Geminítar

  • Geminítar, Vestmannaeyjar, stjörnuhrap, loftsteinahrap
    Stjörnuhröp yfir Vestmannaeyjum úr Geminíta loftsteinadrífunni. Mynd: Óskar Elías Sigurðsson

Geislapunktur drífunnar er rétt fyrir ofan stjörnuna Kastor í stjörnumerkinu Tvíburunum (e. Gemini) og dregur hún nafn sitt af því. Geminítar geta þó dreifst vítt og breitt um himininn en þekkjast af því, að þeir virðast stefna frá Tvíburamerkinu.

Stjörnuhröpin eru gjarnan ljósgulleit eða fölgræn en ekkert sérstaklega hraðskreið miðað við margar aðrar loftsteinadrífur. Hraði agnanna er í kringum 35 km á sekúndu.

1. 3200 Phaethon

3200 Phaethon er um það bil 5 km breitt smástirni sem fannst á ljósmyndum IRAS gervitunglsins hinn 11. október árið 1983. Smástirnið er á óvenjulegri braut sem færir það nær sólu en mörg önnur smástirni og af þeirri ástæðu var það nefnt Phaethon eftir syni gríska sólarguðsins Helíosar.

1.1 Braut

3200 Phaethon telst til Apollo smástirna — hóps smástirna sem gerast nærgöngul við Jörðina (smástirnið sem sprakk yfir Chelyabinsk í Rússlandi var úr sama hópi) — og gæti tilheyrt Pallas smástirnafjölskyldunni líka.

Í sólfirrð er 3200 Phaethon innan við 1,017 stjarnfræðieiningar frá sólinni (152 milljón km) en í sólnánd er það aðeins 0,14 stjarnfræðieiningar frá sólu (20,9 milljón km). Umferðartíminn er 1,4 ár.

Vegna þessarar óvenjulegu brautar, sem líkist fremur braut halastjörnu en smástirnis, hefur 3200 Phaethon stundum verið kölluð „berghalastjarna“. Athuganir sýna enda að smástirnið varpar frá sér ryki svo rykhali verður til þegar það kemst næst sólinni. Hugsanlegt er að Phaethon sé leifar halastjörnu. Það er flokkað sem smástirni af B-gerð sem eru mjög dökkleit.

2. Hvernig er best að fylgjast með Geminítum?

  • Í desember er stjörnumerkið Tvíburarnir á lofti svo til allar myrkurstundi, svo hægt er að fylgjast með drífunni frá kvöldi til morguns. Besti tíminn til að fylgjast með Geminítum er hins vegar þegar Tvíburarnir eru í hágöngu (í suðri) milli klukkan 3 og 4 að nóttu til, þá í 57 gráðu hæð yfir sjóndeildarhring.

  • Best er að fylgjast með drífunni fjarri ljósmenguðum bæjum. Ef tunglið er á lofti getur það haft töluverð áhrif á fjölda sýnilegra stjörnuhrapa.

  • Ekki er þörf á neinum sjóntækjum, svo sem handsjónaukum eða stjörnusjónaukum, en hins vegar getur verið gaman að skoða rykslóðirnar í gegnum handsjónauka.

  • Taktu með þér stól, hlý föt og heitan drykk því nauðsynlegt er að gefa sér tíma þegar fylgst er með loftsteinadrifum, helst í klukkustund eða tvær, að minnsta kosti.

Heimildir

  1. NASA SolarSystem Exploration: Meteors & Meteorites: Geminids.

  2. MeteorshowersOnline: Geminids.

Höf. Sævar Helgi Bragason