Bokhnoðrar

Bok Globules

  • Bokhnoðri, Bok Globule, Barnard 68
    Bokhnoðrinn Barnard 68

Bokhnoðrar eru dökkleitir því þeir gleypa í sig sýnilegt ljós. Þetta eru því gleypiþokur eða skuggaþokur. Hitastig þeirra er í kringum 10 K (~ -263°C) sem þýðir að þeir eru meðal köldustu þekktu fyrirbæra alheims. Hnoðrarnir eru fremur massalitlir, ef til vill einhvers staðar á bilinu 1 til 1000 sólmassar á svæði sem er innan við 1 til 4 ljósár eða svo á breidd. Efnið í þeim er að langmestu leyti vetni og helíum. Þrýstingurinn í Bokhnoðranum Barnard 68 er t.a.m. 40.000 milljón milljón sinnum minni en við sjávarmál á jörðinni. Þetta er engu að síður tífaldur þéttleiki miðgeimsefnisins.

Tilgáta Boks, að hnoðrarnir væru staðir stjörnumyndunar, var ekki staðfest fyrr árið 1990 þegar skyggnst var inn í þá með innrauðu ljósi. Rannsóknir hafa sýnt að í sumum hnoðrum finnast líka Herbig-Haro fyrirbæri, en það eru bjartir efnishnoðrar sem eru að þéttast og verða að stjörnu, að því er talið er.

Bokhnoðrar eru mikið rannsakaðir af stjarnvísindamönnum og telja sumir að merki hafi sést í litrófi þeirra um efni að falla inn að frumstjörnum.

Barnard 68

Barnard 68 (B68) er skuggaþoka eða Bokhnoðri í stjörnumerkinu Naðurvalda. B68 er í um 410 ljósára fjarlægð frá sólinni og svo nálægt að milli okkar og hnoðrans eru nánast engar stjörnur. Hnoðrinn er hálft ljósár í þvermál og heildarmassinn um tvöfaldur sólmassi. Hitastigið í honum er um 16 Kelvin (-257°C).

Bokhnoðri, Bok Globule, Barnard 68
Bokhnoðrinn Barnard 68. Mynd: ESO

Tengt efni

Heimildir