Hýdra

Fylgitungl Plútós

  • Hýdra, fylgitungl Plútós. Mynd: NASA/JHUAPL/SRI
    Hýdra, fylgitungl Plútós. Mynd: NASA/JHUAPL/SRI
Tölulegar upplýsingar
Uppgötvað af:
Hubble geimsjónaukinn
Uppgötvuð árið:
16. júní 2005
Meðalfjarlægð frá Plútó: 64.738 km
Umferðartími um Plútó: 38,2 jarðdagar
Snúningstími: Óreglulegur
Stærð:
55 km x 40 km
Massi:
(4,8 ± 4,2 ) x 1016 kg
Meðalhitastig yfirborðs:
-230°C
Endurskinshlutfall:
0,51
Sýndarbirtustig:
+23

Á myndum geimfarsins sést að Hýdra er óreglulegt að lögun, 55 km x 40 km að stærð og er sennilega að mestu leyti úr vatnsís.

1. Uppgötvun

Hýdra fannst, ásamt Nix, á myndum sem teknar voru með Hubble geimsjónauka NASA og ESA 15. maí og 18. maí 2005 en tilkynnt var um uppgötvunina 31. október sama ár. Tunglin sáust einnig á endurunnum myndum af Plútó frá árinu 2002. Tunglin fengu þá til bráðabirgða heitin S/2005 P 1 (Hýdra) og S/2005 P 2 (Nix).

1.1 Nafn

Hýdra er nefnt eftir níu höfða snáknum sem barðist við Herkúles í grískri goðafræði. Hin níu höfuð eru vísun í að Plútó var lengi vel talin níunda reikistjarnan, auk þess sem fyrsti stafurinn í nafninu, H, vísar til Hubble geimsjónaukans sem fann Hýdra og Nix. Nöfnin voru kynnt opinberlega hinn 21. júní 2006. Nöfnin Nix og Hýdra eru ennfremur vísun í New Horizons sem hefur sömu skammstöfun.

2. Braut og snúningur

Plútó, Karon, Nix, Hýdra, Kerberos, Styx
Plútó og fylgitungl hans á mynd frá Hubble geimsjónaukanum.

Hýdra er á því sem næst hringlaga braut um massamiðju Plútós og Karons, í sama fleti og Karon og Nix, sem er miðbaugsflötur Plútós. Hýdra er í um 65.000 km fjarlægð frá Plútó og gengur um hann á rétt rúmum 38 jarðdögum.

Hýdra er í 2:3 brautarherma með Nix og 6:11 herma með Styx. Það þýðir að í hvert sinn sem Hýdra fer tvo hringi í kringum Plútó fer Nix þrjá og í hvert sinn sem Hýdra fer sex sinnum umhverfis Plútó fer Styx ellefu hringferðir.

Snúningur Hýdra um eigin möndul er óreglulegur, líkt og allra hinna smátungla Plútós. Það þýðir að möndulhallinn breytist og engir tveir dagar eru jafn langir. Þegar New Horizons flaug framhjá Hýdra snerist tunglið einu sinni um möndul sinn á aðeins 10 klukkustundum.

3. Tengt efni

Tenglar

Heimildir

  1. NASA's Hubble Reaveals Possible New Moons Around Pluto. Hubblesite.org
  2. Hubble Confirms New Moons of Pluto. Hubblesite.org
  3. Hubble's Lates Look at Pluto's Moons Supports a Common Birth. Hubblesite.org
  4. Simon Porter. Pluto's Small Moons Nix and Hydra. NASA.gov
  5. Hubble fylgist með óreglulegum dansi tungla Plútós. Stjörnufræði.is

- Sævar Helgi Bragason