Tvær myndir af skakkri vetrarbraut

Sævar Helgi Bragason 04. maí 2011 Fréttir

Hubblessjónaukinn og ESO hafa leitt saman hesta sína og tekið myndir af óvenju skakkri vetrarbraut.
  • Kjötkrókur, Kjötkróksvetrarbrautin, Kjötkróksþokan, NGC 2442

Á tveimur ljósmyndum sem teknar voru með 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum og Hubblessjónauka NASA og ESA, sést vel óvenju skökk lögun NGC 2442 eða Kjötkróksvetrarbrautarinnar. Annar þyrilarmur hennar er þéttofinn um sjálfan sig og í honum sprakk nýverið stjarna en í hinum, sem nær langt frá kjarnanum, eru fjölmörg nýleg stjörnumyndunarsvæði.

NGC 2442 eða Kjötkróksvetrarbrautin, er í stjörnumerkinu Flugfisknum á suðurhveli himins og er auðþekkjanleg vegna ósamhverfra þyrilarma sinna. Þessi skakka ásýnd hennar er talin stafa af þyngdarverkun við aðra vetrarbraut á einhverjum tímapunkti í sögu hennar en stjörnufræðingar hafa ekki fundið sökudólginn hingað til.

Þessi mynd var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum á La Silla í Chile og sýnir mjög vel tvöfalda krókslögunina sem vetrarbrautin dregur nafn sitt af. Á myndinni sjást sömuleiðis nokkrar aðrar vetrarbrautir í námunda við NGC 2442, sem og fjöldi annarra fjarlægari vetrarbrauta í bakgrunni. Wide Field Imager er á jörðu niðri og eru myndirnar því ekki jafn skarpar og ljósmyndir Hubblessjónaukans. Á móti kemur að sjónsviðið er miklu víðara og því má segja að verkfærin bæti hvort annað upp.

Á nærmynd Hubblessjónauka NASA og ESA er kastljósinu beint að kjarna vetrarbrautarinnar og þéttari þyrilarminum. Árið 1999 endaði massamikil stjarna ævi sína í þessum armi er hún sprakk. Með samanburði á eldri myndum sem teknar voru af jörðu niðri og eldri myndir frá Hubble, sem teknar voru árið 2001, við þessar myndir sem teknar voru síðla árs 2006, hafa stjörnufræðingar getað rannsakað náið síðustu andartökin í lífi stjörnunnar. Þegar þessi mynd var tekin hafði sprengistjarnan dofnað mikið og sést þar af leiðandi ekki á henni.

Á mynd ESO sjást líka merki um hin fyrri stig í ævi stjarna. Í stórum hluta vetrarbrautarinnar, sér í lagi í lengri þyrilarminum, eru bleik og rauð svæði. Litinn má rekja til vetnisgass í stjörnumyndunarsvæðum þar sem öflug geislun nýmyndaðra stjarna örvar gasið í skýjunum sem þær urðu til úr svo það verður rauðglóandi.

Líklegt er að gagnverkunin við vetrarbrautina sem olli þessari óvenju ósamhverfu lögun, hafi hrundið af stað hrinu stjörnumyndunar í NGC 2442. Sömu flóðkraftar og afmynduðu vetrarbrautina komu róti á gasið og olli þyngdarhruni þess sem síðan ól af sér nýjar stjörnur.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: [email protected]

Oli Usher
Hubble/ESA
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6855
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1115.

Tengdar myndir

  • Kjötkrókur, Kjötkróksvetrarbrautin, Kjötkróksþokan, NGC 2442Mynd af Kjötkróksþokunni (NGC 2442) sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum á La Silla í Chile. Þótt færri smáatriði sjáist á henni en á mynd Hubbles af sömu vetrarbraut, sést hún hins vegar í heild sinni sem og svæðið í kringum hana. Í langa þyrilarminum hefur mikil stjörnumyndun orðið eins og sjá má af bleika bjarmanum sem rekja má til ungra stjarna sem jóna gasið sem þær mynduðust úr. Talið er að ósamhverfa lögun vetrarbrautarinnar megi rekja til flóðkrafta frá annarri vetrarbraut sem gerðist of nærgöngul á einhverjum tímapunkti í sögu hennar. Mynd: ESO
  • Kjötkrókur, Kjötkróksvetrarbrautin, Kjötkróksþokan, NGC 2442Mynd Hubblessjónaukans af NGC 2442. Á henni sést þéttari þyrilarmurinn og miðsvæði vetrarbrautarinnar. Árið 1999 sást stjarna springa í þyrilarminum. Athuganirnar sem hér sjást voru gerðar árið 2006 til að rannsaka eftirköst sprengistjörnunnar. Gögn frá 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum voru notuð til að fylla upp í hluta af jaðri myndarinnar. Mynd: NASA/ESA og ESO.
  • Kjötkrókur, Kjötkróksvetrarbrautin, Kjötkróksþokan, NGC 2442Víðmynd af svæðinu í kringum þyrilþokuna NGC 2442 sem tekin var sem hluti af Digitized Sky Survey 2. Kjötkróksvetrarbrautin er á miðri mynd sem og fjöldi annarra vetrarbrauta. Sjónsviðið er um það bil þrjár gráður af himninum. Mynd: ESO og Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.