Örnefni í sólkerfinu

 • örnefni, tunglið, kort
  Kort af tunglinu, Andrees Allgemeiner Handatlas, 1. útgáfa árið 1881. Mynd: Wikimedia Commons

Segja má að könnun sólkerfisins séu landafundir nútímans. Sífellt finnast ný fyrirbæri í sólkerfinu sem gefa þarf nöfn. En hvernig stendur á því að gígur á Merkúríusi er nefndur eftir íslenskri myndlistakonu á meðan annar gígur á Mars ber nafn lítils bæjarfélags á Íslandi eða frægs vísindamanns? Hvers vegna er Mývatn líka að finna á Satúrnusartunglinu Títan?

1. Saga örnefna í sólkerfinu

Þegar forfeður okkar litu til himins tóku þeir eftir reikistjörnum sem reikuðu fyrir framan fastastjörnurnar í bakgrunni. Grikkir og Rómverjar nefndu þessa föruhnetti eftir guðum sínum, enda vit í því: Merkúríus þaut eins og sendiboði guðanna um himininn; Venus var svo skær og fögur að hún var nefnd eftir gyðju ástar og fegurðar; rauða reikistjarnan Mars var nefndur eftir stríðsguðum. Júpíter var nefndur eftir konungi guðanna en Satúrnus eftir föður Júpíters. Goðsögulega tengingin hélt áfram þegar fleiri reikistjörnur fundust; Úranus var nefndur eftir himnaguðinum, föður Satúrnusar og afa Seifs en Neptúnus eftir sjávarguðinum. Á 20. öld, þegar Plútó fannst, var þessari hefð viðhaldið og hann nefndur eftir guði undirheimanna enda í órafjarlægð utarlega í sólkerfinu.

Þegar sjónaukinn kom til sögunnar urðu nafngiftir himintunglanna að þrætuepli. Þegar Galíleó fann fjögur stærstu tungl Júpíters vildi hann nefna þau „Stjörnur Medicifjölskyldunnar“ til að geðjast velgjörðarmönnum sínum. Það var hins vegar þýski stjörnufræðingurinn Símon Maríus sem sá sömu tungl um svipað leyti sem lagði til þau nöfn sem við notum í dag. Að tillögu Jóhannesar Keplers nefndi Maríus tunglin eftir elskhugum Seifs, grískri hliðstæðu Júpíters.

Galíleó sætti sig ekki við þessi nöfn og fann í staðinn upp tölukerfi sem enn er notað í dag. Nöfn Maríusar nutu hins vegar lýðhylli og öðluðust smám saman fótfestu.

Þegar sjónaukar urðu betri fundust sífellt fleiri tungl, kennileiti og fleiri fyribæri sem varð að nefna. Öllu ægði saman. Um nafngiftir himinhnatta giltu hins vegar engar reglur fyrr en Alþjóðasamband stjarnfræðinga (International Astronomical Union, IAU) var stofnað árið 1919.

1.1 Örnefnanefnd Alþjóðasamband stjarnfræðinga

Á stofnfundi Alþjóðasambands stjarnfræðinga árið 1919 var sett á laggirnar nefnd sem koma átti skipulagi á örnefni tungla og reikistjarna í sólkerfinu. Sú nefnd er enn starfandi og kallast Working Group for Planetary System Nomenclature en hlutverk hennar er að leggja til örnefni og leggja blessun sína yfir uppástungur annarra.

Riccioli, kort, tunglið, örnefni
Kort Giovanni Battista Riccioli af tunglinu frá árinu 1651 þar sem fram koma í fyrsta sinn mörg af þeim örnefnum sem við notum í dag. Mynd: Wikimedia Commons

Fyrsta verk nefndarinnar var að koma skikki á örnefni á tunglinu. Ákveðið var að nota mörg af þeim nöfnum sem ítalski Jesúítapresturinn Giovanni Battista Riccioli hafði notað í riti sínu, Almagestum Novum, árið 1651. Riccioli var andstæðingur sólmiðjukenningarinnar en nefndi engu að síður nokkra gíga eftir þekktum fylgismönnum Kópernikusar, þar á meðal Galíleó, Kepler og Kópernikusi sjálfum. Nöfnum trúvillinganna kom hann hins vegar fyrir á gíga við dökka sléttu Stormahafsins. Riccioli gaf líka nokkrum dökkum basaltsléttum nöfn og kallaði þær „mare“ eða „höf“: Mare Crisium, Mare Serenitatis, Mare Fecunditatis, Mare Imbrium, Mare Nubium og Mare Frigoris. Á 20. öld vissu menn vitaskuld að höfin voru skraufþurr en þrátt fyrir það héldu nöfnin velli.

Næst á forgangslista nafnanefndarinnar var að koma skipulagi á örnefni Mars sem höfðu breyst í gegnum tíðina þegar athugendur kortlögðu yfirborðið. Árið 1958 var lögð fram tillaga á 128 endurskinskennileitum (ljós, dökk eða lituð svæði) sem stjörnufræðingar höfðu greint með sjónaukum. Nefndin byggði mörg nöfnin á kerfi sem ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Schiaparelli setti upp seint á 19. öld og Eugéne M. Antoniadi þróaði lengra árið 1929. Dæmi um nöfn sem þá urðu opinber voru Hellas og Nix Olympica (sem síðar breyttist í Olympus Mons).

Enn jókst þörfin á að gefa fyrirbærum í sólkerfinu nöfn þegar geimöld gekk í garð. Eftir að Mariner gervitungl NASA flugu framhjá Mars var sérstakur vinnuhópur fyrir Mars settur á laggirnar sem hafði það hlutverk eitt að nefna kennileiti á Mars. Um svipað leyti fékk önnur nefnd það hlutverk að nefna kennileiti á tunglinu sem bandarísk og sovésk geimför höfðu fundið.

Á aðalfundi Alþjóðasambands stjarnfræðinga árið 1974 voru búnir til sérstakir vinnuhópar fyrir tunglið, Merkúríus, Venus, Mars og ytra sólkerfið sem báru ábyrgð á örnefnum þeirra. Tíu árum síðar var stofnuð nefnd um örnefni smærri hnatta enda þá komin þörf á að nefna yfirborðseinkenni á smástirnum og halastjörnum. Sú nefnd fékk síðar það hlutverk að finna heppileg nöfn á fyrirbæri úr Kuipersbeltinu og nýfundin tungl Plútós.

Eftir að vinnuhópur hvers fyrirbæris hefur lagt mat á nafnatillögur, fara þær til örnefnanefndarinnar (Working Group for Planetary System Nomenclature) til samþykktar. Eftir að örnefni hefur verið samþykkt er tilkynnt um það í nafnaskrá nefndarinnar, Gazetteer of Planetary Nomenclature. Í örnefnanefndinni eru stjörnufræðingar frá ýmsum löndum en ekki er hægt að sækja um að vera í henni; aðeins útvöldum er boðin seta í nefndinni.

Nýjasta viðfangsefni örnefnanefndarinnar er smástirnið Vesta. Áður en Dawn gervitunglið fór á braut um Vestu hafði vinnuhópur þegar ákveðið örnefnin sem yrðu notuð á Vestu.

1.2 Nafnaþemu

Merkúríus, gígar, örnefni
Gígar á Merkúríusi eru nefndir eftir listamönnum. Hér er Nína Tryggvadóttir í góðum hópi. Mynd: NASA/Stjörnufræðivefurinn

Hvers vegna er gígur á Merkúríusi kallaður Handel eftir þýsk-breska tónskáldinu á meðan annar á Mars er kallaður Grindavík eftir litlum bæ á Ísland og enn annar Asimov eftir vísindaskáldsagnahöfundinum Isaac Asimov? Allt byrjar þetta með nafnaþema.

Á Merkúríusi eru gígar nefndir eftir listafólki, tónlistarfólki, málurum og rithöfundum — fólki sem setti mark sitt á listasöguna og lagði mikið af mörkum til síns sviðs. Þetta fólk þarf reyndar líka að hafa verið dáið í að minnsta kosti þrjú ár.

Öll kennileiti á Venusi (fyrir utan þrjú) eru nefnd eftir konum. Undantekningarnar — Alfa Regio, Beta Regio og Maxwell Montes (fjöll, nefnd eftir skoska eðlisfræðingnum James Clerk Maxwell) — fengu sín nöfn áður en nafnahefðin komst á.

Á Mars fá gígar nöfn eftir stærð. Gígar stærri en 60 km í þvermál eru nefndir eftir látnum vísindamönnum eða landkönnuðum, sér í lagi þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til rannsókna á Mars, sem og rithöfundum sem hafa skrifað sögur um Mars. Smærri gígar eru hins vegar nefndir eftir borgum og bæjum á jörðinni sem hafa innan við 100.000 íbúa.

Þegar nákvæmari athuganir eru gerðar á fyrirbærum getur nafnakerfið orðið ruglingslegt. Tökum hringa Satúrnusar sem dæmi. Fyrst var mismunandi hringum gefnir bókstafir frá A til G í röð eftir uppgötvun en ekki fjarlægð frá Satúrnusi eins og eðlilegra væri. Eyður eins og Cassini geilin fræga skilja meginhringana í sundur. Geilar innan meginhringanna eru nefndar eftir látnum vísindamönnum eins og Maxwell, Huygens, Encke og Keeler.

Aðrar reikistjörnur með hringa hafa önnur nafnaþemu. Hringar Neptúnusar eru nefndir eftir stjörnufræðingum sem rannsökuðu reikistjörnuna skömmu eftir að hún fannst; mönnum eins og William Lassell og John Couch Adams. Í Adams hringnum hefur efnið hlaupið í kekki og myndað boga sem kallaðir eru Liberté, Egalité, Fraternité og Courage (Frelsi, jafnrétti, bræðralag og áræðni).

Í ytra sólkerfinu er aragrúi tungla, smástirna og dvergreikistjarna sem þurfti líka að nefna. Í mörgum tilvikum réð sagan nafnaþemunum. Tungl Neptúnusar eru þannig nefnd eftir persónum úr grískri eða rómverskri goðafræði sem tengjast sjávarguðinum og höfum hans.

Fylgitungl Satúrnusar bera nöfn títana og skessa úr heimi goðafræðinnar (t.d. Japetus, Títan og Föbe) en líka afkomendum þeirra (t.d. Kalýpso). Önnur tungl bera nöfn risa úr ýmsum goðafræðum. þar á meðal gallískri (t.d. Albíorix), inúískri (t.d. Paaliaq) og norrænni (t.d. Ýmir).

Tungl himnaguðsins Úranusar fylgja gerólíkri hefð. William Herschel, sá er uppgötvaði Úranus, sótti sér innblástur í bókmenntir fremur en goðafræðina og nefndi tunglin eftir persónum úr leikritum Shakespeares og ljóði Alexanders Pope. Hann kallaði fyrstu tvö tunglin Títaníu og Óberon úr leikritinu Draumur á Jónsmessunótt en næstu tvö, Aríel og Úmbríel eru úr ljóðinu The Rape of the Lock eftir Pope. Önnur tungl draga einnig nöfn sín úr verkum þeirra tveggja.

Halastjörnur og smástirni eru einu fyrirbæri sólkerfisins sem nefna má eftir lifandi fólki. Venjulega eru halastjörnur nefndar eftir þeim sem uppgötvuðu þær en þau sem finna smástirni mega stinga upp á nafni innan tiltekins ramma. Smástirni mega bera nöfn fjölskyldumeðlima eða vina viðkomandi, svo framarlega að ekki sé um að ræða stjórnmálamenn.

Hefð er ríkur þáttur í örnefnum sólkerfisins. Þrátt fyrir það geta menn veitt sköpunargleði sinni útrás. Þegar James Christy fann fyrsta tungl Plútós árið 1978 vildi hann nefna það eftir konu sinni, Charlene (sem var kölluð Char), en reglurnar sögðu að ekki mætti nefna tungl eftir fólki. Christy stakk þá upp á nafninu Charon eða Karon, eftir ferjumanninum sem flutti sálir yfir ána Styx til undurheima.

Þegar hópur vísindamanna við New Horizons leiðangur NASA uppgötvaði tvö önnur tungl við Plútó, lagði hann til að þau skyldu nefnd Nix eftir móður Karons, og Hýdra eftir verndara undirheimanna. Upphafsstafirnir vísa vitaskul til New Horizons geimarsins.

Dvergreikistjörnur eru nefndar eftir guðum ýmissa menninga. Sá er uppgötvar dvergreikistjörnu getur stungið upp á nafni við vinnuhópinn sem hefur umsjón með smáhnöttum í sólkerfinu og örnefnanefndina sjálfa.

2. Lýsihugtök

Sennilega eru gígar auðþekkjanlegustu kennileitin á yfirborðum tungla og reikistjarna. Önnur kennileiti eru alls ekki augljós. Áður en kennileiti fá nöfn þarf fyrsta að flokka þau eftir gerð og fá þau þá latneskt flokkunarheiti. Merking þess eða lýsingin má ekki endurspegla uppruna þess því jarðfræðileg túlkun getur breyst með aukinni þekkingu. Kennileiti sem minnir á straum eða flæði fær nafnið fluctus sem er latína fyrir „flæði“, burtséð frá því hvort rekja megi myndun kennileitisins til eldvirkni eða vökva.

Lýsihugtökin eiga að gefa lýsandi mynd af fyrirbæri, ekki túlkun. Sem dæmi túlka vísindamenn kennileiti sem þeir kalla patera sem eldfjallagíg eða öskju en lýsihugtakið merkir einfaldlega „óreglulegur gígur eða kerfi gíga með bröttum jöðrum“. Ef breyta þarf vísindalegri túlkun á lýsihugtakið samt enn við.

Hér undir er tafla yfir öll helstu lýsihugtök sem notuð eru í sólkerfinu. Þeim er oftast skeytt aftan við örnefnin.

Kennileiti
Lýsing
Dæmi
Arcus, arcus
Bogalaga kennileiti
Hotei Arcus á Títan
Astrum, astra
Kennileiti með geislótt mynstur (á Venusi)

Catena, catenae
Gígaröð
Enki Catena á Ganýmedesi
Cavus, cavi
Lægðir, óreglulegar með brattar hlíðar, venjulega í röðum eða þyrpingum
Ganges Cavus á Mars
Chaos
Sprungið eða óreiðukennt landslag
Iani Chaos á Mars
Chasma, chasmata
Djúp, ílöng lægð með brattar hlíðar
Coprates Chasma á Mars
Colles
Safn af litlum hæðum og hólum
Bilbó Colles á Títan
Corona, coronae
Sporöskjulaga kennileiti, aðeins notað á Venusi og Míröndu
Artemis Corona á Venusi
Dorsum, dorsa
Hryggur
Melas Dorsa á Mars
Facula, faculae
Bjartur blettur
Tortóla Facula á Títan
Farrum, farra
Pönnukökulaga eining eða röð slíkra
Egeria Farrum á Venusi
Flexus, flexus
Mjög lág boglínudreginn hryggur með disklaga mynstri
Gortyna Flexus á Evrópu
Fluctus, fluctus
Svæði þakið hraunflæði frá eldfjalli
Fjörgyn Flcutus á Íó
Flumen, flumina
Farvegur á Títan sem gæti borið vökva
Élivogar Flumina á Títan
Fossa, fossae
Löng, mjö, þröng lægð
Cerberus Fossae á Mars
Insula, insulae
Eyja eða eyjur, einangrað landsvæði (eða hópur af slíkum svæðum) umlukin hafi eða stöðuvatni
Mayda Insula á Títan
Labes, labes
Skriðusvunta. Aðeins notuð á Mars.
Candor Labes á Mars
Labyrinthus, labyrinthi
Kerfi dala eða hryggja sem skerast
Noctis Labyrinthus á Mars
Lacus
„Stöðuvatn“ eða lítil slétta. Notað á tunglinu, Mars og Títan
Mývatn Lacus á Títan
Lenticula, lenticulae
Litlir dökkir blettir á Evrópu
 
Linea, lineae
Ljós eða dökkur, ílangur blettur, getur verið sveigður eða beinn
Fönix Linea á Evrópu
Macula, maculae
Dökkur blettur, getur verið óreglulegur
Eir Macula á Evrópu
Mare, maria
„Haf“ eða stór hringlaga slétta. Notað á tunglinu, Mars og Títan.
Mare Tranquilitatis á tunglinu
Mensa, mensae
Fjall eða hæð með flatan topp og brattar hlíðar, svipað stapa
Ausonia Mensa á Mars
Mons, montes
Mons vísar til fjalls en Montes til fjallgarðs
Olympus Mons á Mars
Oceanus
Mjög stórt dökkt svæði. Aðeins notað á tunglinu
Oceanus Procellarum
Palus, paludes
Lítil slétta. Aðeins notað á tunglinu og Mars
Aeolis Palus á Mars
Patera, paterae
Óreglulegur gígur eða kerfi gíga með bröttum jöðrum. Á venjulega við um eldfjallagíga eða öskjur á eldfjöllum
Loki Patera á Íó
Planitia, planitiae
Lág slétta
Amazonis Planitia
Planum, plana
Háslétta
Planum Boreum á Mars
Promontorium, promontoria
„Höfði“. Aðeins notað á tunglinu
Promontorium Laplace
Regio, regiones
Stórt svæði sem markast af endurvarpi eða litabreytingum frá öðrum nærliggjandi svæðum
Galíleó Regio á Ganýmedesi
Reticulum, reticula
Netlaga mynstur á Venusi

Rima, rimae
Gjá eða sprunga. Aðeins notað á tunglinu
Rima Hadley á tunglinu
Rupes, rupees
Hjalli
Beagle Rupes á Merkúríusi
Scopulus, scopuli
Sepalaga eða óreglulegur hjali
Coronae Scopulus á Mars
Sinus
„Flói“; lítil slétta
Sinus Meridiani á Mars
Sulcus, sulci
Hálfsamsíða „hrukkur“ eða hryggir
Lycus Sulci á Mars
Terra, terrae
Víðfemt landsvæði
Arabia Terra á Mars
Tessera, tesserae
Landslag með tíglamynstri. Aðeins notað á Venusi
 
Tholus, tholi
Lítið bungulaga fjall
Hecates Tholus á Mars
Undae Skaflasvæði (t.d. sandöldur)
 Boreas Undae á Títan
Vallis, valles
Dalur og/eða gljúfur
Valles Marineris á Mars
Vastitas, vastitates
Víðáttumikil slétta.
Vastitas Borealis á Mars
Virga, virgae
Lituð rák
Hobal Virga á Títan

3. Merkúríus

Nefndur eftir sendiboða guðanna hjá Rómverjum því hann hreyfðist svo hratt yfir himininn.

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Dæmi
Gígar
Listi
Frægir látnir listamenn, tónlistarmenn, málarar, rithöfundar
Nína Tryggvadóttir
Dorsa
Listi
Stjörnufræðingar sem gerðu ítarlegar rannsóknir á reikistjörnunni
Antoniadi Dorsum
Fossae
Listi
Frægar byggingar
Pantheon Fossae
Montes
Listi
Orð fyrir „heitt“ á ýmsum tungumálum,
Caloris Montes
Planitiae
Listi
Nöfn á Merkúríusi (annað hvort reikistjörnunnar eða guða) í ýmsum tungumálum
Óðinn Planitia
Rupes
Listi
Skip sem fóru í rannsóknarleiðangra
Pourquoi-Pas
Valles
Listi
Útvarpssjónaukar
Arecibo Vallis

4. Venus

Nefnd eftir ástargyðju Rómverja því hún var álitin björtust og fegurst á himninum.

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Dæmi
Chasmata
Listi
Veiðigyðjur, tunglgyðjur Artemis Chasma
Colles
Listi
Sjávargyðjur
Rán Colles
Coronae
Listi
Frjósemis- og jarðargyðjur
Edda Corona
Dorsa
Listi
Himnagyðjur
Frigg Dorsa
Farra
Listi
Vatnsgyðjur
Aegina Farrum
Fluctus
Listi
Gyðjur, ýmsar

Fossae
Listi
Stríðsgyðjur
Sigrún Fossae
Gígar
Listi
Stærri en 20 km, frægar konur; undir 20km, algeng kvenkyns fornöfn
 
Labyrinthi
Listi
Gyðjur, ýmsar
 
Linea
Listi
Stríðsgyðjur (valkyrjur)
Kara Linea
Montes
Listi
Gyðjur, ýmsar (einnig ein útvarpsvísindakona)
Hallgerður Mons
Paterae
Listi
Frægar konur
Lindgren Patera
Planitiae
Listi
Kvensöguhetjur
Helen Planitia
Plana
Listi
Gyðjur velsældar
Lakshmi Planum
Regiones
Listi
Skessur, tröllkonur (einnig tveir grískri bókstafir)
Laufey Regio
Rupes
Listi
Gyðjur arins og heimilis
Vesta Rupes
Terrae
Listi
Ástargyðjur
Afródíta Terra
Tesserae
Listi
Örlaga- og hamingjugyðjur, Norna Tesserae er nefnt eftir Örlaganornunum
Norna Tesserae
Tholi
Listi
Gyðjur, ýmsar
Angurboða Tholus
Undae
Listi
Eyðimerkurgyðjur
Menat Undae
Valles
Listi
Samheiti Venusar í ýmsum tungumálum (400 km og stærri); árgyðjur (innan við 400 km að lengd)
Kallistos Vallis

5. Tunglið

Flest menningarsamfélög hafa sín eigin nöfn á tunglinu. Á ensku kallast það Moon; Luna á ítölsku, latínu og spænsku; Lune á frönsku; Mond á þýsku og Selena á grísku. Einnig kallað Máninn á íslensku.

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Dæmi
Gígar Listi
Gígar á tunglinu eru alla jafna nefndir eftir látnum vísindamönnum, listamönnum og landkönnuðum sem hafa skarað fram úr á sínu sviði. Gígar í kringum Mare Moscoviense eru nefndir eftir látnum rússneskum geimförum en gígar í kringum Apolló gíginn eru nefndir eftir látnum bandarískum geimförum.
Tycho
Lacus
Maria
Paludes
Sinus
Listi
Listi
Listi
Listi
Þessi kennileiti bera latnesk heiti sem lýsa veðri, hugarástandi og ýmsum öðrum hugtökum. 
Lacus Temporis (Tímavatnið)
Mare Imbrium (Regnhafið)
Palus Somni (Svefnfenið)
Sinus Iridum (Regnbogaflói)
Montes
Listi
Fjöll á tunglnu eru nefnd eftir fjallgörðum á jörðinni eða nálægum gígum
Montes Alpes
(Alpafjöll)
Rupes
Listi
Hjallar eru nefndir eftir nálægum kennileitum
Rupes Mercator
Valles
Listi
Dalir eru nefndir eftir nálægum kennileitum
Valles Alpes

6. Mars

Nefndur eftir stríðgsuði Rómverja sökum rauða litsins.

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Stórir gígar
Listi
Látnir vísindamenn sem hafa lagt sitt af mörkum til rannsókna á Mars og einnig rithöfundar og aðrir sem hafa skrifað um Mars
Litlir gígar
Listi
Borgir og bæir á jörðinni með innan við 100.00 íbúa
Stórir dalir
Listi
Nöfn á Mars í ýmsum tungumálum
Litlir dalir
Listi
Forn eða nútíma nöfn á ám
Önnur kennileiti
Listi
Nefnd eftir nálægustu endurskinssvæðum á kortum Schiaparellis eða Antoniadis.

Þegar geimför lenda á Mars eru steinar og önnur nálæg fyrirbæri oft nefnd eftir teiknimyndapersónum (t.d. Jógi á lendingarstað Mars Pathfinder), hljómsveitum og látnum verkfræðingum eða vísindamönnum sem hafa verið þátttakendur í leiðangrinum (t.d. Jake Matijevic steinninn sem Curiosity rannsakaði). Sandöldur, hæðir og fleira í landslaginu er einnig stundum nefnt eftir stöðum á jörðinni.

6.1 Fóbos og Deimos

Fóbos og Deimos eru nefndir eftir hestunum sem drógu vagn Mars.

Öll kennileiti á Fóbosi eru nefnd eftir vísindamönnum sem áttu þátt í að uppgötva eiginleika tungla Mars — gígar eins og Hall, Roche — eða fólki og stöðum úr Reisubók Gúllívers eftir Jonathan Swift (sjá lista).

Kennileiti á Deimosi eru nefnd eftir rithöfundum sem skrifuðu um fylgitungl Mars. Á Deimosi bera aðeins tvö kennileiti nöfn — gígarnir Swift og Voltaire — eftir Jonathan Swift og Voltaire (sjá lista).

7. Fylgitungl Júpíters

7.1 Amalþea og Þeba

Á Amalþeu bera fjögur kennileiti opinber nöfn: Tveir gígar og tveir bjartir blettir (faculae) sem taldir eru fjöll. Þessi kennileiti eru nefnd eftir verum og stöðum sem tengjast goðsögunni um Amalþeu (sjá lista).

Á Þebu hefur aðeins eitt kennileiti verið gefið nafn: Gígurinn Zethus. Kennileiti á Þebu eru nefnd eftir verum og stöðum sem tengjast goðsögunni um Þebu (sjá lista).

7.2 Íó

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Gosstöðvar
Listi
Virkar gosstöðvar á Íó eru nefndar eftir eld-, sólar- eða þrumuguðum eða hetjum
Catenae
Listi
Gígaraðir eru nefndar eftir sólguðum
Fluctus
Listi
Hraunflákar eru nefndir eftir nefndum nálægum kennileitum, eld-, sólar-, þrumu- eða eldfjallaguðum, gyðjum og hetjum eða goðsögulegum járnsmiðum
Mensae
Montes Plana
Regiones
Tholi
Listi
Listi
Listi
Listi
Listi
Þessi kennileiti eru nefnd eftir stöðum sem tengjast goðsögum um Íó eða draga nafn sitt af nefndum, nálægum kennileitum, eða stöðum úr Víti Dantes
Paterae
Listi
Þessi kennileiti eru nefnd eftir eld-, sólar-, þrumu- eða eldfjallaguðum, gyðjum og hetjum eða goðsögulegum járnsmiðum
Valles
Listi
Dalir eru nefndir eftir nefndum, nálægum kennileitum

7.3 Evrópa

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Chaos
Listi
Staðir tengdir keltneskri goðafræði
Gígar
Listi
Keltneskir guðir og hetjur
Flexus
Listi
Staðir tengdir goðsögninni um Evrópu
Stórar hringdældir
Listi
Keltneskir steinahringir
Lenticulae
Listi
Keltneskir guðir og hetjur
Lineae
Listi
Persónur tengdar goðsögninni um Evrópu
Maculae
Listi
Staðir tengdir goðsögninni um Evrópu
Regiones
Listi
Staðir tengdir keltneskri goðafræði

7.4 Ganýmedes

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Catenae
Listi
Guðir og hetjur sem fólk í frjósama hálfmánanum tilbað til forna
Gígar
Listi
Guðir og hetjur sem fólk í frjósama hálfmánanum tilbað til forna
Faculae
Listi
Staðir tengdir egypskum goðsögnum
Fossae
Listi
Guðir sem fólk í frjósama hálfmánanum tilbað
Paterae
Listi
Nefnt eftir giljum og gljúfrum í frjósama hálfmánanum
Regiones
Listi
Nefnt eftir stjörnufræðingum sem uppgötvuðu tungl Júpíters
Sulci
Listi
Staðir sem tengjast goðsögnum fólks til forna

7.5 Kallistó

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Stórar hringdældir
Listi
Bústaðir guða og hetja
Gígar
Listi
Hetjur og kvenhetjur úr norrænum goðsögnum
Catenae
Listi
Goðsögulegir staðir á háum breiddargráðum
Facula
Listi
Norrænar goðsagnir

8. Fylgitungl Satúrnusar

 • Janus: Persónur úr goðsögunni af Kastor og Pollux (tvíburunum), (sjá lista)

 • Epímeþeifur: Persónur úr goðsögunni af Kastor og Pollux (tvíburunum), (sjá lista)

 • Mímas: Persónur úr sögu Thomas Malory, Le Morte d'Arthur (sjá lista)

 • Enkeladus: Persónur úr Þúsund og einni nótt (sjá lista)

 • Teþýs: Persónur og staðir úr Ódysseifskviðu Hómers (sjá lista)

 • Díóna: Persónur og staðir úr Eanesarkviðu Virgils (sjá lista)

 • Rhea: Persónur og staðir úr sköpunarsögum (sjá lista)

 • Hýperíon: Sólar- og tunglguðir (sjá lista)

 • Japetus: Persónur og staðir úr þýðingu Sayers á Chanson de Roland (sjá lista)

 • Föbe:  Persónur og staðir úr Argonautica, sögunni af Argóaförunum (sjá lista)

8.1 Títan

Kennileiti
Listi
Nafnaþema
Stór, björt endurskinssvæði
Listi
Helgir eða töfrastaðir úr goðsögnum ýmissa menningarsamfélaga
Stór, dökk endurskinssvæði
Listi
Goðsöguleg höf eða töfravötn frá ýmsum menningarsamfélögum
Gígar og vötn
Listi
Vötn á jörðinni
Árfarvegir
Listi
Ár á jörðinni
Önnur kennileiti
Listi
Guðir hamingju, friðar og samlyndis frá ýmsum menningarsamfélögum

9. Fylgitungl Úranusar

 • Puck: Ódælir andar (sjá lista)

 • Míranda: Persónur og staðir úr leikritum Shakespeares (sjá lista)

 • Aríel: Góðir andar (sjá lista)

 • Úmbríel: Illir andar (sjá lista)

 • Títanía: Kvenkyns persónur og staðir úr leikritum Shakespeares (sjá lista)

 • Óberon: Harmleikjapersónur og staðir úr leikritum Shakespeares (sjá lista)

10. Fylgitungl Neptúnusar

 • Próteus: Nefnd eftir öndum, guðum og gyðjum sem tengjast vatni en eru hvorki grísk eða rómversk. Gígurinn Faros er eina kennileitið á Próteusi sem ber opinbert nafn (sjá lista).

 • Tríton: Kennileiti á Tríton eru nefnd eftir fyrirbærum sem tengjast vatni, svo sem goðsögulegum ám, árgyðjum, goðsögulegum fiskum og fleiri sjávardýrum, en eru ekki rómversk eða grísk að uppruna (sjá lista)

11. Plútó

Engin kennileiti á Plútó hafa hlotið opinber heiti hingað til. Þegar New Horizons geimfarið flýgur framhjá Plútó árið 2015 verða kennileiti á yfirborðinu nefnd eftir undirheimaguðum.

12. Smástirni

 • Dactýl: Smástirnið Dactýl er nefnt eftir hópi goðsagnavera, daktýlum, sem bjuggu á fjallinu Ida þar sem hvítvoðungurinn Seifur var falinn og alinn upp. Gígar á Dactýl eru nefndir eftir daktýlunum. Einungis tveir hafa verið nefndir (sjá lista).

 • Eros: Smástirnið Eros er nefnt eftir gríska ástarguðinum. Gígar á Erosi bera þess vegna erótísk nöfn, ýmist úr goðafræði eða þjóðsögum; svæði eru nefnd eftir stjörnufræðingum sem fundu Eros; hryggir eru nefndir eftir vísindamönnum sem hafa lagt sitt af mörkum til rannsókna á Eros (sjá lista).

 • Gaspra: Smástirnið Gaspra er nefnt eftir dvalarstað á Krímskaga. Gigar á Göspru eru nefndir eftir heilsulindum á jörðinni; svæði eru nefnd eftir stjörnufræðingnum sem fann Gaspra og þátttakendum í Galíleó leiðangrinum (sjá lista).

 • Ída: Smástirnið Ída er nefnt eftir dís sem ól upp Seif. Ida er einnig nafn á fjalli á Krít þar sem Seifur var alinn upp. Gígar á Ídu eru nefndir eftir hellum á jörðinni; hryggir eru nefndir eftir þátttakendum í Galíleó leiðangrinum; svæði eru nefnd eftir stjörnufræðingnum sem fann Ídu og stöðum sem tengjast honum (sjá lista).

 • Itokawa: Á smástirninu Itokawa eru gígar nefndir eftir ýmsum stöðum á jörðinni sem tengjast geimferðum; svæði eru nefnd eftir stöðum í Japan, gervitungli Japana og verkefninu sem fann Itokawa fannst í (sjá lista)

 • Lútesía: Gígar á smástirninu Lútesíu eru nefndir eftir borgum á tímum Rómverja; svæði eru nefnd eftir héruðum á tímum Rómaveldis; hjallar og gjár eru nefndar eftir fljótum á tímum Rómaveldis (sjá lista)

 • Mathilde: Smástirnið Mathilde er nefnt til heiðurs eiginkonu stjórnanda stjörnstöðvar Parísar á þeim tíma þegar það fannst (1885). Gígar á Mathilde eru nefndir eftir kolanámusvæðum á jörðinni (sjá lista).

 • Steins: Gígar á smástirninu Steins, sem Rósetta geimfar ESA flaug framhjá, eru nefndir eftir skrautsteinum (Hrafntinna, Tópas, Ametíst o.fl.). Á Steins er svæðið Chernykh Regio sem nefnt er eftir stjörnufræðingnum Nikolai Stepanovich Chernykh sem uppgötvaði smástirnið (sjá lista).

 • Vesta: Gígar á Vestu eru nefndir eftir vestumeyjum (t.d. Rhea Silvia, móðir Rómúlusar og Remusar sem stofnuðu Róm), hofgyðjum og þekktum rómverskum konum (t.d Antonía, dóttir Markúsar Antoníusar og Oktavíu) (sjá lista).

13. Íslensk örnefni í sólkerfinu

Sjá nánar: Íslensk örnefni í sólkerfinu

Í sólkerfinu bera nokkrir staðir íslensk nöfn. Þeir eru:

 • Sveinsdóttir, gígur á Merkúríusi, nefndur eftir Júlíönu Sveinsdóttur myndlistakonu

 • Snorri, gígur á Merkúríusi, nefndur eftir Snorra Sturlusyni sagnaritara

 • Tryggvadóttir, gígur á Merkúríusi, nefndur eftir Nínu Tryggvadóttur myndlistakonu

 • Laxness, gígur á Merkúríusi, nefndur eftir Halldóri Laxness rithöfundi.

 • Grindavík, gígur á Mars

 • Reykholt, gígur á Mars

 • Vík, gígur á Mars

 • Eiríksson, gígur á Mars, nefndur eftir Leifi Eiríkssyni

 • Mývatn, stöðuvatn á Títan

Heimildir

 1. Rosaly Lopez (2012). From Handel to Hydra: Naming Planets, Moons & Craters. Sky & Telescope, nóvemberhefti 2012 (bls. 28-33).

 2. Descriptor Terms (Feature Types): International Astronomical Union (IAU) Working Group for Planetary System Nomenclature (WPGSN). Gazetteer of Planetary Nomenclature.

 3. Naming Astronomical Objects. International Astronomical Union. 

 4. Planetary Nomenclature. Wikipedia.org.

Höf. Sævar Helgi Bragason