Halastjarnan PANSTARRS

C/2011 L4

  • PANSTARRS, halastjarna
    Halastjarnan C/2011 L4 (PANSTARRS). Mynd: Henry Hsieh, PS1SC
Helstu upplýsingar
Uppgötvuð af:
Pan-STARRS
Uppgötvuð:
6. júní 2011
Fjarlægð við sólnánd:
0,30 SE
Umferðartími:
Óþekktur

Stjörnufræðingar við Hawaiiháskóla fundu halastjörnuna PANSTARRS með Pan-STARRS 1 sjónaukanum (Panoramic Survey Telescope & Rapid Response System) á fjallinu Haleakala á eynni Maui á Hawaii (sjá myndina hægra megin). Þessi sjónauki hefur 1,8 metra breiðan safnspegil og eina stærstu stafrænu myndavél heims sem er 1,4 milljarðar pixla. Sjónaukinn skannar himininn í leit að smástirnum, halastjörnum og sprengistjörnum með því að taka myndir af himninum á 45 sekúndna fresti. Hver mynd er næstum 3 gígabæt að stærð.

Þegar PANSTARRS fannst var hún handan við braut Júpíters, þá í næstum 1.200 milljón km fjarlægð frá sólinni. Útreikningar sem gerðir voru í kjölfarið á braut halastjörnunnar sýndu að hún kæmist í innan við 50 milljón km fjarlægð frá sólinni snemma árs 2013, rétt inn fyrir braut Merkúríusar.

PANSTARRS er á mjög ílangri braut um sólina sem þýðir að líklega var þetta í fyrsta sinn sem hún ferðaðist inn í sólkerfið. Hugsanlega snýr hún aldrei aftur, heldur kastast út úr sólkerfinu. Halastjarnan á sennilega rætur að rekja til Oortsskýsins.

1. Á himninum

PANSTARRS, halastjarna
Halastjarnan PanStarrs. Mynd: Kristján Heiðberg

Halastjarnan PANSTARRS var næst jörðinni þann 5. mars 2013, þá í rúmlega 160 milljón km fjarlægð frá jörðu.

Fimm dögum síðar (10. mars) komst hún næst sólinni og náði hámarksbirtu. Þá var halastjarnan á bak við sólina frá jörðu séð en birtist síðan á kvöldhimninum einum eða tveimur dögum síðar. Á þeim tíma sást hún best frá suðlægari slóðum en Íslandi.

Smám saman fjarlægðist halastjarnan sólina og fór hækkandi á himninum frá Íslandi séð en samhliða því dofnaði hún hægt og sígandi. Þegar best lét varð PANSTARRS álíka björt og stjörnurnar í Karlsvagninum. Það var nokkru daufara en í fyrstu var áætlað en engu að síður nógu bjart til þess að hún sæist með berum augum.

Besti tíminn til að skoða halastjörnunni var milli 12.-20. mars en þá var hún mjög lágt á himninum við sólsetur. Sunnudagskvöldið 17. mars var heiðskírt víða á Íslandi og sáu fjölmargir halastjörnuna í ljósaskiptunum. Hún sást best með handsjónauka

Þann 4. apríl verður PANSTARRS tvær gráður vestur af Messier 31, Andrómeduþokunni. Bæði fyrirbæri eru þá álíka björt.

2. Stjörnukort

2.1 PanStarrs á kvöldhimninum

PANSTARRS, halastjarna, stjörnukort, kvöldhiminn
Halastjarnan PanStarrs á kvöldhimninum við sólsetur 12.-24. mars. Erfiðast verður að sjá halastjörnuna þegar hún er næst sólinni eða í kringum 12. mars. Smelltu til að sjá stærra kort. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson

2.2 Ferill PanStarrs upp himininn

PANSTARRS, halastjarna, stjörnukort, kvöldhiminn
Víðara kort af slóð halastjörnunnar PanStarrs upp norðurhimininn. Halastjarnan dofnar talsvert samhliða því að fjarlægjast sólina. Smelltu á kortið til að sjá það stærra. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson

2.3 Ferill PanStarrs í gegnum Pegasus, Andrómedu og Kassíópeiu

PANSTARRS, halastjarna, stjörnukort, kvöldhiminn
Kort sem sýnir feril halastjörnunnar PanStarrs í gegnum stjörnumerkin Pegasus, Andrómedu og Kassíópeiu. Halastjarnan mun dofna töluvert á þessu tímabili og verður að lokum aðeins sjáanleg með sjónauka. Smelltu á kortið til að sjá það stærra. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson

3. Umfjöllun um PanStarrs í Sjónaukanum

Fjallað var um PanStarrs í 7. þætti Sjónaukans.

Sjónaukinn 7. þáttur - Horft til himins í mars 2013 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

4. Myndasafn

Við óskum eftir myndum frá ykkur af halastjörnunni til birtingar hér á vefnum. Þið getið sent okkur myndir í tölvupósti á netfangið [email protected] eða vekja athygli á þeim á Facebook síðunni okkar.

PANSTARRS, halastjarna  

Fyrsta myndin af halastjörnunni PanStarrs yfir Íslandi

Þessa mynd tók Jón Sigurðsson, stjörnuáhugamaður á Þingeyri, af PanStarrs föstudagskvöldið 15. mars.

Mynd: Jón Sigurðsson

PANSTARRS, halastjarna  

PanStarrs og norðurljós í ljósaskiptunum

Sunnudagskvöldið 17. mars mættu nærri 300 manns í stjörnuskoðun sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stóð fyrir. Þetta kvöld sáust glæsileg norðurljós innan um halastjörnuna PanStarrs.

Mynd: Gísli Már Árnason

PANSTARRS, halastjarna  

PanStarrs yfir Arnarnúpi í Dýrafirði

Um 20 manns komu saman í stjörnuskoðun á Þingeyri við Dýrafjörð sunnudagskvöldið 17. mars.

Mynd: Jón Sigurðsson

PANSTARRS, halastjarna

PanStarrs séð úr Vestmannaeyjum

Halastjarnan PanStarrs (vinstra megin) séð úr Vestmannaeyjum. Horft er í vesturátt: Lengst til vinstri sést halastjarnan í ljósaskiptunum en lengra til hægri eru smáeyjarnar Hæna, Hani og Hrauney.

Mynd: Óskar Elías Sigurðsson

PANSTARRS, halastjarna  

Halastjarnan PanStarrs, norðurljós og Snæfellsjökull

Halastjarnan PanStarrs (neðarlega vinstra megin á myndinni) séð frá Seltjarnarnesi sunnudagskvöldið 17. mars 2013.

Mynd: Pétur Friðgeirsson

PANSTARRS, halastjarna  

PanStarrs, tunglið og norðurljós séð frá Straumi við Hafnarfjörð

Þessi glæsilega mynd var tekin frá Straumi við Hafnarfjörð sunnudagskvöldið 17. mars 2013. Halastjarnan PanStarrs sést í ljósaskiptunum hægra megin við skúrinn.

Mynd: Ófeigur Örn Ófeigsson

PANSTARRS, halastjarna  

PanStarrs og norðurljós yfir Þingeyri við Dýrafjörð

Hér sést halastjarnan PanStarrs (rétt fyrir neðan miðja mynd) undir dansandi norðurljósum yfir Þingeyri við Dýrafjörð sunnudagskvöldið 24. mars 2013.

Mynd: Jón Sigurðsson

PANSTARRS, halastjarna  

PanStarrs yfir Þingeyri

Halastjarnan PanStarrs yfir Þingeyri sunnudagskvöldið 24. mars 2013.

Mynd: Jón Sigurðsson

PANSTARRS, halastjarna  

Halastjarnan PanStarrs

Nærmynd af halastjörnunni PanStarrs. Myndin var tekin sunnudagskvöldið 17. mars 2013.

Mynd: Ófeigur Örn Ófeigsson

5. Heimildir

  1. Pan-STARRS Telescope Finds New Distant Comet“. Fréttatilkynning University of Hawaii, Institute for Astronomy.

  2. Comet Pan-STARRS: Still on Track“. Sky & Telescope.org. 

  3. C/2011 L4 (PANSTARRS). Gary W. Kronk's Cometography.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason