Ólympusfjall

Olympus Mons: Hæsta fjall sólkerfisins

  • ólympusfjall, olympus mons, stærsta fjall sólkerfisins, Ísland
    Ólympusfjall (Olympus Mons) á Mars er hæsta fjall sólkerfisins

Fjallið er sýnilegt í tiltölulega litlum stjörnusjónaukum (helst 8” eða stærri) frá jörðu séð. Fjallið er enda nógu hátt til að stinga upp kollinum þegar miklir rykstormar geysa á yfirborðinu sem hylja það að öðru leyti. Þannig sáu stjörnufræðingar 19. aldar fjallið fyrstir manna sem hvítan blett á einsleitri reikistjörnunni (þegar rykstormar geysa). Fjallið var því kallað Nix Olympica eða Snjóar Ólympusar lengi vel þar til bandaríska könnunarfarið Mariner 9 ljósmyndaði yfirborð Mars árið 1972. Þá kom í ljós að um hæsta eldfjall sólkerfisins var að ræða og var fjallið nefnt Olympus Mons eða Ólympusfjall.

Ólympusfjall er að finna á norðurhveli Mars, nánar tilekið á norðurhluta Þarsisbungunnar. Þarsisbungan myndaðist af völdum gríðarlegs möttulstróks sem þrýsti skorpunni upp á við. Möttulstrókurinn hefur verið gríðarlega efnismikill því á Þarsisbungunni mynduðust nokkur stór eldfjöll í kjölfarið, þeirra á meðal Ólympusfjall sem er lang stærst.

Myndun

hraun, ólympusfjall
Á þessari mynd sem HiRISE myndavélin um borð í Mars Reconnaissance Orbiter tók sést gríðarlegur hraunfláki sem runnið hefur innan í öskju Ólympusfjalls. Á þeim hlutum sem ekki eru þaktir ryki sjást hundruðir þunnra hraunlaga sem rennir stöðum undir þá kenningu að eldfjallið sé byggt upp af mörgþúsund keimlíkum hraunflákum. Mynd: NASA/JPL/Arizonaháskóli

Ólympusfjall er dyngja líkt og Skjaldbreiður sem myndast hefur við langvinn flæðigos og þunnfljótandi hraunrennsli. Dyngjur hafa gjarnan mjög aflíðandi hlíðar og svo á einnig við um Ólympusfjall. Þannig er fjallið tuttugu sinnum stærra að þvermáli (550 km) en hæð (27 km). Það þýðir að hlíðarhalli fjallsins er ekki nema 2,5 til 5 gráður þar sem mest er. Skíðagarpur hefði því ekkert sérstaklega gaman að skíða niður fjallið enda tæki það líka mjög langan tíma. Þessi gríðarlega stærð og þessi litli halli - auk hnattlögunar reikistjörnunnar - valda því einnig að geimfari á yfirborðinu gæti með engu móti séð allt fjallið í einu. Ólympusfjall er þar af leiðandi aðeins tignarlegt að sjá utan úr geimnum.

Ástæða þessarar gríðarlegu stærðar Ólympusfjalls er sú að á Mars eru engar flekahreyfingar. Þar af leiðandi helst skorpan stöðugt yfir heitum reit og eldfjall þar ofan á heldur áfram að hlaða ofan á sig hraunlögum. Á jörðinni færast eldfjöll smám saman undan heitum reitum, eldvirknin deyr út en ný verða til annars staðar. Minna þyngdartog Mars hefur einnig sitt að segja því fjöll geta orðið hærri þar sem þyngdartogið er minna. Á tindi fjallsins er gríðarstór askja sem er 85 km löng, 60 km breið og allt að 3 km djúp. Askjan myndaðist við jarðfall, þegar kvikuþróin undir fjallinu tæmdist í gosum og féll saman. Á þennan sama hátt myndaðist Öskjuvatn í Dyngjufjöllum eftir Öskjugosið í marsmánuði 1875. Við sigið teygðist á skorpunni og sprungur mynduðust í fjallinu.

askja ólympusfjall, mars
Askja Ólympusfjalls sést á þessari mynd sem evrópska geimfarið Mars Express tók úr 273 km hæð þann 21. janúar 2004. Askjan er 3 km djúp og myndaðist þegar kvikuhólfið undir fjallinu tæmdist og við það varð jarðfall. Eins og sjá má hefur þetta gerst að minnsta kosti sex sinnum og á botninum er skorpan ansi sprungin eftir þessar hamfarir. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Öskjumyndun virðist hafa átt sér stað fimm sinnum á Ólympusfjalli. Öskjurnar eru hingar yngstu á Mars, milli 100 og 200 milljón ára gamlar.

berghlaup, skriða
Á þessari mynd sem evrópska geimfarið Mars Express tók, sjást austurhamrar Ólympusfjalls á Mars. Á myndinni sjást ummerki berghlaups eða aurskriðu. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Við brún fjallsins eru gríðarlegir hamraveggir, um 6 km háir, sem er óvenjulegt í dyngjum og enn er á huldu hvernig þeir urðu til. Hamraveggirnir væru án efa mjög tignarlegir að sjá en þeir myndu teygja sig allan sjóndeildarhringinn.

Á toppi fjallsins er loftþrýstingur örlítið lægri en við meðalhæð yfirborðsins, þveröfugt við það sem gerist á jörðinni þar sem loftþrýstingur á tindi Everestfjalls er 30% minni en við sjávarmál. Fyrir því eru tvær ástæður, annars vegar sú að lofthjúpur jarðar er miklu þykkari og hins vegar sú að þyngdartog Mars er minna og því teygir lofthjúpurinn sig lengra upp. Stöku sinnum sjást þunn ský úr þurrís umlykja tind fjallsins.

Með því að telja loftsteinagíga og reikna út stærðir þeirra er hægt að áætla aldur yngstu hraunlagana í hlíðum Ólympusfjalls. Talið er að yngstu hraunin í vesturhlíðum fjallsins séu milli 115 milljón og um 2,4 milljón ára. Jarðfræðilega séð er það mjög nýleg virkni og vel gæti verið að fjallið sé enn virkt, þótt það sé ef til vill frekar ólíklegt. Eldvirknin fyrir 2,4 milljón árum hefur líklega bráðið grunnvatn og valdið aurskriðum og jöklamyndun niður vesturhlíð fjallsins

Heimildir

  1. Hartmann, William K. 2003. A Traveler's Guide to Mars: The Mysterious Landscapes of the Red Planet. Workman Publishing, New York.
  2. Olympus Mons - the caldera in close-up. ESA. Sótt 02.06.08.
  3. HiRISE | Lava Flows at the Summit of Olympus Mons. NASA. Sótt 02.06.08.
  4. Glacial, volcanic and fluvial activity on Mars. ESA. Sótt 03.06.08.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Ólympusfjall. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/mars/olympusfjall (sótt: DAGSETNING).