Webb nær einstakri mynd af virkri myndun stjarna

Sævar Helgi Bragason 26. júl. 2023 Fréttir

Á myndinni sést hamagangurinn sem fylgur myndun tvístirnis í Herbig-Hargo 46/47

  • Herbig-Haro 46/47 á mynd Webb geimsjónaukans

James Webb geimsjónaukinn hefur fangað á mynd þann einstaka hamagang sem fylgir myndun ungra stjarna. Á myndinni sést tvístirni í fæðingu, Herbig-Haro 46/47,  í aðeins 1470 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Seglinu.

Ups_FB_cover

Stjörnurnar tvær á myndinni eru innan rauðgula blettsins í miðjunni, grafnar djúpt innan í skífu úr gasi og ryki sem nærir vöxt þeirra. Skífan sést ekki en skuggi hennar kemur fram sem tvö dökkleit, keilulaga svæði í miðjunni.

Webb er fyrsti sjónaukinn sem fangar Herbig-Haro 46/47 í svo mikilli upplausn í innrauðu ljósi. Fyrirbærið er tiltölulega ungt, aðeins nokkur þúsund ára en stjörnur eru milljónir ára að myndast. Webb hjálpar okkur þannig að rannsaka fyrstu stig stjörnumyndunar og skilja betur hvernig litlar stjörnur eins og sólin okkar urðu til.

Þegar virk stjörnumyndun stendur yfir draga stjörnur stundum til sín of mikið gas og ryk of hratt, líkt og þær séu óhemju gráðugar. Þegar það gerist verða til tveir efnisstrókar sem skaga út í geiminn eftir pólum þeirra. Við þetta hægir á snúningi stjarnanna og umhverfi hreinsast af efni. Yfir þúsundir ára ræður þessi efnisstraumur því hve massamiklar stjörnurnar verða á endanum.

Á myndinni má einnig sjá bláleitt og hálfgegnsætt ský. Þessi geimþoka er þétt gas- og rykský sem hleypir nánast engu sýnilegu ljósi í gegn en innrauð sjón Webbs sér í gegnum. Skýið hefur áhrif á þróun appelsínugulu strókanna sem stjörnurnar í miðjunni kasta frá sér. Þegar efnisstrókarnir skella á þokunni verða til ýmsar myndanir í henni.

Eftir milljónir ára klárast ferlið og stjörnurnar brjótast fram fullmótaðar. 

Bláu deplarnir með ljósbroddana (sem verða til vegna sjóntækjanna í Webb) eru stjörnur í Vetrarbrautinni okkar. Því stærri sem broddarnir eru, því nær okkur eru stjörnurnar. Í bakgrunni sést líka aragrúi fjarlægra stjarna og daufar, rauðleitar vetrarbrautir í órafjarlægð.

Herbig-Haro 46/47 á mynd Webb geimsjónaukans

Frétt frá ESA

Mynd: NASA/ESA/CSA/J. DePasquale (STSci)