Köld ský Kjalarþokunnar

APEX sýnir stjörnumyndunarsvæði í Kjalarþokunni í nýju ljósi

Sævar Helgi Bragason 16. nóv. 2011 Fréttir

Ný mynd APEX sjónaukans af Kjalarþokunni sýnir hvernig stjörnur myndast í köldum rykskýjum þokunnar.

  • Kjalarþokan, hálfsmillímetrageislun, APEX

Mælingar APEX sjónaukans á hálfsmillímetrageislun frá Kjalarþokunni sýna hvernig stjörnur myndast í köldum rykskýjum þokunnar. Í þokunni er mikil og ör stjörnumyndun og geymir hún nokkrar massamestu stjörnur sem þekkjast í vetrarbrautinni okkar. Hún er því kjörin vettvangur til rannsókna á sambandi ungra stjarna og sameindaskýsins sem þær urðu til úr.

Hópur stjörnufræðinga undir forystu Thomas Preibisch (Universitäts–Sternwarte München, Ludwig-Maximilians-Universität í Þýskalandi) notaði LABOCA myndavélina á Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukanum á Chajnantor hásléttunni í Andesfjöllum Chile, til að taka mynd af Kjalarþokunni í hálfsmillímetraljósi. Á þessari bylgjulengd kemur ljósið að mestu frá geimryki sem gefur frá sér mjög daufa varmageislun. Á myndinni sjást þess vegna ský úr ryki og sameindagasi — að mestu vetni — sem stjörnur myndast í. Rykkornin eru nístingsköld, í kringum –250°C og gefa þau því aðeins frá sér ljós með hálfsmillímetra bylgjulengdir sem eru mun lengri en bylgjulengdir sýnilegs ljóss. Hálfsmillímetrageislun er þess vegna lykillinn að rannsóknum á myndun stjarna og sambandi þeirra við gasskýin sem þær myndast í.

Á myndinni eru LABOCA mælingar APEX sýndar appelsínugular en ljósmyndum sem teknar voru í sýnilegu ljósi með Curtis Schmidt sjónaukanum í Cerro Tololo Interamerican stjörnustöðinni, hefur verið skeytt saman við þær. Niðurstaðan er þessi glæsilega víðmynd af stjörnumyndunarsvæði Kjalarþokunnar. Í þokunni nemur heildarmassi stjarna yfir 25.000 sólum en massi gas- og rykskýsins dygði í um 140.000 sólir.

Aðeins brot af gasinu í Kjalarþokunni er hins vegar nógu þétt til að falla saman og mynda nýjar stjörnur í náinni framtíð (á næstu milljónum ára). Til lengri tíma litið gætu áhrif massamiklu stjarnanna sem þegar eru á svæðinu hraðað stjörnumyndun.

Hámassastjörnur lifa aðeins í nokkrar milljónir ára í mesta lagi (mjög stuttur líftími í samanburði við stjörnu eins og sólina okkar sem lifir í 10 milljarða ára) en þær hafa feikileg áhrif á umhverfi sitt á meðan þær eru til staðar. Sem hvítvoðungar gefa þær frá sér sterka vinda og geislun sem mótar skýin í kring og þéttir þau hugsanlega nægilega mikið til að nýjar stjörnur verði til. En þegar sígur á seinni hluta ævi þeirra verða þær mjög óstöðugar og varpa frá sér miklu efni uns þær deyja sem sprengistjörnur.

Eta Carinae, bjarta gulleita stjarnan rétt fyrir ofan miðja mynd, er eitt besta dæmið um slíka stjörnu. Hún er meira en 100 sinnum massameiri en sólin okkar og meðal björtustu stjarna sem þekkjast. Á næstu milljón árum eða svo springur Eta Carinae og í kjölfar hennar enda aðrar massamiklar stjörnur á svæðinu líf sitt, á sama hátt.

Höggbylgjur þessara orkuríku sprenginga tæta sundur sameindagasskýin í kring en eftir að þær hafa ferðast meira en tíu ljósár eða svo, hafa þær veikst en geta þjappað fjarlægari skýjum saman og þannig hrundið af stað myndun nýrra kynslóða stjarna. Frá sprengistjörnum gætu geislavirk atóm einnig borist inn í ský sem eru að falla saman. Sterkar vísbendingar eru uppi um að geislavirk atóm hafi borist með þeim hætti inn í skýið sem myndaði sólina okkar og reikistjörnurnar. Kjalarþokan gæti því veitt okkur betri innsýn í myndun okkar eigin sólkerfis.

Kjalarþokan er í um 7.500 ljósára fjarlægð í samnefndu stjörnumerki (Kilinum) á suðurhveli. Hún er með björtustu geimþokum himins vegna þess mikla fjölda hámassastjarna sem hún geymir. Þokan er um 150 ljósár í þvermál og því töluvert stærri en Sverðþokan fræga í Óríon. Þótt hún sé líka töluvert fjarlægari en Sverðþokan er sýndarstærð beggja á himninum nokkurn vegin sú sama svo Kjalarþokan er með stærstu geimþokum sem sjá má á himninum.

APEX sjónaukinn er undanfari ALMA, Atacama Large Millimeter/submillimeter Array, byltingarkenndrar útvarpssjónaukaraðar sem ESO og alþjóðlegir samstarfsaðilar setja nú upp á Chajnantor sléttunni. APEX er frumgerð loftnetanna sem smíðuð voru fyrir ALMA. ALMA verður röð 54 tólf metra breiðra loftneta auk 12 sjö metra loftneta. Þegar upp er staðið verður ALMA með mun betri greinigæði en APEX, þótt sjónsviðið verði mun smærra. Sjónaukarnir bæta hvorn annan upp: APEX á að finna fjölmörg fyrirbæri sem ALMA kemur til með að kanna betur.

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans.

ALMA er alþjóðleg stjörnustöð sem byggð er í samstarfi Evrópu, Norður Ameríku og Austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd Evrópu en National Radio Astronomy Observatory (NRAO) fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

Frekari upplýsingar

Sagt er frá mælingum LABOCA í greininni „A deep wide-field sub-mm survey of the Carina Nebula complex“ eftir Preibisch et al., A&A, 525, A92 (2011): http://adsabs.harvard.edu/abs/2011A%26A...525A..92P

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Thomas Preibisch
Universitäts-Sternwarte München, Ludwig-Maximilians-Universität
Munich, Germany
Tel: +49 89 2180 6016
Email: [email protected]

Douglas Pierce-Price
ESO ALMA/APEX Public Information Officer
Garching, Germany
Tel: +49 89 3200 6759
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1145.

Tengdar myndir

  • Kjalarþokan, hálfsmillímetrageislunMælingar APEX sjónaukans á hálfsmillímetrageislun frá Kjalarþokunni sýna hvernig stjörnur myndast í köldum rykskýjum þokunnar. Í þokunni er mikil og ör stjörnumyndun og geymir hún nokkrar massamestu stjörnur sem þekkjast í vetrarbrautinni okkar. Hún er því kjörin vettvangur til rannsókna á sambandi ungra stjarna og sameindaskýsins sem þær urðu til úr. Á myndinni eru LABOCA mælingar APEX sýndar appelsínugular en ljósmyndum sem teknar voru í sýnilegu ljósi með Curtis Schmidt sjónaukanum í Cerro Tololo Interamerican stjörnustöðinni, hefur verið skeytt saman við þær. Niðurstaðan er þessi glæsilega víðmynd af stjörnumyndunarsvæði Kjalarþokunnar. Í þokunni nemur heildarmassi stjarna yfir 25.000 sólum en massi gas- og rykskýsins dygði í um 140.000 sólir. Mynd: ESO/APEX/T. Preibisch et al. (hálfsmillímetra); N. Smith, University of Minnesota/NOAO/AURA/NSF (sýnilegt)

Krakkavæn útgáfa