Augngler

Mikilvægustu fylgihlutir stjörnusjónauka

  • augngler
    13mm Ethos augngler frá TeleVue

Stækkun

Sjá nánar: Stækkun

Sjónauki er sjóntæki sem safnar ljósi og beinir því í brennipunkt. Ef þú leggur auga þitt upp við brennipunkt sjónaukans, án augnglers, sérðu ekki neitt. Hvers vegna ekki? Bæði sjónauki og augað beina ljósinu í punkt. Með því að setja augngler í brennipunkt sjónaukans myndast ljósgeisli sem augað getur fókusað.

Mikilvægast við augngler er brennivídd þess. Brennivíddin er tala, gefin upp í millímetrum, sem skrfiuð er á hlið flestra augnglerja. Brennivíddin gerir þér kleyft að ákvarða stækkun augnglersins með tilteknum sjónauka. Stækkunin er einfaldlega fundin með því að deila brennivídd sjónakans með brennivídd augnglersins.

Stækkun = Brennivídd sjónauka í mm / brennivídd augnglers í mm

Þetta þýðir að því lægri sem talan á augnglerinu er, því meiri er stækkunin. Þannig gefur 10mm augngler tvöfalt meiri stækkun en 20mm augngler. Þetta þýðir einnig að sama augngler gefur mismunandi stækkun í mismunandi sjónaukum með aðra brennivídd. 10mm augngler gæti þess vegna gefið litla stækkun í sjónauka með stutta brennivídd en mikla stækkun í sjónauka með háa brennivídd. Þannig myndi 10mm augngler í 80mm sjónanauka með 555mm brennivídd gefa 55x stækkun (555mm/10mm = 55x) á meðan sama augngler í 235mm Schmidt-Cassegrain sjónauka með 2350mm brennivídd gæfi 235x stækkun (2350mm/10mm = 235x).

Hefðbundið augnglerjasafn stjörnuáhugamanns inniheldur að minnsta kosti þrjú augngler: eitt sem gefur litla stækkun, eitt sem gefur meðalstækkun og eitt sem gefur mikla stækkun. Stækkunin veltur á sjónaukanum en algengt er að stækkunin sé á bilinu 50 til 250x og vitaskuld stundum meiri og minni.

Augnfró

Augnfró (eye relief) er annar mikilvægur þáttur augnglerja. Augnfró er fjarlægðin milli augans og augnglersins. Ef þessi fjarlægð er stutt getur verið erfitt að skoða fyrirbærin. Ef stjörnuáhugamaðurinn notar gleraugu getur augngler með stutta augnfró verið erfitt eða ómögulegt í notkun. Augngler með langa brennivídd, sem venjulega gefur litla stækkun, hafa venjulega líka langa augnfró þannig að ekki þarf að hanna þau sérstaklega til að gefa aukna augnfró. Augngler með stutta brennivídd, sem gefur þannig venjulega mikla stækkun, hefur hins vegar ekki alltaf langa augnfró og verður stundum sérstaklega að hanna þau til þess að auka augnfrónna.

Þægileg augnfró er milli 10 og 20mm. Oft er auðvelt að sjá hvort augngler hafi langa og þægilega augnfró með því að horfa á linsuna sem maður horfir í gegnum á augnglerinu. Sé linsan breið og stór er augnfróin oft þægileg en óþægileg ef linsan er lítil. Mismunandi tegundir augnglerja hafa mismikla augnfró.

Sjónsvið

Stærð þess hluta himinsins sem sést í gegnum augngler kallast reyndarsjónsvið (true field of view) og ákvarðast af stækkuninni og sýndarsjónsviði (apparent field of view) augnglersins. Sýndarsjónsviðið er einkennandi fyrir hönnun augnglersins og er gefið upp í gráðum, t.d. 50° (Plössl), 68° (Wide-Field) og 82° (Ultra Wide Field). Því hærri sem talan er, því víðara er sjónsviðið og því stærra svæði af himninum sér maður í gegnum augnglerið. Sum augngler hafa þröngt sjónsvið á meðan önnur hafa vítt sjónsvið. Ef tvö augngler stækka jafn mikið, þ.e.a.s. ef tvö augngler hafa sömu brennivídd, mun það augngler sem hefur víðara sýndarsjónsvið hafa víðara reyndarsjónsvið.

Þú getur líka breytt sjónsviðinu með því að breyta einfaldlega um stækkun. Ef sýndarsjónsviðinu er haldið eins mun augngler með minni stækkun gefa víðara sjónsvið. Þegar skoða á stór og gisin fyrirbæri eins og Andrómeduvetrarbrautina eða Sjöstirnið þarf vítt sjónsvið og litla stækkun. Sjónsviðið er mjög mikilvægt til að fá sem góða mynd.

Mikilvægt er að eigendur handstýrðra stjörnusjónauka (þeir sem ekki eru með mótordrif) eigi augngler með víð sjónsvið. Þá haldast fyrirbærin sem verið er að skoða lengur inni í sjónsviði sjónaukans.

1,25" og 2" augngler

Augngler koma í tveimur stærðum, 1,25" og 2".

Næstum allir sjónaukar eru hannaðir til að notast með augnglerjum sem eru 1,25 tommur í þvermál. Með flestum sjónaukum fylgir jú einmitt að minnsta kosti eitt 1,25 tommu augngler. Aukahlutir eins og Barlow-linsa og síur eru hannaðar til að smellpassa á þessu augngler þannig að slíkir aukahlutir eru líka einkennandi af stærð þeirra. Gott 1,25” augngler kostar venjulega frá rúmlega 6.000 kr og upp úr en til eru margar týpur sem eru misdýrar, sumar jafnvel alveg frá 40.000 kr upp í meira en 100.000 kr.

Tveggja tommu augngler er hin staðalstærð augnglerja. Margir sjónaukar, sér í lagi vandaðir linsusjónauka, taka á móti þessum augnglerjum en sumir krefjist viðeigandi millistykkis eða nýs skáspegils. Ekki geta allir sjónaukar tekið á móti tveggja tommu augnglerjum. Tveggja tommu augngler hafa víð sjónsvið og gefa venjulega litla stækkun. Hafa ber í huga að yfir ákveðna stækkun eru 1,25 tommu augngler aðeins til sem geta engu að síður gefið sama sýndarsjónsvið en meiri stækkun. Aukahlutir eins og síur og Barlow-linsur eru til fyrir tveggja tommu augngler. Vönduð tveggja tommu augngler kostar venjulega frá tæplega 20.000 krónum og upp úr, en stærstu og vönduðustu glerin geta kostað yfir 100.000 krónur. Ef þig langar til að eignast tveggja tommu augngler borgar sig að halda sig við vönduð gler.

Hvaða augngler henta mínum sjónauka?

Mjög mikið úrval er af augnglerjum og þar, eins og annars staðar, er mikilvægt að vanda valið. Gott er að gera sér strax grein fyrir því hversu háum fjárhæðum maður er tilbúinn að verja í augngler. Í stjörnuskoðun fær maður nefnilega undantekningalaust það sem maður borgar fyrir.

Hægt er að fá ráðleggingar hjá félagsmönnum í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness eða hjá Sjónaukar.is. Mundu að það borgar sig alltaf að eignast vönduð augngler.