Íslensk örnefni í sólkerfinu

  • íslenskir gígar í sólkerfinu
    Íslensk örnefni í sólkerfinu

Landkönnuðir nútímans sigla ekki lengur milli landa og nema staðar á fjarlægum strendum jarðar. Landkönnuðir nútímans sigla milli hnatta sólkerfisins, nema land á nýjum hnöttum og gefa stöðunum nöfn.

Frá árinu 1919 hefur það verið í verkahring nafnanefndar Alþjóðasambands stjarnfræðinga (International Astronomical Union) að gefa hnöttum sólkerfisins örnefni. Þegar myndir berast af yfirborði reikistjörnu eða tungls er sérstakt nafnaþema valið og nokkur mikilvæg kennileiti nefnd. Nöfnin eru valin af meðlimum nafnanefndarinnar. Síðar þegar fleiri myndir í meiri upplausn og kort eru til af stöðunum, eru öðrum stöðum gefin örnefni. Örnefnið verður fyrst opinbert þegar Alþjóðasamband stjarnfræðinga hefur samþykkt það á allsherjarþingi sínu. 

Það er eflaust ekki margir sem vita að í sólkerfinu eru nokkrir staðir sem bera íslensk örnefni og nöfn þekktra Íslendinga.

Íslenskir gígar á Merkúríusi

Á Merkúríusi ríkir sú hefð að gígar eru nefndir eftir látnum listamönnum – tónlistarmönnum, listmálurum og rithöfundum – sem skarað hafa fram úr á sínu sviði og hafa verið listasögulega viðurkenndir sem slíkir í meira en 50 ár.

Á þessari innstu reikistjörnu sólkerfisins eru fjórir gígar nefndir eftir íslenskum listamönnum, gígarnir Sveinsdóttir eftir listakonunni Júlíönu Sveinsdóttur, Snorri eftir hinum eina sanna sagnaritara Snorra Sturlusyni, Tryggvadóttir eftir listakonunni Nínu Tryggvadóttur og Laxness eftir rithöfundinum Halldóri Kiljan Laxness.

Gígurinn Snorri fannst á myndum sem Mariner 10 tók af Merkúríusi árið 1974. Gígurinn er fremur smár, aðeins 19 km í þvermál, á suðurhveli Merkúríusar. Væri gígurinn á jörðinni væri hann hér um bil í miðju Indlandshafi. Tillöguna að nafninu má rekja til þeirra stjörnufræðinga sem störfuðu við Mariner 10 leiðangurinn. Nafnatillagan birtist fyrst í grein eftir stjörnufræðinginn David Morrison í ágúst 1976 í 28. hefti Íkarusar, sem er fræðirit um reikistjörnufræði. Einhver stjörnufræðingurinn í hópnum hefur flett upp á nafni Snorra í Encyclopaedia Britannica og lagt til að gígurinn bæri nafn hans. Nafnatillagan var samþykkt af nafnanefnd Alþjóðsambands stjarnfræðinga sama ár.

Gígurinn kenndur við Júlíönu Sveinsdóttur er talsvert stærri en sá sem kenndur er við Snorra, eða 220 km að þvermáli. Hann er einnig að finna á suðurhveli Merkúríusar, á svipuðum stað og Indónesía er á jörðinni. Gígurinn er nefndur eftir Júlíönu Sveinsdóttur (1889-1966) sem var brautryðjandi í íslenskri myndlist á fyrri hluta 20. aldar og ein fárra kvenna sem gerðu myndlistina að ævistarfi. Gígurinn fannst á myndum sem Messenger geimfarið tók í janúar 2008. Svo virðist sem einhver stjörnufræðingurinn í hópnum hafi flett upp á nafni Júlíönu í bókinni Dictionary of Women Artists og lagt til að gígurinn bæri nafn hennar. Nafnið var samþykkt af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga í apríl 2008.

Gígurinn Tryggvadóttir er við norðurpól Merkúríusar. Hann er 31 km breiður en á botni hans eru svæði þar sem sólarljóss nýtur aldrei. Fundist hafa merki um að hugsanlega sé vatnsís þar að finna. Gígurinn fannst á myndum MESSENGER geimfars NASA. Nafnið var samþykkt af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga í ágúst 2012 (sjá stj1214).

Gígurinn Laxness er einnig skammt frá norðurpóli Merkúríusar. Hann er 26 km breiður og fannst á myndum MESSENGER geimfarsins. Nafnið var samþykkt þann 18. júní 2013 (sjá stj1306).

Snorri Sturluson, Júlíana Sveinsdóttir, Merkúríus, gígar
Gígarnir Snorri og Sveinsdóttir á Merkúríusi. Snorri er um 19 km í þvermál á meðan Sveinsdóttir er um 220 km í þvermál. Báðir gígarnir eru á suðurhveli Merkúríusar. Í gegnum gíginn Sveinsdóttir liggur hamraveggurinn Beagle Rupes sem dregur nafn sitt af skipinu sem Charles Darwin sigldi með frá 1831 til 1836.  

Íslenskir gígar á Mars

Á Mars eru gígar innan við 60 km að þvermáli gjarnan nefndir eftir litlum borgum og bæjum á jörðinni sem innihalda um það bil 100.000 íbúa eða færri. Á rauðu reikistjörnunni eru þrír gígar sem bera íslensk bæjarnöfn, gígarnir Grindavík, Reykholt og Vík.

Grindavík (25,4° N, 39,1° W) er 12 km breiður gígur á Chryse sléttunni, á Oxia Palus ferningnum á norðurhveli Mars. Gígurinn fannst á myndum sem Viking geimförin tóku af yfirborði Mars. Nafnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga samþykkti nafnið þann 14. september 2006. Nafnið kemur úr bókinni Readers Digest World Atlas. (Myndir af Grindavík í gagnasafni NASA.)

Reykholt (40,8° N, 86,3° W) er 53,2 km breiður gígur við Tanais fossae sprungukerfið á norðurhveli Mars, skammt austan Alba Patera á Arcadia ferningnum. Gígurinn fannst á myndum sem Viking geimförin tóku af yfirborði Mars. Nafnanefnd Alþjóðsambands stjarnfræðinga samþykkti nafn gígsins árið 1991. Nafnið kemur úr bókinni National Geographic Atlas of the World. (Myndir af Reykholti í gagnasafni NASA.)

Vík (36,1° S, 64° W) er 23 km breiður gígur á Thaumasia ferningnum á suðurhveli Mars. Gígurinn fannst á myndum sem Viking geimförin tóku af yfirborði Mars. Nafnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga samþykkti nafn gígsins árið 1979. Nafnið kemur úr bókinni National Geographic Atlas of the World. (Myndir af Vík í gagnasafni NASA.)

Vík, Grindavík, Reykholt, gígar á Mars, íslenskir gígar á Mars
Gígar á Mars sem bera íslensk bæjarnöfn: Vík, Reykholt og Grindavík. Prófaðu að leita að gígunum í Google Earth hugbúnaðinum.

Gígur nefndur eftir Leifi Eiríkssyni

Á Mars er gígur nefndur eftir norræna landkönnuðinum Leifi heppna Eiríkssyni (19,4° S, 173,9° W). Leifur var vitaskuld sonur Eiríks rauða Þorvaldssonar sem flýði frá Noregi til Íslands ásamt föður sínum. Á Íslandi fæddist Leifur. Gígurinn er 49 km breiður á Memnomia ferningnum á suðurhveli Mars. (Myndir af gígnum Eiríksson í gagnasafni NASA.)

Leifur Eiríksson, gígur, Mars
Gígur nefndur eftir Leifi Eiríkssyni á Mars.

Íslensk/norræn eldfjöll á Íó

Á Íó, eldvirkasta hnetti sólkerfisins, eru nokkur eldfjöll sem bera íslensk nöfn. Þeirra þekktast er sennilega eldfjallið Loki, nefnt eftir Loka Laufeyjarsyni sem sagt er frá í Eddukvæðum. Á Íó er líka að finna eldfjall nefnt eftir smiðnum Völundi og eldjötninum Surti.

Gaman er að segja frá því að eitt eldfjall á Íó er nefnt til heiðurs Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi. Á bloggsíðu sinni skrifaði Haraldur:

Vinkona mín er stjörnufræðingur sem starfar hjá Jet Propulsion Laboratory í Kalíforníu og vinnur að rannsóknum á Io, en það er eitt af fimm tunglum sem svífa umhverfis plánetuna Júpiter. [...] Það var í kringum 1995 að vinkona mín sagði mér að fundist hefði fjöldi af áður óþekktum eldfjöllum á Io og nú þyrfti að gefa þeim öllum nafn. Hún vildi endilega skýra eitt í höfuðið á mér, en sú er reglan að á Io verða allir gígar að bera nafn goða eða guða eða þjóðsagnapersóna. 

Haraldur gekk ekki upp, en Sigurd gæti gengið, í höfuð á Sigurði Fáfnisbana. Eins og kunnugt er við lestur Völsungasögu, þá er Sigurður ein af stóru hetjunum í fornnorrænum þjóðsögnum. Hann drap til dæmis drekann Fáfnir, baðaði sig í blóði hans, drakk það líka og steikti hjartað og át. Hér með fygir trérista sem sýnir Sigurð drepa drekann Fáfni. Þannig kom til að eldfjall á Io heitir Sigurd Patera og er skýrt í höfuð á mér, og það er bara gott fyrir hégómagindina, ekki satt? Patera er lýsing á eldfjalli sem stjörnufræðingar nota, þegar það er flatt út eins og stór súpudiskur á hvolfi eða það form sem við nefnum dyngja á íslensku.

Myndin fyrir neðan sýnir eldfjallið Sigurð á Íó.

Sigurd Patera, Haraldur Sigurðsson, Íó
Eldfjallið Sigurd á Íó sem nefnt er eftir Sigurði Fáfnisbana en til heiðurs Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi.

Íslenskt stöðuvatn á Títan

Menn hafði lengi grunað að á Títan, stærsta tungli Satúrnusar, væri að finna höf, eða að minnsta kosti stöðuvötn. Strax við komuna til Satúrnusar sýndu ratsjármyndir Cassini geimfarsins og loftmyndir Huygens lendingarfarsins, greinileg merki um að fljótandi vökvi hefði runnið um ísilagt yfirborð Títans. Aftur á móti sáu menn engin ótvíræð ummerki um fljótandi vökva. Það breyttist 22. júlí 2006 þegar ratsjártækið um borð í Cassini geimfarinu svipti hulunni af stöðuvötnum á norðurpólsvæði Títans. 

Á Títan er nístingskalt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Meðalhitastigið á yfirborðinu er -179°C. Því er morgunljóst að stöðuvötnin eru harla ólík þeim sem finnast á jörðinni. Í ljós hefur komið að stöðuvötnin eru úr metani, efni sem er gastegund við hitastigið á jörðinni en fljótandi í nístingskulda Títans. Fljótandi metanið rignir úr lofthjúpnum og safnast í lægðir á yfirborðinu og mynda þar stöðuvötn. Á Títan enda nöfn stöðuvatnanna á latneska orðinu "Lacus" sem þýðir stöðuvatn.

Eitt stöðuvatnanna á norðurpólssvæði Títans er nefnt eftir fjórða stærsta vatni Íslands, Mývatni. Mývatn á Títan er reyndar heldur stærra en hið íslenska, eða 55 km í þvermál. Nafnanefnd Alþjóðasamband stjarnfræðinga samþykkti nafnið 27. september 2007.

Títan, Mývatn
Mývatn á Satúrnusartunglinu Títan. Oneida vatn er stærsta vatnið í New York ríki og Waikare vatn er á Nýja-Sjálandi.

Tengt efni

Heimildir

  1. Gazetteer of Planetary Nomenclature.
  2. Mercury Features Receive New Names. Fréttatilkynning frá Johns Hopkins University: Applied Physics Laboratory.
  3. Twelve New Names Approved for Use on Titan.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Íslensk örnefni í sólkerfinu. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large-okkar/islensk-ornefni-i-solkerfinu (sótt: DAGSETNING).