Þverganga Venusar 5.-6. júní 2012

  • Venus, þverganga
    Venus snertir fyrst skífu sólar klukkan 22:04 að íslenskum tíma. Þvergangan stendur yfir í rúmar 6 klukkustundir og lýkur klukkan 04:54 þegar sólin er lágt á norðausturhimni. Venus mun þekja um 3% af skifu sólar og draga úr birtu hennar um 0,1%. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Hermann Hafsteinsson

Þriðjudagskvöldið 5. júní og aðfaranótt miðvikudags 6. júní árið 2012 gekk Venus fyrir sólina. Þvergangan hófst þegar Venus snerti vinstri rönd sólar, ofarlega á skífunni, klukkan 22:04 en þá var sólin lágt á lofti á norðvesturhimni.

Fjallað var um þvergönguna í Almanaki Háskóla Íslands fyrir árið 2012. Þar kom fram að:

Sól sest í Reykjavík áður en þvergangan er hálfnuð, en það verður nálægt miðnætti. Þegar sólin kemur upp aftur er Venus enn í þvergöngu og verður það til kl. 04 54, að þvergöngunni lýkur. Þá er sólin lágt í norðaustri.

Reykjavík er eina borgin í heiminum þar sem sól sest og kemur upp aftur meðan á þvergöngunni stendur. Þvergangan sést betur eftir því sem norðar dregur á Íslandi, og allra nyrst á landinu er fræðilegur möguleiki að fyrirbærið sjáist frá upphafi til enda ef athugandinn er staddur nægilega hátt yfir sjávarmáli og veðurskilyrði afburða góð.

Seinast sást þverganga Venusar frá jörðinni 8. júní 2004. Í Reykjavík hófst sú þverganga kl. 05:19 og lauk 11:23 og tók því um sex klukkustundir.

Næsta þverganga, sem sést frá upphafi til enda frá Íslandi, verður ekki fyrr en árið 2247!

Venus, þverganga 2012
Þvergangan sést í heild frá vestanverðu Kyrrahafi og austurhluta Asíu og Ástralíu. Íbúar í Norður og mið Ameríku og norðanverðri Suður Ameríku sjá upphaf þvergöngunnar 5. júní en sólin sest áður en henni lýkur. Íbúar í Evrópu, vestur og mið Asíu, austur Afríku og vestur Ástralíu sjá lok þvergöngunnar þegar sólin rís yfir þessi svæði. Íbúar á norðurhveli ofan 67 breiddargráðu sjá þvergönguna burtséð frá lengdargráðu.

Fram kemur í Alamanki Háskóla Íslands fyrir árið 2012 að Reykjavík sé eina borgin í heiminum þar sem sólin sest og kemur upp aftur á meðan þvergangan stendur yfir. Svipaða sögu er að segja af svæðinu suður af Ástralíu (svæði Y á kortinu) en þar rís sólin eftir að þvergangan er byrjuð og sest áður en henni lýkur. Þar búa reyndar sárafáir.

Kort: Fred Espenak, NASA Goddard Space Flight Center, Stjörnufræðivefurinn

Hvað sést?

Í byrjun þvergöngunnar sést tvennt sem fólk ætti að veita athygli: Annars vegar daufum ljóma sem umlykur reikistjörnuna þegar brún hennar er enn rétt fyrir utan sólskífuna og hins vegar svonefnd dropaáhrif.

Ljóminn er af völdum ljósbrots í lofthjúpi Venusar en hann hverfur smám saman þegar reikistjarnan færist lengra inn á sólina. Dropaáhrifin má hins vegar rekja til ókyrrðar í lofthjúpi jarðar og ljósbrots í sjónaukum til blands við jaðarhúmun við rönd sólar. Saman valda þessir þættir því að Venus sýnist dreypa af sólröndinni. Áhrifin eru alræmd því þau komu í veg fyrir áreiðanlegar tímamælingar á þvergöngu Venusar hér áður fyrr. Í lokin ættu bæði áhrifin að sjást á nýjan leik.

Eftir þetta færist Venus smám saman yfir sólskífuna. Ef hana ber við sólblett sést að reikistjarnan er miklu dekkri en sólbletturinn.

Hvernig er best að fylgjast með?

sólskoðun, sólarsía, solar filter
Sólin skoðuð. Mikilvægt er að fara með gát ef fylgjast á með þvergöngu Venusar og nota aðeins viðurkenndan búnað til þess. Mynd: Stjörnufræðivefurinn

Mjög mikilvægt er að fara með gát og tryggja öryggi sitt og annarra ef skoða á sólina. Sólskoðun krefst mikillar árverkni enda getur augnablikskæruleysi valdið óbætanlegum augnskaða.

Einfaldasta og öruggasta leiðin til að fylgjast með þvergöngunni er að notast við viðurkenndar sólarsíur eins og þær sem fást á vefsíðunni Sjónaukar.is. Sólarsíur eru alltaf settar framan á sjónaukana og koma í veg fyrir að skaðleg geislun berist inn í sjónaukann. Þessar síur hleypa aðeins hundrað þúsundasta hluta ljóssins í gegn og tryggja það að sólin sé nægilega dimm til að auðvelt sé að skoða hana. Einnig er hægt að kaupa sérstök sólskoðunargleraugu hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Loks má nefna rafsuðugler nr. 14 sem fæst í byggingarvöruverslunum.

Þverganga Venusar 2012 er líka kjörið tækifæri til að skoða undur sólarinnar sjálfrar. Síðustu ár hefur virkni sólar verið með minnsta móti en er smám saman að aukast. Daginn sem þvergangan verður munu áreiðanlega tignarlegir sólblettir prýða sólina sem gaman er að skoða.

Stjörnufræðivefurinn, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og áhugafólk mun fylgjast með þvergöngunni víða um land. Hér er kort yfir staði þar sem fólk mun safnast saman (ef veður leyfir) og fylgjast með þvergöngunni og skoða sólina með viðurkenndum búnaði. Nýjustu fregnir af viðburðum verður að finna á bloggi Stjörnufræðivefsins.

Hubble notaði tunglið sem spegil til að fylgjast með þvergöngunni

Hubble, Venus, þverganga
Við þvergöngu Venusar 5.-6. júní 2012 verður  Hubblessjónaukanum  beint að tunglinu til að skoða sólarljós sem borist hefur í gegnum lofthjúp Venusar og endurvarpast af tunglinu. Mynd: NASA/ESA/A. Feild (STScI)

Þegar Venus gekk fyrir sólina 5.-6. júní 2012 var Hubblessjónauka NASA og ESA beint í öfuga átt — að tunglinu.

Þetta hljómar skringilega en þar sem ekki er hægt að beina Hubble að sólinni skoðaði hann ljós frá Venusi sem endurvarpast af tunglinu. Þegar Venus var fyrir framan sólina barst örlítill hluti sólarljóssins í gegnum lofthjúp reikistjörnunnar og hann er hægt að greina í endurvarpi tunglsins. Í þessu ljósi vonuðust menn til að geta greint fingraför efnanna í lofthjúpi Venusar.

Með þessum hætti var líkt eftir aðferð sem stjörnufræðingar nota til að efnagreina lofthjúpa fjarreikistjarna sem ganga fyrir sínar móðurstjörnur, líkt og Venus gerði 5.-6. júní 2012. Þekkingin verður nýtt til að betrumbæta mælingar á lofthjúpum fjarreikistjarna og gera okkur kleift, í framtíðinni, að finna dauf fingraför lofthjúps reikistjörnu sem líkist jörðinni okkar.

Sjá nánar Tunglið notað sem spegill.

Fylgst með frá Perlunni í Reykjavík

Þverganga Venusar 2012
Um 1.500 manns fylgdust með þvergöngu Venusar 5.-6. júlí frá Perlunni í Reykjavík. Fólk safnaðist líka saman á Þingeyri við Dýrafjörð en veðrið setti strik í reikninginn á Norðurlandi og í Vestmannaeyjum.

Um 1.500 manns lögðu leið sína að Perlunni í Reykjavík þriðjudagskvöldið 5. júní til að fylgjast með þvergöngunni. Fyrstu gestir voru mættir um klukkan 21:00 en þvergangan hófst rúmri klukkustund síðar. Þrátt fyrir tvísýnt veðurútlit sást þvergangan vel frá höfuðborgarsvæðinu í gegnum fjölmarga sjónauka félagsmanna Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness sem voru á staðnum. Á Þingeyri kom fjöldi fólks líka saman en veðrið setti því miður strik í reikninginn á Norðurlandi og í Vestmannaeyjum.

Árið 2004 sást þverganga Venusar vel frá Íslandi en sárafáir fylgdust með þá. Líklega hefur fjöldi Íslendinga sem séð hefur þennan einstaka atburð meira en 100-faldast eftir þriðjudagskvöldið 5. júní. Enginn sem sá þvergönguna þá verður á lífi þegar þetta gerist næst árið 2117 (sú þverganga sést raunar ekki frá Íslandi).

Félagsmenn Stjörnuskoðunarfélagsins komu vel útbúnir sjónaukum og síum sem gerðu fólki kleift að sjá þvergönguna á öruggan hátt.

Sólin sjálf var útötuð í sólblettum sem sáust vel en þunnar skýjaslæður settu líka skemmtilegan svip á atburðinn. Skýin drógu einnig úr birtu sólar sem olli því að myrkvagleraugun nýttust ekki sem skildi. Þau munu hins vegar nýtast fólki árið 2015 þegar deildarmyrkvi á sólu sést frá Íslandi.

Myndasafn

Við óskum eftir myndum af þvergöngunni til að birta hér á vefnum. Sendið okkur endilega skeyti á stjornuskodun[hjá]stjornuskodun.is.

Þverganga Venusar 5.-6. júní 2012 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

Tengt efni

Heimildir

  1. Þorsteinn Sæmundsson og Gunnlaugur Björnsson. 2012. Almanak fyrir Ísland 2012. 176. árgangur. Háskóli Íslands.