Tarantúluþokan

Stjörnumyndunarsvæði í Stóra-Magellanskýinu

  • Tarantúluþokan, ESO
    Tarantúluþokan. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Tegund: Ljómþoka / rafað vetnisský
Stjörnulengd:
05klst 38mín 38sek
Stjörnubreidd:
-69° 05,7′
Fjarlægð:
160.000 ljósár (49 kpc)
Sýndarbirtustig:
+8
Hornstærð:
40x25 bogamínútur
Radíus:
500 ljósár
Stjörnumerki: Sverðfiskurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 2070, 30 Doradus

Þokan er svo björt að hún var eitt sinn talin stök stjarna og var skrásett sem slík (30 Doradus). Árið 1751 uppgötvaði franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille raunverulegt eðli þokunnar. Frá athugunarstað sínum á Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku áttaði Lacaille sig á að um heila stjörnuþoku væri að ræða.

Sýndarbirtustig Tarantúluþokunnar er +8 og rétt glittir í hana með berum augum við kjöraðstæður. Í gegnum góðan stjörnusjónauka (helst 8 tommur eða stærri) er hún sérstaklega tignarleg og sést þá glöggt hvers vegna hún dregur nafn sitt af könguló.

R136

Í miðju Tarantúluþokunnar er stjörnuþyrpingin R136 (RMC 136). Hún er ung þyrping risa- og reginrisastjarna, sennilega í kringum 2 milljón ára gömul. Margar stjörnurnar eru í litrófsflokki O3 en þar eru líka nokkrar Wolf-Rayet stjörnur.

Í þyrpingunni er stjarnan R136a1. Hún er í kringum 265 sólmassar og því massamesta stjarna sem vitað er um en líka. Stjarnan um 10 milljón sinnum bjartari en sólin og því sú bjartasta sem þekkist. Frá henni stafar mest af því ljósi sem lýsir upp Tarantúluþokuna.

Þyrpingin er um það bil 35 ljósár í þvermál en massi hennar er áætlaður í kringum 450.000 sólmassar. Telja sumir stjörnufræðingar að hún eigi eftir að mynda kúluþyrpingu í framtíðinni.

risastjarna, stærsta stjarnan, r136
Stjörnuþyrpingin RMC136 í miðju Tarantúluþokunnar. Mynd: ESO/P. Crowther/C.J. Evans

Hodge 301

Hodge 301 er önnur stjörnuþyrping í Tarantúluþokunni. Hún er tíu sinnum eldri en R136 eða milli 20-25 milljón ára gömul. Þyrpingin er um það bil 150 ljósár frá R136 í norðvestur frá jörðu séð. Massamestu stjörnur Hodge 301 hafa þegar endað líf sitt sem sprengistjörnur. Þokan er af 11. birtustigi.

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Tarantúluþokan. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/stjornuthokur/tarantuluthokan (sótt: DAGSETNING).