Stjörnusjónaukar

 • Stjörnusjónaukar
  Stjörnusjónauki

Áður en lengra er haldið er rétt að minnast örfáum orðum á handsjónauka. Hefðbundinn handsjónauki (8x42 eða 7x50) er stórlega vanmetið byrjunartæki. Best er að kynnast næturhimninum, læra stjörnumerkin og sjá björtustu djúpfyrirbærin með vönduðum handsjónauka.

Fyrir hver jól senda stórverslanir og leikfangabúðir út bæklinga sem auglýsa stjörnusjónauka sem sagðir eru geta „stækkað 600 sinnum!“ Stækkunin sem gefin er upp í þessum auglýsingum er ómögulegt að ná með ódýrum sjóntækjum. Að þessu komast allir að sem kaupa þessa sjónauka. Þessar auglýsingar eru mjög villandi og ætti að forðast þessi leikföng út í ystu æsar. Stjörnuáhugamenn komast fljótt að því að það er margt annað sem skiptir máli við stjörnuskoðun en stækkun.

Góður sjónauki þarf að uppfylla tvö skilyrði. Hann verður að hafa hágæða sjóntæki og hvíla á góðu sjónaukastæði. Flestir vilja eignast stóran sjónauka en mikilvægt er að einfalt sé að flyja hann milli staða og að hann sé þægilegur í uppsetningu. Sjónauki á ekki eða vera svo fyrirferðamikill að ekki sé unnt að bera hann út, setja upp og taka niður á fljótlegan og einfaldan hátt. Besti sjónaukinn er sá sem er mest notaður.

Við kaup á stjörnusjónauka er mikilvægt að hafa búsetu og áhugasvið í huga. Slæm lýsing er mikið vandamál innan borgar- og bæjarmarka, sérstaklega fyrir þá sem vilja skoða dauf fyrirbæri eins og þokur og vetrarbrautir. Stjörnuáhugamaður verður að spyrja sig hvað hún eða hann vill, hvort mestur áhugi sé á tunglinu og reikistjörnum, fjarlægari fyrirbærum eða stjörnuljósmyndun. 

Mikilvæg hugtök

linsusjónauki, lithreinn, sjónaukastæði
Orion 80mm lithreinn linsusjónauki á þýsku sjónaukastæði. Þetta er kjörinn sjónauki fyrir lengra komna og þá sem vilja reyna fyrir sér í stjörnuljósmyndun. Mynd: Stjörnufræðivefurinn

Allir sjónaukar, stórir sem smáir, hafa það markmið að safna ljósi og beina því í brennipunkt þannig að hægt sé að skoða mynd í smáatriðum í gegnum augngler eða á ljósmynd.

Markmið sjónauka er með öðrum orðum ekki að stækka fyrirbærin eins og margir halda heldur að safna ljósi. Raunar er stækkunin fjarri því að vera mikilvægasti þáttur sjónaukans. Sjónaukar sýna daufari og smærri fyrirbæri en augað greinir vegna þess að þeir safna meira ljósi en augað. Fín smáatriði verða sýnileg vegna þess að hægt er að stækka fyrirbærin þegar ljóssöfnunin er meiri.

Hugtökin sem stundum eru notuð til þess að lýsa sjónaukum og myndavélum geta oft á tíðum verið mjög ruglandi. Þau mikilvægustu eru:

 • Ljósop – Ljósopið (aperture) er þvermál ljóssöfunarlinsu eða spegilsins í sjónaukanum. Ljósopið er mikilvægasti þáttur sjónaukans vegna þess að ljóssöfnun er megintilgangur sjónauka. Því stærra sem ljósopið er, því meira ljósi safnar sjónaukinn. Því meira ljósi sem sjónaukinn safnar, því daufari fyrirbæri og fínni smáatriði sjást. Ljósopið er samt ekki það eina sem máli skiptir. Gæði sjóntækjanna, speglanna og/eða linsanna, er jafnvel mikilvægari. Ef þú átt sjónauka með stórt ljósop en léleg sjóntæki er líklegt að myndin sé ekki góð.

  Á sjónaukum er stærð ljósopsins oftast gefin upp í tommum og/eða millímetrum. Þegar sagt er að sjónauki hafi 150mm (6 tommur) ljósop þýðir það að linsan eða spegillinn í honum er 150mm í þvermál.

  Sjónaukar með stórt ljósop eru yfirleitt dýrari, þyngri og ómeðfærilegri en smærri sjónaukar.

 • Brennivídd – Brennivídd (focal length) er vegalengdin eða fjarlægðin sem ljósgeislinn ferðast frá linsu eða spegli að þeim punkti þar sem myndin er í fókus. Því lengri sem sjónaukinn er, því lengri er brennivíddin. Því lengri sem brennivíddin er, því stærri er myndin sem verður til í brennifletinum og því meira stækkar sjónaukinn.

  Brennivídd sjónauka er mæld í millímetrum. Sumir sjónaukar hafa aukaspegil (secondary mirror) sem beygir ljósið meira og lengir brennivíddina án þess þó að lengja sjónaukann sjálfan. Dæmi um þetta má sjá í Schmidt-Cassegrain sjónauka og Newtonssjónauka. Sex tommu Newtonssjónauki, sem er um 1,2 metrar að lengd, hefur 1200mm brennivídd á meðan jafnstór Schmidt-Cassegrain sjónauki hefur 150mm brennivídd þótt túban sjálf sé einungis 40 cm að lengd.

 • Brennihlutfall – Brennihlutfall (focal ratio), einnig þekkt sem f/hlutfall, er samband ljósopsins og brennivíddarinnar. Brennihlutfall sjónauka fæst með því að deila brennivídd sjónaukans með þvermáli ljósopsins. Linsusjónauki með 1000mm brennivídd og 100mm ljósop hefur þannig brennihlutfallið 1000/100 = 10. Brennihlutfall þessa sjónauka er þá sagt f/10.

  Brennihlutfallið segir til um breidd sjónsviðs sjónaukans. Því lægra sem brennihlutfallið er, því víðara er sjónsviðið. Þannig hefur f/5 sjónauki talsvert víðara sjónsvið en f/10 sjónauki sem er gott þegar skoða á gisin fyrirbæri eins og stjörnuþyrpingar, en ekki jafn mikill kostur þegar skoða á reikistjörnurnar. Brennihlutfallið f/5 segir svo aftur að brennivídd þessa sjónauka er stutt á meðan f/10 sjónaukinn hefur langa brennivídd.

 • Birtumörk – Birtumörk sjónauka segja til um hve dauf fyrirbæri sjónaukinn er fær um að greina. Birtumörk sjónauka eru í réttu hlutfalli við stærð ljósopsins. Með því er átt við að því stærra sem ljósopið er, því daufari fyrirbæri er unnt að greina. Þannig getur sjónauki með 200mm ljósop (8 tommur) greint mun daufari fyrirbæri en sjónauki með 100mm ljósop.

 • Mesta gagnlega stækkun – Mesta gagnlega stækkun sjónauka segir til um hversu háa stækkun sjónaukinn getur náð án þess að tapa myndgæðum. Hve mikið sjónauki getur stækkað er háð stærð ljósopsins og brennivíddinni. Eftir því sem ljósopið er stærra og brennivíddin lengri, þeim mun auðveldar má ná hámarksstækkun sjónaukans. Hámarksstækkun vandaðs 80mm sjónauka er í kringum 180-föld á meðan hámarksstækkun 200mm sjónauka er um það bil 400-föld. Hámarksstækkun er alltaf háð aðstæðum hverju sinni.

Linsusjónaukar

linsusjónauki
Þverskurðarmynd af dæmigerðum linsusjónauka. Ljósið fer í gegnum safnlinsu sem beinir því í brennipunkt. Augngler er síðan sett í skáspegil sem stækkar myndina.

Dæmigerður linsusjónauki (e. refractor) er langur og mjór og inniheldur linsur sem safna ljósi og beina því brennipunkt. Linsa í linsusjónaukum situr oftast stillt og föst í sjónaukatúbunni og þarfnast því lítils viðhalds. Helsti kostur linsusjónauka er sá möguleiki að nota hann sem útsýnissjónauka þar sem myndin í honum er upprétt á meðan hún er öfug í spegilsjónauka. Þetta gerir þér kleift að skoða fugla, náttúruna eða njósna um nágrannana; hvað það er sem þú ert spennt(ur) fyrir. Linsusjónaukar líta ennfremur út eins og alvöru sjónaukar og eru stundum mjög fallegir í útliti, nokkuð sem eiginkonan nú eða eiginmaðurinn gæti mögulega samþykkt sem stofustáss.

Allar tegundir stjörnusjónauka hafa sína kosti og galla. Góðir linsusjónaukar eru þekktir fyrir að skila hnífskarpri og kristaltærri mynd en hafa þann galla að vera mjög dýrir. Linsusjónaukar hafa betri skerpu (contrast) en spegilsjónaukar því enginn aukaspegill er fyrir ljósopi þeirra sem dregur úr skerpunni.

Linsusjónaukar skiptast að grunni til í tvennt, ólita og lithreina, nokkuð sem ef til vill er auðveldara að muna sem ódýra og dýra.

 • linsusjónauki, ólita, achromatic
  AstroMaster 70mm ólita linsusjónauki frá Celestron. Ólita linsusjónaukar eru gjarnan langir og mjóir. Þetta er kjörinn byrjandasjónauki fyrir fólk á öllum aldri. Mynd: Stjörnufræðivefurinn

  Ólita linsusjónaukar (achromat) – Ólita linsusjónaukar eru ódýrari tegundin af þessum tveimur og líklegast þeir stjörnusjónaukar sem langflestir byrjendur eignast fyrst. Þannig eru 60 eða 70mm ólita linsusjónaukar sennilega algengastu byrjendasjónaukarnir. Flestir vandaðir ólita linsusjónaukar gefa skarpa mynd en helsti ókosturinn við þá er það sem kallast litskekkja (e. chromatic aberration).

  Litskekkja kemur fram sem blár eða fjólublár hjúpur í kringum björt fyrirbæri eins og tunglið og reikistjörnurnar. Litskekkjan verður til þegar linsurnar í sjónaukanum beina ekki ljósgeislanum í heild sinni í einn og sama brennipunktinn sem er aftast í sjónaukanum. Ljósgeislinn tvístrast mismikið þannig að rauða, græna og bláa bylgjulengd geislans fellur ekki á sama flöt eða í brennipunkt sjónaukans. Linsurnar eru þannig úr garði gerðar að rauði og blái hluti ljósgeislans fellur í sama brennipunkt en græna ljósið ekki. Augu okkar eru næmust fyrir grænu ljósi (sérstaklega á næturnar) en þar sem græni liturinn fellur ekki í sama brennipunkt og rauði og blái liturinn verður til litskekkja.

  Ólita linsusjónaukar hafa oftast langa brennivídd og hátt brennihlutfall (f/11 eða meira). Það þýðir að sjónsvið þeirra er þröngt en myndin skörp og auðvelt að auka stækkunina með þeim. Ólita linsusjónaukar henta þar af leiðandi ekki vel til þess að skoða víðfeðm fyrirbæri eins og lausþyrpingar og stórar vetrarbrautir, en eru góðir þegar skoða á tunglið og reikistjörnurnar.

  Litskekkja fer í taugarnar á sumum á meðan aðrir læra að lifa við hana, þótt hægt sé að draga úr henni með því að fjárfesta í síu sem dregur úr eða eyðir litskekkjunni. Þetta getur verið kostur fyrir þá sem vilja ekki verja háum fjárhæðum í lithreinan linsusjónauka.

 • lithreinn linsusjónauki, apochromatic
  66mm lithreinn linsusjónauki úr Ferrari-línunni frá William Optics. Sjónauki eins og þessi hefur mjög vandaðar linsur og er hægt að nota bæði í fuglaskoðun og stjörnuskoðun og getur einnig nýst sem ljósmyndalinsa. Mynd: Stjörnufræðivefurinn

  Lithreinir linsusjónaukar (apochromat) – Lithreinir linsusjónauka – kallaðir APO – hafa bestu myndgæði allra stjörnusjónauka en geta aftur á móti verið mjög dýrir miðað við stærð ljósopsins og eru í raun dýrasta tegund stjörnusjónauka. Algengt er að litlir lithreinir linsusjónaukar (60 til 150mm) kosti allt að nokkur hundruð þúsund krónur.

  Dýrir og vandaðir lithreinir linsusjónaukar eru frábærir í að skoða reikistjörnurnar og stór djúpfyrirbæri vegna þess hve ótrúlega skarpir og tærir þeir eru. Þeir skara ennfremur fram úr þegar kemur að stjörnuljósmyndun en algengt er að færustu stjörnuljósmyndarar heims noti fjögurra eða fimm tommu linsusjónauka í stjörnuljósmyndun vegna þess hve fjölhæfir slíkir sjónaukar eru. Í gegnum þá myndast engin litskekkja og oftar en ekki er búið vinna linsurnar þannig að þær leiðrétta flesta þá hnökra sem koma fram í öðrum sjónaukategundum.

  Lithreinir linsusjónaukar hafa oftast tiltölulega stutta brennivídd og lágt brennihlutfall. Það þýðir að sjónsvið þeirra er nokkuð vítt sem gerir þá kjörna til þess að skoða víðfeðm fyrirbæri á borð við lausþyrpingar og stórar vetrarbrautir og styttir um leið lýsingartímann í stjörnuljósmyndun.

  Hafa ber í huga að vandaðir linsusjónaukar eru venjulega dýrari miðað við hverja tommu ljósopsins en spegilsjónaukar. Hámarksstærð þeirra takmarkast af miklum kostnaði og tæknilegum erfiðleikum við að hanna og slípa hágæða gler sem ná ákjósanlegri litaleiðréttingu. Þótt dýrir og vandaðir lithreinir linsusjónaukar skili fallegustu myndunum geta þeir ekki greint jafn dauf fyrirbæri og stærri spegilsjónaukar vegna minna ljósops.

Ætti ég að fjárfesta í linsusjónauka? Ef þú ert byrjandi í leit að alhliða sjónauka til að skoða náttúruna og stjörnuhiminninn er linsusjónauki ótvírætt besti kosturinn. Ef þú aftur á móti hefur ekki hug á að skoða náttúruna færðu mest fyrir minnst ef þú fjárfestir í góðum spegilsjónauka, helst 6 til 8 tommu Dobsonssjónauka. Fyrir lengra komna sem vilja bestu mögulegu myndgæðin, í bæði sjónskoðun og ljósmyndun, er ekki hægt að biðja um nokkuð betra en hágæða linsusjónauka.

Spegilsjónaukar

Newton spegilsjónauki
Þverskurður af hefðbundum Newton-spegilsjónauka.

Spegilsjónaukar nota spegla í stað linsa til þess að safna ljósi og beina því í brennipunkt. Í hefðbundnum spegilsjónauka er aðalspegillinn íhvolfur, svokallaður holspegill (concave parabolic mirror) sem safnar ljósi og beinir því að flötum aukaspegli ofarlega í túbunni sem varpar ljósgeislanum út, á stað þar sem þægilegt er að horfa í gegnum sjónaukann. Spegilsjónaukar eru alltaf opnir og er aðalspegillinn á botni túbunnar. Hitauppstreymi frá speglinum og loftstreymi inn í túbuna geta haft áhrif á myndgæðin í spegilsjónaukum andsætt linsusjónaukum sem eru lokaðir.

Í spegilsjónaukum myndast ekki litskekkja eins og í ódýrari linsusjónaukum. Þetta þýðir að myngæði vandaðs spegilsjónauka er oft á tíðum betri en í ódýrum en vönduðum ólita linsusjónaukum. Spegilsjónaukar eru þess utan ódýrari miðað við stærð ljósopsins en linsusjónaukar sem þýðir í raun að þú færð meira fyrir færri krónur, þ.e.a.s. stærri sjónauka fyrir lægri upphæð. Helsti ókosturinn við spegilsjónauka er sá að myndin í gegnum þá er spegluð eða öfug (á hvolfi) og því henta þeir fremur illa til þess að skoða náttúruna eða nágrannana. Þegar kemur hins vegar að stjörnuskoðun er erfitt að finna betri sjónauka en spegilsjónauka, sérstaklega þegar miðað er við verð.

Annar ókostur við spegilsjónauka miðað við linsusjónauka er meira viðhald. Túba spegilsjónaukanna er opin og því berst ryk og skítur á spegillinn með tímanum sem þarf að hreinsa. Athugaðu samt að hreinsa spegilinn eins sjaldan og unnt er og helst ekki nema hann sé orðinn verulega skítugur. Fyrir utan þetta er spegillinn ekki fastur í túbunni eins og linsan í linsusjónaukum. Spegillinn getur því hreyfst og skekkst með tímanum og þá þarf að spegilstilla sjónaukann. Sé spegilsjónauki illa spegilstilltur verða myndgæðin léleg.

Til eru nokkrar tegundir spegilsjónauka en sú algengasta er Newtonssjónauki.

 • Newtonssjónaukar – Newtonssjónaukar er algengasta tegund spegilsjónauka og sú tegund sem er hvað vinsælust meðal byrjenda; kenndir við manninn sem fann þá upp árið 1668, Ísak Newton. Þeir eru oftast ódýrasta tegund sjónauka sé miðað við stærð ljósopsins. Ef Newtonssjónaukar eru vel smíðaðir og innihalda góða spegla geta þeir skilað frábærum björtum og skörpum myndum af tunglinu, reikistjörnunum og djúpfyrirbærum. Og þar sem Newtonssjónaukar eru oftast með stórt ljósop er ekki af ástæðulausu að þeir eru meðal vinsælustu áhugamannasjónaukanna, enda frábærir í sjónskoðun.

  Eitt vandamál sem gæti komið upp ef sjónaukarnir eru hraðir (innan við f/5) er svokölluð hjúpskekkja (e. coma). Hjúpskekkjan lýsir sér þannig að stjörnurnar í jaðri sjónsviðsins verða ílangar en ekki stakir punktar eins og þær ættu að vera. Þá virðist sem myndin sé ekki alveg í fókus. Í ljósmyndun þarf að leiðrétta þetta með sérstökum búnaði.

  Stærsta vandamálið við Newtonssjónauka í stjörnuljósmyndun er takmörkuð fókusvegalengd. Ástæðan er sú að Newtonssjónaukar eru hugsaðir fyrir sjónskoðun. Ef fókusvegalengd sjónaukans er of stutt eða löng næst ekki fókus þegar taka á ljósmyndir. Til þess að sporna við þessu vandamáli grípa menn oft til þess ráðs að færa spegilinn ofar í túbuna.

Ætti ég að fjárfesta í spegilsjónauka? Ef þú ert byrjandi í leit að besta byrjandasjónaukanum er erfitt að misstíga í að kaupa Newtonssjónauka. Ef þú hefur ekki áhuga á útsýnisskoðun og hyggst ekki spreyta þig mikið á ljósmyndun er vart til betri sjónauki fyrir peninginn en spegilsjónauki. Fjárfestu í eins stórum spegilsjónauka og mögulegt er, helst 6 eða 8 tommu á Dobsonstæði. Það eru bestu kaupin fyrir alla byrjendur.

Linsu- og spegilsjónaukar

Schmidt-Cassegrain
Þverskurðarmynd af Schmidt-Cassegrain sjónauka. Líkt og í linsusjónauka fer ljósið fer í gegnum (leiðréttingarlinsu) og lendir á aðalspeglinum í botni sjónaukans. Þaðan fer ljósið upp í aukaspegil sem varpar ljósinu út úr sjónaukanum. Augngler er síðan sett í skáspegil sem stækkar myndina

Þriðja tegund stjörnusjónauka eru svokallaðir linsu- og spegilsjónaukar (e. catadioptics) en það eru allir þeir sjónaukar sem innihalda bæði linsu og spegil. Í þessari tegund er aðalspegill á botni túbunnar sem safnar ljósinu og beinir því að aukaspegli sem endurvarpar því út um gat á botni túbunnar. Fremst í þessum sjónaukum – þeim hluta sjónaukans sem beinist til himins – er leiðréttingarlinsa (e. corrector plate) sem leiðréttir skekkjur í sjóntækjunum sem annars kæmu fram.

Vinsælasta tegund þessarar sjónaukagerðar eru Schmidt-Cassegrain sjónaukar en þar á eftir koma Maksutov-Cassegrain sjónaukar.

 • Schmidt-Cassegrain – Í Schmidt-Cassegrain sjónaukum fer ljósið fyrst í gegnum þunna Schmidt eikúlulinsu (e. aspheric corrector lens) efst í sjónaukatúbunni og safnast í holspegil sem endurvarpar ljósinu upp í aukaspegil sem varpar ljósinu niður í gegnum gat á aðalspeglinum í brenniflöt. Eikúlulinsan leiðréttir skekkjur í holspeglinum sem annars sæjust greinilega. Þetta fyrirkomulag veldur því einnig að Schmidt-Cassegrain sjónaukar hafa langa brennivídd þótt túban sjálf sé mjög stutt, oft meira en helmingi styttri en sambærilega stór Newtonssjónauki. Þess vegna geta Schmidt-Cassegrain sjónaukar haft stórt ljósop og langa brennivídd en samt verið mjög meðfærilegir.

  Löng brennivídd Schmidt-Cassegrain sjónaukana auðveldar manni að stækka almennilega tunglið og reikistjörnurnar, þó innan stækkunarmarka sjónaukans sem ákvarðast af þvermáli ljósopsins. Schmidt-Cassegrain sjónaukar eru venjulega fremur hægir (f/10) og hafa því nokkuð þröngt sjónsvið. Þeir eru engu að síður kjörnir til þess að skoða djúpfyrirbæri eins og daufar stjörnuþokur, kúluþyrpingar og vetrarbrautin vegna þess að ljósopið er stórt. Hraðir linsusjónaukar og spegilsjónaukar henta aftur á móti betur til að skoða gisnari fyrirbæri.

  Annar kostur við Schmidt-Cassegrain sjónaukana er sá möguleiki að geta breytt brennihlutfallinu umtalsvert og auðveldað þannig stjörnuljósmyndun, hvort sem er af reikistjörnunum – nokkuð sem þarfnast mikillar stækkunar – eða djúpfyrirbærum sem krefst hraðara brennihlutfalla. Þannig er auðvelt að breyta Schmidt-Cassegrain sjónauka úr f/10 í f/20, f/30 eða jafnvel f/40 með Barlow-linsum fyrir myndatöku af reikistjörnunum; eða hraða kerfinu niður í f/6,3 eða jafnvel f/3,3 með sérstökum focal reducer.

  Schmidt-Cassegrian sjónaukar eru meðaldýrir og kosta venjulega eitthvað á milli verða Newtonssjónauka og dýrari lithreinna linsusjónauka. Á sama tíma eru þeir fjölhæfari en báðar hinar tegundirnar, þó ekki eins góðir í stjörnuljósmyndun og lithreinir linsusjónaukar. Þessir sjónaukar eru yfirleitt alltaf á rafdrifnum og tölvustýrðum stæðum, hvort sem er á þýsku stæði eða gaffalsstæði.

 • Maksutov-Cassegrain – Maksutov-Cassegrain sjónaukar eru keimlíkir Schmidt-Cassegrain sjónaukum. Þeir nota samskonar aðal- og aukaspegil en leiðréttingarlinsan er mun þykkari, þyngri og skálarlagaðri en sú sem er í Schmidt-Cassegrain sjónaukum. Stærri leiðréttingarlinsa veldur því að Maksutov-Cassegrain sjónaukar eru oftast nær lengur að kólna en Schmidt-Cassegrain sjónaukar.

  Maksutov-Cassegrain sjónaukar hafa venjulega hærra brennihlutfall en Schmidt-Cassegrain sjónaukar eða í kringum f/12 til f/15 á móti f/10. Sjónsvið þeirra er þar af leiðandi þrengra en í Schmidt-Cassegrain sjónaukum, en á móti kemur að þeir gefa skarpari mynd. Maksutov-Cassegrain sjónaukar henta þess vegna frábærlega til að skoða tunglið, reikistjörnurnar og björt tvístirni. Ljósop þeirra er ennfremur oftar en ekki minna en Schmidt-Cassegrain sjónauka og það, ásamt þröngu sjónsviðið, gerir þá að síðri kosti til að skoða djúpfyrirbæri og í stjörnuljósmyndun.

Ætti ég að fjárfesta í linsu- og spegilsjónauka? Ef þú ert byrjandi og vilt fá sitt lítið af hverju, meðfærileika og langar til þess að skoða bæði reikistjörnur og djúpfyrirbæri, ásamt því að prófa þig áfram í stjörnuljósmyndun, er Schmidt-Cassegrain sjónauki góður kostur. Hann er eina tegund stjörnusjónauka sem hægt er að nota í næstum hvað sem er. Þótt myndirnar í gegnum hann verði ekki eins kristaltærar og skarpar eins og í gegnum lithreinan linsusjónauka hefur hann oftast stærra ljósop fyrir talsvert lægri upphæð. Þess vegna eru Schmidt-Cassegrain sjónaukar vinsælustu áhugamannasjónaukarnir á markaðnum í dag.

Sjónaukastæði

Stjörnusjónauki er svo til ónothæfur ef hann hvílir ekki á góðu sjónaukastæði. Sjónaukastæðið er nefnilega alveg jafn mikilvægt og gæði sjónaukans sjálfs. Ef sjónaukastæðið er lélegt er lítið hægt að nota góðan stjörnusjónauka. Til eru tvær grunntegundir af sjónukastæðum, lóðstillt (e. altazimuth) annars vegar og pólstillt (e. equatorial) hins vegar.

 • Pólstillt sjónaukastæði – Á pólstilltum sjónaukastæðum eru tveir ásar sem hreyfast í tvær áttir; norður-suður og austur-vestur (stjörnulengd og stjörnubreidd). Pólstillt stæði eru samsíða snúningsási jarðar og því hægt að fylgja eftir hreyfingu himinsins sé stæðið rafdrifið. Flest pólstillt stæði eru svokölluð þýsk-pólstillt sjónaukastæði og þekkjast á því að þau notast við mótvægislóð til þess að jafnvægisstilla sjónaukann á stæðinu. Þýsku sjónaukastæðin eru mjög meðfærileg vegna þess að þau er hægt að taka saman í nokkrum hlutum sem auðveldar flutning milli staða. Þess vegna geta stór sjónauki á þýsku stæði verið mjög meðfærilegur.

  Þýsk sjónaukastæði er besti kosturinn fyrir þá sem hyggjast taka stjörnuljósmyndir af öllu tagi og vinsælustu stæðin meðal stjörnuljósmyndara. Þau eru aftur á móti flóknari í notkun en lóðstilltu stæðin þegar kemur að sjónskoðun.

 • Lóðstillt sjónaukastæði – Lóðstillt sjónaukastæði (e. altazimuth) færast upp og niður og frá vinstri til hægri. Hefðbundinn haus á þrífæti er gott dæmi um þessa tegund sjónaukastæða. Raunar er stöðugur og góður þrífótur oft frábært stæði fyrir litla og létta sjónauka. Lóðstillt stæði eru venjulega léttari en pólstilltu sjónaukastæðin, meðal annars vegna þess að þau krefjast ekki mótvægislóða fyrir sjónaukann.

  Gott dæmi um lóðstillt sjónaukastæði er Dobson-stæðið. Dobson-stæði er sáraeinfalt og þægilegt í notkun, fyrir utan það að vera mjög stöðugt og hagkvæmt. Stærstu spegilsjónaukarnir eru venjulega á Dobson-stæði. Dobson-stæði eru einföldustu og þægilegustu stæðin fyrir alla byrjendur en eru sjaldnast tölvustýrð eða rafdrifin.

  Annað dæmi um lóðstillt sjónaukastæði eru svokölluð gaffalsstæði (e. fork mount). Gaffalsstæði geta bæði verið hálf og heil, það er að segja haft tvo arma og einn arm. Gaffalsstæði eru oftast nær tölvustýrð og rafdrifin og því góður kostur fyrir byrjendur þótt skekkjur í drifinu komi í veg fyrir að taka megi mjög góðar stjörnuljósmyndir með þeim. Algengast er að Schmidt-Cassegrain sjónaukar sitji í gaffalsstæðum.

Venjulega tekur örfáar mínútur að setja upp og stilla sjónauka á pólstilltu sjónaukastæði á meðan hægt er að setja upp sjónauka á lóðstilltu Dobson-stæði á fáeinum sekúndum.

Ætti ég að fjárfesta í pólstilltu stæði eða lóðstilltu stæði? Ef þú hefur það helst að markmiði að taka stjörnuljósmyndir með góðum stjörnusjónauka er rafdrifið þýskt pólstillt stæði langbesti kosturinn fyrir þig. Ef þú hefur aftur á móti mestan áhuga á að skoða eingöngu stjörnuhiminninn mælum við með stórum spegilsjónauka á Dobson-stæði vegna þess hve einfalt og þægilegt það er í notkun. Ef þú hins vegar kýst þægindin umfram annað, dreymir um að skoða reikistjörnurnar í mikilli stækkun, langar til að spreyta þig í stjörnuljósmyndun og vilt láta sjónaukann um að finna fyrirbærin fyrir þig er tölvustýrt gaffalsstæði (hálft eða heilt) besti kosturinn.

Fylgihlutir

Margir sem fjárfesta í góðum stjörnusjónauka gleyma oft að fjárfesta líka í góðum fylgihlutum, til dæmis augnglerjum, síum, leitarsjónaukum og stjörnukortum. Góðir fylgihlutir gera góðan stjörnusjónauka betri.

 • Augngler - Af öllum fylgihlutum eru augngler (e. eyepieces) mikilvægust. Augnglerin eru nauðsynleg því þau framkalla myndina úr ljósinu sem sjónaukinn safnar. Augnglerin ráða bæði stækkuninni sem notuð er og stærð sjónsviðsins. Með því að skipta um augngler breytist stækkunin og sjónsviðið víkkar eða þrengist.

  Augngler eru til í fjölmörgum stærðum og gerðum. Með flestum sjónaukum fylgja eitt eða tvö augngler en best er að eiga að minnsta kosti þrjú til fjögur augngler sem stækka mismikið. Mikill hagur er í að eiga eitt augngler sem stækkar lítið, annað með meðalstækkun og það þriðja sem gefur mikla stækkun. Gott augngler kostar á bilinu 5.000 til 30.000 kr en verðið er að sjálfsögðu háð gæðum glersins. Augnglerin eru dýrari eftir því sem fleiri linsur eru í þeim.

  Brennivídd augnglerja er gefin upp í millímetrum. Því hærri sem millímetratalan er, því minni er stækkunin og öfugt. Þannig stækkar augngler með 25mm brennivídd talsvert minna en augngler með 10mm brennivídd. Á móti kemur að 25mm augnglerið hefur víðara sjónsvið og bjartari mynd en 10mm augnglerið.

  Hvaða augngler henta þér best ræðst að mestu leyti á sjónaukanum og þér sjálfri/sjálfum. Mundu að vanda valið þegar kemur að því að kaupa augngler og ekki hika við að fá ráðleggingar frá öðrum.

 • Síur - Góðar síur geta skipt sköpum þegar verið er að skoða dauf fyrirbæri á himninum. Með síum má draga fram smáatriði í reikistjörnum eða stjörnuþokum sem ella sæjust illa eða alls ekki. Margir stjörnuáhugamenn fjárfesta í nokkrum tegundum af síum, sem hver þjónar sínum tilgangi. Má þar til dæmis nefna sólarsíu svo unnta sé að skoða hana með öruggum hætti; tunglsíu til þess að draga úr birtu tunglsins og skerpa á smáatriðum og loks litsíum til þess að draga fram smáatriði á reikistjörnum.

 • Leitarsjónaukar og miðarar - Leitarsjónaukar og miðarar eru vanmetin verkfæri í stjörnuskoðuninni og raunar er það svo að stjörnuáhugamenn verða fyrst varir við gagnsemi þeirra þegar þeir gleyma leitarsjónaukunum heima. Án leitarsjónauka tekur mun lengri tíma að miða á þau fyrirbæri sem þú ætlar að skoða. Með flestum sjónaukum fylgir annað hvort leitarsjónauki með krosshárum eða upplýstur miðari.

 • Stjörnukort - Í upphafi hvers mánaðar gefum við út nýtt stjörnukort mánaðarins hér á Stjörnufræðivefnum. Með kortinu fylgir leiðarvísir um himininn sem miðast aðallega við byrjendur en ætti að gagnast þeim sem eru lengra komnir. Einnig er til handbók sem nefnist Íslenskur stjörnuatlas sem hefur reynst mörgum vel við að læra á himininn. Í bókinni er vísað á 53 stjörnumerki sem sjást frá Íslandi og ýmis fyrirbæri sem gaman er að skoða. Í bókinni er fjöldi góðra stjörnukorta með sjtörnum niður í sjötta birtustig. Með bókinni fylgir stjörnuskífa þar sem sést hvernig næturhimininn ber fyrir á öllum tímum ársins. Aðrar kortabækur eins og Sky Atlas 2000.0 þjóna betur þeim sem vilja skoða daufari fyrirbæri. Ef þú átt stjörnukort skaltu muna að fá þér vasaljós sem gefur frá sér rautt ljós.

 • Hugbúnaður - Góður stjörnufræðihúgbúnaður getur reynst ómetanlegt hjálpartæki í stjörnuskoðunina. Við mælum sérstaklega með Stellarium, sem er ókeypis stjörnufræðiforrit á íslensku.

Gott er að verða sér úti um nýleg hefti af stjörnufræðitímaritum eins og Sky & Telescope og Astronomy þar sem sjónaukar og fylgihlutir eru prófaðir. Einnig er mjög gott að leita til reyndari stjörnuáhugamanna. Ein besta og gagnlegasta leiðin er að ganga í Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og leita ráða hjá félögum sem margir hverjir eru afar reyndir. Á hverju ári stendur félagið fyrir stjörnuteitum í samstarfi við Stjörnufræðivefinn þar sem félagsmenn mæta með sjónaukana sína, bera þá saman og njóta þess að vera úti undir stjörnubjörtum himni. Þeir sem hafa áhuga á því að fá fréttir af viðburðum geta skráð sig á póstlista neðst á síðunni.

Hvar fást góðir stjörnusjónaukar?

Á Íslandi er Sjónaukar.is umboðsaðili helstu framleiðanda vandaðra stjörnusjónauka (Celestron, SkyWatcher, Orion og William Optics).

Ef þú ert byrjandi á leið að kaupa þinn fyrsta stjörnusjónauka skaltu vera tilbúin(n) að verja að minnsta kosti yfir 20.000 krónum í sjónaukann sjálfan. Þó má finna ágæta stjörnusjónauka undir þessu verði sem duga vel til þess að skoða hringa Satúrnusar og björtustu djúpfyrirbærin. Hafði í huga að góð fjárfesting skilar sér í ótal ánægjustundum í mörg ár á eftir.

Sýndu þolinmæði því það kostar tíma og vinnu að læra á sjónaukann og kynnast fyrirbærum næturhiminsins. Ekki vera hrædd(ur) um að biðja um hjálp og mundu að besti sjónaukinn er sá sem mest er notaður.

Góðir stjörnusjónaukar á góðu verði fyrir byrjendur

 • SkyWatcher Astrolux 76 — 76mm ljósop, 700mm brennivídd, f/9,2 spegilsjónauki á lóðstilltu stæði (góð kaup)

 • SkyWatcher Skyhawk-114 —114mm ljósop, 1000mm brennivídd, f/9 spegilsjónauki á þýsku stæði 

 • SkyWatcher Explorer-130 — 130mm ljósop, 900mm brennivídd, f/6,9 spegilsjónauki á þýsku stæði 

 • SkyWatcher Skyliner-150P 150mm ljósop, 1200mm brennivídd, f/8 spegilssjónauki á Dobson-stæði (mestu meðmæli, bestu kaupin

 • SkyWatcher Skyliner-200P 200mm ljósop, 1200mm brennivídd, f/5,9 spegilssjónauki á Dobson-stæði (mestu meðmæli, bestu kaupin

 • Celestron NexStar 130 SLT 130mm ljósop, 650mm brennivídd, f/5 spegilssjónauki á tölvustýrðu gaffalsstæði

Flestir ofangreindir sjónaukar eru spegilssjónaukar með nokkuð stórt ljósop sem eru kjörnir í að sýna byrjendum flest öll þau fyrirbæri sem gaman er að skoða á himninum. Orion SkyQuest sjónaukarnir fá okkar mestu meðmæli þess hve einfaldir og þægilegir þeir eru í notkun og líka vegna þess hve ódýrir þeir eru miðað við stærð ljósopsins. Ennfremur fylgja þeim mjög góðir fylgihlutir. Hægt er að fá mótordrifnar og tölvustýrðar útfærslur af nokkrum þessara sjónauka en við mælum ekki endilega með því.

Ef þú veist ekki hvað þú vilt er kjörið að senda fyrirspurn á sjonaukar (hjá) sjonaukar.is

Hvernig vitna skal í þessa grein

 • Sævar Helgi Bragason (2010). Stjörnusjónaukar. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/bunadur/stjornusjonaukar (sótt: DAGSETNING).