Apollo 12

Apollo 12

Spennufall í kjölfar Apollo 11

„Skál fyrir Apollo verkefninu, nú er því lokið,“ sagði geimfari nokkur, vel drukkinn, í veislunni sem Richard Nixon forseti hélt til heiðurs Apollo ellefta. Á vissan hátt var það rétt. Áskorun John F. Kennedys forseta, var að lenda manni á tunglinu og koma honum heim til jarðar aftur. Hann minntist ekkert á að fara margar ferðir til tunglsins.

Árið 1965 náðu fjárveitingar til NASA hámarki, enda stóð þá þróun á Satúrnus 5 eldflauginni, Apollo geimfarinu og tunglferjunni sem hæst. Þetta sama ár náði James Webb, þáverandi forstöðumaður NASA, að sannfæra þingið um að greiða fyrir nógu margar eldflaugar, til að fljúga allt að tuttugu Apollo ferðum, því enginn vissi hve margar ferðir þyrfti til að ná markmiði Kennedys.

Í fjögur ár hafði stöðugt verið dregið úr fjárveitingum til NASA, en margir vonuðu að þær myndu haldast nokkurn veginn fastar eftir tungllendinguna, enda vildi NASA halda könnun tunglsins áfram. Pólitíkusar voru þó á öðru máli. Haustið 1969 tilkynnti Hvíta húsið að ekki yrði veitt fé í frekari tunglferðir eftir Apollo 20.

Þótt ákvörðun Nixons hafi verið áfall fyrir NASA sáu yfirmenn hjá stofnuninni, að hægt yrði að teygja úr Apollo verkefninu og spara fé með því að senda mönnuð geimför til tunglsins tvisvar á ári. Með því gæfist líka meiri tími til að breyta hönnun tunglferjunnar þannig að hún gæti borið meiri birgðir og tækjabúnað til tunglsins, til dæmis tunglbíl.

En áður en hægt var að halda í langa rannsóknarleiðangra til tunglsins varð NASA að sýna fram á að geimfarar gætu lent nákvæmlega á fyrirfram ákveðnum stöðum, unnið lengi utandyra og gengið langar vegalengdir ef svo færi að tunglbíllinn bilaði.

Þegar Apollo 11 sneri aftur til jarðar fengu jarðfræðingar í fyrsta sinn að skoða steinana dýrmætu sem Neil og Buzz höfðu týnt upp á hafi Kyrrðarinnar. Laugardagskvöldið 26. júlí árið 1969 stóðu fimm jarðfræðingar við lofttæmisklefa í tungl-rannsóknar-stofunni í Houston og störðu spenntir á hvítan kassa. Þegar kassinn var opnaður sagði einn jarðfræðingurinn: „Hver fjárinn! Þeir líta út eins og brenndar kartöflur!“ Steinarnir voru þaktir kolsvörtu ryki svo jarðfræðingarnir gátu ekkert sagt um þá strax.

Tveimur dögum síðar höfðu fyrstu steinarnir verið þrifnir. Þá sáu jarðfræðingarnir að þeir voru basalt — eldfjallagrjót með kunnugulegum steindum sem glitruðu í ljósinu. Steinarnir voru ekki bara fallegir, heldur höfðu þeir mikla sögu að segja. Með þeim gátu jarðfræðingar svipt hulunni af leyndardómum tunglsins og fundið svör við spurningum sem mannkynið hafði lengi velt fyrir sér: Hvernig varð tunglið til og hvernig komst það þangað upp?

Stefnumót á Stormahafinu

Í nóvember 1969 bjuggu þrír geimfarar sig undir að gera ítarlegri rannsóknir á tunglinu með leiðangri Apollo 12. Þetta var fjórða mannaða geimferð NASA árið 1969 og fjórða mannaða tunglferðin — en sú metnaðarfyllsta til þessa.

Helsta markmið Apollo 12 var að lenda nákvæmlega á fyrirfram ákveðnum stað. Neil og Buzz höfðu lent Erninum nokkra kílómetra frá fyrirhuguðum lendingarstað, en ef kanna ætti áhugaverðustu staði tunglsins, var nauðsynlegt að lenda eins nákvæmlega og hægt var.

För Apollo 12 var heitið til Stormahafsins, um 1.500 kílómetra vestan við lendingarstað Apollo 11. Stormahafið var ekki beinlínis óskastaður jarðfræðinga, en heppilegur að mörgu leyti. Hann var nokkuð flatur og hafði tiltölulega fáa stóra og djúpa gíga sem gátu stefnt leiðangrinum í hættu. Geimfararnir gátu líka safnað steinum sem skotist höfðu frá stórum gíg um þrjú hundruð kílómetra til norðurs. Mikilvægast var þó, að ef Apollo 12 lenti á réttum stað, gátu tunglfararnir gengið að ómönnuðu könnunarfari, Surveyor 3, sem lent hafði ofan í litlum gíg á tunglinu í apríl árið 1967.

Áhöfn

Pete Conrad

Leiðangursstjóri áhafnar Apollo 12 var Pete Conrad. Hann var harla ólíkur flestum hinna geimfaranna — málglaður, ör, ákafur, stríðinn og hrekkjóttur en mjög viðkunnanlegur. Persónuleiki hans var eiginlega andstæðan við persónuleika Mercury geimfaranna sjö og útlitslega var hann líka öðruvísi en aðrir geimfarar, sem voru sumir eins og klipptir út úr Hollywood kvikmynd. Hann var lágvaxinn, sköllóttur, með áberandi frekjuskarð og stríðnisglampa í augum.

Pete Conrad hét réttu nafni Charles Conrad yngri, í höfuðið á föður sínum. Móðir hans vildi hins vegar gefa honum nafnið Peter og kallaði hann það, svo nafnið festist við hann.

Pete var aðeins 6 ára gamall þegar hann fékk áhuga á flugi. Í herberginu heima hjá sér bjó hann til flugstjórnarklefa úr stólum og kössum og ímyndaði sér að hann sæti við hlið Charles Lindbergh í Spirit of St. Louis.

Pete Conrad var einn þeirra sem kom til greina í Mercury geimfarahópinn, fyrsta geimfarahóp Bandaríkjanna. Hann leit á geimfarastarfið sem rökrétt skref upp á við frá tilraunaflugmennskunni og uppfyllti allar kröfur sem gerðar voru til geimfaraefnanna, en persónuleiki hans fór ekki vel í valnefndina sem hafnaði honum.

Þegar geimfaraefnin fóru í próf hjá sálfræðingum og áttu að lýsa því sem þeir sáu út úr blekklessumyndum, tók Pete Conrad heldur ólíka nálgun en félagar sínir, sem flestir svöruðu samviskusamlega. Pete ákvað að stríða sálfræðingunum með því að lýsa öllum myndunum á kynferðislegan hátt.

Daginn eftir sat Pete fyrir framan sálfræðinginn og lýsti fyrstu myndunum sem kynfærum kvenna. Síðan spann hann ýmsar sögur um pör og mann með buxurnar á hælunum.

Í lokin sýndi sálfræðingurinn honum autt spjald. Pete starði vel og lengi á spjaldið en gafst síðan upp. „Ég sé ekki hvað er á spjaldinu,“ sagði hann. „Nú, hvers vegna ekki?“ spurði sálfræðingurinn. „Vegna þess að þú heldur því á hvolfi,“ svaraði Pete alvarlegur á svip.

Dick Gordon

Besti vinur Pete Conrad var Dick Gordon og átti hann að vera flugmaður stjórnfarsins. Þeir höfðu báðir gegnt herskyldu í sjóhernum, deilt sama herbergi á flugmóðurskipi og flogið ótal mörgum sinnum saman.

Sumarið 1962 var Pete valinn í annan geimfarahóp NASA en Dick Gordon ekki. Dick var vonsvikinn en þurfti þó ekki að bíða lengi, því hann var valinn í þriðja geimfarahóp NASA ári síðar.

Dick Gordon var stór maður í samanburði við hinn smávaxna Pete Conrad. Hann var slíkur kvennaljómi að Pete kallaði hann alltaf „dýrið“ sem Dick var ekkert sérstaklega hrifinn af.

Ólíkt mörgum öðrum geimförum dreymdi Dick Gordon ekkert sérstaklega um að verða flugmaður. Hann ætlaði sér fyrst að verða prestur, síðan atvinnumaður í hafnabolta og loks tannlæknir en áður en hann gat hafið nám í tannlækningum, braust Kóreustríðið út og gekk hann þá í sjóherinn. Þar heillaðist Dick af flugi. Eftir Kóruestríðið fór hann í tilraunaflugskólann í Pax River þar sem vinur hans Pete Conrad var leiðbeinandi.

Hápunkturinn á ferli Dick Gordon hingað til voru dagarnir þrír sem hann varði með besta vini sínum  á braut um jörðina í nóvember árið 1966 í leiðangri Gemini 11. Þeir Pete og Dick tengdu geimfarið sitt við Agena burðarflaug og fór Dick síðan í geimgöngu sem endaði næstum með ósköpum. Dick var í öryggislínu en gekk illa að halda sér í geimfarið og sveif sífellt burt. Átökin voru slík, að hjartsláttur hans fór upp í 180 slög á mínútu. Hann andaði ört og augu hans urðu þrútin. Vinirnir voru logandi hræddir því útilokað var fyrir Pete að bjarga Dick og koma honum inn í geimfarið aftur. Þá hefði hann þurft að skera á línuna og skilja vin sinn eftir í dauðann.

Þegar Pete Conrad var færður yfir í Apollo verkefnið var engin spurning um að Dick færi með honum þangað. Undir öðrum kringumstæðum hefðu þeir félagarnir gengið saman á tunglinu en Deke Slayton, yfirmaður þeirra, hafði þá reglu að flugmenn stjórnfarsins og leiðangursstjórinn urður báðir að hafa reynslu af geimferð og samtengingu geimfara.

Clifton Williams

Haustið 1966 bað Deke Slayton Pete Conrad um að velja sér tunglferjuflugmann, þriðja geimfarann í áhöfnina og þann sem myndi stíga á tunglið með honum. Pete óskaði eftir að fá nýliðann Alan Bean, gamlan nemanda sinn úr tilraunaflugskólanum í Pax River, en fékk ekki, því Deke hafði skipað hann í annað í verkefni. Í staðinn valdi Pete Clifton Williams, hávaxinn og vinalegan mann sem var landgönguliði en hafði líka verið nemandi hans í Pax River. Williams var rétt yfir hæðartakmörkunum sem NASA setti, en komst naumlega inn í þriðja geimfarahópinn með því að verja nóttinni, fyrir hæðarmælinguna, í að hoppa jafnfætis síendurtekið til að þjappa hryggnum á sér saman.

Þeir Pete Conrad, Dick Gordon og Clifton Williams mynduðu varaáhöfn Apollo 9. Ef allt gengi að óskum yrðu þeir í aðaláhöfn Apollo 12, sem hugsanlega yrði fyrsta tilraunin til að lenda á tunglinu.

Pete, Dick og Clifton höfðu æft í tæpt ár þegar örlögin gripu í taumana. Þann 5. október 1967 settist Clifton upp í þotu sína til að fljúga frá Flórída til Alabama, þar sem faðir hans lá á dánarbeði. Skammt frá Tallahassee í Flórída, byrjaði flugvélin skyndilega að snúast. Hún missti afl og steyptist stjórnlaust á ógnarhraða til jarðar. Clifton náði að skjóta sér úr vélinni en hún var þá komin of lágt til að fallhlífin gæti bjargað honum. Hann lenti harkalega á jörðinni og lést.

Alan Bean

Eftir að hafa jafnað sig á áfallinu kom Pete Conrad að máli við Alan Bean. Pete spurði Bean hvort hann hefði áhuga á að koma með sér til tunglsins. Bean trúði ekki sínum eigin eyrum og var svo steinrunninn að hann kom vart upp orði.

Alan Bean eða Beano eins og Pete og Dick kölluðu hann, var harla ólíkur öllum hinum geimförunum. Hann hafði raunar alltaf skorið sig úr hvar sem hann kom við og leit heiminn öðrum augum en flestir aðrir tilraunaflugmenn. Í sjóhernum kusu félagar hans að verja frítíma sínum í að gera upp gamla bíla, eða eitthvað í þeim dúr, á meðan Bean kaus að læra myndlist. Bean hafði heillast af flugvélum á unga aldri, ekki vegna spennunnar við að fljúga, heldur vegna fegurðarinnar við flugið.

Bean var ætíð snyrtilegur til fara og brosmildur en alvörugefinn og þögull og dálítill einfari. Að minnsta kosti hafði hann hægt um sig og vann vinnuna sína betur en margir aðrir, án þess að stæra sig af því. Á meðan Pete og Dick vildu drífa hlutina af í æfingunum, vildi Alan Bean gefa sér góðan tíma í hlutina.

Eftir að hafa fengist við tilraunaflugmennsku í fáein ár setti Alan Bean sér það markmið að verða geimfari. Fyrri umsókn hans í annan geimfarahóp NASA var hafnað en ári síðar komst hann inn.

Árið 1966 fékk Bean sitt fyrsta alvöru verkefni innan NASA. Á sama tíma og allir félagar hans bjuggu sig undir geimferð, beið hans skrifstofustarf. Deke Slayton skipaði hann fulltrúa geimfaranna í Apollo Applications verkefninu, sem var fyrirhuguð geimstöð á braut um jörðina. Bean gat vart leynt vonbrigðum sínum þar sem þetta virtist gera út af við drauma hans um tunglferð. Hann lagði sig þó alltaf hundrað prósent fram, jafnvel þótt honum þættu verkefnin grútleiðinleg. Þegar Clifton Williams lést fékk hann tækifæri til að láta draum sinn rætast.

Áhöfn Apollo 12 var sennilega samheldnasta áhöfn Apollo verkefnisins. Þeir voru bestu vinir enda allir með svipaðan bakgrunn úr sjóhernum og skemmtu sér konunglega í undirbúningi ferðarinnar. Þeir keyptu sér allir gullitaða Corvette sportbíla og fengu sér einkanúmerin commander, command module pilot og lunar module pilot í takt við hlutverk þeirra í leiðangrinum.

Við æfingar í tunglferjuherminum lét Pete Conrad venjulega vel í sér heyra. Hann söng og hummaði og smjattaði svo hátt á tyggjóinu sínu, að stjórnendur þurftu að lækka í heyrnartólunum. Og ef eitthvað bilaði, eða fór úrskeiðis, blótaði hann eins og sjálfur Kolbeinn kafteinn á góðum degi.

Almannatengslafólkið hjá NASA hafði nokkrar áhyggjur af þessu, sér í lagi þegar útlit var fyrir að Pete Conrad yrði hugsanlega fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið. Flestum fannst það þó bara fyndin tilhugsun að sköllóttur og lágvaxinn, orðljótur brandarakarl með áberandi frekjuskarð yrði fyrsti maðurinn til að stíga á annan hnött.

Geimskot

Föstudaginn 14. nóvember sátu Pete, Dick og Al Bean í Apollo geimfarinu og biðu eftir geimskoti. Hjarta Beans sló ört. Þetta var hans fyrsta geimferð og þótt hann væri klæddur geimbúningnum og sæti ofnuan á Satúrnus 5 flauginni, trúði hann því varla að hann væri að fara til tunglsins.

Þennan föstudag voru óveðursský yfir Flórída og um stund var útlit fyrir að geimskotinu yrði frestað vegna veðurs. Veðrið var samt innan leyfilegra marka svo niðurtalning hélt áfram.

Örfáum sekúndum eftir flugtak tók Pete eftir ljósblossa fyrir utan geimfarið. Á sama tíma heyrðist ekkert nema suð í heyrnartólunum. Þeir fundu að geimfarið lék á reiðiskjálfi. „Hvað í fjandanum var þetta?“ kallaði hann til stjórnstöðvarinnar.

Næstum öll ljós blikkuðu í mælaborðinu. Þeir trúðu vart sínum eigun augum. Þeir höfðu enda aldrei séð svona mörg ljós blikka í einu, ekki einu sinni við æfingarnar.

Í stjórnstöðinni stóð Gerry Griffin flugstjóri og hlustaði á Pete í stjórnfarinu. Þetta var í fyrsta sinn sem Griffin stýrði tunglferð. Hann, eins og flestir aðrir, hafði ekki hugmynd um hvað gekk á og óttaðist að hætta þyrfti við geimskotið og tunglferðina.

Í stjórnstöðinni sat líka hinn 24 ára gamli John Aaron, en hann hafði umsjón með rafkerfi geimfarsins. Skjárinn hans var uppfullur af sérkennilegum talnarunum sem þýddu ekkert, en voru merki um bilun. Aaron hafði hins vegar lent í sama vandamáli við æfingarnar og vissi hvernig átti að bregðast við. Hann sá fyrir sér mælaborðið í stjórnfarinu og takkann sem geimfararnir þurftu að ýta á til að endurræsa búnaðinn. „Flugstjóri, reyndu S-C-E til Aux“ sagði hann yfirvegaður við Griffin.

Þessi takki var svo lítið notaður að hvorki Griffin né Jerry Carr, sá sem sá um fjarskiptin milli geimfaranna og stjórnstöðvarinnar, vissi hvað hann gerði eða hvar hann var á mælaborðinu. Pete Conrad hafði sömuleiðis ekki hugmynd um það.

Það vissi Alan Bean hins vegar. Hann teygði sig fram og ýtti á takkann. Tölurnar sem birtust þá á skjánum í stjórnstöðinni sýndu að siglingakerfi geimfarsins og efnarafalar höfðu farið úr sambandi og að geimfarið gengi fyrir rafhlöðum stjórnfarsins. Þær voru hins vegar nauðsynlegar fyrir heimkomuna til jarðar.

Eldflaugin þaut samt áfram til himins. Hvað sem gerst hafði, hafði það ekki nein áhrif á eldflaugina. Stjórnstöðin bað Bean um að endurræsa efnarafalana en hann var tregur til því hann vissi ekki hvað hafði gerst.

Þegar fyrsta þrep flaugarinnar losnaði frá og annað þrepið tók við, kallaði Pete til Houston: „Ég er ekki viss, en við gætum hafa orðið fyrir eldingu.“

Og það reyndist rétt. Þegar eldflaugin tókst á loft, laust tveimur eldingum í flaugina, fyrst rétt rúmri hálfri mínútu eftir flugtak og aftur rétt um 20 sekúndum síðar.

Þegar Bean endurræsti efnarafalana, hættu ljósin að blikka eitt af öðru. Siglingabúnaðurinn var enn í ólagi en þeir myndu laga það á braut um jörðina.

Þegar mesti hasarinn var búinn skríkti Pete eins og skólastelpa og uppskar hlátur félaga sinna. Þeir skellihlógu alla leið út í geiminn.

Ferðin til tunglsins

Þegar Apollo 12 hringsólaði um jörðina höfðu menn áhyggjur af því að eldingin kynni að hafa skemmt búnað í geimfarinu og best væri að hætta við tunglferðina.

Fyrsta mál á dagskrá var að kanna öll kerfi geimfarsins. Allt leit vel út en endurstilla þurfti siglingakerfið út frá stjörnunum sem tókst naumlega í tæka tíð.

Í Houston óttuðust menn að eldingarnar hefðu skemmt sprengibolta í stjórnfarinu sem opnuðu fallhlífarnar. Ef svo væri, væri áhöfnin hvort sem er dauðadæmd, svo því ekki að leyfa þeim að fara bara til tunglsins. Áhöfnin var reyndar ekki látin vita af þessum möguleika.

Tæpum tveimur og hálfri klukkustund eftir geimskot voru stjórnendur búnir að ganga úr skugga um að allt væri í lagi og að Apollo 12 væri óhætt að ferðast til tunglsins.

Lendingin

Ferðin til tunglsins var tíðindalítil en eftir rúma þrjá daga fór Apollo 12 á braut um tunglið. Rétt rúmum sólarhring síðar komu Pete Conrad og Al Bean sér fyrir í tunglferjunni Intrepid, kvöddu Dick Gordon og hófu að lækka flugið.

Þegar Pete hóf lokaaðflug, sá hann lendingarstaðinn á Stormahafinu í fyrsta sinn og var heldur betur kátur.

http://www.youtube.com/watch?v=Xbj8Zo053Lc [1:50]

Tunglferjan stefndi beint ofan í Surveyor gíginn, lendingarstaðinn fyrirhugaða. Hann sá góðan stað við vesturbrún Surveyor gígsins og lækkaði flugið hægt og rólega uns snertiljósið kviknaði í mælaborðinu og slökkti þá á hreyflinum. Menn voru lentir á tunglinu í annað sinn.

Eftir lendingu fengu Pete og Al sér að borða og bjuggu sig undir fyrri tunglgönguna af tveimur. Á meðan flaug Dick Gordon yfir lendingarstaðinn í stjórnfarinu og reyndi að koma auga á tunglferjuna með sjónauka. Michael Collins hafði aldrei séð Örninn á tunglinu og því vissu menn lengi vel ekki hvar Neil og Buzz höfðu lent. Gordon vissi hins vegar upp á hár hvert hann átti að horfa. Um leið og hann kom auga á Surveyor gíginn, sá hann langan skugga tunglferjunnar.

„Ég sé hann,“ sagði Gordon og vísað til Pete. „Hann er á Surveyor gígnum… Ég skal segja ykkur það, hann er það eina sem varpar löngum skugga þarna niðri.“

Fáeinum sekúndum síðar leyndi spenningurinn sér ekki: „Ég sé Surveyor! Ég sé Surveyor! Hey! Þetta er næstum jafngott og að vera þarna niðri!“

Pete Conrad og Alan Bean höfðu lent á hárréttum stað.

Fyrri tunglgangan

Tæplega fimm klukkustundum eftir lendingu var komið að Pete Conrad að verða þriðji maðurinn í sögunni til að stíga fæti á tunglið. Hann opnaði lúguna, kraup og fikraði sig aftur á bak niður stigann. Mun minni pressa var á Pete og Al en Neil og Buzz, svo allt var á léttari nótum. Pete þurfti ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því að segja eitthvað stórbrotið og sögulegt.

Nokkrum mínútum síðar varð Alan Bean fjórði maðurinn í sögunni til að marka sín spor á tunglinu. Eitt fyrsta verk hans var að taka sjónvarpsmyndavélina af hlið tunglferjunnar, festa hana á þrífót og færa hana, svo áhorfendur heima í stofu gætu fylgst með þeim spígspora um tunglið.

Þegar Bean færði myndavélina, beindi hann henni óvart að sólinni og eyðilagði sólarljósið myndatökubúnaðinn. Myndin hvarf af skjánum. Bean varði nokkrum mínútum í að reyna að lagfæra myndavélina og reyndi meðal annars að berja hana með hamri, en ekkert gekk. Þess vegna eru nánast engar sjónvarpsupptökur til af dvöl þeirra Pete og Al á tunglinu.

Þremur klukkustundum eftir að tunglgangan hófst höfðu Pete og Al sett upp öll mælitæki og hófu að kanna jarðfræði Stormahafsins. Þeir skemmtu sér svo vel, að Houston varð að skipa þeim nokkrum sinnum að halda aftur inn í tunglferjuna þegar tíminn var á þrotum.

Fyrri tunglgangan stóð yfir í rétt um fjórar klukkustundir. Eftir hana komu þeir sér fyrir í tunglferjunni, tóku af sér hjálmana og hanskana en ákváðu að reyna að sofa í búningunum. Eftir að hafa fengið sér borða, drógu þeir fyrir glugga tunglferjunnar og óskuðu Houston góða nótt, þótt sólin myndi reyndar ekki setjast frá Stormahafinu fyrr en tíu dögum síðar.

Pete steinsofnaði en Al Bean svaf ekkert sérstaklega vel, þótt núna væru hengirúm í tunglferjunni til að þeir gætu komið sér betur fyrir.

Seinni tunglgangan

Eftir stutta stund vöknuðu þeir og bjuggu sig undir seinni tunglgönguna. Sú átti í raun að vera jarðfræðiferð. Þeir áttu að ganga milli gíga og enda við suðurbrún Surveyor gígsins, þar sem Surveyor tunglkanninn stóð um tvö hundruð metra frá tunglferjunni.

Pete var mikið mun að halda áætlun í seinni göngunni. Gallinn var bara sá að það var svo margt áhugavert að sjá og skoða en svo lítill tími til þess.

Þegar þeir komu að Surveyor geimfarinu sáu þeir hvernig það hafði skoppað og runnið til við lendinguna. Þeir sáu að geimfarið, sem var upprunalega skjannhvítt, var orðið ljósbrúnt af ryki sem hafði þyrlast upp þegar tunglferjan lenti daginn áður og borist alla leið yfir á Surveyor.

Pete og Al skoðuðu Surveyor í um 40 mínútur. Við Surveyor höfðu þeir hugsað sér að taka skemmtilega ljósmynd. Þeir smygluðu tímastilli fyrir myndavélina með sér og ætluðu að nota hann til að taka mynd af sér, hlið við hlið, við hliðina á Surveyor geimfarinu. Þegar myndin yrði framkölluð myndu menn væntanlega klóra sér vel í kollinum yfir því hvernig sú mynd var tekin. Að lokum fundu þeir ekki tímastillinn svo ekkert varð úr þessari skondnu mynd.

Eftir aðra tunglgönguna höfðu Pete og Al samanlagt dvalið í 7 klukkustundir og 45 mínútur utandyra. Þeir höfðu uppfyllt öll markmið leiðangursins og sýnt fram á, að hægt var að lenda tunglferjunni nákvæmlega á fyrirhuguðum lendingarstað og að geimfarar gætu vel unnið í yfir fjórar klukkustundir án þess að þreytast. Þeir sögðu þó að það hefði verið gott að geta fengið sér vatnssopa og smá snarl og jafnvel kerru eða hugsanlega bíl til að hlaða af grjóti.

Heimferðin

Fimmtudaginn 20. nóvember stóðu Pete og Al hlið við hlið í tunglferjunni og bjuggu sig undir geimskot frá tunglinu. Al var stressaður fyrir þessa stund en Pete var sjálfsöryggið uppmálað. Þrjátíu og einni klukkustund eftir lendingu var flugtaksþrepið ræst og Pete og Al skutust burt frá Stormahafnu.

Það var glaður flugmaður stjórnfarsins sem tók á móti félögum sínum stuttu síðar. Hann neitaði þeim reyndar um inngöngu í stjórnfarið því þeir voru svo skítugir og skipaði þeim að afklæðast. Pete og Al svifu því naktir úr tunglferjunni yfir í stjórnfarið. 

Þann 21. nóvember lagði Apollo 12 af stað heim til jarðar. Þremur dögum síðar, mánudaginn 24. nóvember féll geimfarið í gegnum lofthjúpinn og lenti á Kyrrahafinu, skammt frá flugmóðurskipinu Hornet sem hafði líka sótt áhöfn Apollo 11.

Eftir tunglferðina færði Deke Pete Conrad og Alan Bean yfir í Apollo Applications verkefnið, sem þá var um það bil að vera nefnt Skylab. Pete stýrði fyrsta leiðangrinum til Skylab geimstöðvarinnar og dvaldi þar í 28 daga en Bean stýrði öðrum leiðangrinum þangað og dvaldi þar í 59 daga sem var heimsmet. Dick Gordon var gerður að leiðangursstjóra varaáhafnar Apollo 15, svo ef allt gengi upp myndi hann ganga á tunglinu í leiðangri Apollo 18.

Þann 8. júlí 1999 lenti Pete Conrad í mótorhjólaslysi. Í fyrstu var talið að meiðsli hans væru minniháttar en innvortis blæðingar drógu hann til dauða sex klukkustundum síðar. Alan Bean og DIck Gordon eru enn á lífi og hefur Bean getið sér gott orð sem listamaður.

Við heimkomuna fór undirbúningur á fullt fyrir næsta leiðangur, Apollo 13, sem fyrirhugað var að skjóta á loft í apríl 1970.