Tycho (gígur)

Tycho (gígur)

  • moon8_mandel_br
    Gígurinn Tycho á tunglinu. Mynd: Steve Mandel, Hidden Valley Observatory
Helstu upplýsingar
Hnöttur:
Tunglið
Hnit:
43,31°S 11,36°W
Þvermál:
86 km
Dýpt:
4,8 km
Nefndur eftir:
Tycho Brahe

Tycho er ungur gígur á mælikvarða tunglsins, aðeins um 110 milljón ára. Aldursgreiningin er byggð á sýnum úr skvettunum sem standa út frá gígnum og safnað var í leiðangri Apollo 17. Gígurinn hefur skarpar brúnir sökum ungs aldurs, ólíkt eldri gígum sem hafa veðrast smám saman á síðustu ármilljörðum.[2]

Tycho er um 86 km í þvermál og 4,8 km djúpur. Í miðju gígsins er tindur sem rís 2 km yfir gígbotninn.[2] Gígbotninn er þakinn hnullungum, grjóti og árekstrarbráð. Árekstrarbráðin verður til við þann gríðarlega hita sem myndast við stóra árekstra. Þetta hitastig getur verið mun hærra en hitastig kviku. Bráðin myndar ýmis sérkennileg mynstur, til dæmis tiglamynstur, sem verða til þegar bráðin storknar.[3]

Tycho sést leikandi með berum augum frá jörðinni. Best er að skoða hann og aðra gíga þegar skuggar eru sem mestir, þ.e. við skuggaskilin, mörk dags og nætur, þegar tunglið er vaxandi eða minnkandi. Fjöldi glæstra gíga í kring gera svæðið að spennandi viðfangsefni stjörnuskoðara. Þar er óhemju margt að sjá.

Í janúar árið 1968 lenti ómannað könnunarfar NASA, Surveyor 7, á norðurbrún gígsins. Þar gerði geimfarið meðal annars efnagreiningu á yfirborðinu og tók ljósmyndir af svæðinu. Efnagreiningin benti til þess að hálendi tunglsins væri að mestu úr anortósíti sem er ljóst plagíóklasríkt berg.

Myndasafn

Tycho, Tunglið, Þverganga, Venus  

Hubble skoðar Tycho

Stjarneðlisfræðingar beindu reyndar ekki Hubblessjónaukanum í átt að tunglinu til að rannsaka Tycho heldur var myndin tekin við undirbúning fyrir þvergöngu Venusar 5-6 júní 2012.

Sjá nánar: Tunglið notað sem spegill.

Mynd: NASA og ESA/Hubble

tycho-midtindur  

Miðtindur gígsins Tycho

Þann 10. júní 2011 tók Lunar Reconnaissance Orbiter geimfar NASA glæsilegar myndir af gígnum Tycho við sólarupprás. Hér sést 2 km hái miðtindur gígsins.

Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University

Tycho, gígur, tunglið

Nærmynd af miðtindi gígsins Tycho

Hér sést nærmynd af miðtindi gígsins Tycho sem tekin var 10. júní 2011. Bjargið á miðri mynd er 120 metrar í þvermál. Myndin sjálf sýnir um 1200 metra breitt svæði.

Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University

Tycho, gígur, tunglið  

Hvikull gígbotn gígsins Tycho

Hvikull gígbotn gígsins Tycho á mynd Lunar Reconnaissance Orbiter. Svæðið sem hér sést er um 500 metra breitt.

Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University

Tengt efni

Tilvísanir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). Tycho (gígur). Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/tunglid/tycho-gigur sótt (DAGSETNING)