Vængir Mávaþokunnar

Sævar Helgi Bragason 06. feb. 2013 Fréttir

ESO hefur birt nýja ljósmynd af skýi úr ryki og glóandi gasi sem nefnist Mávaþokan

  • Mávaþokan, geimþoka, IC 2177, Sh 2-292, RCW 2, Gum 1,

Á þessari nýju ljósmynd frá ESO sést hluti af skýi úr ryki og glóandi gasi sem nefnist Mávaþokan. Reytingslegu rauðu skýin mynda hluta af „vængjum“ himnesks fugls en á myndinni sést sérkennileg blanda dökkra og rauðglóandi skýja sem vefja sig á milli bjartra stjarna. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

Á mörkum stjörnumerkjanna Stórahunds og Einhyrningsins á suðurhveli himins er Mávaþokan, risavaxið ský úr vetnisgasi. Þokan er dæmi um það sem stjörnufræðingar kalla rafað vetnisský. Innan í þeim myndast nýjar og heitar stjörnur sem gefa frá sér orkuríkt útfjólublátt ljós sem lýsir upp gasið í kring.

Rauðleiti bjarminn á myndinni er auðkennismerki jónaðs vetnis [1]. Mávaþokan er flókiði fyrirbæri, fuglslaga, úr þremur stórum gasskýjum — Sharpless 2-292 (eso1237) sem myndar höfuðið en þessi mynd sýnir Sharpless 2-296 að hluta til sem myndar „vængina“ og Sharpless 2-297 sem er lítill kekkur við brodd hægri vængsins.

Öll þessi fyrirbæri eru í Sharpless geimþokuskránni, lista yfir meira en 300 glóandi gasský sem bandaríski stjörnfræðingurinn Stewart Sharpless tók saman upp úr 1950. Áður en Sharpless gaf út skrána sína var hann framhaldsnemi við Yerkes stjörnustöðina nærri Chicago í Bandaríkjunum, þar sem hann og samstarfsmenn hans gerðu athuganir sem hjálpuðu til við að sýna fram á að Vetrarbrautin okkar er þyrilvetrarbraut með mjög mikla, sveigða arma.

Í þyrilvetrarbrautum eru gjarnan mörg þúsund röfuð vetnisský, næstum öll í örmum þeirra. Mávaþokan er í einum armi okkar Vetrarbrautar. Hins vegar á þetta ekki við um allar vetrarbrautir; á meðan óreglulegar vetrarbrautir hafa röfuð vetnisský á víð og dreif eru sporvölur gerólíkar — þær virðast skorta algjörlega þessi svæði. Tilvist rafaðra vetnisskýja er vísir þess að í vetrarbrautinni eigi sér enn stað myndun nýrra stjarna.

Þessi mynd af Sharpless 2-296 var tekin með Wide Field Imager (WFI), stórri myndavél á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Á henni sést einungis lítill hluti þessarar stórru þoku sem framleiðis heitar stjörnur í gríð og erg í innviðum sínum. Myndin sýnir Sharpless 2-296 lýsta upp af nokkrum sérstaklega björtum stjörnum. Á svæðinu eru margar aðrar, þar á meðal ein mjög björt og áberandi sem myndar „auga“ mávsins á myndum af skýinu í heild sinni.

Á víðmyndum af þessu svæði á himinhvolfinu birtast fjölmörg áhugaverð fyrirbæri. Ungu björtu stjörnurnar í þokunni tilheyra nálægu stjörnumyndunarsvæði, CMa R1, í stjörnumerkinu Stórahundi sem er fullt af björtum stjörnum og þyrpingum. Nærri Mávaþokunni er líka Þórshjálmsþokan, fyrirbæri sem Very Large Telescope (VLT) ESO tók mynd af í tilefni af 50 ára afmæli ESO þann 5. október 2012 með hjálp Brigitte Bailleul — vinningshafanum í Tístaðu þig í heimsókn til VLT! samkeppninni (eso1238a).

Skýringar

[1] Stjörnufræðingar nota hugtakið rafað vetnisský yfir jónað vetni og órafað vetnisský fyrir ójónað vetni. Vetnisatóm samanstendur af rafeind sem bundin er róteind en í jónuðu gasi eru atóm klofin í frjálsar rafeindir og jákvæðar jónir, í þessu tilviki stakar róteindir.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1306.

Tengdar myndir

  • Sharpless 2-292, Mávaþokan, geimþokaÁ þessari nýju ljósmynd frá ESO sést hluti af skýi úr ryki og glóandi gasi sem nefnist Mávaþokan. Reytingslegu rauðu skýin mynda hluta af „vængjum“ himnesks fugls en á myndinni sést sérkennileg blanda dökkra og rauðglóandi skýja sem vefja sig á milli bjartra stjarna. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Mynd: ESO
  • Sharpless 2-292, Mávaþokan, geimþokaÞessi víðmynd sýnir litríka stjörnumyndunarsvæðið Mávaþokuna, IC 2177, sem er á mörkum stjörnumerkjanna Einhyrningsins og Stórahunds. Þessi mynd var búin til úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.