Mercury geimáætlunin

Eftir frægðarför Spútnik um himinhvolfið, hvatti bandaríska þingið til þess, að brugðist yrði hratt við þessari nýju sovésku geimógn. Settar voru á laggirnar nefndir sem áttu að kanna möguleikann á því, að setja á fót nýja geimferðastofnun, ótengda hernaði. Í apríl 1958 lagði Dwight Eisenhower bandaríkjaforseti frumvarp fyrir þingið um stofnun Geimferðastofnunar Bandaríkjanna eða NASA sem tæki við af eldri stofnun og yrði mun stærri í sniðum. Þingið samþykkti frumvarpið í júlí 1958 og tók geimferðastofnunin NASA til starfa þann 1. október árið 1958, tæpu ári eftir Spútnik.

Fyrsta verk NASA var að setja á laggirnar verkefni sem hafði það markmið að koma fyrstu Bandaríkjamönnunum út í geiminn. Verkefnið hlaut nafn úr goðafræði og var kallað Mercury eftir Merkúríusi, sendiboða guðanna.

Tólf fyrirtæki sóttust eftir að smíða Mercury geimfarið en að lokum átti flugvélafyrirtækið McDonnell lægsta boð. Rúm tvö ár tók að þróa geimfarið sem var keilulaga með sívalningslaga hálsi í mjórri endann, 3,3 metrar að lengd og 1,8 metrar á breidd, ekki ósvipað smábíl að stærð. Farið rúmaði aðeins einn geimfara.

Geimfarinn sat með bakið í hitaskjöldinn í sæti sem var mótað að líkama hans. Hann klæddist silfurlituðum þrýstijöfnunarbúningi sem dekkja- og flugbúnaðarframleiðandinn B.F. Goodrich hafði hannað fyrir flugmenn hjá hernum sem flugu háflug. Hreinu súrefni var dælt í gegnum búninginn í gegnum slöngu sem tengd var við mittið á búningnum. Hver geimfari fékk þrjá sérsniðna búninga: Einn æfingabúning, einn flugbúning og einn varabúning.

Mercury geimfararnir sjö

Upphaflega áttu bæði karlar og konur að geta orðið geimfarar. Eisenhower forseti vildi hins vegar að geimfararnir kæmu úr hópi tilraunaflugmanna hjá bandaríska hernum. Það útilokaði sjálfkrafa konur, því engar konur störfuðu sem tilraunaflugmenn hjá hernum.

Geimfararnir áttu að vera á aldrinum 25 til 40 ára, undir 180 cm á hæð, innan við 82 kg að þyngd og hafa háskólagráðu í raunvísindum eða verkfræði. Háskólagráðan útilokaði til dæmis flugkappann Chuck Yeager sem rauf hljóðmúrinn fyrstur manna en hann var ein aðalpersóna kvikmyndarinnar The Right Stuff frá árinu 1983.

Af þeim 508 tilraunaflugmönnum, sem störfuðu hjá Bandaríkjaher, voru 110 boðaðir í viðtöl og eftir þau voru 32 valdir til frekari prófana.

Líkamlegu prófin voru mörg og miserfið. Mennirnir voru hristir, kældir og hitaðir. Þeir vörðu nokkrum klukkustundum á hlaupabrettum, hallaborðum, í ísbaði og í einangrunarklefum.

Í einu sársaukafyllsta prófinu var langri nál stungið í lófa mannanna og rafmagni síðan hleypt á svo lófinn krepptist saman.

Geimfaraefnin voru líka látin drekka laxerolíu og settir í stólpípu. Seinna sagði einn geimfaranna [John Glenn], þegar hann lýsti prófunum, að það hefði komið sér á óvart hversu mörg göt væru á mannslíkamanum og enn meira á óvart hve langt inn í þau hægt væri að komast.

En, það þurfti líka að prófa andlegu hliðina. Í einu sálfræðiprófinu var mönnunum sýndar klessumyndir eða auð blöð og áttu að segja frá því sem þær sæju. Til að sýna og sanna karlmennsku sína — og vafalaust til að sýna hversu fáránlegt þetta var — sögðu allir að þeir sæju föngulega konu eða líkamsparta konu og spunnu gjarnan kynferðislegar sögur um hana. Þegar einum mannanna var sýnt autt blað, sagði hann sálfræðingnum að myndin væri á hvolfi. „Við vorum heilbrigðir sjúklingar í umsjá sjúkra lækna,“ sagði eitt tilraunadýrið [Wally Schirra].

Geimfararnir kynntir fyrir heimsbyggðinni

Að lokum útnefndi NASA sjö menn sem fyrstu geimfara Bandaríkjanna og voru þeir kynntir heimsbyggðinni á fréttamannafundi í Washington þann 10. apríl 1959.

Mercury geimfararnir sjö voru allir greindir, einstaklega vel á sig komnir líkamlega og andlega og höfðu það sem þurfti til að vinna saman í hóp eða einir síns liðs. Þrír voru úr flughernum, þrír úr sjóhernum og einn úr landgönguliðinu.

Allir áttu það sameiginlegt að hafa óbilandi áhuga á flugi. Sem tilraunaflugmenn vildu þeir komast hraðar og hærra en nokkur annar, þrátt fyrir þá miklu áhættu sem fylgdi starfinu. Allir tilraunaflugmenn gátu komið sér í vandræði en aðeins þeir allra bestu gátu komið sér úr þeim. Geimfararnir sjö höfðu allir egóið í lagi og töldu sig þá bestu sem völ var á.

Á blaðamannafundinum voru geimfaraefnin jakkafataklædd en ekki í herklæðum. NASA vildi nefnilega, að geimfararnir hefðu ímynd hins dæmigerða bandaríska húsföður, fjölskyldumanns sem væri tilbúinn að berjast gegn kommúnismanum.

Það kom geimförunum á óvart að á blaðamannafundinum var nánast ekkert spurt um flug, stríðsafrek eða geimferðir, heldur snerust spurningarnar aðallega um fjölskylduhagi og viðbrögð vina og fjölskyldna. Hermennirnir sjö áttu að vera hlýir og persónulegir, sem var alls ekki það sem búið var að þjálfa þá í.

Sá sem skildi kannski einna best út á hvað þetta allt saman gekk var John Glenn. Hann þótti mælskastur geimfaranna sjö og gaf fólki nákvæmlega það sem það var að leita eftir: Hlýja og ástríka ameríska hetju. Blaðamennirnir voru enda hrifnastir af honum og varð hann sennilega frægastur sjömenninganna.

Þótt geimfararnir ynnu saman í hópum tóku þeir virkan þátt í þróun á Mercury geimfarinu, hver í sínu lagi. Samkeppnin um að verða geimfari var hörð en alls ekkert í líkingu við samkeppnina um að komast í fyrstu geimferðina. Að vera númer eitt skipti öllu máli. Þeir sýndu sig óspart fyrir yfirmönnum sínum og ef einn stakk upp á að þeir gerðu eitthvað saman, gat enginn skorast undan. Eitt sinn stakk Scott Carpenter upp á að þeir lærðu köfun. Þegar í sundlaugina kom, kom í ljós að einn geimfarinn, Deke Slayton, hafði aldrei lært að synda. Fyrir köfunina reyndi hann að æfa sig í eldhúsvaskinum heima hjá sér en þegar geimfararnir sáu hann buslandi á botni laugarinnar, gátu þeir ekki annað en hlegið sig máttlausa.

Geimfararnir sjö voru stórstjörnur á þessum tíma. Þeir voru þjóðhetjur, jafnvel þótt þeir hefðu aldrei gert nokkurn skapaðan hlut. Þeir voru líka mjög vinsælir hjá kvenþjóðinni. Allir vildu komast í tæri við geimfarana. Sumir nýttu sér frægðina óspart og það þótti John Glenn ekki sniðugt. Hann óttaðist að neikvæð umfjöllun gæti haft slæm áhrif á geimáætlunina.

Kvöld eitt, snemma í janúar árið 1961, gekk yfirmaður geimfaranna inn á skrifstofu þeirra.  Hann sagði fátt og kom sér beint að efninu. Hann sagði að Alan Shepard, Gus Grissom og John Glenn ættu að búa sig undir fyrstu geimferðirnar. Shepard færi fyrstur út í geiminn, Grissom annar og Glenn, sem varamaður beggja, færi í þriðju ferðina.

Shepard var hæstánægður en hinir gátu vart leynt vonbrigðum sínum. Þeir höfðu enda aldrei verið í öðru sæti í nokkru.

Markmiðið var að senda Shepard út í geiminn seint í mars árið 1961 en Wernher von Braun og teymi hans var ekki tilbúið að taka þá áhættu strax. Þeir vildu prófa Redstone eldflaugina og geimfarið einu sinni í viðbót áður en Shepard færi í sína geimferð. Fyrir vikið varð að fresta leiðangri Shepards um meira en mánuð.

Leiðangrar

Þann 31. janúar 1961 tókst Redstone eldflaug á loft frá Canaveralhöfða með geimfara innanborðs. Hann var reyndar ekki mennskur, en náskyldur mönnum samt. Geimfarinn var simpansi, þekktur undir númerinu 65. Ef geimferð hans heppnaðist, væri Shepard næstur.

Í geimskotinu starfaði eldflaugin ekki sem skyldi. Hún jók hraðann of hratt svo nálgaðist hættumörk. Simpansinn öskraði og veinaði og var greinilega mjög skelfdur. Sem betur fer fór allt vel að lokum og lenti simpansinn í sjónum rétt rúmum 15 mínútum eftir flugtak. Hann jafnaði sig fljótt og brosti sínu breiðasta þegar hann fékk epli í verðlaun fyrir vel unnin störf.

Von Braun sá að gera þurfti lagfæringar á eldflauginni og gera síðan eina tilraun í viðbót áður en hægt væri að senda Shepard út í geiminn. Þessi tilraun myndi fresta geimferð Shepards fram í maí

Þann 12. apríl bárust slæmar fréttir. Fyrsti maðurinn sem fór út í geiminn hét ekki Alan, Gus eða John, heldur Júrí. Allir voru gríðarlega vonsviknir — enginn þó meira en Shepard.

Þremur vikum síðar rann stóri dagurinn upp. Annan maí var allt til reiðu og Shepard kominn í geimbúninginn þegar skall á skrugguveður. Enn varð að fresta geimskotinu, nú til 5. maí.

Freedom 7 – Alan Shepard

Þann 5. maí var veðrið hagstætt. Shepard tók daginn eldsnemma, fékk sér morgunverð með Gus Grissom og John Glenn, drakk tvo kaffibolla, klæddist síðan silfurlitaða geimbúningnum sínum og var síðan ekið að skotpallinum.

Fljótandi súrefni streymdi út úr flóðlýstri eldflauginni þar sem hún stóð í myrkrinu. Shepard steig út úr bílnum haldandi á súrefnisbirgðum sínum, nam staðar og varð starsýnt á þessa stóru fallegu eldflaug. „Jæja, ég mun aldrei sjá þessa eldflaug aftur. Leggjum nú í hann og klárum dæmið,“ hugsaði hann með sér.

Shepard var sestur inn í geimfarið rúmum tveimur tímum fyrir áætlað geimskot. Hann hafði nefnt geimfarið sitt Frelsi 7 — Freedom 7 — en tölustafurinn sjö var til heiðurs geimfaranna sjö. Niðurtalningin hélt áfram en þá kom babb í bátinn.

Gordon Cooper, einn af geimförunum sjö, var í stjórnstöðinni og sá um samskipti milli hennar og geimfarsins.

„Það er spennubreytir í eldflauginni sem virkar ekki.“ sagði Cooper við Shepard. „Þeir ætla að færa skotturninn aftur að flauginni og skipta um spennubreytinn. Það mun líklega taka um það bil klukkustund, kannski eina og hálfa.“

„Nú ef svo er, þá myndi ég vilja komast út og kasta af mér vatni,“ sagði Shepard.

Fyrir geimferðirnar höfðu verkfræðingar unnið að búnaði sem safnaði þvagi á meðan geimferð stóð. Búnaðurinn átti að virka vel úti í geimnum, en virkaði illa þegar geimfarinn lá á bakinu með fæturna upp á við eins og á skotpallinum.

Shepard var orðið mál og vildi komast út að pissa.

„Gordo, viltu kanna hvort ég komist ekki út og fái að pissa sem snöggvast?“ sagði Shepard.

Varð um þessa ósk nokkur rekistefna. Eftir fáeinar mínútur kom svarið.

„Nei segir von Braun. Geimfarinn skal halda kyrru fyrir í keilunni,“ sagði Cooper.

„Jæja þá, það er í góðu lagi, en ég ætla nú samt að kasta af mér vatni,“ sagði Shepard.

„Það máttu ekki vegna þess að þú ert með víra út um allan líkamann og það er hætta á skammhlaupi,“ sagði Cooper.

„Eruð þið ekki með takka til að slökkva á þeim,“ sagði Shepard. „Vinsamlegast slökkvið á þeim!“

Að svo búnu pissaði Shepard á sig og rennbleytti ullarnærföt sín. Loft streymdi hins vegar um búninginn svo hann þornaði fljótt.

Enn beið Shepard í hylkinu og var orðinn langþreyttur á biðinni. „Jæja, strákar, kveikjum nú á þessu kerti,“ sagði hann.

Klukkan 09:34 að íslenskum tíma, laust eftir hádegi að staðartíma, tókst eldflaugin loks á loft. Fimm mínútum síðar náði geimfarið mestri hæð, 185 km og tók Shepard sjálfur við stjórn þess um stund. Fáeinum mínútum síðar var geimfarinu beint aftur inn í gufuhvolf Jarðar. Á heimleiðinni upplifði Shepard meira en ellefu-faldan þyngdarkraft. Í þriggja kílómetra hæð opnaðist aðalfallhlíf geimfarsins og sveif það svo á aðeins 35 km hraða niður á sjóinn. Í heild hafði ferðalag Shepard staðið yfir í aðeins 15 mínútur og 30 sekúndur.

Björgunarþyrla flaug strax á staðinn, sótti Shepard og flaug með hann og geimfarið á flugmóðurskipið Lake Champlain. Þar var Shepard vel fagnað.

Viðbrögð við geimferð Shepards

Fjallað var um geimferð Shepards í öllum fjölmiðlum heims. Laugardaginn 6. maí sagði Þjóðviljinn frá ferðinni en þótti heldur lítið til afreksins koma og sögðu:

„Enda þótt því verði ekki rnótmælt, að Bandaríkjamenn hafi náð merkilegum áfanga í geimrannsóknum sínum með ferð Shepards sjóliðsforingja upp í háloftin, verður að vekja athygli á þeirri staðreynd, að flug hans er alls ekki sambærilegt við geimferð Gagaríns majórs og Bandaríkjamenn eiga enn langa leið fyrir höndum áður en þeir geta gert sér vonir um að standa Sovétríkjunum á sporði í geimvisindum.“

Bætt var við að tæplega væri hægt að tala um Shepard sem raunverulegan geimfara, ekki væri hægt að tala um geimferð nema fara að minnsta kosti hring um Jörðina. Frekar væri Shepard sá Kani sem hefði komist hæst upp í háloftin.

Skoðun Þjóðviljamanna var í takt við skoðanir Sovétmanna á þessum tíma sem viðurkenndu engan geimfara nema hann færi hring um Jörðina.

Morgunblaðið tók nokkuð ólíkan pól í hæðina og sagði frá ferðinni á forsíðu blaðsins sunnudaginn 7. maí.

„Stærsti sigurinn, að geimflugið fór fram fyrir opnum tjöldum“ sagði í fyrirsögn. Á sömu forsíðu var önnur fyrirsögn: „Grunur styrkist um geimsvindl Gagarins“ og var þar sagt ítarlega frá samsæriskenningum um geimferð Gagaríns.

Eftir heimkomu var Shepard fagnað sem þjóðhetju og var hann heiðraður með skrúðgöngum í Washington, New York og Los Angeles.

Þegar fréttamenn spurðu Shepard hvað fór í gegnum huga hans þegar hann sat ofan á eldflauginni og beið eftir geimskotinu, svaraði hann: „Þá staðreynd að hver einasti hluti þessa skips væri byggður af lægstbjóðanda.“

Fáeinum dögum síðar færði Kennedy forseti honum orðu fyrir afrekið.

Kennedy setur stefnuna á tunglið

Fimmtudaginn 25. maí, aðeins þremur vikum eftir geimferð Shepards, ávarpaði Kennedy forseti báðar deildir bandaríkjaþings. Í ræðu sinni bað Kennedy þingið um stórauknar fjárveitingar til geimrannsókna. Hann kvað nauðsynlegt að sameina alla mögulega krafta til stórframkvæmda á því sviði enda hefði það sannast að undanförnu, hve mikil áhrif geimferðir hefðu í hugum manna. Kennedy sagði að áætlanir Bandaríkjanna í geimrannsóknum hefðu verið í endurskoðun en tími væri kominn til að horfa til framtíðar og gera langtímaáætlun til að ná forustunni af Sovétmönnum.

Að stefna til tunglsins eftir að aðeins einn Bandaríkjamaður hafði farið út í geiminn í fimmtán mínútur var brjálæðislegt markmið, nánast ógerlegt.

Mercury geimáætlunin var nýhafin og fimm ferðir eftir. Næstur í röðinni var lágvaxnasti geimfarinn, Gus Grissom, en geimferð hans átti eftir að draga dilk á eftir sér og kosta hann lífið nokkrum árum síðar.

Liberty Bell 7 – Gus Grissom

Tveimur mánuðum eftir ræðu Kennedys fyrir Bandaríkjaþingi, þar sem hann óskaði eftir stuðningi við þá áætlun sína, að koma mönnum til tunglsins fyrir lok áratugarins, settist Gus Grissom inn í Mercury geimfar sitt.

Enn höfðu Bandaríkin ekki náð að koma sér upp nógu öflugri eldflaug til að senda mann á sporbraut um Jörðina, svo geimferð Grissoms átti að vera nánast endurtekning á fimmtán mínútna geimferð Alans Shepards.

Gus Grissom var lágvaxnastur geimfaranna sjö en sennilega sá sem var hvað hæfastur. Hann hafði flogið herþotum í Kóreustríðinu en gerðist eftir það fyrsta flokks tilraunaflugmaður.

Grissom hafði nefnt geimfarið sitt Liberty Bell 7 eftir Frelsisbjöllunni í Fíladelfíu sem sagt var að hefði hringt daginn sem Bandaríkin urðu sjálfsæð þjóð þann 4. júlí árið 1776, þótt sú saga sé reyndar ekki sönn.

Einn munur var þó á geimförum Grissoms og Shepards. Á geimfari Grissoms var lúga með sprengiboltum. Lúgan átti að gera geimfaranum kleift að yfirgefa geimfarið hratt og örugglega í neyðartilvikum. Áður þurfti geimfarinn sjálfur að opna lúguna og gat það tekið nokkra stund.

Grissom var skotið á loft í Liberty Bell 7 þann 21. júlí 1961. Hann ferðaðist 486 km og náði mest 190 km hæð. Ferðin stóð yfir í rúmar 15 mínútur og allt gekk að óskum þar til Grissom var lentur á Atlantshafi. Þar sem Grissom beið eftir að þyrlan kæmi og sækti sig, sprakk lúgan skyndilega af geimfarinu. Sjór tók að flæða inn í farið sem byltist fram og aftur í ókyrru hafinu.

Grissom reif af sér hjálminn og flýtti sér út. Hann var ekki í neinu björgunarvesti og reyndi að halda sér á floti í sjónum. Þyrlan kom á staðinn en jók aðeins á ölduganginn. Búningur Grissoms var smám saman að fyllast af sjó.

Þyrluflugmennirnir sáu ekki að Grissom barðist við að halda sér á floti og á lífi og reyndu að ná í Liberty Bell 7 áður en það fylltist af sjó. Grissom reyndi hvað hann gat að ná athygli þyrluflugmannanna sem sögðu síðar að þeim hafi sýnst hann hafa notið þess að svamla í sjónum. Þyrlan náði taki á geimfarinu en þyngdin var orðin slík að illa gekk að lyfta því upp úr sjónum. Vélin í þyrlunni var um það bil að ofhitna þegar ákveðið var að losa geimfarið af sem sökk eins og steinn niður á næstum 5 km dýpi í hafinu skammt undan strönd Flórída. Þyrlan flaug svo burt enda var hætta á að hún hrapaði í sjóinn eftir átökin við geimfarið.

Grissom var dauðuppgefinn og nærri því drukknaður þegar önnur þyrla kom á staðinn. Aðeins höfuð hans stóð upp úr sjónum þegar þyrlan hífði hann upp og flutti á flugmóðurskipið skammt frá.

Grissom var ekki beinlínis fagnað sem þjóðhetju við heimkomuna. Í stað skrúðgöngu og heimsóknar til forsetans fékk hann nærgöngular spurningar sem hann kærði sig lítið um. Aðspurður hvernig honum leið í sjónum sagðist hann hafa verið hræddur, nokkuð sem geimfari átti svo sannarlega ekki að segja.

Grissom hélt því alltaf fram, að hann hefði ekki gert neitt sem hafi orðið til þess að lúgan skaust af. Hann sagði að lúgan hafi skotist af af sjálfu sér. Í fyrstu drógu yfirmenn hjá NASA það í efa en með tímanum var það staðfest. Til að sprengja lúguna frá varð geimfari að slá fast með krepptum hnefa í málmhnapp í farinu, svo fast raunar að það skildi eftir stóran og augljósan marblett á hendi geimfarans. Á Grissom var enginn marblettur.

Geimfar Grissoms fannst árið 1999 og var þá flutt upp til yfirborðsins. Engar vísbendingar fundust um hvers vegna lúgan hefði skotist af.

Grissom lét ekki það sem kom fyrir Liberty Bell 7 hafa mikil áhrif á sig. Um þetta leyti var NASA farið að huga að næstu geimáætlun, Gemini geimáætluninni, þar sem prófa átti alla helstu þætti tunglferðar.

Grissom var staðráðinn í, að fara aftur út í geiminn og ætlaði sér fyrsta Gemini leiðangurinn. Á sama tíma hófst hönnun á Apollo geimfarinu og eftir vandræði Grissoms með lúguna í Mercury farinu, ákváðu menn að breyta hönnuninni og láta lúguna í Apollo opnast inn á við. Það átti síðar eftir að reynast Grissom örlagaríkt.

Að lokum varð Grissom fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem fór tvisvar út í geiminn og þótti líklegastur til að stýra fyrstu tunglferðinni.

Þótt Grissom hafi beint athygli sinni að Gemini áttu Bandaríkjamenn enn eftir að senda fyrsta geimfarann sinn á braut um Jörðina. Sá leiðangur féll í skaut elsta geimfara hópsins, John Glenn.

Innan við þremur vikum eftir geimferð Grissoms bárust fréttir af nýjasta afreki Sovétmanna. Þann 6. ágúst 1961 sendu Sovétmenn hinn 26 ára gamla Gherman Titov út í geiminn en hann er enn í dag yngsti maðurinn sem farið hefur í geimferð.

Titov fór 17 hringi umhverfis Jörðina á rétt rúmum sólarhring. Ferðin tókst með miklum ágætum fyrir utan að Titov var fyrsti maðurinn sem varð veikur í geimnum. Honum varð óglatt og kastaði upp.

Friendship 7 – John Glenn

Í Bandaríkjunum stóðu yfir prófanir á eldflauginni sem flytja átti John Glenn út í geiminn. Hún hét Atlas D og var eina eldflaug Bandaríkjamanna sem hafði nægilegt afl til að koma manni á braut um Jörðina.

Atlas D var tveggja þrepa, 20 metra há og upphaflega ætlað að bera kjarnorkusprengjur. Framan af gekk Wernher von Braun og eldflaugateymi hans illa að koma eldflauginni á loft. Hún hafði þann leiða vana að springa oftast svo nokkur dráttur varð á geimskoti Glenns. 

Þann 20. febrúar 1962 rann stóri dagurinn loks upp. Næstum fjórum klukkustundum eftir að Glenn settist inn í Friendship 7 geimfar sitt, tókst Atlas flaugin á loft og fáeinum mínútum síðar þaut Glenn á 26.000 km hraða í kringum Jörðina. Hann lýsti stórfenglegu útsýni og tók myndir eins og hver annar túristi. Upphaflega átti Glenn reyndar ekki að fá að taka myndavél með sér því stjórnendur á Jörðu niðri óttuðust að hún hefði truflandi áhrif á hann. Glenn fékk það þó í gegn að lokum.

Augu heimsins beindust að geimferð Glenns og fór fjölskylda hans ekki varhluta af því. Lyndon Johnson, varaforseti Bandaríkjanna, vildi heilsa upp á konu Glenns á heimili þeirra og nýta sér fjölmiðlaathyglina í pólitískum tilgangi. Eiginkona Glenns var óörugg með sjálfa sig því hún stamaði. Hún vildi ekki koma fram í fjölmiðlum og neitaði varaforsetanum að koma í heimsókn.

Allt virtist ganga að óskum í fyrstu hringferð Glenns um Jörðina þangað til sólin reis í fyrsta sinn. Þá tók Glenn eftir litlum skærum, ögnum sem svifu í kringum geimfarið. Þetta voru ekki stjörnur en agnirnar minntu hann á eldflugur. Agnirnar virtust svífa hægt hjá en sáust aðeins þegar sólin var lágt á lofti.

Í fyrstu brostu menn að þessu en síðan tók alvaran við. Í geimfarinu og á Jörðu niðri kviknuðu viðvörunarljós sem virtust benda til þess, að hitaskjöldurinn væri laus. Væri svo, myndi Glenn aldrei snúa heim aftur heill á húfi. Ef hitaskjöldurinn losnaði frá, brynnu geimfarið og Glenn upp til agna.

Glenn var ekki sagt frá þessum möguleika. Stjórnstöðin virtist tala í kringum hlutina en Glenn skynjaði vel að menn voru órólegir yfir einhverju. Hann grunaði hvað menn óttuðust.

Á Mercury geimförunum voru bremsuflaugarnar undir hitaskildinum og fyrir heimkomu voru flaugarnar losaðar af. Í þetta sinn var ákveðið að hafa bremsuflaugarnar fastar í þeirri von að þær héldu hitaskildinum föstum og lífinu í Glenn.

Eftir þrjár ferðir í kringum Jörðina ræsti Glenn bremsuflaugarnar. Sex mínútum síðar byrjaði hann að falla í gegnum lofthjúpinn eins og loftsteinn.

Glenn heyrði hljóð eins og eitthvað væri að rekast í geimfarið og sá búta losna frá. Hann óttaðist það versta, að um væri að ræða brot úr hitaskildinum en í raun voru þetta bremsuflaugarnar að brenna upp.

Þegar geimfar fellur í gegnum andrúmsloftið myndast hjúpur af glóandi heitu lofti í kringum farið. Þetta loft kemur í veg fyrir fjarskipti milli geimfarsins og stjórnstöðvar í fjórar til fimm mínútur.

Á Jörðu niðri biðu menn eftir að heyra um afdrif Glenns. Fimm mínútum eftir að samskipti rofnuðu við geimfarið, birtist það í fallhlífinni og sveif rólega niður á Atlantshafið, um 80 km frá fyrirhugðum lendingarstað. Glenn var fluttur um borð í tundurspillinn USS Noa og varð þjóðhetja á svipstundu. Shepard hafði verið vel fagnað við heimkomuna en móttakan sem Glenn fékk var engu lík. Þremur dögum síðar sæmdi Kennedy forseti hann heiðursorðu.

NASA vildi ekki hætta lífi þjóðhetjunnar — hann væri enda miklu mikilvægari á jörðu niðri sem nokkurs konar sendifulltrúi geimáætlunarinnar. Glenn hélt fyrst um sinn áfram hjá NASA en hætti sem geimfari í lok janúar árið 1963. Hugur hans leitaði í pólitík og ákvað hann að bjóða sig fram til þings fyrir Ohio-ríki. Glenn var öldungadeildarþingmaður í 24 ár og gerði árið 1984 tilraun til að hljóta útnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar. Glenn fór síðan aftur út í geiminn með geimferjunni Discovery árið 1998, þá 77 ára gamall — elsti geimfari sögunnar.

Aurora 7 – Scott Carpenter

Þegar geimferð John Glenn var yfirstaðin hóf Donald Slayton að undirbúa sína ferð. Donald, eða Deke eins og hann var alltaf kallaður, hafði gengið í gegnum allar prófanir og æfingar þegar hann fékk slæmar fréttir. Við læknisskoðun greindist óreglulegur hjartsláttur í honum. Slayton var kyrrsettur og meinað að fljúga frekar sem var Slayton auðvitað mikið áfall.

En Slayton fékk fljótt nýtt hlutverk. NASA þótti mikilvægt að geimfararnir hefðu yfirmann, einhvern sem sæi um að velja áhafnir, hefði umsjón með æfingum og öðru sem tengdist þeim. Að tillögu hinna sex Mercury geimfaranna var ákveðið að ráða Deke Slayton til verksins.

Varamaður Slaytons var Wally Schirra og hefði hann að öllu óbreyttu átt að fljúga í stað Slaytons. Scott Carpenter hafði hins vegar verið varamaður John Glenn og báðir höfðu gengið í gegnum sömu æfingar. Geimferð Slaytons átti að vera nánast endurtekning á ferð Glenns — þrjár ferðir í kringum Jörðina — og fyrst Carpenter var betur undirbúinn en Schirra, var ákveðið að Carpenter tæki sæti Slaytons.

Scott Carpenter var harla ólíkur hinum geimförunum. Segja má að Carpenter hafi verið heimspekilegastur þeirra sjö. Hann hafði miklu meiri áhuga á hinu óþekkta, því sem leyndist þarna úti, heldur en því sem kom honum þangað.

Þann 6. mars 1962 var Aurora 7 geimfari Carpenters skotið á loft. Samkvæmt áætlun átti hann að gera tilraunir á vökvum í þyngdarleysi og taka myndir af Jörðinni. Honum tókst að leysa ráðgátuna um agnirnar fyrir utan geimfarið sem Glenn hafði séð. Þær reyndust ekki eldflugur, heldur vatn sem streymdi út úr geimfarinu — þvag geimfarans.

Carpenter var aðallega með hugann við að njóta útsýnisins og eyddi til þess dýrmætu eldsneyti. Hann gleymdi meira að segja að undirbúa heimkomuna. Hann ræsti eldflaugarnar of seint og mundi því lenda í sjónum langt frá fyrirhuguðum lendingarstað. Að auki var farið orðið eldsneytislaust og því útilokað að stýra farinu. Væri innfallshornið ekki rétt, myndi hann brenna upp til agna. Samt var hann alveg pollrólegur.

Geimfarið féll í gegnum lofthjúpinn en ekkert heyrðist frá Carpenter fyrr en fjörutíu mínútum síðar. Farið hafði lent 402 kílómetrum frá fyrirhuguðum lendingarstað og sagði NASA hann hafa verið heppinn að lifa ferðina af. Carpenter lét sér þó fátt um finnast og fékk líklega meira út úr sinni geimferð en allir hinir geimfararnir. NASA sá hins vegar til þess að Carpenter færi aldrei aftur í geimferð.

Sigma 7 – Wally Schirrra

Tæpum þremur mánuðum síðar unnu Sovétmenn enn eitt afrekið í geimnum þegar tvö sovésk geimför, Vostok 3 og Vostok 4, mættust á braut um Jörðina. Að auki voru bæði för meira en tvo daga í geimnum, sem var dvalarmet á þeim tíma. Í hvert sinn sem Bandaríkjamenn stigu eitt skref fram á við, var eins og Sovétmenn stigu tvö.

Nú var röðin loks komin að Wally Schirra. Schirra var brandarakarlinn í hópnum en reyndar hlógu fáir meira af bröndurum Wallys en hann sjálfur.

Schirra setti alltaf flugið í fyrsta sæti og fækkaði öllum vísindatilraunum sem hann mögulega gat. Hann nefndi geimfarið sitt Sigma 7 og var því skotið á loft 3. október 1962.

Schirra fór sex hringi umhverfis Jörðina á rúmum níu klukkustundum. Ferðin tókst fullkomlega en miklu færri veittu henni athygli en ferðunum á undan. Geimferðin fór nefnilega fram þegar Kúbudeilan var að hefjast.

Faith 7 – Gordon Cooper

Tæpum tveimur árum eftir að Kennedy forseti tilkynnti um tungláætlun sína, rak Gordon Cooper smiðshöggið á Mercury geimáætlunina.

Cooper var dæmigerður suðurríkjamaður. Hann fæddist og ólst upp í Oklahoma og talaði með sterkum suðurríkjahreim. Hann var fyrsta flokks flugmaður sem gat flogið bókstaflega öllu sem gat á annað borð flogið, hvort sem er farþegaþotum, þyrlum eða herþotum.

Verkefni Coopers var að setja bandarísk dvalarmet í geimnum og átti að dvelja í litla Mercury hylkinu í tæpan einn og hálfan sólarhring. Mercury farið var ekki ætlað svo langar geimferðir en NASA hugðist samt prófa. Cooper ákvað þess vegna að nefna geimfarið sitt Faith 7, Trú 7, NASA til heldur lítillar hrifningar.

Cooper hafði tilhneigingu til að ögra fólki. Enginn efaðist um getu hans en margir voru efins um dómgreindina.

Tveimur dögum fyrir geimferðina ákvað hann að stríða skrifstofufólki og yfirmönnum sínum hjá NASA. Hann flaug í þotu yfir Canaveralhöfða, eins nálægt skrifstofubyggingunni og hann komst, eins lágt og mögulegt var. Þegar einn af yfirmönnum hans leit út um gluggann, sá hann Cooper á hvolfi í þotunni sinni í minni hæð en skrifstofa hans var í.

Yfirmaðurinn ætlaði að taka geimferðina af honum og biðja Shepard að fara í staðinn. Slayton, sem hafði nú umsjón með áhöfnunum, hafnaði því enda myndi það binda endi á feril Coopers hjá NASA.

Faith 7 var skotið á loft 15. maí 1963. Allt gekk vel í sólarhring en þá fór geimfarið að deyja hægt og rólega. Rafkerfin hættu að virka og koldíóxíð tókst að hlaðast upp í farinu. Eiginlega ekkert virkaði lengur í farinu nema Cooper sjálfur sem var alveg sallarólegur. Sjálfstýringin hætti að virka svo hann varð sjálfur að taka við stjórn geimfarsins og stýra sér sjálfur heim. Það hafði enginn gert áður. Hann ræsti bremsuflaugarnar, tók tímann með armbandsúri sínu og hafði augun á sjóndeildarhringnum.

Og allt tókst að sjáflsögðu fullkomlega. Cooper lenti geimfarinu aðeins 6 km frá flugmóðurskipinu sem átti að sækja hann. Þetta var lang nákvæmasta lendingin til þessa og sýndi vel að menn voru ómissandi í geimferðum.

Mercury geimáætluninni var formlega lokið. Hún hafði lukkast nánast fullkomlega og með henni náðu Bandaríkjamenn að standa svo til jafnfætis Sovétmönnum í geimkapphlaupinu.

Þann 18. nóvember árið 1963 heimsótti John F. Kennedy forseti Canaveralhöfða til að skoða eldflaugarnar stóru sem verið var að smíða fyrir tunglferðirnar. Aðeins fjórum dögum síðar var hann myrtur.

Tveimur mánuðum áður hafði Kennedy flutt ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þar lagði hann til að Bandaríkin og Sovétmenn myndu sameina krafta sína til að komast til tunglsins. Nikíta Krústjoff hafnaði þeirri hugmynd Kennedys fyrst en skipti um skoðun nokkrum vikum síðar, þegar hann sá að báðar þjóðir hefðu mikinn hag af því. Krústjoff ætlaði að samþykkja boð Kennedys þegar Kennedy var myrtur.

Morðið á Kennedy var Bandaríkjamönnum mikið áfall. Margir óttuðust líka að með honum dæi tunglferðaáætlunin. Í stað Kennedys kom Lyndon Johnson en hann var síst minni aðdáandi geimferða en Kennedy.

Morðið sannfærði menn um mikilvægi þess að ná tímamörkunum sem Kennedy hafði sett, að koma manni til tunglsins áður en áratugurinn væri úti.

Gemini geimáætlunin var næsta skrefið í þeirri vegferð en með henni var grunnurinn lagður að ferðalaginu frá Jörðinni til tunglsins.