Ungar stjörnur baða sig í sviðsljósinu

Sævar Helgi Bragason 07. sep. 2011 Fréttir

Ný mynd ESO sýnir glæsilega lausþyrpingu í Stóra Magellansskýinu

  • NGC 2100, Stóra Magellansskýið

New Technology Telescope (NTT) ESO hefur tekið glæsilega mynd af lausþyrpingunni NGC 2100. Þessi bjarta stjörnuþyrping er um 15 milljón ára gömul og að finna í Stóra Magellansskýinu sem er nálæg fylgivetrarbraut okkar eigin vetrarbrautar. Í kringum þyrpinguna er glóandi gas Tarantúluþokunnar sem er skammt frá.

Stjörnuáhugamenn líta oft framhjá NGC 2100 vegna þess hve hún er nálægt hinni stórglæsilegu Tarantúluþoku (eso0650) og risastjörnuþyrpingunni RMC 136 (eso1030). Á myndinni reyna glóandi gasslæður Tarantúluþokunnar meira að segja að stela sviðsljósinu — litadýrðin eru útjaðrar þokunnar. Myndin var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum nokkrar litsíur á EMMI mælitækinu [1] á New Technology Telescope í La Silla stjörnustð ESO í Chile. Á myndinni eru stjörnurnar sýndar í sínum náttúrulegu litum en ljós frá jónuðu glóandi vetni (sýnt rautt) og súrefni (sýnt blátt) er lagt ofan á.

Litbrigði þokunnar eru háð hitastigi stjarnanna sem lýsa hana upp. Heitu ungu stjörnurnar í Tarantúluþokunni sem mynda risaþyrpinguna RMC 136 eru fyrir ofan og til hægri við þessa mynd en þær eru nógu öflugar til þess að lýsa upp súrefnið [2] sem er bláa móðan á myndinni. Undir NGC 2100 er rauður bjarmi sem er annað hvort útjaðar áhrifasvæðis heitu stjarnanna í RMC 136 eða af völdum kaldari og eldri stjarna sem náðu aðeins að jóna vetnið á þessu svæði. Stjörnurnar sem mynda NGC 2100 eru eldri og ekki eins öflugar og því er lítil sem engin þoka henni tengd.

Stjörnuþyrpingar eru hópar stjarna sem urðu til nánast samtímis úr sama gas- og rykskýi. Massamestu stjörnurnar myndast einkum við miðju þyrpinganna en massaminni stjörnur ráða ríkjum utar. Það veldur því að miðja þyrpinga er venjulega bjartari en útjaðrarnir auk þess sem fleiri stjörnur eru við miðjuna.

NGC 2100 er lausþyrping sem þýðir að þyngdarkrafturinn heldur stjörnunum tiltölulega laust saman. Stjörnurnar halda hópinn í tugi eða hundruð milljónir ára en að lokum sundrast þær vegna víxlverkunar við aðrar stjörnur. Á stundum sýnast kúluþyrpingar keimlíkar lausþyrpingum en þær fyrrnefndu innihalda miklu fleiri gamlar stjörnur, eru miklu þéttari og endast mun lengur: Margar kúluþyrpingar hafa reynst næstum jafngamlar alheiminum. Þótt NGC 2100 sé eldri en nágrannar sínir í Stóra Magellanskýinu er hún afar ung á mælikvarða stjörnuþyrpinga.

David Roma, þátttakandi í Hidden Treasures stjörnuljósmyndakeppninni sem ESO stóð fyrir árið 2010 [3], fann gögnin í gagnasafni ESO sem notuð voru til að útbúa þessa fallegu mynd af þessari ungu lausþyrpingu.

Skýringar

[1] EMMI stendur fyrir ESO Multi Mode Instrument. Tækið er bæði myndavél og litrófsriti.

[2] Rekja má mestan hluta súrefnisbjarmans frá þeim súrefnisatómum sem misst hafa tvær rafeindir. Þessi sterka útgeislun er mjög algeng í geimþokum en olli stjörnufræðingum sem rannsökuðu litróf þeirra nokkrum heilabrotum. Í fyrstu var talið að geislunina mætti rekja til nýs frumefnis sem nefnt var Nebúlíum.

[3] Í Hidden Treasures 2010 ljósmyndakeppni ESO gafst stjörnuáhugafólki tækifæri til að kafa ofan í gagnasafn ESO í leit að vel földum ljósmyndafjársjóði sem þurfti á myndvinnslu þátttakenda að halda. Hægt er að kynna sér betur Hidden Treasures áhttp://www.eso.org/public/outreach/hiddentreasures/.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1133.

Tengdar myndir

  • NGC 2100, Stóra MagellansskýiðStjörnuþyrpingin NGC 2100 í Stóra Magellansskýinu, lítilli fylgivetrarbraut okkar eigin vetrarbrautar. Myndin var tekin með EMMI mælitækinu á New Technology Telescope (NTT) ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Stjörnuþyrpingin er nálægt Tarantúluþokunni og sjást nokkrir litríkir hlutar hennar á myndinni. Litla þyrpingin hægra megin á myndinni, rétt fyrir neðan miðju, er NGC 2092. Mynd: ESO
  • NGC 2100, Stóra Magellansskýið, Tarantúluþokan, RMC 136Svæðið í kringum stjörnuþyrpinguna NGC 2100 í Stóra Magellanskýinu. Á myndinni er Tarantúluþokan, virkasta stjörnumyndunarsvæðið í Grenndarhópnum, mest áberandi. Myndin var búin til úr ljósmyndum sem teknar voru með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum. Mynd: ESO