Elysiumsléttan

Elysium Planitia

Elysiumfjall

Elysiumfjall (Elysium Mons) er stærsta eldfjall Elysiumsléttunnar á Mars og fannst á myndum sem Mariner 9 tók árið 1972. Fjallið gnæfir tæpa 14 km upp úr sléttunni í kring en 16 km upp úr meðalhæð yfirborðsins. Fjallið er 240 km í þvermál og á tindi þess er 14,6 km breið askja. Í vesturhluta hennar er 400-500 metra hár hamraveggur en í austurhlutanum hefur hraun fyllt öskjuna að hluta til, flætt út úr henni og niður hlíðina. Það þykir benda til þess að hraunið þar hafi runnið úr hærri og hugsanlega minni öskju.

Elysiumfjall
Mynd sem Mariner 9 tók þann 16. október 1972 af Elysiumfjalli. Ef vel er að gáð sjást ummerki um tvær misgamlar öskjur.

Hecates Þolus

Hecates Þolus (Hecates Tholus) er fremur lítil dyngja á mælikvarða Mars. Fjallið er á norðausturhluta Elysiumsléttunnar og rís ekki nema 5,3 km upp úr yfirborðinu en er 183 km í þvermál. Á tindi fjallsins er 10 km breið og 600 metra djúp askja. Myndir frá Mars Express geimfarinu sýna að askjan er í raun fjórar öskjur sem yngjast eftir því sem sunnar dregur. Á norðvesturhlíðum fjallsins sjást merki um gjóskuflóð. Orðið þolus (tholus) merkir bungulaga fjall eða hæð.

Hecates Þolus
Mynd frá Mars Express sem sýnir fimm misgamlar öskjumyndanir í Hecates Þolus. Aldur askjanna er frá um það bill 2 milljörðum ára niður í um 100 milljón ár.

Albor Þolus

Albor Þolus (Albor Tholus) er syðsta og minnsta dyngjan á Elysiumsléttunni á Mars. Fjallið er um 4,5 km hátt og 160 km í þvermál. Á tindi fjallsins er 30 km breið og 3 km djúp askja. Askjan er í raun tvær en sú nyrðri er minni, yngri og dýpri. Fremur fáir hraunstraumar virðast liggja frá öskjunni sem gæti bent til þess að gjóskuflóð hafi átt sér stað og þekji hraunin, en gjóskuflóð verða oft samfara öskjumyndunum.

Albor Þolus
Mynd Mars Express sem sýnir fjórar misgamlar öskjumyndanir í Albor Þolus. Aldur askjanna er frá um það bil 2,2 milljörðum ára niður í um 500 milljón ár.

Fornt frosið íshaf

Árið 2005 rannsakaði hópur reikistjörnufræðinga myndir af Elysiumsléttunni frá evrópska könnunarfarinu Mars Express. Myndirnar sýndu það sem virðist vera íshaf undir þykku gjóskulagi nærri Athabasca dalnum, sem er um 1180 km sunnan Elysiumfjalls. Svæðið er 800 x 900 km stórt og þykkt hafsins líklega um 45 metrar. Það er því ekki ósvipað Norðursjó að stærð og dýpt.

íshaf, elysiumsléttan
Mynd Mars Express geimfarsins af Elysium-sléttunni sem sýnir, að því er virðist, frosið og sprungið haf þakið ryki.

Tilgáta reikistjörnufræðingana gengur út að eitt sinn hafi mikið eldgos orðið undir vatni við Cerberus Fossae sprungusvæðið fyrir um 2 til 10 milljón árum og í kjölfarið hafi orðið hamfaraflóð sem þakti gríðarstórt svæði og rann niður Athabasca dalinn. Þar stöðvaðist vatnið í lokaðri dæld og fraus frekar skjótt. Á yfirborðinu sjást ummerki þessa íshafs en það virðist sprungið og brotið í fleka líkt og ísjakar sem fljóta á vatni. Á svæðinu eru mjög fáir árekstragígar sem sýnir að svæðið er mjög ungt. Miðað við ummerkin á yfirborðinu gæti ísinn enn verið til staðar undir gjóskulaginu.

Cerberus Fossae, Athabasca dalurinn, Elysium
Samsett mynd sem sýnihæðarkort MOLA í Mars Global Surveyor af Cerberus Fossae og Athabasca dalnum. Myndin hægra megin tók MOC myndavélin í Mars Global Surveyor af sprungukerfi Cerberus Fossae.

Á svipuðum stað á Elysiumsvæðinu hafa ennfremur fundist merki um metan í lofthjúpnum. Tilvist metans er mjög merkileg út frá efnafræðilegu sjónarmiði þar sem metan er frekar hvarfgjarnt efnasamband og ætti að endast fremust stutt í lofthjúpnum. Það er því greinilega eitthvert ferli sem endurnýjar metanið statt og stöðugt. Algengast er að metan verði til við líf en einnig með eldvirkni.

Heimildir:

  1. Ice flows in Elysium on Mars? Astronomy.com. Sótt 04.06.08.
  2. Hecates Tholus in 3D. ESA. Sótt 04.06.08.
  3. Volcanology of the Elysium Volcanoes. J. B. Plescia, Applied Physics Laboratory, Johns Hopkins University. pdf-skjal)
  4. Recent activtiy on Mars: Fire and Ice. Sótt 04.06.08.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Elysiumsléttan. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/mars/elysiumslettan (sótt: DAGSETNING).