Súrefni gæti skort við rauða dverga

Kjartan Kjartansson 24. feb. 2017 Fréttir

Tíð sólgos í rauðum dvergum gætu þýtt að aðstæður á reikistjörnum sem ganga um þá séu ekki endilega hagstæðar lífi þó að þær séu á svonefndu lífbelti stjarnanna. Gosin gætu „blásið“ súrefni úr lofthjúpum reikistjarna sem ganga um rauða dverga.

Fljótandi vatn er talið frumforsenda lífs. Því hefur leitin að lífi utan sólkerfis okkar beinst að fjarreikistjörnum í svonefndu lífbelti stjarna. Lífbeltin hafa fram að þessu verið skilgreind út frá þeirri fjarlægð frá stjörnum þar sem magn sólarljóss og hitastig gerir vatni kleift að vera á fljótandi formi.

Hópur vísindamanna NASA vill nú breyta skilgreiningunni á lífbeltum stjarna til að taka tillit til áhrifa virkni móðurstjarnanna. Vísindamennirnir hafa notað loftslagslíkön til að reikna út hvernig virkni stjarna getur haft áhrif á reikistjörnurnar sem ganga um þær. Sagt var frá rannsókninni á vef NASA fyrr í þessum mánuði.

Rauðir dvergar eru svölustu og minnstu en jafnframt algengustu stjörnur alheimsins. Því hefur leitin að mögulega lífvænlega hnöttum að miklu leyti beinst að þeim.

Þó að þessir rauðu dvergar séu daufari en sólin okkar eru sólgos og blossar sem spúa hlöðnum ögnum og orkumiklum geislum út í geiminn tíðari í þeim. Þessi sólvirkni getur sorfið lofthjúp reikistjarna og blásið sameindum eins og vetni og súrefni, sem saman mynda vatn, út í geiminn.

„Þegar við skoðum unga rauða dverga í Vetrarbrautinni okkar sjáum við að þeir eru miklu daufari en sólin okkar er núna. Samkvæmt hefðbundnu skilgreiningunni ætti lífbeltið í kringum rauða dverga að vera tíu til tuttugu sinnum nær þeim en jörðin er sólinni. Við vitum núna að þessir rauðu dvergar mynda mikla röntgengeisla og útfjólubláa geislun í lífbelti reikistjarna með tíðari sólgosum og stormum,“ segir Vladimir Airapetian, aðalhöfundur greinar um rannsókn hópsins og sólvísindamaður við NASA.

Útreikningar vísindamannanna sýna að virkni ungra rauðra dverga, þegar virkni þeirra er mest, gæti gert reikistjörnur ólífvænlegar á aðeins nokkrum tugum eða hundruð milljónum ára með því að feykja sameindum úr lofthjúpnum í burt. Þannig myndi vatnsforði slíkrar reikistjörnu hverfa áður en líf hefði átt þess kost að kvikna.

Þessar niðurstöður vísindamannanna eru slæmar fréttir fyrir nýlegar uppgötvanir fjarreikistjarna. Þannig telja vísindamennirnir að Proxima b, fjarreikistjarna sem gengur á braut um Proxima Centauri og er næsta stjarnan við jörðina, sé að öllum líkindum ólífvænleg. Lofthjúpur Proxima b hefði misst allt súrefni sitt út í geim á aðeins tíu milljón árum vegna tíðra sólgosa móðurstjörnunnar.

Í þessu samhengi má benda á stjarnan TRAPPIST-1, sem tilkynnt var um í vikunni að hefði þrjár reikistjörnur á stærð við jörðina í lífbelti sínu, er rauður dvergur.