Stækkun

Hversu mikið stækka sjónaukar?

  • Stjörnusjónaukar
    Stjörnusjónauki

Sjónauki er sjóntæki sem gerir fyrirbæri himinsins sýnileg með því að:

  1. Nota stóra linsu eða spegil til að safna meira ljósi en augað getur og gerir þannig dauf fyrirbæri sýnileg og

  2. stækkar fyrirbærin svo auðveldar sé að greina smáatriði á þeim.

Af þessum þáttum er sá fyrri langmikilvægastur. Sjónauki gerir nefnilega í raun fátt annað en að safna ljósi og beina því brennipunkt. Því stærra sem ljósopið er, því meira ljósi safnar sjónaukinn. Því meira ljósi sem sjónaukinn safnar, þeim mun auðveldar er að stækka fyrirbæri.

Stækkunin er svo líka háð augnglerinu sem verið er að nota. Því lægri sem millímetratalan á augnglerinu er, því meiri stækkun gefur það en sjónsviðið þrengist aftur á móti. Mikla stækkun er aðeins hægt að nota þegar aðstæður eru góðar. Stjörnufræðingar og stjörnuáhugamenn tala þá um gott stjörnuskyggni. Í flestum tilvikum fæst hins vegar fallegasta myndin með lítilli eða meðalstækkun (50x til 150x). Mikil stækkun er aðallega notuð til að skoða reikistjörnurnar og þá aðeins ef loftið er mjög stöðugt.

Mikil stækkun er ekki alltaf betri

Samanburður á hornstærð tunglsins og Andrómeduvetrarbrautarinnar
Andrómeduvetrarbrautin (M31) nær yfir sexfallt stærra svæði á himninum en tunglið (3° á móti 1/2°). Lítil stækkun hentar því fyrir M31 en mikil stækkun fyrir tunglið. Mynd: Adam Block og Tim Puckett.

Nokkrar ástæður eru fyrir því að mikil stækkun með sjónaukanum þínum er ekki alltaf það sem þú ættir að leitast eftir. Óreyndir stjörnuáhugamenn draga yfirleitt þá ályktun að þau fyrirbæri sem verið er að reyna að skoða séu mjög fjarlæg og lítil og því sé best að stækka þau sem mest.

Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir að flest fyrirbæri næturhiminsins séu mjög fjarlæg eru þau risastór og er það helsta ástæða þess að ekki er þörf á mikilli stækkun til að sjá þau vel. Þótt fyrirbæri sé dauft þarf það ekki að vera lítið.

Tökum fullt tungl sem dæmi. Á himninum virðist það nokkuð stórt fyrirbæri enda getum við augljóslega greint lögun þess og fáein smáatriði með berum augum. Þrátt fyrir það er fullt tungl einungis hálf gráða á stærð á himninum. Sverðþokan í Óríon (M42) er til að mynda miklu daufari en tvöfalt stærri að þvermáli (ein gráða) en fullt tungl á himninum. Andrómeduvetrarbrautin (M31) nær yfir sex sinnum stærra svæði á himninum en tunglið. Þótt Andrómeda sé 70 trilljón sinnum lengra í burtu en tunglið, er hún líka 420 trilljón sinnum stærri. Þótt fyrirbæri sé fjarlægt þarf það ekki að þýða að það sé lítið.

Það sama á við um mörg önnur fyrirbæri næturhiminsins. Norður-Ameríku þokan í Svaninum er fjórfalt stærri á himninum en tunglið og jafnvel kúluþyrpingar, sem oftast eru talin lítil fyrirbæri, eru oft aðeins helmingur af stærð tunglsins eða stærri. Öll þessi fyrirbæri væri sáraeinfalt að sjá með berum augum ef þau væru bjartari.

Það er því aðeins geta sjónaukans til að safna ljósi sem veldur því að það er auðveldara að sjá þau en ekki stækkunin. Því stærra sem ljósop sjónaukans er, því meira ljósi safnar hann og myndin verður bjartari.

Andrómeduvetrarbrautin lítur til dæmis best út í mjög skörpum linsusjónauka með vítt sjónsvið og litla stækkun. Þá sést fyrst hversu gríðarlega víðáttumikil þessi glæsilega vetrarbraut er þegar hún teygir sig langt út fyrir sjónsviðið. Meiri stækkun gæfi minna sjónsvið sem þýðir að stór fyrirbæri, eins og Andrómeda, passa jafnvel ekki inn í það.

Björt mynd = falleg mynd

m42_staekkunarmunur
Sverðþokan í Óríon (M42) eins og hún birtist í gegnum 8 tommu (20cm) spegilsjónauka við 75x stækkun og 200x stækkun. Við minni stækkun er sjónsviðið víðara og myndin bjartari svo fleiri smáatriði sjást í þokunni allri. Í meiri stækkun sést miklu minni hluti þokunnar svo hér er betra að nota minni stækkun.

Annar kostur þess að halda stækkun í lágmarki varðar birtu myndarinnar sem þú sérð í gegnum sjónaukann. Ljósfræðin segir okkur að þegar við tvöföldum stækkunina dofnar myndin fjórfalt (verður fjórum sinnum daufari). Flest fyrirbæri næturhiminsins eru mjög dauf og því lítill hagur í því að draga enn frekar úr birtu myndarinnar. Af þessari ástæðu er ljósop sjónaukans svo miklu mikilvægara en stækkunarmörk hans. Björt mynd er lykilatriði í stjörnuskoðun og gefur yfirleitt alltaf fallegri mynd.

Sum fyrirbæri eru aftur á móti nálæg, lítil og björt og ráða þar af leiðandi vel við mikla stækkun. Tunglið og reikistjörnurnar falla sérstaklega í þennan flokk. Þrátt fyrir að Júpíter sé langstærsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar er hann svo fjarlægur að hann sýnist 36 sinnum minni en fullt tungl eða álíka stór og tíu krónu mynt í 100 metra fjarlægð – býsna lítill. Á móti kemur að Júpíter er mjög bjartur, oft á tíðum bjartari en nokkurt annað fyrirbæri á næturhimninum. Sama á við um Mars, Satúrnus og önnur björt fyrirbæri eins og tunglið. Þess vegna virkar mikil stækkun vel á þessi fyrirbæri en hafa ber í huga að sjónaukinn hefur ákveðin stækkunarmörk em segja til um minnstu og mestu gagnlegu stækkun.

Hámarksstækun - mesta gagnglega stækkun

Þótt reikistjörnur og tunglið ráði vel við mikla stækkun er ekki þar með sagt að hægt sé að stækka fyrirbærin eins og manni sýnist. Í gegnum skarpan og góðan sjónauka og vandað augngler lítur Satúrnus án efa mun betur út við 200x stækkun heldur en 50x stækkun. Þótt svo sé er ekki þar með sagt að hann líti betur út við 600x eða 1000x stækkun og fyrir því eru tvær ofureinfaldar ástæður. Sú fyrri varðar sjónaukann sjálfan en sú seinni lofthjúp jarðar.

Hve björt mynd sést í gegnum sjónauka er háð stærð ljósopsins og stækkuninni sem notuð er. Því meira ljósi sem þú safnar til að byrja með (því stærri sem sjónaukinn er), því meira getur þú stækkað myndina áður en hún verður of dimm og móðukennd. Upplausn sjónaukans segir til um smæstu smáatriðin sem hægt er að greina, mæld í bogasekúndum og er einnig háð stærð ljósopsins. Þetta þýðir að til eru efri mörk á því hve mikið sjónaukinn ræður við að stækka. Stækkunarmörk sjónaukans (mesta gagnlega stækkun) segja þar af leiðandi til um hve mikla stækkun sjónaukinn ræður við áður en myndin verður of dauf. Stækkunarmörk sjónauka má finna út með þessari einföldu jöfnu:

Hámarksstækun = Ljósop x 50

þar sem stærð ljósopsins er gefin í tommum. Þannig hefur til dæmis þriggja tommu sjónauki 150x hámarksstækkun. Sex tommu sjónauki ræður auðveldlega við yfir 300x stækkun við bestu aðstæður en átta tommu sjónauki yfir 400x. Gagnlegast er að nota mikla stækkun þegar reikistjörnurnar og tunglið eru skoðuð. Líklegt er að stækkun sem nemur meira en 30x á hverja tommu af ljósopi sjónaukans sé ekki gagnleg í reikistjörnuskoðun. Flestum athugendum þykir sú stækkun sem þetta gefur nægjanleg til að greina öll sýnileg smáatriði. Meiri stækkun stækkar vitaskuld reikistjörnuna en fjölgar ekki endilega sýnilegum smáatriðum. Á átta tommu sjónauka gefur 30x stækkun á hverja tommu ljósopsins 240-falda stækkun. Við slíka stækkun er Júpíter þrjár gráður að þvermáli eða sem nemur sexföldu þvermáli fulls tungls séð með berum augum. Undantekningin eru litlir sjónaukar þar sem oft er hægt að nota 40x, 50x eða jafnvel 60x stækkun á hverja tommu ljósopsins, en það fer þó eftir gæðum hans.

Meiri stækkun er hægt að nota þegar verið er að skoða tvístirni og nokkur djúpfyrirbæri. Mjög þétt tvístirni gætu þess vegna leyft 50x til 70x stækkun á hverja tommu ljósopsins, svo framarlega að hornbilið milli stjarnanna sé meira en sjónaukinn ræður við. Þetta er þó að öllu leyti háð gæði sjóntækjanna, spegilsstillingu sjónaukans, stjörnuskyggninu, athugandanum og birtumuninum milli stjarnanna. Aftur geta smærri sjónaukar þolað meiri stækkun. Taflan hér fyrir neðan sýnir þá stækkun sem mælt er með að notuð sé til þess að skoða reikistjörnurnar og fræðileg stækkunarmörk:

Ljósop
Mesta gagnlega stækkun
Fræðileg stækkunarmörk
60-66mm (2,4-2,6 tommur)
120x
150x
70mm (2,8 tommur)
130x
170x
80mm (3,2 tommur)
150x
180x
90mm (3,5 tommur)
160x
200x
102mm (4 tommur)
180x
250x
110-114mm (4,3-4,5 tommur)
190x
270x
130mm (5,1 tommur)
200x
300x
150mm (6 tommur)
240x
350x
180mm (7 tommur)
250x
380x
200mm (8 tommur)
260x
400x
235mm (9,25 tommur)
300x
480x
250mm (10 tommur)
320x
500x
280mm (11 tommur)
340x
550x
300mm (12 tommur)
360x
600x
350mm (14 tommur)
400x
840x
400mm (16 tommur)  450x
950x
450mm (18 tommur)
500x
1080x

Á ofangreindri töflu er mikilvægt að hafa í huga mismunandi gæði stjörnusjónauka. Þannig getur vandaður 60mm sjónauki hæglega komast upp í eða jafnvel yfir 150x stækkun og gefið góða mynd á meðan ódýrari 60mm sjónauki nær því ekki.

Hafa ber í hug að hér er um að ræða fræðilegt hámark því þegar öllu er á botninn hvolft er það ekki sjónaukinn sem hefur úrslitaáhri heldur lofthjúpur jarðar.

Stjörnuskyggni - stækkun háð aðstæðum

jupiter_stjornuskyggni
Veðuraðstæður hafa mikið segja um gæði myndarinnar. Hér sést Júpíter við um 250x stækkun í góðum stjörnusjónauka. Vinstra megin er gott stjörnuskyggni og fjöldi smáatriði greinileg en hægra megin er skyggnið slæmt og smáatriðin hverfa. Stækkunin er því háð aðstæðum.

Þar sem við erum óhjákvæmilega bundin af lofhjúpi jarðar horfum við í gegnum hann þegar við skoðum stjörnuhiminninn. Af því leiðir að því meira sem við stækkum fyrirbærið sem við horfum á, því meira aukum við áhrif lofthjúpsins. Sé mikil ókyrrð í lofthjúpnum ber myndin í gegnum sjónaukann skaða af því og verður léleg. Stjörnuáhugamenn tala því oft um gott eða slæmt stjörnuskyggni í þessu sambandi. Þegar stjörnuskyggnið er gott er lofthjúpurinn stöðugur og myndin í gegnum sjónaukann hnífskörp, jafnvel við mikla stækkun. Þegar stjörnuskyggnið er lélegt er lofthjúpurinn ókyrr og jafnvel dýr og vandaður sjónauki skilar lélegri mynd.

Á heiðskírri nóttu við góð skilyrði er algengt að ná yfir 200x stækkun en á slæmu kvöldi er gjarnan lítið vit í að stækka meira en 100 til 150x. Mikilvægt er að hafa í huga að stjörnuskyggni og gagnsæi lofthjúpsins (það hve heiður lofthjúpurinn er) er ekki það sama. Stundum getur stjörnuskyggnið verið lélegt á dimmum og heiðskírum nóttum en verið gott þegar gagnsæi lofthjúpsins er lítið.

Lágmarksstækkun - minnsta gagnlega stækkun

ljoshals
Ef athugandi dregur úr stækkun, stækkar ljóshálsinn. Stærri ljósháls gefur bjartari mynd en getur samt dregið úr gæðum hennar.

Til er lágmarksstækkun sjónauka rétt eins og til er hámarksstækkun og er það minnsta gagnlega stækkun sjónaukans. Lágmarksstækkun sjónauka ákvarðast af ljóshálsinum sem hann myndar ásamt augnglerinu sem notað er og ljósopi auga athugandans. Ljóshálsinn (exit pupil) er þvermál ljósgeislans sem sjónaukinn og augnglerið framkalla. Því minni sem stækkunin er, því breiðari er ljóshálsinn. Því stærri sem þessi geisli er, því bjartari er myndin, af því gefnu að ljóshálsinn sé ekki stærri en þvermál ljósopsins í auga athugandans. Ljóshálsinn er auðvelt að reikna út með þessari jöfnu:

Ljósháls = Ljósop / stækkun

þar sem ljósopið er í millímetrum. Þannig gefur átta tommu (200mm) sjónauki við 50x stækkun 4mm ljósháls. Við 100x stækkun á sama sjónauka minnkar ljóshálsinn niður í 2mm. Lágmarksstækkunin takmarkast aftur á móti af auga athugandans. Sé ljóshálsinn stærri að þvermáli en þvermál ljósops augans fer talsvert af ljósi til spillis og eru þau áhrif hin sömu og ef ljósop sjónaukans væri minnkað.

Stærð ljósops augans veltur á því hver vel athugandinn hefur vanist myrkrinu. Að meðaltali er hámarksstærð ljósops augans 7mm þegar augað hefur aðlagast myrkrinu úti við. Hafa ber í huga að þetta er þó háð aldri athugandans. Hámarksljósopsstærð augans minnkar nefnilega með alddrinum. Ljósopið í auga ungra stjörnuáhugamanna gæti verið milli 7-8mm breitt þegar mest er undir dimmum himni á meðan ljósop í auga eldri stjörnuáhugamanna gæti verið milli 6-7mm. Við 80 ára aldur er þvermál ljósopsins aðeins milli 3,5-5mm. Ef við gerum ráð fyrir því að staðalstærð ljósops augans sé 7mm má finna út lágmarksstækkun sjónauka með þessari einföldu jöfnu:

Lágmarksstækkun = Ljósop / 7

þar sem ljósopið er í millímetrum. Þannig má reikna út að lágmarksstækkun fjögurra tommu sjónauka sé 14x, átta tommu sjónauka 29x og fjórtán tommu sjónauka 50x. Taflan hér fyrir neðan sýnir lágmarksstækkun eða minnstu gagnlegu stækkun á mismunandi sjónaukum:

Ljósop
Minnsta gagnlega stækkun
60-66mm (2,4-2,6 tommur)
9x
70mm (2,8 tommur)
10x
80mm (3,2 tommur)
11x
90mm (3,5 tommur)
13x
102mm (4 tommur)
15x
110-114mm (4,3-4,5 tommur)
16x
130mm (5,1 tommur)
19x
150mm (6 tommur)
22x
180mm (7 tommur)
25x
200mm (8 tommur)
29x
235mm (9,25 tommur)
34x
250mm (10 tommur)
36x
280mm (11 tommur)
40x
300mm (12 tommur)
43x
350mm (14 tommur)
50x
400mm (16 tommur)  57x
450mm (18 tommur)
64x

Þessir útreikningar gera ráð fyrir því að sjónaukinn þinn nái svo lítilli stækkun. Tveir þættir koma hins vegar í veg fyrir að það sé hægt; annars vegar brennivídd sjónaukans og hins vegar augnglerin. Sjónauki með mjög langa brennivídd gæti þurft augngler með mjög langri brennivídd (hærri millímetratala) til að ná lágmarksstækkuninni. Þannig myndi átta tommu Schmidt-Cassegrain sjónauki með 2032mm brennivídd þurft 70mm augngler til að ná 29x stækkun. Augngler með lengri brennivídd en 55mm eru mjög sjaldgæf og jafnvel þótt þau væru til kæmu hnökrar sjóntækjanna bersýnilega í ljós við svo litla stækkun. Við svo litla stækkun sæi eigandi þessa sjónauka dökkan blett í miðju sjónsviðsins sem stafar af aukaspeglinum í miðjum sjónaukanum. Linsusjónaukar hafa ekki aukaspegil eða neina aðra miðhindrun (e. central obstruction) og henta því frábærlega í stjörnuskoðun með lítilli stækkun og vítt sjónsvið. Miðhindrunin dregur sömuleiðis úr skerpu (e. contrast) og því eru linsusjónaukar oftast með mun betri skerpu en spegilssjónaukar.

Sé stækkunin innan við minnstu gagnlegu stækkun eru áhrifin þau sömu og ef ljósop sjónaukans sé minnkað, eins og áður sagði. Þannig myndi fjórtán tommu sjónauki við 40x stækkun gefa 9mm ljósháls. Áhrifin væru þá hin sömu og ef ljósop sjónaukans væri minnkað niður í 11 tommur. Þótt sjónsviðið víkki við minni stækkun eykst birta myndarinnar ekkert ef ljóshálsinn er breiðari en 7mm – ekki nema þú sért með óvenju stór augu.

Kjörstækkun

Þegar dregið er úr stækkuninni minnkar myndin og sýnilegum smáatriðum fækkar. Hið sam gerist þegar farið er upp fyrir mestu gagnlegu stækkun sjónaukans. Myndin verður þá móðukennd og sýnilegum smáatriðum fækkar.

Augað greinir best smáatriði þegar ljóshálsinn er milli 2-3mm breiður. Þetta næst með 35-50x stækkun á fjögurra tommu sjónauka, 70-100x stækkun á átta tommu sjónauka og 120-175x stækkun á fjórtán tommu sjónauka. Hér verður þó að hafa í huga fyrirbærið sem verið er að skoða. Ef um er að ræða gisna lausþyrpingu getur verið nauðsynlegt að nota litla stækkun til að ná utan um alla þyrpinguna, en ef um smáatriði í vetrarbrautum, stjörnuþokum eða kúluþyrpingum er að ræða, gætu þessar stækkarnir reynst gulls ígildi.

Í reikistjörnuskoðun er án efa hægt að nota meiri stækkun. Hvert fyrirbæri, hver sjónauki og hver einasti athugandi er að sjálfsögðu einstakur þannig að mismunandi stækkanir henta ólíkum athugendum. Flestir stjörnuáhugamenn eiga því um nokkra stækkunarmöguleika að velja og eiga til þess að minnsta kosti þrjú augngler eða fleiri – eitt sem gefur mikla stækkun, annað sem gefur meðalstækkun og það þriðja sem gefur litla stækkun – fyrir mismunandi aðstæður og fyrirbæri. Venjulega eru þessar stækkarnir á bilinu 50x til 250x en það er vitaskuld háð sjónaukanum. Augngler sem gefur meiri stækkun getur gagnast þegar aðstæður eru góðar en verður líklega það augngler í safninu þínu sem sjaldnast er notað. Minni stækkun gæti sömuleiðis gagnast til þess að fá eins vítt sjónsvið og mögulegt er en aðeins ef sjónaukinn ræður við svo litla stækkun.

Til þess að ná sem mestum sýnilegum smáatriðum út úr sjónaukanum þínum er nauðsynlegt að velja rétta stækkun fyrir það fyrirbæri sem verið er að skoða. Sum fyrirbæri er best að skoða við litla stækkun, önnur við mikla stækkun en enn önnur meðalstækkun. Allir sjónaukar hafa þar af leiðandi sína kjörstækkun sem er einhvers staðar milli minnstu gagnlegu stækkunarinnar og mestu gagnlegu stækkunarinnar.

Upplausn sjónauka og birtuskil

staekkun_kontrast
Meiri birtuskil gefa oftast betri mynd. Því meiri sem stækkunin er, því dekkri verður bakgrunnurinn og daufari fyrirbæri standa út. Hér er samanburður á Tvíklasanum (Double Cluster) í Perseusi séð í gegnum 14" f/4 spegilsjónauka. Vinstra megin er það sem sést með 13mm TeleVue Ethos augngleri (100° sýndarsjónsvið) sem gefur 109x stækkun og 3,2mm ljósháls. Hægra megin er það sem sést með 25mm Plössl augngleri (50° sýndarsjónsvið) sem gefur 55x stækkun og 6,5mm ljósháls. Munurinn er talsverður, en það er verðmunurinn á augnglerjunum líka.

Til eru nokkrar aðferðir til að ákvarða kjörstækkun fyrir tiltekin fyrirbæri. Ein aðferðin byggist á upplausn sjónaukans. Upplausn sjónauka (greinigeta) er einfaldlega geta hans til að greina smáatriði og mælist í bogasekúndum. Því hærri sem talan er, því fínni eru smáatriðin. Upplausnin er enn og aftur háð ljósopi sjónaukans en því stærra sem ljósopið er, þeim mun betri er upplausnin, af því gefnu að gæði sjónaukans séu góð.

Með berum augum er hægt að greina hluti sem eru ein bogamínúta að stærð. Stækkunin sem sjónauki þarf að ná, svo greinigeta hans sé ein bogamínta, er 13-föld af hverri tommu ljósopsins. Fyrir átta tommu sjónauka er þetta 104x stækkun. Bestu myndirnar af djúpfyrirbærum virðast venjulega nást í gegnum sjónaukann þegar ljóshálsinn er 2mm.

Annað sem vert er að hafa í huga við stækkun á djúpfyrirbærum eru birtuskilin (e. contrast). Þegar þú skoðar daufa stjörnuþoku eða vetrarbraut eru birtuskilin milli himinsins í bakgrunni og daufra fyrirbæra í forgrunni mikilvægust. Fyrirbæri sem hefur það lágt yfirborðsbirtustig að birtuskilin milli þess og himinsins er undir greinigetu augans er ósýnilegt. Dæmi um þetta er Riddaraþokan (IC 434 eða Barnard 33) við Alnitak (Zeta Orionis) í stjörnumerkinu Óríon. Yfirborðsbirta hennar er svo lítil að þokan sést ekki í gegnum stjörnusjónauka nema með aðstoð Vetnis-Beta síu.

Fyrirbæri með lága yfirborðsbirtu (lítil birtuskil) er oft á tíðum auðveldara að greina við mikla stækkun. Ástæðan er ekki sú að birtuskilin aukist við meiri stækkun heldur sú að augað er næmara fyrir lítilli skerpu þegar fyrirbærið virðist stærra. Meiri stækkun getur þar af leiðandi auðveldað athugandanum að greina fyrirbærið þótt efri mörk séu á því hve hátt má fara.

Hollráð fyrir stækkun

Eins og fram hefur komið krefjast mismunandi fyrirbæri mismikla stækkun. Fyrirbæri sem best er að stækka lítið eru þau sem ná yfir meira en eina gráðu á himninum. Slík fyrirbæri eru lausþyrpingar, stórar vetrarbrautir og ljómþokur. Þannig er M44 eða Jatan (Býflugnabúið) í Krabbanum ein gráða í þvermál, Sjöstirnið í Nautinu tvær gráður í þvermál og Andrómeduvetrarbrautin (M31) þrjár gráður að þvermáli. Til þess að njóta þess að skoða þessi fyrirbæri er best að nota litla stækkun og augngler með vítt sjónsvið.

Meiri stækkun dekkir himininn í bakgrunni svo daufari stjörnur koma í ljós og fleiri smáatriði verða sýnileg. Þau fyrirbæri sem best er að stækka mikið eru tunglið, reikistjörnurnar, kúluþyrpingar, hringþokur, litlar vetrarbrautir, litlar lausþyrpingar og tvístirni. Það sem kemur í veg fyrir of mikla stækkun er lofthjúpur jarðar, ljósop sjónaukans, gæði augnglerja og stöðugleiki sjónaukans. Þegar stækkunin er orðin of mikil verða fyrirbærin dauf og tapa skerpu.

Fyrir bestu myndina með lítilli stækkun skaltu nota mestu mögulegu stækkunina sem rammar fyrirbærið vel í sjónsviðið. Þegar þú notar mikla stækkun, notaðu þá „minnstu“ miklu stækkunina sem möguleg er til að laða fram smáatriðin sem leitað er eftir.

Með þessi hollráð í huga ætti stjörnuskoðunin að verða árangursríkar og enn skemmtilegri!

Heimildir

  1. Al Nagler. 1991. Choosing Your Telescope's Magnification. Sky & Telescope, maíhefti.
  2. Starizona's Telescope Basics. Observing Theory.
  3. Starizona's Telescope Basics. Understanding Magnification.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2008). Stækkun: Hversu mikið stækkar sjónaukinn? Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/bunadur/staekkun. Sótt (DAGSETNING)