Mynd vikunnar

Fyrirsagnalisti

Dymbilþokan, Messier 27

Dymbilþokan

20. febrúar

Allar stjörnur deyja á endanum. Sumar springa en flestar deyja hægt og rólega með því að varpa frá sér ystu efnislögum sínum út í geiminn. Þannig fer fyrir sólinni okkar og þannig fór fyrir fyrrum stjörnunni sem hér sést. Þetta er Dymbilþokan eða Messier 27 í stjörnumerkinu Litlarefi. Hún er hringþoka, leifar stjörnu.

Mynd: Sævar Helgi Bragason

Suðurpóll Júpíters

Juno sér suðurpól Júpíters

13. febrúar

Hinn 2. febrúar 2017 var Juno geimfar NASA í 102.100 km hæð yfir suðurpól Júpíters og tók þá þessa glæsilegu mynd. Á henni sjást einstök smáatriði í stormasömum og hrollköldum lofthjúpnum við suðurpól Júpíters. Stjörnuáhugamaðurinn Roman Tkachenko setti myndina saman úr gögnum frá JunoCam myndavél geimfarsins.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS/Roman Tkachenko

Smáatriði í B-hring Satúrnusar

B-hringur Satúrnusar

6. febrúar

Undanfarna mánuði hefur Cassini geimfar NASA komist nær hringum Satúrnusar en áður og náð mögnuðum myndum af þeim. Hér sést lítill hluti af B-hringnum, tekin úr 51.000 km hæð hinn 18. desember 2016. Ótrúleg smáatriði koma í ljós sem sýna vel hversu fínir hringar Satúrnusar eru. Þeir eru myndaðir af örþunnum þráðum úr ís- og rykögnum en inn á milli eru örlitlar geilar. Fínu, ljósu deplarnir á myndinni eru af völdum geimgeisla.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Tunglið og Jörðin frá GOES-16

GOES-16 lítur til tunglsins

Í nóvember 2016 var GOES-16 gervitungli NASA og NOAA skotið á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Gervitunglið vaktar Jörðina úr ríflega 37.000 km hæð og fylgist aðallega með veðri. Stöku sinnum læðist tunglið inn á myndir þess eins og á þessari sem tekin var 15. janúar 2016. Tunglið er rauðleitara en í raun og veru vegna þess að myndavélar gervitunglsins eru næmar fyrir innrauðu ljósi.

Mynd: NOAA/NASA

Tunglið Dafnis í hringum Satúrnusar

Dafnis í hringum Satúrnusar

Dafnis er 8 km breitt tungl innan í Keeler-geilinni í hringum Satúrnusar. Þegar Dafnis snýst í kringum Satúrnus dregur þyngdarkraftur tunglsins ís- og rykagnir hringanna með sér og ýtir öðrum á undan svo bylgjumynstur verður til eins og gárur á vatni. Sjá má fáeina gíga og sléttur á yfirborðinu sem og hrygg við miðbauginn. Myndin var tekin 16. janúar síðastliðin úr 28.000 km hæð og er sú besta sem tekin hefur verið af þessu litla tungli.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Juno eygir Stóra rauða blettinn á Júpíter

Juno eygir Stóra rauða blettinn

Hér sést Stóri rauði bletturinn, eitt helsta einkenni Júpíters, stærstu reikistjörnu sólkerfisins. Myndin var sett saman úr gögnum frá Juno geimfari NASA sem aflað var 11. desember 2016. Geimfarið flaug þá í þriðja sinn nálægt Júpíter og var í 458.000 km fjarlægð þegar myndin var tekin.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS/Roman Tkachenko

Jörðin og Máninn frá Mars

Jörðin og Máninn frá Mars

Hinn 20. nóvember 2016 var HiRISE sjónaukanum á Mars Reconnaissance Orbiter geimfari NASA beint að Jörðinni og Mánanum hennar. Þegar myndin var tekin var Jörðin í 203 milljón km fjarlægð frá Mars. Hvíti ljósbletturinn á suðurhvelinu er Suðurskautslandið en rauðleita „eyjan“ þar fyrir ofan er Ástralía. Efst glittir svo í suðaustur Asíu.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Univ. of Arizona

Pandóra, tungl Satúrnusar

Pandóra í návígi

Hér sést Pandóra, eitt af tunglum Satúrnusar. Þetta er besta mynd sem tekin hefur verið af tunglinu til þessa en hana tók Cassini geimfarið hinn 18. desember 2016 úr 40.500 km fjarlægð. Pandóra er aðeins 84 km á breidd. Það hringsólar um Satúrnus rétt fyrir utan F-hringinn.

Kerberos, eitt af tunglum Plútós

Plútótunglið Kerberos

26. október

Hér sést Kerberos, næstminnsta tunglið af fimm tunglum Plútós, á mynd sem tekin var hinn 14. júní 2015 með LORRI myndavélinni á New Horizons geimfarinu.

Síða 1 af 2