Webb finnur merki um nifteindastjörnu í ungri sprengistjörnuleif

Sævar Helgi Bragason 23. feb. 2024 Fréttir

Þegar SN 1987A sprakk hefði nifteindastjarna átt að myndast en fá bein sönnunargögn um hana hafa fundist til þessa

  • SN 1987A

James Webb geimsjónaukinn hefur fundið bestu sönnunargögnin til þessa um háorkugeislun frá nifteindastjörnu í miðju sprengistjörnuleifinnar SN 1987A. Mælingarnar eru mikilvægur liður í að skilja hvað gerist þegar risastjörnur falla saman og springa.  

Hamfarir - Vísindalæsi

Sprengistjarnan 1987A birtist á himni þann 23. febrúar árið 1987 eftir að hafa sprungið 160 þúsund árum fyrr í Stóra Magellansskýinu, fylgivetrarbraut Vetrarbrautarinnar okkar. 

Sprengistjarnan var sú fyrsta sem sást með berum augum frá Jörðinni síðan árið 1604, áður en sjónaukar komu til sögunnar. Nálægðin var því gullið tækifæri fyrir stjörnufræðinga að rannsaka sprengistjörnur með nútímatækni.

Um tveimur klukkustundum áður en sýnilega sprengingin birtist dembdist fiseindaregn yfir Jörðina sem mældist í um það bil tíu sekúndur. Fiseindir eru öreindir sem hafa enga hleðslu og ferðast nánast óhindrað í gegnum hvað sem er og verða til í ótrúlegu magni í kjörnum sprengistjarna. Fiseindaregnið benti því til þess að kjarni stjörnunnar hefði fallið saman. 

Ljósið frá sprengistjörnunni sýndi ennfremur að hún var af gerð II (tvö) sem þýðir að stjarnan hrundi sannarlega inn í sig og hefði þá átt að myndast annað hvort nifteindastjarna eða svarthol í miðjunni.

Síðan hafa stjörnufræðingar leitað að beinum sönnunargögnum fyrir tilvist nifteindastjörnu í miðju sprengistjörnuleifinnar en fundið fátt annað en óbein merki.

Í júlí árið 2022 hóf Webb að rannsaka sprengistjörnuleifina. Litrófsmælingar sjónaukans sýndu þá sterk merki um mjög jónað eða örvað efni, til að mynda fimmjónað argon (sem þýðir að argon-atómin hafa misst fimm af átján rafeindum). 

Til þess að svo mikil jónun geti orðið þarf háorkugeislun frá heitu og þéttu fyrirbæri í miðjunni, líklegast nýfæddri nifteindastjörnu. 

Frekari rannsóknir verða gerðar á þessu ári með Webb og sjónaukum á jörðu niðri til að varpa betra ljósi á SN 1987A og aðrar kjarnahruns-sprengistjörnur. 

Greint var frá niðurstöðunum í Science.

Frétt frá ESA