Apollo 7

Tæp tvö ár voru liðin frá síðustu mönnuðu geimferð Bandaríkjamanna, þegar Apollo sjöunda var skotið á loft. Tuttugu og einn mánuður var liðinn frá eldsvoðanum í Apollo fyrsta sem varð þremur geimförum að bana og olli seinkun á frekari geimferðum. Áhöfn Apollo sjöunda átti að ljúka verki látnu félaga sinna og prófa nýtt og endurbætt Apollo geimfarið á braut um jörðina. Þetta var stórt skref sem stíga þurfti áður en menn gátu ferðast frá jörðinni til tunglsins.

Áhöfn

Áhöfn Apollo sjöunda varði stærstum hluta áranna 1967 og 1968 í Kaliforníu í vinnu við Apollo geimfarið. Þeir gættu þess að láta verkfræðingana vinna fyrir laununum sínum og leituðu að öllum mögulegum veikleikum í geimfarinu og voru gallarnir voru lagfærðir hratt og örugglega. NASA vonaðist enn til þess að verða á undan Sovétmönnum til tunglsins áður en áratugurinn var úti, en til þess þurfti hver Apollo geimferð að ganga næsta fullkomlega upp áður en tilraun til tungllendingar yrði gerð.

Wally Schirra

Leiðangursstjóri Apollo sjöunda var Wally Schirra. Schirra var einn af Mercury geimförunum sjö, fyrstu geimförum Bandaríkjamanna. Eins og flestir samstarfsfélaga sinna, kynntist hann flugi ungur að árum en sýndi sjálfur lítinn áhuga á að verða hermaður. Það breyttist eftir árásina á Pearl Harbor og sótti hann þá um að komast í sjóherinn. Eftir heimsstyrjöldina lærði Schirra að fljúga og flaug níutíu orrustuferðir í Kóreustríðinu og skaut meðal annars niður tvær sovéskar MIG orrustuþotur.

Eftir Kóreustríðið gerðist Schirra tilraunaflugmaður hjá hernum. Fljótlega eftir það var honum skipað að fara til Pentagon, án nokkurra skýringa. Við komuna þangað uppgötvaði hann, að hann kæmi til greina sem geimfari fyrir nýja Mercury verkefnið. Í fyrstu var Schirra fullur efasemda en það breyttist þegar hann sá eldflaugina sem kom Spútnik út í geiminn fljúga yfir himinhvolfið. Schirra sá að geimferðir væru eitthvað sem hann vildi taka þátt í. Hann fór í gegnum allar erfiðu prófanirnar og var að lokum valinn sem einn af Mercury geimförunum sjö. Í október 1962 fór Schirra í sína fyrstu geimferð og dvaldi þá í níu klukkustundir á braut um jörðina.

Þremur árum síðar fór Schirra í sína aðra geimferð með Gemini 6. Geimskotið fór ekki betur en svo að þegar eldflaugin var ræst, drap hún á sér. Hún lyftist ekkert en var eins og tifandi tímasprengja á skotpallinum. Samkvæmt reglunum hefði Schirra átt að skjóta sér og ferðafélaga sínum, Tom Stafford, út úr farinu og þar með eyðilagt það og slasað sjálfa sig í leiðinni. Schirra skynjaði þó enga hreyfingu upp á við og ákvað að slöngva sér ekki út. Þetta reyndist rétt ákvörðun eftir á að hyggja. Þremur dögum síðar tókst Gemini 6 á loft og áttu þeir Schirra og Stafford stefnumót í geimnum við þá Frank Borman og Jim Lovell í Gemini 7.

Nú var Schirra að fara í sína þriðju geimferð og fyrstu mönnuðu geimferð Apollo sem jafnframt yrði hans seinasta. Schirra hafði ákveðið að hætta hjá NASA eftir geimferðina og nýtti sér óspart frelsið sem því fylgdi til að stíga á tær nokkurra yfirmanna og viðra skoðanir sínar á því sem betur mátti fara.

Schirra var breyttur maður eftir eldsvoðann í Apollo fyrsta. Fyrir slysið var hann ávallt léttur og kátur og mikill húmoristi en eftir slysið varð hann mun alvörugefnari. Apollo geimfarið var enda miklu flóknara en Mercury og Gemini geimförin, og Schirra skiptir sér mikið af þróun þess. Þessi ákveðni hans, að tryggja hnökralausan leiðangur, fór stundum í taugarnar á mönnum og átti eftir að skapa núníng milli stjórnenda á jörðinni og áhafnarinnar. Schirra leit aldrei á sig sem starfmann NASA, heldur sem hermann í láni hjá NASA og fannst hann því geta sagt það sem honum sýndist.

Eftir slysið var öryggi haft í fyrrirúmi. Í Mercury og Gemini verkefnunum, hafði þýski verkfræðingurinn Guenter Wendt umsjón með því að koma geimförunum fyrir og undirbúa geimfarið fyrir geimskot. Geimfararnir báru allir mikla virðingu fyrir Wendt og var Wally Schirra þar engin undantekning. Wendt starfaði hins vegar fyrir McDonnell fyrirtækið en ekki North American sem smíðaði Apollo geimfarið. Wendt var því ekki viðstaddur þegar slysið varð í Apollo 1.

Schirra var mjög áfram um að fá Wendt aftur til starfa. Það gekk upp og var Guenter Wendt ævinlega síðasti maðurinn sem geimfararnir sáu áður en þeir fóru út í geiminn. Wendt var kallaður Foringinn á skotpallinum.

Walt Cunningham

Walt Cunningham var formlega flugmaður tunglferju, jafnvel þótt engin tunglferja væri í leiðangri Apollo sjö. Deke Slayton, yfirmaður geimfaranna, hafði valið Cunningham í áhöfn Apollo sjöunda vegna vísindalegs bakgrunns hans, auk þess sem hann var fyrsta flokks flugmaður.

Cunningham hafði aldrei dreymt um að verða geimfari. Á unga aldri hreifst hann af vísindum og var álitinn mikið nörd og ekki beinlínis líklegur til að verða þjóðhetja. Áhugi hans á að verða geimfari kviknaði þegar hann hlustaði á útvarpslýsingu á fyrstu geimferð Alans Shepard. Hann dauðöfundaði Shepard af ævintýrinu og hugsaði með sér að þetta væri nokkuð sem hann vildl leggja fyrir sig. Tveimur árum síðar deildi hann skrifstofu með Shepard.

Cunningham var sterkur persónuleiki og óhræddur við að tjá skoðanir sínar, eins og Schirra. Persónuleikar Cunninghams og Schirra hafa gjarnan skyggt á þriðja geimfarann í áhöfninni, „gleymda geimfarann“ eins og hann er stundum kallaður, Donn Eisele, sem var flugmaður stjórnfarsins.

Donn Eisele

Donn Eisele var einkabarn og sá móðir hans ekki sólina fyrir honum. Hún sá til þess að hann hefði ávallt nóg fyrir stafni og ofverndaði hann á köflum. Til dæmis hikaði hún ekki við að gagnrýna skólayfirvöld, ef henni þóttu einkunnir hans ósanngjarnar.

Eftir framhaldsskóla ákvað Eisele að sækja um í Sjóðliðsskólanum og útskrifaðist þaðan með tveimur öðrum mönnum sem síðar urðu geimfarar. Útskriftarárið 1952 var örlagaríkt í lífi Eiseles. Hann hóf að læra flug hjá flughernum, móður sinni til mikils ama og kynntist fyrri eiginkonu sinni, Harriet. Með Harriet eignaðist hann fjögur börn, en þriðja barnið þeirra, Matthew, fæddist með Downs heilkenni og án lófa á hægri hendi.

Árið 1963 vann Eisele sem tilraunaflugmaður hjá hernum, þegar hann fékk símtal frá vini sínum Tom Stafford. Stafford var þá orðinn geimfari og hvatti Eisele til að sækja um sem hann og gerði. Eisele hafði aldrei haft það markmið að verða geimfari en var engu að síður vallinn í þriðja geimfarahóp NASA.

Hjá NASA hóf Eisele að vinna við Apollo verkefnið. Hans helsta hlutverk var að hjálpa til við þróun geimbúningsins en líka Apollo geimfarsins og tunglferjunnar.

Eisele var jafnan jarðbundinn, afslappaður og fámáll og þannig ólíkur flestum í geimfarahópnum, en um leið vingjarnlegur, mannblendinn, opinn, vinnufús og harðduglegur.

Fyrsta ár Eiseles hjá NASA var viðburðaríkt. Hann missti báða foreldra sína úr hjartaáfalli og eignaðist sitt fjórða barn. Mikið mæddi á eiginkonu hans sem sá að mestu leyti ein um börnin fjögur og heimilið. Að vera geimfari tók nefnilega sinn toll af fjölskyldum þeirra.

Árið 1965 var Eisele valinn í áhöfn Apollo 1 ásamt Gus Grissom og Ed White. Í ársbyrjun 1966 fór Eisele úr axlarlið og varð að fara í aðgerð til að laga það. Fyrir vikið var hann ekki í geimfaraþjálfun í nokkra mánuði og missti sæti sitt í áhöfn Apollo 1 til Roger Chaffees. Þetta voru Eisele mikil vonbrigði en reyndist á endanum lán í óláni.

Eisele fékk sæti í varaáhöfn Apollo 1 með Wally Schirra og Walt Cunningham. Varáahöfnin átti, ef allt gengi upp, að endurtaka geimferð Apollo 1. Í nóvember 1966 var þó leiðangri Apollo annars aflýst, því talið var óþarft að endurtaka geimferð Apollo 1. Schirra var þá tjáð að hann færi aldrei aftur út í geiminn en það breyttist eftir eldsvoðann í Apollo 1. Þá var skyndilega þörf fyrir Schirra á ný og var hann beðinn um að stýra fyrstu mönnuðu Apollo geimferðinni.

Skömmu eftir slysið dundi annað og enn verra áfall yfir Eisele. Matthew litli sonur hans greindist með hvítblæði og lést úr sjúkdómnum, aðeins sex ára gamall. Matthew dvaldi lengi á spítala síðustu mánuðina og varði Eisele sjálfur einni nótt með syni sínum á sjúkrabeðinu, en tók það SVO nærri sér að hann gat það aldrei aftur. Eisele var við hlið sonar síns þegar hann lést og hafði það mikil áhrif hann. Eisele var þó ekki mikið fyrir að tala um tilfinningar sínar, heldur byrgði þær inni. Hann varð að einbeita sér að leiðangri Apollo 7 og var mikið frá fjölskyldu sinni þess vegna. Konan hans varð svo gott sem að jafna sig á áfallinu ein síns liðs, en fékk sem betur fer góðan stuðning frá eiginkonum annarra geimfara.

Milli þess sem Eisele vann að undirbúningi leiðangursins, naut hann lífsins á Cocoa strönd í Flórída. Þar voru geimfararnir eins og kvikmyndastjörnur og mjög eftirsóttir, sér í lagi hjá kvenþjóðinni. Sumir stóðust ekki freistingarnar og héldu framhjá eiginkonum sínum. Eisele var einn þeirra. Hann kynntist annarri konu í Flórída og hóf samband með henni án þess að skilja við eiginkonu sína.

Haustið 1968 var nýja og endurbætta Apollo geimfarið lýst tilbúið fyrir mannaða prófun í geimnum. Vandamál í einkalífinu virtust ekki trufla undirbúning ferðarinnar neitt, fyrr en síðustu vikurnar fyrir geimskot. Þá átti áhöfnina að einbeita sér að leiðangrinum en Eisele lét sig samt hverfa annað slagið milli æfinga í fangið á hjákonunni. Schirra þótti þetta óábyrgt, ekki aðeins vegna þess að Eisele var ótrúr eiginkonu sinni, heldur gat þetta haft slæm áhrif á sjálfa geimferðina.

Leiðangur

Að morgni 11. október 1968 settist áhöfn Apollo 7 inn í geimfarið sitt. Þegar Guenter Wendt, foringinn á skotpallinum, kvaddi geimfarana og lokaði lúgunni ríkti grafarþögn í geimfarinu. Donn Eisele rauf þögnina og sagði, með sterkum þýksum hreim: „I wonder where Guenter Wendt?“

Þótt geimskot Apollo 7 hafi heppnast fullkomlega, var Wally Schirra allt annað en sáttur. Hann hafði allt frá slysinu í Apollo 1, barist fyrir auknu öryggi.

Þennan föstudagsmorgun var vindasamt í Flórída. Schirra átti stóran þátt í því að settar voru öryggisreglur um að geimskot færi ekki fram nema vindur væri hagstæður. Sú hætta var nefnilega fyrir hendi að ef til þess kæmi að hætta þyrfti við geimskot skömmu eftir flugtak, gæti geimfarið fokið til og lent á landi en ekki hafi. Sætin sem geimfararnir sátu í voru þau sömu og í Apollo fyrsta og veittu ekki nægjanlega vernd gegn harkalegri lendingu á landi. Þegar nálgaðist geimskot jók í vindinn. Þótt vindurinn hafi farið yfir öryggismörkin, hafði enginn áhuga á að fresta geimskotinu og á endanum fór það fram. Schirra leit svo á að stjórnendur á jörðinni hefðu brotið reglurnar og var öskureiður.

Apollo 7 var komið á braut um jörðina ellefu mínútum eftir geimskot. Við nýliðunum Eisele og Cunningham blasti ótrúleg sjón. Þeir störðu dolfallnir á jörðina úr geimnum og gáfu sér tíma til að virða fyrir sér reikistjörnuna okkar. Þeir sáu brúnar eyðimerkur, gráleit fjöll, græna dali, og fölblá höf. Þeir sáu eldingar blikka langt fyrir neðan og sólarupprás á 90 mínútna fresti. „Þetta er það besta við þetta starf,“ sagði Schirra við félaga sína.

Eitt fyrsta verk áhafnarinnar var að losa Apollo geimfarið frá öðru þrepi Satúrnus flaugarinnar, snúa því við og fljúga geimfarinu aftur að því. Þannig áttu þeir að líkja eftir samtengingu stjórnfarsins við tunglferju, sem var lykilatriði fyrir komandi tunglferðir.

Einnig þurfti að prófa eldflaugahreyfil Apollo geimfarsins, þess sama hreyfils og átti að koma geimfarinu á braut um tunglið og aftur heim til jarðar. Þegar hreyfillinn var ræstur leið geimförunum eins og þeir hefðu fengið kröftugt spark í rasinn. Eldflaugin lyfti geimfarinu á hærri braut á sama tíma og Schirra stýrði farinu með stýriflaugunum. Apollo geimfarið var prófað ítarlega og allt gekk eins og í sögu. Geimfarið starfaði betur en nokkur þorði að vona.

Flugáætlun Apollo 7 gerði líka ráð fyrir því, að að minnsta kosti einn geimfari stæði vaktina á öllum stundum. Þetta reyndist erfitt, því nánast ómögulegt var fyrir geimfara að vinna án þess að trufla svefn hinna. Fyrir vikið sváfu geimfararnir nánast ekki neitt þá ellefu daga sem þeir dvöldu í geimnum.

Schirra og Cunningham áttu að sofa samtímis á meðan Eisele stæði vaktina. Þegar Eisele svaf áttu svo Schirra og Cunningham að vinna. Eisele átti erfitt með að halda sér vakandi á meðan félagar hans sváfu og tók örvandi lyf, afbrigði af amfetamíni, til að sofna ekki. Eisele átti sömuleiðis eriftt með svefn þegar Schirra og Cunningham vöktu. Eitt sinn sá Cunnngham Eisele svífandi með blýant í hendinni og lítandi út fyrir að vinna. Hann hafði hins vegar steinsofnað í miðjum klíðum. Aðspurður hvort hann hafi dreymt þegar hann svaf, svaraði hann játandi. Hann dreymdi látna son sinn Matthew, öllum stundum.

Kvefaðir og pirraðir geimfarar

Fyrsta daginn í geimnum fékk Wally Schirra slæmt kvef sem smitaðist fljótlega yfir í Eisele. Sennilega er ekki hægt að hugsa sér verri stað fyrir kvef en geimfar í þyngdarleysi. Þyngdarleysið þýddi það, að horið rann ekki úr nefinu, heldur stíflaði allt og olli miklum höfuðverk. Wally leið ömurlega. Kvefið og svefnleysið átti líklega sinn þátt í því, að mikill pirringur var á milli geimfaranna og stjórnstöðvarinnar.

Fyrsta daginn í geimnum átti að sjónvarpa beint úr geimfarinu. Schirra hafnaði því enda leið honum illa, auk þess sem nokkur mikilvægari verkefni voru ókláruð. Schirra ákvað að hafna beiðnum frá stjórnstöðinni en slíkt var óheyrt fram til þessa.

Schirra var ekki einn um að vera fúll út í stjórnstöðina. Eisele reyndi að ljúka verkefni sem tengdist tölvunni um borð í geimfarinu. Ekkert gekk því stjórnstöðin sendi tölvunni rangar skipanir. Eisele hafði varið löngum stundum í að þróa leiðir til að prófa tölvuna og geimfarið á braut um jörð en vanhugsaðar skipanir frá jörðinni eyðilögðu þær. „Hver í fjandanum sendi þetta upp? Hvaða fífl sendi þessar skipanir?“ sagði hann pirraður við stjórnstöðina. Á endanum leysti Eisele þó vandamálið upp á eigin spýtur. Þegar stjórnstöðin spurði hvernig hann hefði farið að því, neitaði Wally Schirra að gefa það upp og sagði þeim að finna út úr því sjálfir.

Geimfararnir rifust ekki bara við stjórnendur á jörðinni heldur líka innbyrðis. Schirra og Eisele rifust heiftarlega og sakaði Schirra Eisele um uppreisn. Þeir sættust þó fljótt og eftir geimferðina jós Schirra Eisele lofi.

Heimkoma

Bandaríska geimfarið Appolló sjöundi lenti heilu og höldnu í dag um 300 kílómetra suðaustur af Bermúdaeyjum. Hafði geimfarið þá verið á braut umhverfis jörðu í nær ellefu sólarhringa, og þykir geimferðin hafa tekizt mjög vel. Yfirmaður geimferðastofnunar Bandaríkjanna sagði í dag, að næsta Appollógeimferð yrði farin í desember næstkomandi, og þykir trúlegt, að þá verði mannað geimfar sent á braut umhverfis tunglið og síðan aftur til jarðar. Vísindamenn í geimferðamiðstöðinni í Houston í Texas segja, að þessi ferð þeirra Schirra, Eisele og Cunninghams sé mjög þýðingarmikill áfangi í ráðagerðinni um að senda menn til tunglsins, og verði það ef til vill gert í júní næsta sumar.

U Thant, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sendi í dag Johnson Bandaríkjaforseta heillaóskaskeyti í tilefni hinnar vel heppnuðu geimferðar Appollós sjöunda. U Thant segir meðal annars í skeyti sínu, að hér hafi verið um frábært afrek að ræða, og hafi nú verið drjúgum aukið við þekkingu manna á himingeimnum, og að nú líði að því, að mönnuð geimför fari til tunglsins og lengra. U Thant þakkar í skeyti sínu til Johnson forseta, Bandaríkjaþjóðinni allri og síðast en ekki síst hinum djörfu geimförum afrekið. U Thant leggur einnig áherzlu á mikilvægi þess, að milljónir manna hafi getað fylgzt með geimförunm í sjónvarpi. — Frétt Ríkisútvarpsins kl. 19:00, 22. október 1968

Eftir geimferðina fékk Schirra orð í eyra frá Deke Slayton, yfirmanni sínum. Chris Kraft, sem stýrði geimferðinni frá jörðinni, gerði Slayton ljóst að hann myndi aldrei framar vinna með neinum úr áhöfn Apollo sjöunda. Í raun var Eisele og Cunningham refsað fyrir ákveðni Schirra að láta ekki segja sér fyrir verkum. Þeir fóru þess vegna aldrei aftur út í geiminn.

Wally Schirra hætti hjá NASA í byrjun júlí 1969 og var fréttamanninum Walter Cronkite innan handar við lýsingu á fyrstu tungllendingunni og öllum tunglferðunum upp frá því. Hann var eini geimfarinn sem flaug með Mercury, Gemini og Apollo. Schirra lést árið 2007.

Eftir ferðina tóku við stormasamir dagar hjá Eisele. Hjákona hans vissi ekki að hann ætti börn og ákvað að binda endi á sambandið. Eisele viðurkenndi þá framhjáhaldið við konuna sína sem sótti um skilnað. Fjallað var um skilnaðinn í bandarískum fjölmiðlum enda var Eisele fyrsti geimfarinn sem skildi við eiginkonu sína. Hann tók aftur upp samband við2 hjákonuna og kvæntist henni. Í desember árið 1987 var Eisele staddur í Tókýó ásamt Alan Shepard, þegar hann lést úr hjartáfalli, eins og báðir foreldrar hans, aðeins 57 ára gamall.

Þrátt fyrir önunga, kvefaða og svefnvana geimfara og slæm samskipti milli þeirra og jarðar, heppnaðist leiðangur Apollo 7 fullkomlega. Raunar heppnaðst leiðangurinn svo vel að ekkert var lengur því til fyrirstöðu, að senda næsta Apollo geimfar, Apollo 8, alla leið frá jörðinni til tunglsins.