Evrópa sendir JUICE til Júpíters

Sævar Helgi Bragason 02. maí 2012 Fréttir

Ístungl Júpíters verða í brennidepli næsta stóra rannsóknarleiðangurs ESA.

  • Júpíter, Jupiter Icy moons Explorer

Ístungl Júpíters verða í brennidepli næsta stóra rannsóknarleiðangurs ESA, Geimvísindastofnunar Evrópu. Geimfarið nefnist Jupiter Icy moons Explorer eða JUICE og er fyrsti stóri leiðangurinn í Cosmic Visions áætlun ESA. Leiðangurinn var valinn framyfir tvö önnur mjög metnaðarfull og áhugaverð verkefni.

JUICE verður skotið á loft með Ariane 5 eldflaug í júní 2022 frá Kourou geimferðamiðstöð Evrópu í Frönsku-Gajana í Suður Ameríku. Átta árum síðar, eða árið 2030, kemst geimfarið loks á áfangastað þar sem það dvelur við rannsóknir í að minnsta kosti þrjú ár.

JUICE var valið framyfir tvö önnur metnaðarfull og spennandi verkefni: New Gravitational wave Observatory (NGO) sem átti að leita að þyngdarbylgjum — gárum í geimnum frá fyrirbærum eins og samruna tveggja svarthola eða nifteindastjarna — og Advanced Telescope for High-Energy Astrophysics (ATHENA) sem hefði rannsakað svarthol og fleiri orkurík fyrirbæri í geimnum. Öll eru þessi verkefni hluti af Cosmic Vision áætluninni sem ESA vinnur eftir milli 2015 til 2025.

JUICE er ætlað að rannsaka ístungl Júpíters — Evrópu, Ganýmedes og Kallistó — og gasrisann sjálfan. Talið er að undir ísskorpum tunglanna séu höf en leiðangurinn mun vonandi skera úr um hvort svo sé og þar af leiðandi hvort líf gæti mögulega þrifist á einhverju þeirra. Í leiðinni öðlumst við dýpri skilning á þeim aðstæðum sem ríktu við myndun Júpíters og tunglanna en segja má að kerfið sé einskonar lítil útgáfa af sólkerfi. Við munum því líklega læra sitthvað um tilurð jarðar í leiðinni.

Ganýmedes, stærsta tungl sólkerfisins, verður helsta rannsóknarefni JUICE en geimfarið á að komast á braut um það árið 2032. Talið er að á um 200 km dýpi undir ísskorpu þess sé haf. Auk þess er Ganýmedes eina tungl sólkerfisins sem hefur fljótandi járnkjarna eins og jörðin og þar af leiðandi segulsvið. JUICE á að kanna víxlverkun segulsviðs Ganýmedesar og segulsviðs Júpíters.

Geimfarið mun líka heimsækja Kallistó, gígóttasta hnött sólkerfisins og fljúga í tvígang framhjá Evrópu. JUICE mun fyrst gervitungla mæla þykkt ísskorpu Evrópu og skyggnast eftir áhugaverðum stöðum til að lenda geimkönnum í framtíðinni.

JUICE mun einnig fylgjast náið með lofthjúpi og segulsviði Júpíters (taka t.d. myndir af norðurljósunum) og sambandi hans við Galíleótunglin.

Geimfarið mun vega rétt undir fimm tonnum. Það verður því meðal þyngstu geimfara sem send hafa verið út í ytra sólkerfið. Það verður knúið sólarrafhlöðum sem er harla óvenjulegt svo langt frá sólinni. Vegna lítillar birtu þurfa sólarhlöðin að vera 60-70 fermetrar svo hægt sé að halda mælitækjunum gangandi. Samskonar sólarhlöð eru á Juno geimfari NASA sem er nú á leið til Júpíters.

Upphaflega átti geimfar á vegum NASA að fljúga með JUICE og fara á braut um Evrópu. NASA varð hins vegar að falla frá þeim áformum því þau þóttu of kostnaðarsöm. Þess vegna eru tvö flug JUICE framhjá Evrópu gríðarlega mikilvæg.

Á næstunni munu aðildarríki ESA sækja um að fá að smíða mælitæki í geimfarið. Meðal þess sem þörf er á er ratsjá til að skyggnast undir yfirborð ístunglanna, segulmælar og myndavélar. Hugsanlegt er að NASA leggi til eitt eða tvö mælitæki til leiðangursins, að því gefnu að fjárveitingar fáist fyrir þau.

Það eru óneitanlega spennandi tímar framundan í rannsóknum á sólkerfinu með Evrópu í broddi fylkingar.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefnum
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þessi frétt er byggð á fréttatilkynningu frá ESA

Tengdar myndir

  • Jupiter Icy moons Explorer, JUICETölvuteiknuð mynd af JUICE við rannsóknir á Júpíter og tunglum hans. Mynd: ESA/AOES