisgasi í þokunni sem glóir fyrir tilverknað orkuríkrar útfjólublárrar geislunar frá þeim fjölmörgu ungu og heitu stjörnum sem í þokunni eru [3]. Einnig má sjá aðra liti sem rekja má til annarra frumefna í gasinu sem og mörg rykský. Rétt fyrir ofan miðja mynd er skæra stjarnan Eta Carinae (eso0817). Þessi risastóra og óstöðuga stjarna jók birtu sína mikið á nítjándu öld og mun enda ævi sína sem sprengistjarna í framtíðinni.

Skýringar

[1] VST er samstarfsverkefni INAF-Osservatorio Astronomico di Capodimonte í Napólí á Ítalíu og ESO. Hönnun og smíði sjónaukans var í höndum INAF, með þátttöku ítalskra fyrirtækja en ESO lagði til húsið undir hann og og sá um verkfræðilega stjórnun á byggingarsvæðinu. OmegaCAM, myndavél VST, var hönnuð og smíðuð í samvinnu hollenskra, þýskra og ítalskra stofnana sem nutu þó mikillar aðstoðar ESO. ESO sér um viðhald og rekstur sjónaukans en líka gagnasöfnun og -dreifingu frá sjónaukanum. Frekari upplýsingar má nálgast í eso1119.

[2] Kjölurinn táknar kjöl fleysins Argó, sem Jason og Argóafararnir sigldu.

[3] VPHAS+ samstarfið lagði góðfúslega fram síuna sem notuð var til að safna vetnisljómuninni.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1250.

Tengdar myndir

  • KjalarþokanVLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO hefur tekið glæsilega nýja ljósmynd af stjörnumyndunarsvæðinu Kjalarþokunni. Myndin var tekin með hjálp Sebastián Piñera, forseti Chile, á meðan heimsókn hans í stjörnustöðina stóð yfir þann 5. júní 2012 og var hún birt í tilefni af vígslu nýja sjónaukans í Napólí þann 6. desember 2012. Mynd: ESO. Þakkir: VPHAS+ Consortium/Cambridge Astronomical Survey Unit