Tvær fjarreikistjörnur á sömu sporbraut?

Sævar Helgi Bragason 17. júl. 2023 Fréttir

ALMA hefur mögulega fundið tilvonandi systurhnött fjarreikistjörnu sem deila sömu sporbraut um móðurstjörnuna sína

  • Mynd ALMA af ungu sólkerfi, PDS 70 og hugsanlegum reikistjörnum

Stjörnufræðingar sem notuðu ALMA útvarpssjónaukann í Chile hafa hugsanlega fundið systurhnött fjarreikistjörnu sem deila sömu sporbraut um móðurstjörnuna sína. Mælingar sýna rykský, sem gæti verið lítil reikistjarna í mótun eða leifar reikistjörnu sem splundraðist, á sömu sporbraut og önnur risareikistjarna. Verði uppgötvunin staðfest yrði um að ræða sterkustu sönnunargögnin til þess aum að tvær reikistjörnur geti deilt sömu sporbraut.

Ups_FB_cover

Hnettir sem deila sporbraut eru kallaðir Trójuhnettir eftir hetjum Trójustríðsins. Slíkir hnettir eru algengir í sólkerfinu okkar, til að mynda Trójusmástirnahóparnir við Júpíter. Í þeim eru meira en tólf þúsund smástirni á sömu sporbraut og Júpíter, nánar tiltekið fyrir framan og aftan hana. Júpíter ýtir öðrum hópnum á undan sér en togar hinn með sér.

Stjörnufræðingar hafa velt fyrir sér hvort Trójureikistjörnur gætu mögulega verið til í öðrum sólkerfum en ekki fundið nein sönnunargögn fyrir því fyrr en nú.

Rannsóknir ALMA á sólkerfinu PDS 70 benda til þess, að í kringum þessa ungu stjörnu séu ekki aðeins tveir gasrisar, kallaðir PDS 70b og PDS 70c, heldur rykský á sömu sporbraut og PDS 70b, einmitt á því svæði þar sem Trójuhnöttur gæti verið.

Trójuhnettir eru á Lagrange-punktunum en það eru tvö svæði á sporbraut reikistjörnu þar sem þyngdartog hennar og móðurstjörnunnar geta fangað efni. Á öðru þessara svæða á sporbraut PDS 70b komu stjörnufræðingar auga á rykský sem er um það bil tvisvar sinnum efnismeira en tunglið okkar. Skýið sést á myndinni fyrir ofan í hringnum með brotalínunni.

Stjörnufræðingar álykta sem svo að þarna sé annað hvort reikistjarna að myndast á svæðnu eða að um sé að ræða leifar reikistjörnu sem hafi splundrast. Leifarnar yrðu þá Trójusmástirnahópur svipaður þeim sem er hjá Júpíter.

Bíða þarf til ársins 2026 svo unnt sé að staðfesta uppgötvunina. Þá verður ALMA aftur beint að sólkerfinu til að kanna hvort skýið sé á ferðalagi um stjörnu á sömu sportbraut.

Greint var frá uppgötvuninni í Astronomy & Astrophysics.

Frétt frá ESO

Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO) /Balsalobre-Ruza et al.