VISTA finnur nýjar kúluþyrpingar

og sér í gegnum miðju vetrarbrautarinnar

Sævar Helgi Bragason 18. okt. 2011 Fréttir

VISTA kortlagningarsjónauki ESO hefur fundið tvær nýjar kúluþyrpingar í vetrarbrautinni okkar og séð í gegnum miðju hennar.

  • eso1141a

Tvær nýfundnar kúluþyrpingar hafa bæst í hóp 158 sem áður þekktust í vetrarbrautinni okkar. Þyrpingarnar fundust á myndum sem teknar voru með VISTA kortlagningarsjónauka ESO í Via Lactea (VVV) verkefninu. Á sama tíma fannst auk þess fyrsta lausþyrpingin sem er langt handan við miðju vetrarbrautarinnar en ljósið frá henni ferðaðist í gegnum þykkt gas og ryk á leið sinni til okkar.

Hægra megin á þessari nýju unnrauðu ljósmynd VISTA kortlagningarsjónauka ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile er kúluþyrpingin UKS 1 áberandi. En á stjörnuprýdda svæðinu í kring leynist nokkuð óvænt: Dauf og áður óþekkt kúluþyrping. Skoða verður myndina gaumgæfilega til þess að sjá þessa þyrpingu sem nefnd hefur verið VVV CL001, en hún er lítið safn stjarna vinstra megin á myndinni, rétt fyrir ofan miðju.

VVV CL001 er fyrsta kúluþyrpingin sem stjörnufræðingar hafa fundið með VISTA. Sami hópur fann líka annað fyrirbæri, VVV Cl002, sem sjá má á mynd b [1]. Þessi litli og daufi hópur gæti verið sú kúluþyrping sem er næst miðju okkar vetrarbrautar. Sjaldgæft er að nýjar kúluþyrpingar finnist í vetrarbrautinni en sú seinasta fannst árið 2010. Í vetrarbrautinni okkar voru aðeins 158 kúluþyrpingar þekktar áður en þær nýjustu fundust.

Hér er um að ræða fyrstu uppgötvanirnar í VISTA Variables in the Via Lactea (VVV) kortlagningarverkefninu sem snýst um kerfisbundna rannsókna á miðsvæðum vetrarbrautarinnar í innrauðu ljósi. VVV hópurinn lýtur forystu Dante Minniti (Pontificia Universidad Católica de Chile) og Philip Lucas (Center for Astrophysics Research, University of Hertfordshire í Bretlandi).

Fyrir utan kúluþyrpingar hefur VISTA einnig fundið margar lausþyrpingar í vetrarbrautinni. Lausþyrpingar samanstanda af færri og yngri stjörnum en kúluþyrpingar en eru mun algengari (eso1128). Ein nýuppgötvuðu þyrpinganna, VVV CL003, virðist vera lausþyrpin í sömu stefnu og miðja vetrarbrautarinnar, en mun fjarlægari, sennilega 15.000 ljósár frá miðjunni. Þetta er fyrsta lausþyrpingin sem finnst á fjærhlið vetrarbrautarinnar.

Miðað við hve þyrpingarnar eru daufar kemur ekki á óvart hvers vegna þær hafa ekki fundist fyrr. Lengi vel var UKS 1 (sem sést á mynd a), kúluþyrpingin sem er björtust á myndinni, dimmasta þekkta kúluþyrping vetrarbrautarinnar. Vegna gleypingar og roðnunar ljóss frá stjörnunum sökum miðgeimsryks sjást þessar þyrpingar aðeins í innrauðu ljósi. VISTA, stærsti kortlagningarsjónauki heims, er þess vegna kjörinn til leitar að þyrpingum sem faldar eru á bakvið ryk á miðsvæðum vetrarbrautarinnar [2].

Mögulegt er að VVV CL001 sé í þyngdarsviði UKS 1. Ef sú er raunin er hér um að ræða fyrstu tvíkúluþyrpingu vetrarbrautarinnar. Þyrpingarnar gætu líka einfaldlega verið í sömu sjónlínu og þær því óralangt frá hvor annarri.

Myndir VISTA voru settar saman úr myndum sem teknar voru í gegnum nokkrar nær-innrauðar ljóssíur: J (sýndar bláar), H (sýndar grænar) og Ks (sýndar rauðar). Myndirnar sýna aðeins örlítinn hluta af heildarsjónsviði VISTA.

Skýringar

[1] Tilkynnt var um þessar uppgötvanir á ráðstefnu argentínskra og chileskra stjörnufræðinga í San Juan í Argentínu.

[2] Rykagnirnar sem mynda stór ský í vetrarbrautum dreifa betur bláu ljósi en rauðu og innrauðu. Þess vegna geta stjörnufræðingar séð í gegnum rykið með innrauðu ljósi en ekki þeirri hefðbundnu sýnilegu geislun sem augu okkar eru næm fyrir.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1141.

Tengdar myndir

  • UKS 1, VVV CL001, kúluþyrpingarHluti úr innrauðri ljósmynd VISTA sem sýnir kúluþyrpinguna UKS 1 hægra megin en vinstra megin er nýuppgötvuð og mun ógreinilegri kúluþyrping, VVV CL001. Þessi nýja þyrping sést sem daufur hópur stjarna um það bil fjórðung af breidd myndarinnar frá vinstri brúninni, í stefnu klukkan tvö frá björtu stjörnunni. Mynd: ESO/D. Minniti/VVV Team
  • UKS 1, kúluþyrpingarHluti úr innrauðri ljósmynd VISTA sem sýnir nýuppgötvaða og daufa kúluþyrpingu, VVV CL002, sem er nálægt miðju okkar vetrarbrautar. Hún sést sem ógreinilegt safn stjarna við miðja mynd. Mynd: ESO/D. Minniti/VVV Team
  • VVV CL003Hluti úr innrauðri ljósmynd VISTA sem sýnir nýuppgötvaða lausþyrpingu, VVV CL003. Þessi þyrping, sem sést sem ógreinilegt safn daufra stjarna við miðja mynd, er sú fyrsta sem finnst fyrir aftan miðju okkar vetrarbrautar. Mynd: ESO/D. Minniti/VVV Teami
  • kúluþyrpingSamanburður á mynd innrauðri mynd VISTA (neðri) og mynd Digitized Sky Survey 2 (efri), sem sýnir sýnilegt ljós, af kúluþyrpingunni VVV CL001. Hægra megin sést mun bjartari þyrping, UKS1 Mynd: ESO/D. Minniti/VVV Team og Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin