Apollo 14

Eftir misheppnaðan leiðangur Apollo 13 til tunglsins var för Apollo 14 frestað fram í byrjun árs 1971,  svo gera mætti endurbætur á Apollo geimfarinu. Á sama tíma fór áhugi Bandaríkjamanna á tunglferðum dvínandi, enda höfðu flestir hugann við átökin í Víetnam, hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Kambódíu og mótmæli stúdenta á þeim.

Árið 1970 var líka erfitt ár fyrir NASA; ekki aðeins vegna leiðangurs Apollo 13, heldur var stöðugt skorið niður fé til stofnunarinnar. Vegna niðurskurðar var hætt við leiðangra Apollo 18 og Apollo 19 skömmu eftir ferð Apollo 13. Mórallinn á skrifstofu geimfaranna galt fyrir það enda sáu margir drauma sína um að lenda á tunglinu verða að engu.

Sunnudaginn 31. janúar 1971 hófst fyrsta mannaða geimferð þess árs og sjötta tunglferð Bandaríkjamanna, þegar Apollo 14 var skotið á loft með þeim Alan Shepard, Stuart Roosa og Edgar Mitchell um borð. Þremenningarnir höfðu æft sig fyrir tunglferðina í nítján mánuði, lengur en nokkur önnur Apollo áhöfn. Færi eitthvað úrskeiðis þýddi það sennilega endalok Apollo verkefnisins. Færi allt að óskum yrði Al Shepard hins vegar fimmti og elsti maðurinn til að ganga á tunglinu, 47 ára gamall.

Alan Shepard

Tíu árum fyrr, í maí árið 1961, settist Alan Shepard upp í Mercury geimfar sitt og beið þess að verða fyrsti geimfari Bandaríkjamanna. Að hann skyldi hafa verið valinn til að fara í fyrstu geimferðina kom honum sjálfum mjög á óvart. Ekki það að hann hafi efast um eigin getu til þess, heldur taldi hann að uppáhald bandarískra fjölmiðla John Glenn, með alla sína persónutöfra, væri fyrsta val NASA.

Shepard var þó treyst til þess að lyfta þjóðarstolti Bandaríkjamanna upp aftur eftir áfallið sem þeir urðu fyrir, þegar kommúnistinn Yuri Gagarín fór fyrstur manna í geimferð.

Shepard var taugaóstyrkur þar sem hann sat í geimfarinu sínu en lét lítið á því bera. Þegar flaugin tókst á loft beindust allra augu að honum. Á fimm mínútum komst geimfarið upp í 185 km hæð en skömmu síðar byrjaði geimfarið að falla aftur til jarðar og var lent á Atlantshafi aðeins 15 mínútum eftir geimskot.

Þótt ferðin hafi verið stutt var Alan Shepard orðinn þjóðhetja.

Shepard fæddist í New Hampshire árið 1923, sonur hershöfðingja og afkomandi skipverja af Mayflower. Hann ólst upp á bóndabæ og átti fremur dæmigerða æsku sem þó einkenndist af mikilli vinnusemi og dugnaði. Til að eignast hluti varð hann að vinna fyrir þeim. Til að mynda safnaði hann sér fyrir hjóli með því að bera út blöð og selja kjúklinga með hjálp ömmu sinnar.

Alan Shepard var bráðger og skaraði fram úr í skóla, sér í lagi lá stærðfræði vel fyrir honum. Barnungur fékk hann brennandi áhuga á flugvélum og var Charles Lindberg hetjan hans.

Shepard gekk í flotaskólann og lauk prófi í verkfræði árið 1944. Sama ár þjónaði hann á tundurspilli í Kyrrahafi í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar. Tveimur árum síðar hóf hann að læra flug hjá sjóhernum og kynntist þar því að lenda á flugmóðurskipum. Þar fékk hann það orð á sig að vera kappsamur og metnaðargjarn, en líka dálítið hrokafullur og með sjálfstraustið í lagi. Árið 1950 gerðist hann tilraunaflugmaður hjá sjóhernum í Pax River og níu árum síðar var hann valinn í fyrsta geimfarahóp Bandaríkjanna, sem faðir hans var reyndar ekkert sérstaklega ánægður með.

Alan Shepard var flókinn maður. Hann var þögull og fálátur og forðaðist sviðsljósið. Hann hélt fólki jafnan í hæfilegri fjarlægð frá sér, jafnvel vinum sínum, en um leið og hann hleypti fólki að sér var hann vinur fyrir lífstíð. Segja má að Alan Shepard hafi verið tveir persónuleikar því hann gat skeytt skapi á svipstundu. Eina stundina gat hann verið brosandi og glaður en þá næstu ískaldur og strangur harðstjóri sem særði jafnvel fólk með orðum sínum. Mörgum þótti hann því dálítið óræður og jafnvel kúgandi persóna — maður sem fólk bar óttablendna virðingu fyrir. 

Fyrsta ferð Shepards út í geiminn var stutt og gat hann vart beðið eftir því að fara aftur. Fimmtán mínútur voru ekki nóg til að svala forvitni þessa kappsama manns.

Þegar Mercury verkefninu lauk átti Shepard að stýra fyrstu geimferð Gemini verkefnisins sumarið 1965. Hann hafði æft fyrir geimferðina í nokkra mánuði þegar hann vaknaði morgun einn, gekk inn á baðherbergið sitt og missti allt jafnvægisskyn. Hann stóð vart í lappirnar. Honum svimaði og fann fyrir mikilli ógleði og kastaði upp. Fyrst hélt hann að þetta væru bara timburmenn eða flensa en þegar sama tilfinning heltist yfir hann trekk í trekk, ákvað hann með trega að leita til læknis NASA.

Í ljós kom að Shepard þjáðist af Ménieres (Menjírs) sjúkdómnum sem leggst á innra eyrað og hefur áhrif á jafnvægisskynið. Lyf gátu stjórnað svimanum sem fylgdi sjúkdómnum, en á þessum tíma var engin lækning til við honum. Geimfari varð að hafa jafnvægisskynið í lagi. Shepard var kyrrsettur og meinað að fara í fleiri geimferðir. Verra var þó að hann mátti heldur ekki fljúga.

Shepard ætlaði sér hins vegar aftur í geimferð og vonaðist til að sjúkdómurinn myndi læknast af sjálfu sér.

Vinur hans og félagi, Deke Slayton, annar af Mercury geimförunum sjö, var yfirmaður hans og geimfaranna og bauð Shepard að vera sín hægri hönd og nokkurs konar skrifstofustjóri geimfaranna. Saman myndu þeir velja áhafnir og hafa umsjón með þjálfun og starfi geimfaranna.

Til að fylla upp í tómið sem myndaðist þegar hann mátti ekki lengur fljúga, ákvað Shepard að hella sér út í viðskipti. Þar stóð hann sig bara býsna vel enda vel tengdur eftir Mercury geimferðina sína. Fyrir hádegi vann hann á skrifstofu geimfaranna og sinnti viðskiptunum eftir hádegi.

Þrátt fyrir að vera á góðri leið með að verða milljónamæringur þráði Shepard það eitt að komast í aðra geimferð. Vorið 1968 var geimfaraferillinn nánast á enda hjá honum. Sjúkdómurinn hafði ágerst og hann svo til búinn að missa heyrnina í vinstra eyra þegar Tom Stafford geimfari bankaði upp á skrifstofu hans. Stafford sagði honum frá vini sínum, lækni í Los Angeles, Doktor House, sem hafði fundið upp aðferð til að vinna bug á sjúkdómnum með því að setja rör í eyrað til að losa vökva úr því. Shepard var fullur efasemda en þegar hann hafði engu að tapa, ræddi hann við lækninn og lagðist inn á spítala í Los Angeles undir dulnefni til að vekja ekki athygli. Shepard gekkst undir aðgerðina sem heppnaðist fullkomlega.

Shepard var breyttur maður eftir aðgerðina. Hann ræddi við vin sinn Deke Slayton og vildi fá að stýra fyrsta Apollo leiðangri sem gæfist, sem svo vildi til á þeim tíma að var Apollo 13. Þegar orðrómur um það komst á kreik á meðal geimfaranna, fór það misvel í menn. Sumum gramdist að Shepard gæti gengið beint í aðaláhöfn án þess að vera í varaáhöfn eins og allir aðrir. En það var tómt mál að tala um það. Ef Deke Slayton sagði að Alan Shepard væri hæfur, var það útrætt mál.

Slayton lagði til við NASA að Shepard yrði leiðangursstjóri Apollo 13, en í fyrsta sinn var ósk hans hafnað í Washington. Yfirmenn hjá NASA vildu meina að Shepard þyrfti meiri tíma til æfinga áður en hann færi aftur í geimferð. Ekki var um annað að ræða en að svissa á áhöfnum Apollo 13 og Apollo 14. Jim Lovell og áhöfn hans flygi Apollo 13 en Al Shepard og áhöfn hans Apollo 14. Allir voru glaðir með þessa niðurstöðu þangað til tveir dagar voru liðnir af ferð Apollo 13. 

Stuart Roosa og Edgar Mitchell

Shepard fékk ekki aðeins að gera sjálfan sig að leiðangursstjóra tunglferðar, heldur fékk hann að velja sína áhöfn sjálfur. Dag einn árið 1969 kallaði Shepard á nýliðana Stuart Roosa og Edgar Mitchell til sín á skrifstofu sína. Hann tók skælbrosandi á móti þeim og spurði hvort þeir vildu fara með gömlum manni til tunglsins.

Roosa og Mitchell trúðu vart sínum eigin eyrum. Enginn nýliði hafði farið beint í aðaláhöfn Apollo leiðangurs án þess að vera í varaáhöfn áður.

Stuart Roosa, þessi granni, rauðhærði, íhaldssami og þjóðrækni suðurríkjamaður, átti vera flugmaður stjórnfarsins. Roosa var fyrirtaks flugmaður sem Shepard treysti fullkomlega. Hann gekk til liðs við NASA árið 1966 en áður hafði hann verið fallhlífarstökkvari, nokkurs konar reykstökkvari, hjá skógrækt bandaríkjanna í Oregon og hafði þá það hlutverk að slökkva skógarelda.

Eftir þetta ævintýralega starf gekk Roosa til liðs við flugherinn og var þar skipaður í háleynilegan hóp flugmanna sem æfði fyrir hið óhugsandi: Kjarnorkustríð við Sovétríkin. Roosa var þjálfaður til þess að fljúga inn í Sovétríkin frá herstöð í Vestur Þýskalandi til að varpa kjarnorkusprengjum. Vélarnar sem þeir áttu að fljúga höfðu hins vegar ekki nægt eldsneyti til að snúa alla leið til baka. Flugmennirnir áttu því að fljúga eins langt frá sprengjusvæðinu og unnt var og skjóta sér síðan úr flugvélunum, nokkur hundruð kílómetra frá herstöðinni og ganga til baka.

Roosa bar mikla virðingu fyrir Alan Shepard. Honum fannst Shepard flóknasti maður sem hann hafði kynnst og gætti þess að vera ávallt snyrtilegur til fara og búinn að móta hugsanir sínar þegar hann talaði við hann. Honum fannst mikill heiður að fá að fara með Shepard í geimferð og gat ekki hugsað sér betri leiðangursstjóra. Þegar æfingarnar hófust sá Roosa að Shepard var ekki lengur harðstjórinn sem hann vann fyrir, heldur opinn og vinalegur.

Sá sem lenda átti á tunglinu með Shepard var Edgar Mitchell. Mitchell var eldklár náungi en stundum dálítið uppstökkur. Hann var bóndasonur, fæddur í Texas en foreldrar hans voru mjög kirkjuræknir og móðir hans bókstafstrúaður baptisti. Þótt Mitchell ælist upp á strangtrúuðu heimili efaðist hann um tilvist guðs. Hann hneigðist til vísinda og lauk árið 1964 doktorsprófi í flug- og geimverkfræði frá Tækniháskólanum í Massachusetts, MIT. Forvitni hans um heiminn leiddi til þess að hann ákvað að gerast geimfari, auk þess sem honum þótti það eðlilegt framhald á tilraunaflugmannsferli sínum.

Þegar Mitchell gekk til liðs við NASA árið 1966 fannst honum hann eiga lítinn mögulega á að fara til tunglsins. Í staðinn setti hann markið enn hærra. Hann langaði að stýra leiðangri til Mars. Árið 1970 var orðið ljóst að NASA yrði að falla frá öllum slíkum áformum vegna fjárskorts en þá var hann þegar farinn að æfa fyrir Apollo 14.

Lendingarstaður

Fyrst ferð Apollo 13 misheppnaðist, átti Apollo 14 að vera fyrsta raunverulega vísindaferðin til tunglsins. Förinni var heitið á Fra Mauro hálendið, fyrirhugað lendingarsvæði Apollo 13, skammt frá Cone gígnum sem er 340 metra breiður. Cone gígurinn er ungur á mælikvarða tunglsins en þegar hann myndaðist við árekstur, grófst líklega upp ævafornt grjót sem jarðfræðingar voru sérstaklega spenntir að fá að skoða. Í grjótinu gátu nefnilega leynst svör við spurningunni hvernig varð tunglið til.

Ferðin til tunglsins

Leiðangri Apollo 14 lauk næstum um leið og hann hófst. Geimskotið tókst eins og í sögu og eftir að gengið var úr skugga um að öll kerfi geimfarsins störfuðu eðlilega, var þriðja þrep Satúrnus flaugarinnar ræst sem ýtti geimfarinu á rétta braut til tunglsins.

Aðeins tæpum tveimur tímum eftir að tunglferðin hófst kom upp alvarlegt vandamál. Þegar Stuart Roosa losaði stjórnfarið Kitty Hawk frá þriðja þrepinu, sneri hann stjórnfarinu við til þess að tengjast tunglferjunni Antares sem var inni í þriðja þrepinu. Roosa hafði æft þennan mikilvæga hluta tunglferðar ótal sinnum og kunni hann betur en nokkur annar flugmaður hingað til.

Roosa flaug stjórnfarinu að tunglferjunni uns nef þess snerti Antares. Þá hefði nefið átt að læsa sig við tunglferjuna en ekkert gerðist. Roosa reyndi fimm sinnum að tengja geimförin saman en ekkert gekk. Eitthvað var að læsingunni. Ef ekki var hægt að tengja Kitty Hawk við Antares var útilokað að ferðast til tunglsins og geimfararnir yrðu að halda heim á leið.

Shepard var þó ekki á því að gefast upp. Fyndi Houston ekki lausn, ætlaði Shepard að taka málin í sínar hendur — bókstaflega. Hann ætlaði sér að klæða sig í geimbúninginn, losa loftið úr stjórnfarinu, opna lúgu þess og tengja geimskipin saman með handaflinu.

Til þess kom þó ekki. Með hjálp stjórnenda í Houston tókst Roosa að tengja Kitty Hawk við Antares í sjöttu tilraun. Öllum var létt en menn höfðu samt áhyggjur af því að sama vandamál kæmi upp á braut um tunglið. Ef svo færi, þyrftu Shepard og Mitchell að fara í geimgöngu úr tunglferjunni í stjórnfarið, ella kæmust þeir ekki aftur til jarðar.

Eftir þetta gerðist fátt annað markvert á leiðinni til tunglsins. Geimfararnir sinntu heimilisstörfunum, fóru yfir flugáætlunina og hvíldu sig. Á hverri nóttu, á meðan félagar hans sváfu, gerði Ed Mitchell þó tilraun sem hvorki starfsmenn NASA eða aðrir geimfarar vissu af.

Mitchell hafði lengi heillast af dulspeki. Honum þótti skyggnigáfa sérstaklega áhugaverð og taldi vísindin ekki eiga neinar trúverðugar skýringar á henni. Á leiðinni til tunglsins ákvað hann að kanna hvort mögulegt væri á, að senda hugsanir sínar til manna á jörðinni úr nokkur hundruð þúsund kílómetra fjarlægð.

Á meðan ferðafélagar hans sváfu, hélt Mitchell á vasaljósi í svefnpokanum sínum og skoðaði spjöld með ýmsum mynstrum sem notuð eru í dulskynjunarprófum. Hann einbeitti sér að myndunum í nokkrar sekúndur og reyndi að miðla þeim til þriggja manna á jörðinni.

Fjórum dögum eftir geimskot var Apollo 14 komið á braut um tunglið. Degi síðar voru Shepard og Mitchell búnir að losa tunglferjuna frá stjórnfarinu og í óðaönn að kanna kerfi hennar þegar viðvörunarljós kviknaði í mælaborðinu. Merkið benti til þess að rafkerfið sem stýrði bremsuflaug lendingarþrepsins væri í ólagi, þótt hún væri í ekki gangi.

Stjórnendur í Houston höfðu tvær klukkustundir til að finna lausn á vandanum á meðan Shepard og Mitchell svifu einn hring í kringum tunglið og biðu átekta.

Fljótlega kom í ljós að villuboð voru að berast í tölvu tunglferjunnar vegna lítillar málmagnar sem hafði losnað og var föst í afstýrihnappnum. Shepard reyndi að banka í mælaborðið sem virkaði, en aðeins í örstutta stund. Ef sama viðvörunarljós kviknaði þegar bremsuflaugin yrði ræst, mundi tölvan um borð halda að merkið væri raunverulegt og hætta sjálfkrafa við lendingu með því að losa lendingarþrepið og ræsa flugtaksþrepið.

Í MIT háskólanum unnu hugbúnaðarsérfræðingar í kapphlaupi við tímann við að forrita skipanir sem sögðu tölvunni að hunsa falska merkið. Skipanirnar voru lesnar upp fyrir Shepard sem sló þær inn, áttatíu slög, inn í tölvuna. Ekkert mátti fara úrskeiðis því tíminn var á þrotum. Þegar ljósið slökknaði ræsti Shepard bremsuflaug lendingarþrepsins og Antares hóf að lækka flugið.

Í aðfluginu kom annað vandamál upp.

Ratsjáin, sem gaf upplýsingar um flughæð og flughraða yfir tunglinu, virkaði ekki. Leiðangursreglurnar voru mjög skýrar hvað ratsjána varðaði. Ef ratsjáin virkaði ekki átti að hætta við lendingu. Shepard og Mitchell biðu milli vonar og ótta eftir lausn frá Houston. Eftir nokkrar langar sekúndur kom skipunin. Slökkvið á ratsjánni og kveikið á henni aftur. Það virkaði!

Þegar ratsjáin var komin í gang lækkaði Antares flugið hratt. Út um gluggann blasti gígóttur lendingarstaðurinn við. Shepard flaug ferjunni í átt að Cone gígnum og lét hana síðan síga hægt og rólega niður. Menn voru lentir á tunglinu í þriðja sinn.

Annar fóturinn var ofan í litlum gíg svo tunglferjan hallaði lítillega. Það skipti þó engu máli. Al Shepard og Ed Mitchell voru bara fegnir að hafa náð að lenda eftir það sem á undan var gengið.

Fyrri tunglgangan

Fáeinum klukkustundum eftir lendingu var komið að hinum 47 ára Alan Shepard að verða fimmti maðurinn í sögunni til að stíga fæti á annan hnött. Hann fikraði sig rólega niður stigann og steig síðan út í rykið

„Ferðin hefur verið löng, en hér erum við.“ sagði Shepard. „Ekki slæmt fyrir gamlan mann,“ svaraði Bruce McCandless í stjórnstöðinni í Houston.

Þar sem Al Shepard stóð í loftlausri auðninni á tunglinu, leit hann upp í kolsvartan himinninn. Fyrir ofan tunglferjuna var Jörðin, blá, björt og fögur sigð. Shepard þótti fegurð Móður Jarðar svo yfirþyrmandi að hann átti erfitt með sig og tár streymdu niður kinnarnar. Þetta var þó ekki rétti tíminn til að skæla, Al og Ed höfðu mikið verk fyrir höndum. Í fyrsta sinn var litmyndum sjónvarpað til jarðar frá yfirborði tunglsins og sýndu þær að landslagið á Fra Mauro var mun tignarlega en á fyrri lendingarstöðum.

Fyrsta verk á dagskrá var að setja upp vísindatækin. Fyrst settu þeir upp álsegl til sólvindsmælinga eins og Neil og Buzz og Pete og Al höfðu gert í Apollo 11 og Apollo 12 og komu síðan öðrum vísindabúnaði fyrir í hæfilegri fjarlægð frá tunglferjunni, þar á meðal tveimur skjálftamælum og leysispegli fyrir fjarlægðarmælingar frá jörðinni. Mitchell notaði sérstakan slaghamar með litlum púðurskotum til að senda höggbylgjur ofan í efstu lög yfirborðsins. Bylgjurnar komu fram á skjálftamælunum og gerðu vísindamönnum kleift að mæla þykkt og þéttleika efstu yfirborðslaganna.

Eftir fimm klukkustunda tunglgöngu héldu Al og Ed aftur inn í tunglferjuna til að hvílast. Þeir höfðu þá safnað rúmum tuttugu kílóum af bergsýnum og tekið fjölda mynda.

Á meðan Al Shepard og Ed Mitchell spígsporuðu um Mánann sveif Stuart Roosa í hundrað kílómetra hæð yfir tunglinu. Þar sinnti hann jarðfræðilegum athugunum og tók myndir í gríð og erg í leit að ummerkjum um eldgos á tunglinu. Tunglið var svo stórbrotið. Þarna var svo margt að sjá. Hann óskaði þess heitast að fá bara að horfa út um gluggann og njóta útsýnisins.

Roosa hafði tekið með sér 500 fræ af fimm trjátegundum til tunglsins, vegna tengsla hans við skógræktina í Bandaríkjunum. Eftir tunglferðina voru fræin gróðursett í Bandaríkjunum og víðar og Tungltré spruttu upp af þeim.

Seinni tunglgangan

Daginn eftir hófst seinni tunglgangan. Í þetta sinn var takmarkið að komast upp á barm Cone gígsins, sem var rétt rúman kílómetra frá tunglferjunni og aðalástæða þess að jarðfræðingar völdu þennan lendingarstað. Við gígbarminn bjuggust jarðfræðingar við að finna elsta berg tunglsins. Til að komast þangað urðu tunglfararnir að ganga upp hlíð hans sem reis rúma 100 metra yfir sléttuna í kring.

Þessi fyrsta fjallganga á tunglinu reyndist þeim mun meiri þrekraun en búist var við. Að ganga upp bratta hlíð gígsins í stífum geimbúningnum var mjög þreytandi. Næsta ómögulegt var að beita hnjánum á sama hátt og venjuleg manneskja gerir í fjallgöngu á jörðinni. Yfirborðið reynsti mjög laust í sér, stórgrýtt og gígótt. Í eftirdragi höfðu þeir litla kerru, nokkurs konar hjólbörur, sem þeir notuðu til að safna sýnum. Kerran olli þeim miklum vandræðum. Erfitt var að halda henni stöðugri á ójöfnu yfirborðinu. Þeir urðu að þræða fyrir gíga og stór björg og halda fast í kerruna svo hún ylti ekki í veikum þyngdakrafti tunglsins, svo ferðin sóttist seint og tók þreyta að sækja mjög á þá.

Vandinn var þó aðallega sá að þeir vissu ekki hvar þeir voru.

Í loftleysinu á tunglinu er afar erfitt að gera sér grein fyrir fjarlægðum, þar sem ekkert er til viðmiðunar og útsýnið kristaltært. Þótt þeir hefðu með sér kort virtist ómögulegt að lesa af því á tunglinu. Í hvert sinn sem þeir stóðu á hrygg, litu yfir svæðið og bjuggust við að sjá gígbarminn, komu þeir hvergi auga á hann. Aðeins fleiri hryggi og meira grjót. Þeir vörðu drjúgum tíma í að reyna að leita að gígbarminum en að lokum var tíminn á þrotum og könnuðirnir frá jörðinni urðu að játa sig sigraða. Myndir sem teknar voru síðar af lendingarsvæðinu sýna að þeir sneru við aðeins 30 metra frá gígbarminum.

Ferðin niður var mun auðveldari. Þeir stoppuðu á stöku stað til að safna sýnum og taka myndir.

Golfsveifla á Fra Mauro

Þegar þeir sneru aftur að tunglferjunni höfðu þeir uppfyllt næstum öll markmið leiðangursins. Alan Shepard átti þó eftir að ljúka einu persónulegu markmiði sem var ekki í ferðaáætluninni en hann hafði ákveðið við æfingarnar á jörðinni.

Á sjónvarpsskjánum sást Alan Shepard standa við hlið ferðafélaga síns, fyrir framan tunglferjuna og loftnet. Hann teygði sig ofan í vasann á skítugum búningnum, tók upp golfkúlu sem hann hafði smyglað með og lét falla niður í tunglrykið. Shepard hafði líka smyglað sex járni til tunglsins og notaði það til að breyta handfanginu í golfkylfu. Geimbúningurinn var of stífur til að hann gæti haldið rétt á kylfunni, en með annarri hendi sveiflaði hann kylfunni tvisvar til að hita upp — eða kannski hitti hann bara ekki kúluna. Í þriðju sveiflunni flaug kúlan hátt og langt.

Alan Shepard var fyrsti maðurinn til að leika golf á tunglinu.

Að kvöldi sjötta febrúar hófst tunglferjan upp frá tunglinu á ný, eftir 34 stunda dvöl og stýrðu tunglfararnir henni til stefnumóts við Kitty Hawk með Stuart Roosa innanborðs. Geimförin tengdust saman í fyrstu tilraun og svifu Shepard og Mitchell yfir til Roosa. Síðan var tunglferjan losuð frá og send til brotlendingar á tunglinu. Áreksturinn kom fram á skjálftamælunum sem þeir höfðu skilið eftir og veittu mælingarnar góðar upplýsingar um innviði tunglsins.

Heimferð

Að morgni 7. febrúar var eldflaug Apollo 14 ræst og förinni heitið heim til jarðar. Þriðjudagskvöldið 9. febrúar lenti geimfarið heilu og höldnu á Kyrrahafi. Hálftíma eftir lendingu var hleri geimfarsins opnaður og geimförunum réttar öndunargrímur því þeir urðu að dvelja í sóttkví í um þrjár vikur, síðastir tunglkönnuða.

Stuart Roosa hætti hjá NASA árið nokkrum árum eftir tunglferðina og sneri sér að viðskiptum. Hann lést árið 1994, 61 árs að aldri, úr brisbólgu.

Alan Shepard hætti hjá NASA þremur árum eftir tunglferðina. Hann hafði þá unnið hjá stofnunni í 15 ár. Eftir það sinnti hann viðskiptum, efnaðist mjög af þeim og varð raunar fyrsti geimfarinn sem varð milljónamæringur. Hann naut lífsins, ferðaðist og lék golf í frístundum. Árið 1998 lést hann af völdum hvítblæðis, 74 ára að aldri. Fimm vikum síðar lést kona hans af völdum hjartaáfalls.

Edgar Mitchell hætti hjá NASA árið 1972 og sneri sér aðallega að áhugamálum sínum: Andlegum og dulrænum málefnum. Hann heldur því fram að hann hafi læknast af krabbameini í nýrum með fjarheilun, þótt hann hafi í raun aldrei greins með meinið. Mitchell heldur því líka fram opinberlega að mestur fljúgandi furðuhluta séu gestir frá öðrum plánetum. Edgar Mitchell er eini eftirlifandi geimfarinn úr áhöfn Apollo 14.

Hálfu ári eftir velheppnaðan leiðangur Apollo 14, var komið að Dave Scott, Jim Irwin og Ron Evans að heimsækja nýjan stað á tunglinu — stað sem var enn stórbrotnari en Fra Mauro. Og í fyrsta sinn var bíll hafður með í för.