Vetrarbrautarós í tilefni 21 árs afmælis Hubblessjónaukans

Sævar Helgi Bragason 20. apr. 2011 Fréttir

Hubble hefur verið 21 ár í geimnum. Af því tilefni beindu stjörnufræðingar sjónaukanum að sérstaklega myndrænum vetrarbrautum.

  • Arp 273, UGC 1810, UGC 1813, gagnvirkar vetrarbrautir, stjörnuþokur

Í tilefni 21 árs afmælis Hubble geimsjónaukans hafa stjörnufræðingar beint sjónaukanum að sérstaklega myndrænum hópi gagnvirkra vetrarbrauta sem kallast Arp 273.

Á þessari mynd, sem tekin var með Hubble geimsjónauka NASA og ESA, sjást tvær gagnvirkar vetrarbrautir sem nefnast Arp 273. Sú stærri er þyrilþoka sem heitir UGC 1810 og hefur skífa hennar aflagast vegna flóðkrafta sem rekja má til þyngdartogs frá vetrarbrautinni fyrir neðan en hún heitir UGC 1813. Bláu kekkirnir efst eru þyrpingar ungra, mjög bjartra og heitra stjarna sem gefa frá sér sterkt útblátt ljós.

Frá okkar sjónarhóli er smærri vetrarbrautin nánast á rönd. Í kjarna hennar eru merki um hrinu stjörnumyndunar sem rekja má til nálægðarinnar við stóra nágrannann fyrir ofan.

Í stóru vetrarbrautinni er augljóst að eitthvað mikið hefur gengið á. Svo virðist sem stóri ytri þyrilarmurinn sé hringlaga en slíkt einkenni sést þegar vetrarbrautir fara í gegnum hvor aðra. Því er allt útlit fyrir að lítil fylgivetrarbraut hafi steypt sér í gegnum UGC 1810, rétt fyrir neðan og örlítið til hægri við miðju hennar. Allir innri þyrilarmarnir eru mjög brenglaðir. Til dæmis virðist einn armurinn liggja bakvið miðbunguna og skaga út hinumegin. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig þessir þyrilarmar tveir tengjast.

Hugsanlega sést lítill þyrill ofarlega hægra megin í örmum UGC 1810. Þar sést hvernig ysti armurinn breytir um svip þegar hann fer í gegnum þessa þriðju vetrarbraut. Armurinn breytist úr því að vera sléttur og úr gömlum rauðleitum stjörnum öðrum megin yfir í að vera kekkjóttur og blár hinum megin. Nokkuð reglulegt bil er á milli bláu kekkjana sem kemur heim og saman við það sem við sjáum í þyrilörmum annarra vetrarbrauta.

Stóra vetrarbrautin í Arp 273 tvíeykinu er um fimm sinnum massameiri en litla fylgivetrarbrautin. Fylgivetrarbrautin er á töluverðri hraðferð og hefur aflagað aðalþyrilinn í stóru vetrarbrautinni. Við samruna sem þennan hefst hrina stjörnumyndunar fyrr í minni vetrarbrautinni en þeirri stóru — hugsanlega vegna þess að litlar vetrarbrautir hafa ekki eytt eins miklu gasi í nýjar stjörnur.

Arp 273 er í stjörnumerkinu Andrómedu í um 300 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nokkrir tugir þúsunda ljósára skilja vetrarbrautirnar að en á myndinni sést að örþunn brú úr stjörnum tengir þær saman.

Þessi fallega ljósmynd var tekin þann 17. desember 2010 með Wide Field Camera 3 í Hubblessjónaukanum. Myndin er sett saman úr myndum sem teknar voru í gegnum ljóssíur sem hleypa í gegn útbláu, bláu og rauðu ljósi.

Skýringar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands,
Reykjavík
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Oli Usher
Hubble/ESA,
Garching,
Þýskalandi
Sími: +49-89-3200-6855
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1107

Tengdar myndir

  • Arp 273, UGC 1810, UGC 1813, gagnvirkar vetrarbrautir, stjörnuþokurHubblessjónauki NASA og ESA tók þessa fallegu ljósmynd gagnvirku vetrarbrautunum Arp 273 í tilefni af 21 árs afmæli sjónaukans í geimnum. Sjá má hvernig þyngdarkrafturinn hefur aflagað vetrarbrautirnar tvær. Talið er að smærri vetrarbraut hafi steypt sér í gegnum þá stóru og myndað við það hringlögunina. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA).
  • Hubble geimsjónaukinn á braut um jörðuHubble geimsjónaukinn á braut um jörðu. Mynd: European Space Agency.