Þverganga Venusar 8. júní 2004

  • Venus, þverganga 2004
    Venus fyrir framan sólina kl. 07:45 8. júní 2004 séð frá Garðabæ. Myndin var tekin með Canon 300D og 28-300mm Tamron linsu við 100 ISO og 1/4000 sekúndna lýsingartíma. Ljósop f/36. Sólarsía var ekki við höndina í þessu tilviki svo notast vað við ský til að dempa ljósið. Mynd: Ágúst H. Bjarnason

Þvergangan 8. júní 2004 sást best frá Evrópu, Asíu og Afríku en íbúar í austanverðri Norður Ameríku sáu lok hennar við sólarupprás. Þvergangan sást ekki frá vestanverðri Norður Ameríku og stórum hluta Kyrrahafs.

Í Reykjavík hófst þvergangan þegar sólin var lágt í norðaustri kl. 05:19, var hálfnuð kl. 08:22 og lauk 11:23 þegar sólin var hátt í suðaustri eins og fram kom í Alamanki Háskóla Íslands fyrir árið 2004. Veður var með ágætum víða um land, hálfskýjað eða léttskýjað. Á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands fylgdust menn grannt með gangi mála í prýðilegasta veðri eins og lesa má um hér.

Tilraun til að mæla fjarlægð sólar

Atburðurinn vakti þónokkra athygli víða um heim. European Southern Observatory stóð fyrir skipulagðri tilraun til að mæla fjarlægðina til sólar með þeirri aðferð sem stjörnufræðingar beittu á 18. og 19. öld: Mæla tímann þegar Venus fyrir inn fyrir sólina og út fyrir aftur. Markmið verkefnisins var að nýta atburðinn til að breyta forvitni fólks í þekkingu og efla áhuga á vísindum.

Hátt á þriðja þúsund manns tóku þátt í tilrauninni og nærri 1.000 skólabekkir. Mælingar þeirra voru notaðar til að reikna fjarlægðina milli jarðar og sólar. Útkoman var 149.608.708 km ± 11.835 km eða 0,007% frá réttri niðurstöðu samkvæmt frétt á vef ESO (eso0433). Enginn bjóst við svo góðri niðurstöðu.

Dropaáhrifin vart greinanleg

Dropaáhrifin sjást þegar Venus er rétt að skríða öll inn fyrir rönd sólar. Þá virðist sem skuggamynd Venusar drjúpi við dökkann himinn í kring. Áhrifin sáust vel á 18. og 19. öld en flestir athugendur virtust ekki hafa séð áhrifin í þetta sinn. Af þeim sem sáu áhrifin, sáu flestir eitthvað mun óljósara en í fortíðinni — svo mikið mun óljósara að margir hafa hikað við að kalla það dropaáhrif.

Ýmsar kenningar voru á lofti hvers vegna þetta misræmi var. Aðalkenningin gengur út á betri gæði sjónauka í dag en á 18. og 19. öld. Aðrir hafa talið þetta stafa af óvenju góðum skoðunarskilyrðum.

Höfundur þessarar greinar og ferðafélagi hans, Snævarr Guðmundsson, sáu báðir dropaáhrifin við inn- og útgöngu Venusar. Dropinn sást í gegnum Mylar-síu á 15 sm Dobsonsjónauka en alls ekki jafn greinilega og heimildirnar frá 18. og 19. öld sögðu til um.

Á sumum myndum af þvergöngunni sjást engin merki um dropaáhrif. Aðrar myndir sýna aðeins dökkan, þokukenndan skika milli Venusar og sólrandarinnar við inngöngu eða útgöngu, sem afskræmir ekki alveg skífu reikistjörnunnar. Fáar myndir bera vott um greinilega dropalögun.

Jay Pasachoff prófessor í stjörnufræði við Williamsháskóla segir að rannsóknir sínar og Glenn Schneider við Arizonaháskóla á myndum úr geimnum af þvergöngu Merkúríusar árið 1999 og 2003, sýni að sjóntæki og greinigeta sjónauka séu mikilvægir þættir í dropaáhrifunum. „Það kemur því ekki á óvart að stórir sjónaukar, sem hafa betri greinigæði, sýni ekki dropaáhrifin“ sagði Pasachoff.

Svo virðist því sem dropaáhrifin ætli að verða jafn dularfull á 21. öldinni eins og á þeirri 19.

Ferðasaga: Þvergönguleiðangur 8. júní 2004

Útlitið var heldur dökkt þegar við frændurnir Snævarr Guðmundsson og undirritaður héldum af stað í leiðangur út á land í þeirri  von að berja augum einn sjaldgæfasta stjarnfræðiviðburð sem við gætum mögulega orðið vitni að. Undirbúningur hófst nokkuð snemma kvöldið 7. júní við að útbúa sólarsíu fyrir 15 sm Dobsonsjónaukann minn. Sían var mjög einföld: Mylarörk á pappa sem festur var fyrir ljósop sjónaukans. Vel útbúnir og undirbúnir lögðum við af stað í austurátt um kl. þrjú að nótt, en veðurspáin var ákjósanlegust fyrir suðurlandið.

Himinninn leit vel út við Gunnarsholt, milli Hellu og Hvolsvallar, þar sem við komum okkur fyrir um kl. 04:30. Það var léttskýjað, örlítil gola og nokkuð svalt, enda sólin tiltölulega rétt skriðin yfir sjóndeildarhringinn. Náttúran í kring var stórkostleg með Heklu í norðausturátt, Eyjafjallajökul í austri og Vestmannaeyjar um það bil í suðri. Yfir Vestmannaeyjum vakti næstum hálft tungl. Allt var eins og best var á kosið.

Á meðan við biðum, settum við sjónaukana okkar upp (Snævarr var með Meade ETX 90 og stafræna kvikmyndatökuvél) og Snævarr var í símasambandi við útvarpsmann frá Ástralíu en hann mun hafa hring í fólk úr beinni útsendingu víða um heim sem fylgdist spennt með viðburðinum. Í einu samtalinu spjallaði Snævarr m.a. stuttlega við hinn þekkta stjörnufræðing og -ljósmyndara David Malin.

Um fimmleytið höfðum við stillt öllu upp og vorum tilbúnir fyrir herlegheitin. Klukkan 05:19 urðum við fyrst varir við Venus að skríða inn fyrir rönd sólar. Enginn ljóskringla í kringum Venus var þá sjáanleg. En tuttugu mínútum síðar, eða 05:39, sáum við dropaáhrifin svonefndu þegar svo virtist sem Venus væri að drjúpa af sólinni. Dropaáhrifin voru ekki jafn greinilega og ég hafði búist við en ollu mér samt sem áður alls engum vonbrigðum. Þegar Venus var svo öll komin nokkuð inn fyrir sólina, tókum við tækin saman og héldum austar, þar sem ský voru farin að draga fyrir sólu. Það kom mér nokkuð á óvart hversu stór Venus var fyrir framan sólina.

Í rólegheitunum ókum við framhjá Seljalandsfossi og ákváðum að halda til við gömlu Markarfljótsbrúnna sem reist var 1933, ekki svo ýkja langt frá Litla-Dímon. Þar slökuðum við á í á að giska þrjá tíma og fylgdumst með framvindu þvergöngunnar með öðru auganu annað veifið.

Um tíuleytið voru skýin enn einu sinni farin að stríða okkur svo við ákváðum að aka austar. Svo fór að við keyrðum út að Skógafossi en þar var útlitið lítið skárra en er við litum aftur í vestur virtist sem létt hefði til þar. Staðráðnir í að missa örugglega ekki af síðari hluta þvergöngunnar ókum við aftur til baka og komum okkur fyrir við veginn sem liggur að Þórsmörk. Þangað komum við skömmu fyrir klukkan ellefu.

Venus hóf að ganga aftur út fyrir sólina um 11:03 og var komin öll útfyrir um 11:23. Við útgönguna urðum við aftur varir við dropaáhrifin, sem mér þóttu þá greinilegri en í inngöngunni. Þá var vindur orðinn ívið meiri og hálfskýjað í kringum okkur (ekkert ský þó sem skyggði á sólina) sem gæti hafa orðið til þess að dropaáhrifin voru greinilegri. En þegar Venus var um það bil hálfnuð út fyrir rönd sólar, urðum við vitni að merkilegasta fyrirbrigðinu. Lofthjúpur Venus blasti við sem dauf ljóskringla umhverfis reikistjörnuna!

Að þessu loknu héldum við þreyttir heim á leið, afar sáttir við okkar hlut, enda sáum við allt það sem við vildum og lögðum á okkur til að sjá; dropaáhrifin tvisvar og lofthjúp Venusar.

Við hlökkum mikið til næstu þvergöngu sem verður þann 6. júní 2012 og erum auðvitað staðráðnir í að missa alls ekki af henni.

Tengt efni

Heimildir

  1. Þorsteinn Sæmundsson. 2004. Venus gengur fyrir sól. Almanak Háskóla Íslands almanak.hi.is/venus.html
  2. Þorsteinn Sæmundsson. 2004. Fylgst með þvergöngu Venusar. Almanak Háskóla Íslands almanak.hi.is/thvergan.html