Halastjarnan PANSTARRS
C/2011 L4
Yfirlit
Uppgötvuð af: |
Pan-STARRS |
Uppgötvuð: |
6. júní 2011 |
Fjarlægð við sólnánd: |
0,30 SE |
Umferðartími: |
Óþekktur |
Stjörnufræðingar við Hawaiiháskóla fundu halastjörnuna PANSTARRS með Pan-STARRS 1 sjónaukanum (Panoramic Survey Telescope & Rapid Response System) á fjallinu Haleakala á eynni Maui á Hawaii (sjá myndina hægra megin). Þessi sjónauki hefur 1,8 metra breiðan safnspegil og eina stærstu stafrænu myndavél heims sem er 1,4 milljarðar pixla. Sjónaukinn skannar himininn í leit að smástirnum, halastjörnum og sprengistjörnum með því að taka myndir af himninum á 45 sekúndna fresti. Hver mynd er næstum 3 gígabæt að stærð.
Þegar PANSTARRS fannst var hún handan við braut Júpíters, þá í næstum 1.200 milljón km fjarlægð frá sólinni. Útreikningar sem gerðir voru í kjölfarið á braut halastjörnunnar sýndu að hún kæmist í innan við 50 milljón km fjarlægð frá sólinni snemma árs 2013, rétt inn fyrir braut Merkúríusar.
PANSTARRS er á mjög ílangri braut um sólina sem þýðir að líklega var þetta í fyrsta sinn sem hún ferðaðist inn í sólkerfið. Hugsanlega snýr hún aldrei aftur, heldur kastast út úr sólkerfinu. Halastjarnan á sennilega rætur að rekja til Oortsskýsins.
1. Á himninum
Halastjarnan PanStarrs. Mynd: Kristján Heiðberg |
Halastjarnan PANSTARRS var næst jörðinni þann 5. mars 2013, þá í rúmlega 160 milljón km fjarlægð frá jörðu.
Fimm dögum síðar (10. mars) komst hún næst sólinni og náði hámarksbirtu. Þá var halastjarnan á bak við sólina frá jörðu séð en birtist síðan á kvöldhimninum einum eða tveimur dögum síðar. Á þeim tíma sást hún best frá suðlægari slóðum en Íslandi.
Smám saman fjarlægðist halastjarnan sólina og fór hækkandi á himninum frá Íslandi séð en samhliða því dofnaði hún hægt og sígandi. Þegar best lét varð PANSTARRS álíka björt og stjörnurnar í Karlsvagninum. Það var nokkru daufara en í fyrstu var áætlað en engu að síður nógu bjart til þess að hún sæist með berum augum.
Besti tíminn til að skoða halastjörnunni var milli 12.-20. mars en þá var hún mjög lágt á himninum við sólsetur. Sunnudagskvöldið 17. mars var heiðskírt víða á Íslandi og sáu fjölmargir halastjörnuna í ljósaskiptunum. Hún sást best með handsjónauka
Þann 4. apríl verður PANSTARRS tvær gráður vestur af Messier 31, Andrómeduþokunni. Bæði fyrirbæri eru þá álíka björt.
2. Stjörnukort
2.1 PanStarrs á kvöldhimninum
2.2 Ferill PanStarrs upp himininn
2.3 Ferill PanStarrs í gegnum Pegasus, Andrómedu og Kassíópeiu
3. Umfjöllun um PanStarrs í Sjónaukanum
Fjallað var um PanStarrs í 7. þætti Sjónaukans.
Sjónaukinn 7. þáttur - Horft til himins í mars 2013 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.
4. Myndasafn
Við óskum eftir myndum frá ykkur af halastjörnunni til birtingar hér á vefnum. Þið getið sent okkur myndir í tölvupósti á netfangið [email protected] eða vekja athygli á þeim á Facebook síðunni okkar.
Fyrsta myndin af halastjörnunni PanStarrs yfir Íslandi
|
||
PanStarrs og norðurljós í ljósaskiptunumSunnudagskvöldið 17. mars mættu nærri 300 manns í stjörnuskoðun sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stóð fyrir. Þetta kvöld sáust glæsileg norðurljós innan um halastjörnuna PanStarrs. Mynd: Gísli Már Árnason |
||
PanStarrs yfir Arnarnúpi í DýrafirðiUm 20 manns komu saman í stjörnuskoðun á Þingeyri við Dýrafjörð sunnudagskvöldið 17. mars. Mynd: Jón Sigurðsson |
||
PanStarrs séð úr VestmannaeyjumHalastjarnan PanStarrs (vinstra megin) séð úr Vestmannaeyjum. Horft er í vesturátt: Lengst til vinstri sést halastjarnan í ljósaskiptunum en lengra til hægri eru smáeyjarnar Hæna, Hani og Hrauney. Mynd: Óskar Elías Sigurðsson |
||
Halastjarnan PanStarrs, norðurljós og SnæfellsjökullHalastjarnan PanStarrs (neðarlega vinstra megin á myndinni) séð frá Seltjarnarnesi sunnudagskvöldið 17. mars 2013. Mynd: Pétur Friðgeirsson |
||
PanStarrs, tunglið og norðurljós séð frá Straumi við HafnarfjörðÞessi glæsilega mynd var tekin frá Straumi við Hafnarfjörð sunnudagskvöldið 17. mars 2013. Halastjarnan PanStarrs sést í ljósaskiptunum hægra megin við skúrinn. Mynd: Ófeigur Örn Ófeigsson |
||
PanStarrs og norðurljós yfir Þingeyri við DýrafjörðHér sést halastjarnan PanStarrs (rétt fyrir neðan miðja mynd) undir dansandi norðurljósum yfir Þingeyri við Dýrafjörð sunnudagskvöldið 24. mars 2013. Mynd: Jón Sigurðsson |
||
PanStarrs yfir ÞingeyriHalastjarnan PanStarrs yfir Þingeyri sunnudagskvöldið 24. mars 2013. Mynd: Jón Sigurðsson |
||
Halastjarnan PanStarrsNærmynd af halastjörnunni PanStarrs. Myndin var tekin sunnudagskvöldið 17. mars 2013. Mynd: Ófeigur Örn Ófeigsson |
5. Heimildir
-
„Pan-STARRS Telescope Finds New Distant Comet“. Fréttatilkynning University of Hawaii, Institute for Astronomy.
-
„Comet Pan-STARRS: Still on Track“. Sky & Telescope.org.
-
C/2011 L4 (PANSTARRS). Gary W. Kronk's Cometography.
Höfundur: Sævar Helgi Bragason