Heitir gasrisar

Hot Jupiters

  • Heitur gasrisi, hot jupiter
    Heitur gasrisi

Heitir gasrisar er sú tegund fjarreikistjarna sem auðveldast er að finna með sjónstefnumælingum. Stærðar sinnar vegna hafa þær mest og greinilegust áhrif á móðurstjörnuna. Er þetta ástæða þess að flestar fjarreikistjörnur sem hafa fundist hingað til eru heitir gasrisar.[1]

Fyrsta fjarreikistjarnan sem fannst var heiti gasrisinn 51 Pegasi b. Hana fundu svissneskir stjörnufræðingar árið 1995. Hún er sex sinnum nær móðurstjörnu sinni en Merkúríus er miðað við sólina okkar (0,05 SE). Vegna nálægðar sinnar er hitastigið í lofthjúpi reikistjörnunnar milli 2000-3000°C og umferðartíminn aðeins rúmir fjórir dagar.[2]

Myndun og áhrif nálægðar

Rannsóknir benda til að heitir gasrisar myndist utan snælínu sólkerfisins sem þeir eru í. Síðan færast þeir innar og nær sólinni uns þeir komast á stöðuga braut.[3] Aðrir útreikningar benda til þess að reikistjörnurnar gætu hafa myndast á staðnum.[4]

Þessi mikla nálægð við sólstjörnuna hefur vitaskuld umtalsverð áhrif á reikistjörnuna. Sterkir sólvindar og hár hiti valda því að reikistjarnan glatar stórum hluta af ytri lögum sínum. Hve hratt þetta gerist veltur á stærð reikistjörnunnar, efnasamsetningu og fjarlægð frá stjörnu. Séu reikistjörnurnar í um 0,02 SE fjarlægð frá stjörnunni glata þær milli 5-7% af massanum á æviskeiði sínu. Sé reikistjarnan í innan við 0,015 SE fjarlægð getur hún nánast gufað upp svo að aðeins kjarninn situr eftir.[5]

Heimildir

  1. Udry, Stéphane og Santos, Nuno C. 2007. Statistical Properties of Exoplanets. Annual Review of Astronomy and Astrophysics. 45. 397-439.
  2. Mayor, Michel og Queloz, Didier. 1995. A Jupiter-mass companion to a solar-type star. Nature 378 (6555): 355-359.
  3. Chambers, John. 2007. Planet Formation with Type I and Type II Migration. AAS/Division of Dynamical Astronomy Meeting. 38. http://adsabs.harvard.edu/abs/2007DDA....38.0604C
  4. Bodenheimer, P; Hubickyj, O og Lissauer, J. 2000. Icarus 143:2
  5. Exoplanets Exposed to the Core. 2009. Sótt 14.03.2010. http://www.astrobio.net/news/article3112.html

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Heitir gasrisar. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuliffraedi/fjarreikistjornur/heitir-gasrisar (sótt: DAGSETNING).