Ný mynd afhjúpar leyndardóma reikistjarna í fæðingu

Sævar Helgi Bragason 25. júl. 2023 Fréttir

Tímamótamynd sýnir ryk kastast í kekki sem gætu orðið að gasreikistjörnum

  • Eso2312a

Stjörnufræðingar sem notuðu Very Large Telescope (VLT) ESO og ALMA sjónaukann hafa tekið glæsilega mynd sem sýnir gasrisa á borð við Júpíter í fæðingu. Myndin markar tímamót því á henni sést í fyrsta sinn ryk kastast í kekki nálægt ungri stjörnu sem gætu orðið að gasreikistjörnum. 

Ups_FB_cover

Á myndinni sést gas- og rykskífa í kringum unga stjörnu, V960 Mon, sem er í ríflega 5000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Einhyrningnum. Þessi unga stjarna vakti athygli stjörnufræðinga þegar birta hennar jókst skyndilega meira en tuttugufalt árið 2014.

Myndir sem teknar voru með SPHERE-mælitækinu á VLT fljótlega í kjölfarið sýndu efni í kringum stjörnuna að kastast í kekki í þyrilörmum. Sú uppgötvun hvatti stjörnufræðinga til að taka myndir með ALMA sjónaukanum sem er betur í stakk búinn til að skyggnast dýpra inn í rykskífua og kanna hvað þar er á seyði. 

Mælingar ALMA sýndu að þyrilarmarnir eru að brotna upp vegna þyngdaróstöðugleika. Það leiðir til þess að gas- og rykkekkir með massa á við gasreikistjörnur verða til.

Þetta er í fyrsta sinn sem þyngdaróstöðugleiki í sólkerfisskýi kemur fram í mælingum. Líklega urðu gasrisarnir í sólkerfinu okkar til á samskonar hátt. Myndin markar þess vegna tímamót.

Eso2312b

Vinstra megin sést mynd SPHERE-mælitækisins á VLT sjónaukanum af ungu stjörnunni V960 Mon og rykinu í kringum hana. Myndin hægra megin sýnir mælingar ALMA sjónaukans sem ná dýpra inn í rykið og sýnir kekkina sem gasreikistjörnur geta myndast úr.
Mynd: ESO/ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)/Weber et al.

Í lok áratugarins tekur ESO Extremely Large Telescope í notkun. Þessi tæplega 40 metra breiði sjónauki mun hjálpa okkur að rannsaka myndun reikistjarna í meiri smáatriðum en nokkru sinni.

Frétt frá ESO