VY Canis Majoris (stjarna)

  • stjörnur, vy canis majoris, stærsta stjarnan
    Stjarnan VY Canis Majoris séð með Hubblessjónaukanum í sýnilegu ljósi. Mynd: NASA/ESA
Tölulegar upplýsingar
Stjörnumerki: Stórihundur
Stjörnulengd:
07klst 22mín 58,33sek 
Stjörnubreidd:
-25° 46′ 03,17″
Fjarlægð:
~ 4900 ljósár (~1500 parsek)
Litrófsflokkun:
M3-M5e Ia
Sýndarbirtustig:
+7,96
Reyndarbirtustig:
-9,4
B-V litvísir:
2,24
Sjónstefnuhraði: 49 ± 10 km/s
Massi:
~ 30-40 M
Radíus:
~ 1800-2100 R
Ljósafl: ~ 500.000 L
Yfirborðshitastig:
~ 3000°C
Tegund breytistjörnu:
Hálfregluleg, 2000 ára lota
Önnur skráarheiti:
HD 58061, HIP 35793

VY CMa er í litrófsflokki M með um 3000°C yfirborðshita. Á meginröð hefur hún verið stjarna af O-gerð með um 30 til 40 sólmassa

Stærstu sólirnar verða rauðir reginrisar þegar þær nálgast ævilok sin. Þetta gerist þegar vetnisforðinn í kjarna stjörnunnar er uppurinn. Kjarninn byrjar þá að þéttast vegna þyngdarkraftsins og ytri lög stjörnunnar þenjast út. Stjarnan verður 100 sinnum stærri og massatap verður örar. Líklegt er að VY Canis Majoris hafi þegar glatað um hálfum upphaflegum massa sínum. Dæmigert reginrisaskeið stjörnu varir í um 500.000 ár eða svo. Að lokum springur stjarnan og skilur annað hvort eftir sig nifteindastjörnu eða svarthol allt eftir því hversu massamikill kjarninn er.

Stærð

Mælingar benda til að VY Canis Majoris sé milli 1800 til 2100 sólarradíusar. Væri stjarnan í miðju okkar sólkerfis næði út fyrir braut Satúrnusar.

Til þess að gera sér þessa miklu stærð í hugarlund skulum við ímynda okkur að jörðin sé á stærð við bláber eða um einn sentímetri í þvermál. Á þessum kvarða væri sólin okkar rúmur metri í þvermál (í um 117 metra fjarlægð) en VY Canis Majoris um 2000 metrar í þvermál. 

Maður gæti haldið að stærðar sinnar vegna væri VY Canis Majoris meðal björtustu stjarna næturhiminsins. Svo er þó ekki. Stjarnan rataði fyrst í skrá franska stjörnufræðingsins Jérôme Lalande árið 1801. Þar er hún skrásett sem stjarna af sjöunda birtustigi sem þýðir að hún sést ekki einu sinni með berum augum.

Umlukin gashjúpi

Það kemur eflaust mörgum á óvart að jafn stór og björt stjarna og VY CMa skuli ekki sjást með berum augum á næturhimninum. Skýringuna er að finna miklu rykskýi sem stjarnan hefur varpað frá sér á síðustu 1000 árum og umlykur stjörnuna. Þetta rykský gleypir sýnilega ljósið sem stjarnan sendir frá sér og dregur úr birtu hennar. Skýið geislar orkunni frá sér að langmestu leyti á formi innrauðs ljóss. Athuganir með Hubblessjónaukanum og Keck sjónaukunum á Hawaii frá árinu 2006 sýna að skýið er ekki jafndreift. Það þýðir að stjarnan varpar mismiklu efni frá sér í ólíkar áttir á mismunandi tímum.

Árið 2007 rannsakaði hópur stjörnufræðinga rykskýið umhverfis VY CMa með 10 metra útvarpssjónauka á Grahamfjalli í Arizona. Í ljós kom að skýið er öflugur myndunarstaður flókinna sameinda. Í skýinu fundust merki um blásýru (HCN), kísilmónoxíð (SiO), natríumklóríð (NaCl) og fosfórnítrið (PN). Fosfórnítrið er sérstaklega áhugaverð sameind fyrir stjörnulíffræðinga. Fosfór er tiltölulega sjaldgæf sameind í alheiminum, en leikur engu að síður lykilhlutverk í öllu lífi eins og við þekkjum það. Fosfór er nefnilega að finna í kjarnsýrunum DNA og RNA og orkuefninu ATP

Myndskeiðið hér undir sýnir sólkerfið okkar í samanburði við stærðir nokkurra stjarna, þar á meðal VY CMa.

Heimildir

  1. Astronomers Map a Hypergiant Star's Massive Outburst. Hubblesite.org. Sótt 11.03.2010.