Allir leik- og grunnskólar á Íslandi fá góða gjöf

Jarðarbolti til að efla kennslu í náttúrufræði í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla

Sævar Helgi Bragason 30. ágú. 2013 Fréttir

Allir leik- og grunnskólar á Íslandi fá Jarðarbolta að gjöf! Tilgangurinn er að efla áhuga barna á náttúrunni og vísindum og gera þeim kleift að læra um plánetuna sína á skapandi og skemmtilegan hátt.

  • Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, skoðar Jörðina með áhugasömum leikskólakrökkum. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson

Stjörnufræðivefurinn hefur í samstarfi við alþjóðlega fræðsluverkefnið EU Universe Awareness (EU UNAWE) og innlenda stuðningsaðila fært öllum leik- og grunnskólum á Íslandi Jarðarbolta að gjöf. Tilgangurinn með gjöfinni er að efla áhuga barna á náttúrunni og vísindum og gera þeim kleift að læra um plánetuna sína á skapandi og skemmtilegan hátt. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti leikskólanum Laufásborg í Reykjavík fyrsta boltann við athöfn í dag. Á sama tíma var Geimurinn.is, krakkavefur Stjörnufræðivefsins, opnaður.

Jarðarboltinn (e. Earthball) er uppblásið líkan af Jörðinni. Hann þykir framúrskarandi kennslutæki fyrir börn og er notaður í þeim tilgangi um allan heim. Með Jarðarboltanum er hægt að fræðast á auðskiljanlegan hátt um lögun Jarðar, dag og nótt, árstíðir, tungl- og sólmyrkva og stöðu Jarðar í alheiminum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Á Jarðarboltanum eru engin landamæri til að undirstrika það, að við búum öll saman á einni plánetu.

„Árið 2010 færðum við öllum grunn- og framhaldsskólum á Íslandi stjörnusjónauka að gjöf. Við höfðum alltaf hug á að færa leikskólum góða gjöf líka og teljum að Jarðarboltinn eigi eftir að nýtast vel og vonandi vekja áhuga barna á plánetunni okkar,“ segir Sævar Helgi Bragason, einn af ritstjórum Stjörnufræðivefsins.

Verkefnið er stutt af innlendum fyrirtækjum — Landsbankanum, CCP, Alcoa Fjarðaál og Alcan — [1] og alþjóðlega mennta- og fræðsluverkefninu EU Universe Awareness (EU UNAWE). EU UNAWE dreifir næstum 7000 Jarðarboltum til 57 landa í sjö heimsálfum í nokkur þúsund skóla. Ísland er eina landið þar sem allir leik- og grunnskólar landsins fá bolta.

„Með því að færa öllum leik- og grunnskólum á Íslandi Jarðarboltann að gjöf viljum við gera börnum kleift að læra á skapandi, skemmtilegan og lifandi hátt um plánetuna okkar og stöðu hennar í alheiminum,“ segir Pedro Russo við Leiden-háskóla í Hollandi og framkvæmdarstjóri EU UNAWE verkefnisins [2]. Russo er staddur hér á landi af þessu tilefni.

Markmiðið með gjöfinni er að efla áhuga barna á náttúrunni og vísindum og vekja þau til umhugsunar um mikilvægi þess, að hugsa vel um plánetuna sína. Búið er að útbúa verkefnabók fyrir börn upp að 12 ára aldri sem í eru fjölmargar hugmyndir um hvernig nota megi boltann í kennslu um stjörnufræði, landafræði, jarðfræði, umhverfismál og líffræði. Bókin er aðgengileg á Stjörnufræðivefnum öllum að kostnaðarlausu.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti leikskólanum Laufásborg fyrsta boltann við athöfn í dag. „Jarðarboltinn er áhugavert kennslutæki sem mun án efa gagnast leik- og grunnskólum mjög vel. Aukinn almennur skilningur á náttúruvísindum er gríðarlega mikilvægur fyrir þjóð sem byggir afkomu sína jafn mikið á náttúruauðlindum eins og við Íslendingar gerum. Landamæralaust hnattlíkan er líka góð áminning um að við erum öll ein fjölskylda og hagsmunir okkar allra, sama hvar við búum, eru þeir að nýta náttúruna með ábyrgum og skynsamlegum hætti,“ sagði Illugi af þessu tilefni.

Á sama tíma opnaði ráðherra nýjan krakkavænan Stjörnufræðivef á slóðinni Geimurinn.is. Á Geimurinn.is má nálgast heilmikinn fróðleik um stjörnuskoðun, stjörnufræði og jarðfræði, auk frétta af nýjustu uppgötvunum stjarnvísindamanna.

Skýringar

[1] Sótt var um í samfélagssjóði ýmissa fyrirtækja og samtaka. Þau fyrirtæki sem styrktu verkefnið eru Landsbanki Íslands, Alcan, Alcoa Fjarðaál og CCP. Er þeim þakkað kærlega fyrir veittan stuðning.

[2] EU UNAWE (European Universe Awareness for Young Children) er alþjóðlegt mennta- og fræðsluverkefni sem nýtur meðal annars stuðnings Alþjóðasambands stjarnfræðinga, UNESCO og 7. rammaáætlunar Evrópusambandsins um vísindi og menntun. Tilgangur EU UNAWE er að vekja áhuga yngstu kynslóðarinnar (4-12 ára) á vísindum og tækni á skapandi hátt. EU UNAWE er stýrt frá Leiden háskóla í Hollandi, einum elsta og virtasta háskóla Evrópu.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefnum
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Pedro Russo
UNAWE International Project Manager
Leiden, Hollandi
Símil: +31 654372658 / 895 1678
Email: [email protected]

Sverrir Guðmundsson
Stjörnufræðivefnum
Email: [email protected]

Tengdar myndir

  • Jarðarboltinn, Earthball, UNAWEIllugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, afhenti krökkum í leikskólanum Laufásborg fyrsta Jarðarboltann. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson
  • Jarðarboltinn, Earthball, UNAWEIllugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, skoðar Jörðina með áhugasömum leikskólakrökkum. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson
  • Jarðarboltinn, Earthball, UNAWEIllugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, opnaði Geimurinn.is, krakkavef Stjörnufræðivefsins. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson
  • Jarðarboltinn, Earthball, UNAWEIllugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, opnaði Geimurinn.is, krakkavef Stjörnufræðivefsins. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson
  • Jarðarboltinn, Earthball, UNAWEKrakkar í leikskólanum Laufásborg með Jarðarbolta. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson
  • Jarðarboltinn, Earthball, UNAWE Innlendir styrktaraðilar verkefnisins: CCP, Rio Tinto Alcan, Alcoa Fjarðaál og Landsbankinn. Mynd: Stjörnufræðivefurinn