Apollo 13

Laugardaginn ellefta apríl árið 1970 - hófst geimferð Apollo þrettánda eins og hver önnur tunglferð. Þetta var fimmta för Bandaríkjamanna til tunglsins en fáir höfðu haft áhuga á að fylgjast með geimskotinu og enn færri með ferðinni til tunglsins, svo sjónvarpsstöðvar sýndu ekki einu sinni frá beinum útsendingum úr geimfarinu. Meira að segja stjórnendur í Houston höfðu meiri áhuga á hafnaboltaleik en félögum þeirra í geimnum.

Ef allt gengi upp áttu þeir Jim Lovell, leiðangursstjóri, og Fred Haise, flugmaður tunglferjunnar, að lenda tunglferjunni Aquarius eða Vatnsberanum, í jaðri eins af hálendissvæðum tunglsins, nálægt gígnum Fra Mauro, miðvikudaginn 15. apríl og dvelja þar í tvo daga í fyrstu raunverulegu vísindaferðinni til tunglsins.

Þriðji geimfarinn í áhöfninni, flugmaður stjórnfarsins Ódysseifs, var nýliðinn Jack Swigert. Hann var upphaflega í varáhöfninni en kom óvænt inn í aðaláhöfnina í stað Ken Mattingly, aðeins tveimur dögum fyrir geimskot.

Innan við viku fyrr hafði annar geimfarið í varaáhöfninni, Charlie Duke, smitast af rauðum hundum frá þriggja ára dreng sem var gestkomandi á heimili hans. Áður en einkennin komu fram hafði Duke umgengist alla í aðal- og varaáhöfninni svo töluverð hætta var á smiti. Teknar voru blóðprufur úr geimförunum sem sýndu að Jim Lovell og Fred Haise voru ónæmir en Ken Mattingly ekki. Læknir geimfaranna lagði til við Deke Slayton og aðra yfirmenn hjá NASA, að Mattingly yrði kyrrsettur í tíu daga sem þýddi að hann myndi ekki fljúga til tunglsins.

Tveir möguleikar voru í stöðunni. Að fresta geimskotinu um mánuð eða skipta Mattingly út fyrir Jack Swigert. Jim Lovell var alls ekki ánægður með þess lausn, ekki vegna þess að hann treysti ekki Swigert — Swigert var frábær flugmaður og fullfær um að skila góðu verki — heldur var erfitt að skipta einum út fyrir annan þegar áhöfnin hafði æft saman í langan tíma. Áður en Lovell samþykkti breytingarnar vildi hann prófa Swigert.

Tveimur dögum fyrir geimskot fóru geimfararnir þrír inn í stjórnfarsherminn og dvöldu þar í tólf klukkustundir. Augljóst var að Swigert kunni sitt fag og þegar prófinu var lokið, samþykkti Lovell breytinguna.

Þetta var reyndar ekki eina breytingin sem gerð var á áhöfn Apollo 13. Upphaflega hafði Deke Slayton lagt til við stjórnendur NASA, að áhöfn Apollo 13 yrð skipuð þeim Alan Shepard, fyrsta Bandaríkjamanninum sem fór í geimferð, Stuart Roosa og Edgar Mitchell. Shepard hafði ekki verið í geimfaraþjálfun um árabil vegna sjúkdóms í eyra, svo yfirmenn hjá NASA höfnuðu tillögu Slaytons því þeir töldu að Shepard þyrfti meiri tíma til æfinga. Í staðinn skipti Slayton um áhafnir á Apollo 13 og Apollo 14. Áhöfn Jim Lovells, sem átti að fljúga Apollo 14, varð þannig aðaláhöfn Apollo 13 en áhöfn Alan Shepards flygi Apollo 14.

Sprenging

Framan af gekk tunglferðin eins og í sögu. Reyndar bilaði einn eldflaugahreyfillinn í öðru þrepi Satúrnus 5 flaugarinnar við geimskot en það kom ekki að sök. Apollo 13 fór á braut um jörðina og tók stefnuna til tunglsins. Sólarhring eftir flugtak var stefnu geimfarsins breytt til að laga braut þess og eftir það var útilokað fyrir geimfarana að komast sjálfkrafa til jarðar eftir eina ferð um tunglið, eins og verið hafði í fyrri tunglferðum. Fyrri tunglferðir höfðu tekist svo framúrskarandi vel að ekki var talin þörf á að slá slíkan varnagla.

Þetta gjörbreyttist skömmu eftir að beinu sjónvarpsútsendingunni lauk aðfaranótt þriðjudagsins 14. apríl, fimmtíu og fimm klukkustundum eftir geimskot. Stjórnendur í Houston báðu þá Swigert um að hræra í súrefnisgeymum þjónustufarsins. Með því var hægt að mæla nákvæmlega hve mikið súrefni væri eftir í geymunum. Um leið og Swigert ýtti á hnappinn heyrðist hvellur. Ódysseifur hristist til og frá og geimfararnir litu undrandi hver á annan. Fjarskipti rofnuðu, tölvan var í vandræðum og viðvörunarljós blikkuðu sem sýndu að spenna hafði fallið í rafkerfi geimfarsins. Lovell tilkynnti Houston að alvarlegur vandi væri á höndum.

„Houston, we've had a problem!“
http://www.youtube.com/watch?v=1e4fYb-zwdE

Bilun hefur orðið í rafmagnskerfi Apollos þrettánda. Yfirmenn bandarísku geimferðastofnunarinnar hafa ákveðið að hætta við tungllendinguna og beinist nú öll athygli sérfræðinga að því að ná geimförunum þremur: Jim Lovell, Jack Swigert og Fred Haise heilum á húfi til jarðar. – Fyrir rösklega einni klukkustund ræstu geimfararnir hreyfil tunglferjunnar til að komast á braut umhverfis tunglið, en á þeirri braut komast þeir til jarðar aftur.

Það sem gerir ástandið í Apollo enn alvarlegra er að leki hefur komið að súrefnisgeymum og streymir súrefni út í geiminn. Snemma í morgun urðu Lovell og Haise að fara inn í tunglferjuna vegna súrefnisskorts. Rúm er fyrir tvo menn í tunglferjunni. Hægt er að þrengja þriðja manni inn í ferjuna en það verður ekki gert nema í ýtrustu nauðsyn.

Ekki er vitað hvað biluninni olli. Skyndilega heyrðu geimfararnir hvell og rautt neyðarljós kviknaði. Ein kenning sérfræðinga er sú, að loftsteinn hafi skollið á geimfarinu.

Erfiðasta verkefnið í bili er að ná Apollo inn á rétta braut til jarðar. Vísindamenn hafa ekki ákveðið ennþá, hvort förinni til jarðar verður flýtt eins og hægt er, en þá verður geimfarið að lenda á Atlantshafi. Því hafði ekki verið gert ráð fyrir og þar er því engin viðbúnaður, en bandarískir sérfræðingar eru nú að kynna sér, hvaða skip geta verið á hugsanlegum lendingarstað Apollos. Ef geimfarið verður látið lenda á Kyrrahafi verður það níu klukkustundum síðar en hugsanleg lending á Atlantshafi.

Áður en geimfarið kemur aftur inn í gufuhvolfið verða geimfararnir tveir í tunglferjunni að fara aftur inn í sjálft geimfarið, þar sem tunglferjan verður glóandi, þegar hún kemur inn í gufuhvolfið.
– Frétt Ríkisútvarpsins 15. apríl 1970

Yfirmenn geimferðaáætlunar Bandaríkjamanna eru bjartsýnir um að unnt verði að ná Apollo til jarðar án þess að geimfarana þrjá saki. Sem stendur er ekki ástæða til að óttast um neitt og geimfararnir hafa tekið bilununum með stillingu.

Stjórnendur í Houston vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Flugstjórinn Gene Kranz og starfsmenn  hans reyndu allt sem þeir gátu til að hjálpa en ekkert gekk. Mælar sýndu líka að súrefnisbirgðirnar færu þverrandi og þegar Lovell leit út um gluggann, blasti við honum skelfileg sjón:

„We are wenting something out into space“.

Súrefni streymdi úr þjónustufarinu. Súrefnið var ekki aðeins nauðsynlegt til að halda lífi, heldur til þess að framleiða rafmagn í stjórnfarinu og ræsa hreyfil geimfarsins til að komast aftur heim til jarðar.

Þegar fjarskiptasamband komst aftur á varð ljóst að súrefni og rafmagn frá þjónustufarinu myndu aðeins endast í um 15 mínútur. Ódysseifur var að deyja og útilokað var að lenda á tunglinu. Nú var markmiðið eitt að koma geimförunum heim. Geimfararnir klæddust geimbúningum sínum í skyndi og hófu örvæntingafulla tilraun til að bjarga lífi sínu. Skyndilega beindust augu heimsbyggðarinnar að tunglferðinni.

Tunglferð breytist í björgunarleiðangur

Í Houston og víðar um Bandaríkin fór allt á fullt. Þúsundir sérfræðinga hjá NASA og verkfræðistofunum sem unnu við Apollo verkefnið, þurftu að finna leiðir til að halda geimförunum á lífi.

Gene Kranz skipaði geimförunum að ræsa tunglferjuna en það var vandasamt verk sem var venjulega gert í rólegheitunum á braut um tunglið. Þótt tunglferjan hefði sínar eigin súrefnisbirgðir, rafkerfi, tölvu og eldflaugar, var slökkt á öllu fyrir geimskot til að spara rafhlöðurnar í ferjunni. Geimfararnir höfðu aðeins fimmtán mínútur til að vekja tunglferjuna úr dvala en það tók venjulega nokkra klukkustundir. Á meðan Lovell og Haise ræstu tunglferjuna, slökkti Swigert á Ódysseifi.

Í fyrstu leit ekki vel út að nota tunglferjuna sem björgunarbát sem Lovell. Haise og Swigert myndu sigla heim. Tunglferjan var ekki hönnuð fyrir slíkt. Í tunglferjunni voru nægar birgðir til að halda tveimur mönnum á lífi í 45 klukkustund en nú varð að finna leið, til að halda þremur mönnum á lífi í tvöfalt lengri tíma. Vandamálið var ekki súrefnisskortur — í tunglferjunni voru nægjar birgðir af súrefni — heldur var vandamálið rafmagn. Til að komast heim varð að spara rafhlöðurnar í tunglferjunni og slökkva á næstum öllum kerfum hennar.

Rætt var um að nota lendingarþrep tunglferjunnar til að snúa við og halda heim á leið strax. Hætt var við það því menn óttuðust að eldflaugahreyfill ferjunnar myndi hreinlega ekki ná að snúa geimfarinu fullkomlega við. Þess vegna var ákveðið að nota hreyfil tunglferjunnar til að leiðrétta brautina og láta Apollo 13 fara á braut í kringum tunglið sem kæmi geimförunum sjálfkrafa heim á ný.

Sjötíu og sjö klukkustundum eftir geimskot, innan við sólarhring eftir sprenginguna, sveif Apollo 13 á bak við tunglið. Haise og Swigert störðu dolfallnir á hrjóstrugt og stórskorið landslag tunglsins út um gluggann. Lovell hafði séð þetta áður þegar hann fór tíu hringi í kringum tunglið með Apollo 8 tæpu einu og hálfu ári áður. Lovell og Haise voru vonsviknir að fá ekki að lenda og stíga á tunglið, – en að minnsta kosti voru þeir á leið heim.

Geimfararnir í Apollo þrettánda virðast hafa sigrast á flestum erfiðleikum í bili. Þeir ræstu goshreyfla tunglferjunnar í nótt og gerðu síðari breytinguna á farbraut geimskipsins, sem á að tryggja að þeir lendi á Kyrrahafi á föstudag kl. 18 að íslenzkum tíma. Tveir geimfaranna eru jafnan í tunglferjunni og einn í stjórnfarinu. – Er Haise var við störf í stjórnfarinu í nótt, skýrði hann svo frá að hann hefði orðið var við frekari gasleka í hinu skaddaða birgðarfari. Þetta þarf þó ekki að hafa aukna hættu í för með sér fyrir geimfarana. Á tímabili var kolsýrumagn í lofti geimfarsins orðið of mikið. Lofthreinsunartæki voru þá sett í gang og er kolsýrumagnið nú orðið eðlilegt. – Ýtrasta sparnaðar er gætt í notkun súrefnis og vatns en geimfararnir eiga líf sitt undir því að þessi notkun verði innan tiltekinna marka.

Í Bandaríkjunum bíða menn með eftirvæntingu eftir fréttum af Apolló en bilunin á geimskipinu hefur verið mikið áfall fyrir bandarískan almenning sem taldi tunglferðir vera orðnar vandalausar. Fjöldi manns var á Times-torgi í New York í kvöld að fylgjast með fréttum og fyrstu eintökin af kvöldblöðunum voru keypt upp á auga bragði. - Öldungadeild Bandaríikjaþings hefur beðið Bandaríkjamenn að biðja fyrir geimförunum. Yfirmenn í Houston segja að takizt að halda því ásandi sem náð er óbreyttu eigi geimfararnir að komast lífs af.
– Frétt Ríkisútvarpsins 15. apríl 1970

Allt var nú undir því komið að tunglferjan brygðist ekki en dvölin í henni var heldur nöturleg. Þar sem slökkt var á rafkerfinu var enginn hiti lengur í ferjunni svo erfitt var að hvílast. Hitastigið lækkaði ört og fór niður undir frostmark þegar verst lét. Geimfararnir klæddu sig í öll föt sem þeir höfðu um borð og voru í þrennum nærfötum. Eini hitinn kom frá sólinni þegar hún lýsti inn um litlu gluggana á ferjunni, en þegar hún skein í andlit geimfaranna var enn erfiðara að sofna og gáfust fljótlega upp á því.

Mikill raki var líka í loftinu sem settist á glugga, mælaborðið og veggi geimfarsins. Í tunglferjunni var ekkert heitt vatn til að hita upp og væta mat svo þeir borðuðu mjög lítið á heimleiðinni. Vatnið var líka frosið svo þeir gátu ekki drukkið neitt. Fred Haise varð fárveikur og geimfararnir allayer stundum pirraðir í tilsvörum, skiljanlega.

Heimkoma

Föstudagsmorguninn 17. apríl sveif Jack Swigert inn í frosið stjórnfarið á ný og bjó geimfarið undir lendingu. Haise og Lovell gengu frá tunglferjunni og komu sér síðan fyrir hjá Swigert. 138 klukkustundum eftir geimskot var þjónustufarið losað frá stjórnfarinu. Jim Lovell hafði besta útsýnið þegar farið sveif burt:

„There's a whole side of that spacecraft missing!“

Þremur stundum síðar var búið að ræsa stjórnfarið, sem nú gekk fyrir rafhlöðum, og loka lúgunni milli þess og tunglferjunnar. Tunglferjan var losuð frá og kvöddu geimfararnir björgunarbátinn með dálitlum söknuði.

„Vertu sæll Vatnsberi og við þökkum þér fyrir,“ sagði Jim Lovell.
„Hann var sannarlega gott skip,“ heyrðist þá veikum rómi í Haise.
„Þakka þér fyrir,“ sagði Swigert.

Stundarkorni síðar byrjaði Ódysseifur að falla í gegnum lofthjúpinn og fjarskipti rofnuðu.

Venjulega var stjórnfarið sambandslaust í um 3 mínútur en eftir að sá tími var liðinn heyrðist ekkert frá geimförunum. Fyrir heimkomu óttuðust sumir að hitaskjöldurinn hefði laskast við sprenginguna. Ef svo væri, kæmi gat á geimskipið og það brynni upp í lofthjúpnum.

Önnur löng mínúta leið en ekkert heyrðist.

Þá birtist skyndilega merki í stjórnstöðinni sem benti til að stjórnfarið hefði staðist ferðalagið af.

„Ódysseifur, Houston, við bíðum,“ kallaði Joe Kerwin, sem stýrði samskiptunum við geimfarið á þessum tímapunkti en ekki Ken Mattingly eins og í kvikmyndinni um Apollo 13.

Stjórnfarið birtist á sjónvarpsskjánum í Houston þar sem það sveif niður í átt að Kyrrahafinu. Geimfararnir voru komnir heim eftir sex sólarhringa í geimnum.

Gríðarlegur fögnuður braust út. Margir hágrétu af gleði, ekki aðeins í stjórnstöðinni heldur líka fólk úti á götu sem fylgdist snortið með beinu útsendingunni frá lendingunni. Í huga margra var þetta glæstasta stund NASA. Þótt tunglferðin hefði misheppnast tókst að bjarga lífi geimfaranna þrátt fyrir hrikalega erfiðar aðstæður

Bandaríska geimfarið Apollo þrettándi lenti á Kyrrahafi í kvöld klukkan 18:07 að íslenzkum tíma í sex og hálfs kílómetra fjarlægð frá flugvélaskipinu Iwo Jima. Lendingin tókst að öllu leyti ágætlega. Milljónir manna víða um heim gátu fylgst með lendingunni í sjónvarpi vegna þess að geimfarið lenti svo nálægt flugvélaskipinu. Greinilega sást þegar það sveif niður til jarðar í þremur rauðum fallhlífum. Þegar geimfararnir losuðu tækjafarið frá stjórnfarinu í gær sáu þeir, að ein hlið tækjafarsins hafði rifnað af. Var gat á farinu, rösklega fjögurra metra langt og tæplega tveggja metra breitt.

- Klukkan 17:53 kom kom Apollo þrettándi inn í gufuhvolf jarðar - nákvæmlega á tilsettum tíma. Stuttu seinna rofnaði fjarskiptasambandið við geimfarið, en síðan tilkynnti Lovell, fyrirliði gemfaranna, að allt gengi að óskum.

- Talið er, að 600 milljónir manna hafi fylgzt með lendingunni í sjónvarpi og er talið, að aldrei áður hafi svo margir sjónvarpsnotendur fylgzt með sömu sjónvarpsdagskrá. Tass-fréttastofan sovézka briti frétt um lendinguna nokkrum mínútum eftir að Apollo sveif niður á Kyrrahaf.

- Nokkrum mínútum eftir að geimfarið lenti á sjónum voru þyrlur komnar að því og froskmenn úr einni þyrlunni festu gummíhring utan um geimfarið. Eftir stutta stund var hlerinn á geimfarinu opnaður og geimfararnir komu út hver á eftir öðrum og fóru í björgunarbát. Veður var ágætt á lendingarsvæðinu. Eftir hálfa klukkustund frá því að geimfarið lenti var Haise geimfari dreginn upp í eina þyrluna, þá Swigert og loks Lovell. Geimfararnir voru við góða heilsu, þegar þeir komu um borð í flugvélaskipið, en voru mjög þreyttir. Þeir fengu að síma til fjölskyldna sinna, áður en læknisskoðun hófst. Á morgun flytur þyrla geimfarana til Pago Pago höfuðstaðar Samóaeyja og ætla eyjaskegggjar að fagna þeim með söng og dansi.

Heillaskeyti hafa streymt víðs vegar að um allan heim til geimvísindastöðvarinnar í Houston í Texas og til Nixons Bandaríkjaforseta vegna lendingar Apollos þrettánda. Nixon Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að næsti sunnudagur skuli helgaður þakkarbænum vegna lendingarinnar og forsetinn ætlar að sæma geimfarana æðsta heiðursmerki Bandaríkjanna fyrir afrekið. Athöfnin fer fram á Hawaii-eyjum.

– Mikil hátíðahöld eru í Houston og um borð í flugvélaskipinu Iwo Jima. Þar hafði verið bökuð terta sem vóg næstum 150 kílógrömm og fengu allir sjóliðar og fréttamenn um borð sneið af kökunni.

Dr. Thomas Paine, yfirmaður bandarísku geimvísindastofnunarinnar, sagði í dag, að Bandaríkjamenn myndu halda geimferðum ótrauðir þótt ferð Apollos þrettánda hefði mistekizt. Talið er ólíklegt að Apollo fjórtándi verði sendur til tunglsins fyrr en vísindamenn hafa gengið úr skugga um hvað olli biluninni í Apollo þrettánda.
– Frétt Ríkisútvarpsins 17. apríl 1970

Um leið og Apollo 13 lenti á Jörðinni voru allir frekari Apollo leiðangrar settir í bið. Thomas Paine. forstöðumaður NASA, skipaði rannsóknarnefnd sem kannaði hvað fór úrskeiðis og lagði fram tillögur um endurbætur en Neil Armstrong var fulltrúi geimfaranna í nefndinni. Nefndin komst fljótt að þeirri niðurstöðu að mannleg mistök og hönnunargallar höfðu leitt til slyssins. Skammhlaup varð í rafleiðslum sem orsakaði sprengingu í einum af súrefnisgeymum geimfarsins.  Þótt ástandið hefði verið mjög slæmt, var lán í óláni að það skildi ekki hafa verið enn verra. Hefði sprengingin orðið eftir lendingu, hefði áhöfnin aldrei komist aftur til heim.

Ken Mattingly veiktist aldrei þvert á það sem læknarnir óttuðustu. Eftir leiðangur Apollo 13 var Mattingly skipaður flugmaður stjórnfars í áhöfn Apollo 16 með John Young sem leiðangursstjóra og Charlie Duke sem flugmann tunglferjunnar. Sú ferð var fyrirhuguð árið 1972.

Fred Haise átti að fá annað tækifæri til að ganga á tunglinu. Deke Slayton gerði hann að leiðangursstjóra Apollo 19 en vegna niðurskurðar var sú áhöfn aldrei kynnt opinberlega. Sumarið 1970 var ljóst að ekki fengist fé fyrir Apollo 18 og Apollo 19.

Fyrir leiðangurinn hafði Jim Lovell tilkynnt að hann hygðist hætta sem geimfari eftir Apollo 13. Tungllendingin átti að vera kórónan á glæstum ferli þessa reyndasta geimfara NASA á þeim tíma. Lovell var fyrsti maðurinn til að fara í fjórar geimferðir, fyrsti maðurinn til að ferðast tvisvar til tunglsins og eini maðurinn sem fór í tvær tunglferðir, án þess að ganga á tunglinu. Lovell skrifaði bók um Apollo 13 ásamt öðrum og lá hún til grundvallar kvikmyndinni um leiðangurinn sem frumsýnd var árið 1995.

Jack Swigert fór aldrei aftur í geimferð. Deke Slayton vildi ekki gera Jack það að senda hann aftur til tunglsins án þess að hann myndi ganga á því. Swigert tók sér leyfi frá NASA árið 1973 og var skipaður stjórnarformaður nefndar á vegum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um vísindi og tækni. Hann hætti formlega hjá NASA árið 1977.

Árið 1982 bauð Swigert sig fram til öldunga-deilda-þings fyrir repúblikana í Coloradoríki og var kjörinn. Á sama tíma greindist hann með krabbamein sem í fyrstu virtist læknanlegt en síðan kom í ljós að það hafði dreifst í bein hans og lungu. Hann lést 27. desember 1982, átta dögum áður en hann átti að hefja þingstörf.

Um hálfu ári eftir tunglförina, fimmtudaginn 1. október 1970, kom áhöfn Apollo 13 í opinbera heimsókn til Íslands að beiðni Nixons forseta. Þeir sóttu meðal annars sinfóníutónleika og færðu Íslendingum tunglstein.

Eftir för Apollo 13 lögðu ráðgjafar Nixons til að hætt yrði við frekari tunglferðir, því annað slys gæti skaðað hann pólitískt. Nixon var ekki sannfærður og ákvað að skera ekki niður Apollo 14, 15 og 16. Ástæðan var ekki sú að hann hefði svo mikinn áhuga á könnun tunglsins, heldur hreyfst hann af hetjum. Nixon áleit geimfarana hetjur og hetjur voru góðar fyrir þjóðina.

Næstu tunglferð var slegið á frest en í þeirri átti önnur bandarísk hetja, Alan Shepard, fyrsti Bandaíkjamaðurinn sem fór út í geiminn, að verða fimmti maðurinn í sögunni til að stíga fæti á tunglið.