Webb finnur fjarlægasta virka risasvartholið til þessa

Sævar Helgi Bragason 06. júl. 2023 Fréttir

Svartholið birtist okkur aðeins 570 milljónum ára eftir Miklahvell og er álíka massamikið og risasvartholið í Vetrarbrautinni okkar

  • Webb-ceers-kortlagningin

Stjörnufræðingar sem notuðu Webb geimsjónaukann hafa fundið fjarlægasta virka risasvartholið til þessa. Svartholið birtist okkur aðeins 570 milljónum ára eftir Miklahvell og er í minni kantinum af risasvartholi að vera eða álíka massamikið og risasvartholið í miðju Vetrarbrautarinnar okkar. Að auki fundu stjörnufræðingarnir tvö önnur álíka massamikil svarthol í árdaga alheims og meira en tug mjög fjarlægra vetrarbrauta.

Risasvartholið leynist í vetrarbraut sem kallast CEERS 1019 og birtist okkur þegar alheimurinn var aðeins 570 milljón ára gamall. Svartholið er það lang-massaminnsta sem fundist hefur í árdaga alheims til þessa. Það er aðeins 9 milljón sólmassar eða um það bil tvöfalt massameira en risasvartholið í miðju okkar eigin Vetrarbrautar. Sennilega stendur þetta met þó stutt því stjarnvísindamenn telja sig þegar hafa fundið enn fjarlægari risasvarthol.

Webb-ceers-risasvarthol-570-milljon-ar

Litrófsmælingar Webb geimsjónaukans á vetrarbrautinni CEERS 1019 benda til þess að risasvartholið sé að gleypa efni.
Mynd: NASA, ESA, CSA, Leah Hustak (STScI)

Sömu mælingar leiddu jafnframt í ljós tvö önnur svarthol í minni kantinum sem birtast okkur 1 til 1,1 milljarði ára eftir Miklahvell, bæði aðeins um 10 milljón sólmassar. Webb er fyrsti sjónaukinn sem er fær um að finna svo lítil risasvarthol svo snemma í sögu alheimsins. Fjöldi svartholi sem finnst í fyrstu mælingum Webb benda til þess að í aheiminum úi allt og grúi af litlum risasvartholum.

Að auki fann Webb ellefu áður óséðar vetrarbrautir sem birtast okkur þegar alheimurinn var aðeins 470 til 675 milljón ára. Allar eru þær bjartari en búist var við og að framleiða nýjar stjörnur með miklu offorsi. Uppgötvanir Webbs benda til þess að risasvarthol og vetrarbrautir hafi verið enn algengari í árdaga alheims en hingað til hefur verið talið.

„Webb er fyrsti sjónaukinn til að nema sumar þessara vetrarbrauta,“ sagði Seiji Futimoto, meðlimur í rannsóknarteyminu. „Þetta gagnasafn og önnur með enn fjarlægari vetrarbrautum, gæti breytt skilningi okkar á myndun stjarna og þróun vetrarbrauta í sögu alheimsins.“

Uppgötvanirnar voru gerðar í CEERS (Cosmic Evolution Early Release Science) kortlagningarverkefninu með Webb. Hér er aðeins um að ræða fyrstu niðurstöður verkefnisins og eru þær strax byltingarkenndar.

„Hingað til hafa rannsóknir á fyrirbærum í árdaga alheims að mestu verið kennilegar,“ sagði Steven Finkelstein sem hefur umsjón með CEERS verkefninu. „Með Webb sjáum við ekki aðeins svarthol og vetrarbrautir í órafjarlægð, heldur getum við mælt þær nákvæmlega. Svo öflugur er þessi sjónauki.“

Til framtíðar litið gætu mælingar Webb hjálpað okkur að útskýra hvernig fyrstu svartholin urðu til og hvernig þau uxu og þróuðust á fyrstu hundruð milljónum ára eftir Miklahvell.