Úrvalsdæmi um nálæga þyrilvetrarbraut

Sævar Helgi Bragason 08. sep. 2010 Fréttir

ESO hefur birt nýja og glæsilega ljósmynd af þyrilvetrarbrautinni NGC 300. Á henni sjást hárfín smáatriði í vetrarbrautinni sem er í um sex milljón ljósára fjarlægð.

  • ngc 300, þyrilvetrarbraut

ESO hefur birt nýja og glæsilega ljósmynd af þyrilvetrarbrautinni NGC 300. Hún líkist Vetrarbrautinni okkar og tilheyrir hópi vetrarbrauta sem kenndur er við stjörnumerkið Myndhöggvarinn. Myndin var tekin á næstum 50 klukkustundum með Wide Field Imager (WFI) í stjörnustöð ESO á La Silla í Chile. Á henni sjást hárfín smáatriði í vetrarbrautinni sem er í um sex milljón ljósára fjarlægð og þekur álíka stórt svæði á himninum og fullt tungl.

Skoski stjörnufræðingurinn James Dunlop leit vetrarbrautina augum fyrstur manna er hann var við rannsóknir í Ástralíu snemma á nítjándu öld. Hún er ein nálægasta og mest áberandi þyrilvetrarbrautin á suðurhveli himins; nógu björt til að sjást í gegnum handsjónauka. Vetrarbrautin tilheyrir fremur ógreinilegu stjörnumerki sem heitir Myndhöggvarinn (sem sést því miður ekki frá Íslandi) en í því eru tiltölulega fáar bjartar stjörnur en margar nálægar vetrarbrautir. Saman mynda þær Myndhöggvarahópinn [1]. Sjónaukar ESO hafa áður ljósmyndað aðrar vetrarbrautir í hópnum, til dæmis NGC 55 (eso0914), NGC 253 (eso1025) og NGC 7793 (eso0914). Margar vetrarbrautir hafa sín sérkenni en NGC 300 virðist einstaklega venjuleg. Hún er því tilvalinn vettvangur rannsókna á uppbyggingu og efni þyrilvetrarbrauta eins og okkar eigin.

Myndin sem hér sést var sett saman úr mörgum stökum ljósmyndum sem teknar voru í gegnum mismunandi síur með Wide Field Imager (WFI) í stjörnustöð ESO á La Sille í Chile. Í heild var lýsingartíminn nærri 50 klukkustundir en gögnum var safnað á mörgum nóttum um árabil. Megintilgangur þessara umfangsmiklu athugana er að skrásetja ítarlega stjörnur í vetrarbrautinni. Einnig á að telja bæði fjölda og fjölbreytni stjarna í henni og merkja þau svæði eða jafnvel stakar stjörnur sem gefa tilefni til frekari rannsókna. Þetta mikla gagnamagn kemur líka að ýmsum góðum notum næstu árin. Með því að ljósmynda vetrarbrautina með ljóssíum sem hleypa eingöngu í gegn ljósi frá vetni og súrefni, sjást fjölmörg stjörnumyndunarsvæði í þyrilörmum NGC 300 ákaflega vel á myndinni sem rauð og bleik ský. Sjónsvið WFI er stórt, 34 x 34 bogamínútur eða álíka breitt og sýndarstærð fulls tungls á himninum, og hentar myndavélin því vel stjörnufræðingum sem rannsaka víðfeðm fyrirbæri eins og NGC 300.

Í NGC 300 eru líka mörg áhugaverð fyrirbæri sem sjónaukar ESO hafa rannsakað. Í þessari vetrarbraut fundu stjörnufræðingar ESO nýverið fjarlægasta og eitt massamesta svarthol (með massa á við stjörnu) sem fundist hefur hingað til (eso1004). Í kringum það snýst heit og björt Wolf-Rayet stjarna. NGC 300 og önnur vetrarbraut, NGC 55, snúast hægt í áttina að hvor annari og munu renna saman í framtíðinni (eso0914). Stjörnufræðingar sem notuðu Very Large Telescope ESO í stjörnustöðinni á Paranal eiga líka, meðal annarra, besta matið á fjarlægðinni til NGC 300 (eso0524).

Skýringar

[1] Þótt vetrarbrautin sé venjulega talin tilheyra Myndhöggvarahópnum benda nýjustu fjarlægðamælingar til að NGC 300 sé nær okkur en margar aðrar vetrarbrautir í hópnum og gæti aðeins verið lauslega tengd þeim.

Frekari upplýsingar

ESO, European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 14 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og VISTA, stærsta kortlagningarsjónauka (survey telescope) veraldar. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 42 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey telescopes Press Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1037.