Rakst halastjarna á Jörðina fyrir 28 milljónum ára?

Sævar Helgi Bragason 11. okt. 2013 Fréttir

Glerjaður kísill og óvenjuleg steinvala með örsmáum demöntum benda til þess að halastjarna hafi rekist á Jörðina fyrir rúmum 28 milljónum ára

  • Teikning af halastjörnu splundrast yfir Egyptalandi

Fyrir rúmum 28 milljónum ára rakst halastjarna á Jörðina í suðvesturhluta Egyptalands. Þetta er niðurstaða rannsóknar alþjóðlegs hóps vísindamanna á óvenjulegri steinvölu og glerjuðum kísli sem finnst í norðurhluta Afríku. Nákvæm efnagreining bendir til að steinninn, sem er úr kolefni, sé líklega brot úr kjarna halastjörnunnar og er það í fyrsta sinn sem slíkt brot finnst á Jörðinni.

Halastjörnur eru litlir og gaddferðnir hnettir úr ís og ryki sem eiga rætur að rekja til ystu afkima sólkerfisins. Annað slagið falla halastjörnur inn að sólinni og skapast þá stundum hætta á að þær rekist á reikistjörnurnar.

Á Jörðinni er vitað um yfir 160 árekstragíga. Flestir hafa líklega myndast við smástirnaárekstra en sumir vegna halastjarna, þótt erfitt hafi reynst að staðfesta halastjörnuárekstra vegna skorts á leifum úr þeim [1].

Nú hefur hins vegar hópur jarðvísindamanna, eðlisfræðinga og stjörnufræðinga frá Suður Afríku og Frakklandi fundið fyrstu sönnunargögnin fyrir árekstri halastjörnu við Jörðina.

Halastjarnan virðist hafa fallið til Jarðar í suðvesturhluta Egyptalands fyrir um 28 milljónum ára. Þegar halastjarnan steypti sér í gegnum lofthjúpinn, sprakk hún og hitaði sandinn fyrir neðan upp í um 2.000°C. Þessi mikli hiti bræddi sandinn svo til varð gulleitur, glerjaður kísill sem liggur á víð og dreif um 6.000 ferkílómetra svæði í Saharaeyðimörkinni.

Eitt frægasta dæmið um þennan glerjaða kísil er gulleiti skartgripurinn í brjóstnál sem tilheyrði egypska faraónum Tutankhamun.

Fyrir nokkrum árum fann egypskur jarðfræðingur lítinn, dularfullan, svartan stein á sama svæði og gulleiti, glerjaði kísillinn er. Eftir nákvæma efnagreiningu á honum komust vísindamennirnir að þeirri niðurstöðu, að steinninn líktist ekkert jarðnesku grjóti. Hann er að mestu leyti úr kolefni, eins og flestir loftsteinar. Hins vegar passa gastegundir í honum illa við loftsteina. Það bendir til þess að steinninn sé kominn lengra að en úr smástirnabeltinu. Líkast til er steinninn fyrsta þekkta sýnið úr kjarna halastjörnu.

Við kraftinn í árekstrinum urðu líka til örsmáir demantar í steininum. Demantar eru úr kolefni og myndast venjulega við mikinn þrýsting í regindjúpum Jarðar, en geta líka orðið til við mikið högg — árekstramyndbreytingu. Hluti halastjörnunnar rakst á yfirborðið Jarðar og við höggið urðu ördemantarnir til.

Steinvalan er kölluð Hýpatía eftir Hýpatíu frá Alexandríu, fyrsta kvenkyns stærðfræðingnum, stjörnufræðingnum og heimspekingnum sem getið er um í sögunni.

Niðurstöður þessarar rannsóknar verða birtar í tímaritinu Earth and Planetary Science Letters sem kemur út í nóvember.

Skýringar

[1] Halastjörnuleifar hafa ekki fundist áður á Jörðinni ef undan eru skildar örsmáar rykagnir — geimörður — sem finnast ofarlega í lofthjúpnum og í ískjörnum.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • teikning af árekstri halastjörnuTeikning af halastjörnu splundrast yfir eyðimörkinni í Egyptalandi. Mynd: Terry Bakker
  • brjóstnæla TutankhamunsBrjóstnæla Tutankhamuns. Guli steinninn varð sennilega til þegar kísill glerjaðist við hitann sem myndaðist þegar halastjarna rakst á Jörðina.